Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1382, 126. löggjafarþing 635. mál: lögskráning sjómanna (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 55 26. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum, o.fl.


I. KAFLI
Breyting á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

     1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Skylt er að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri, þar með talið skipstjóra. Heimilt er með reglugerð að veita undanþágur frá ákvæðum þessara laga um að lögskrá áhafnir hafnsögubáta, dráttarbáta, björgunarskipa og farþegaskipa til skoðunarferða. Jafnframt er heimilt að uppfylltum skilyrðum, sem nánar skulu skilgreind í reglugerð, að ákveða fyrirkomulag lögskráningar skv. 4. og 5. gr. á annan hátt vegna tiltekinna flokka skipa.

II. KAFLI
Breyting á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

2. gr.

     Í stað upphafsmálsliðar 2. mgr. 172. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Skylt er útgerðarmanni að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla skv. 1. mgr. Sé útgerðarmaður jafnframt í áhöfn skips er honum skylt að tryggja sig með sama hætti. Tryggingin skal vera sem hér segir.

III. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, með síðari breytingum.

3. gr.

     Við 1. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eigi skal þó haffærisskírteini gefið út fyrir skip sem er minna en 20 brúttótonn nema fyrir liggi yfirlýsing tryggingafélags um áhafnartryggingu skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga, nr. 34/1985.

4. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 2001.