Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 709, 128. löggjafarþing 181. mál: tryggingagjald (lækkun gjalds o.fl.).
Lög nr. 134 18. desember 2002.

Lög um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Almennt tryggingagjald skal vera 4,84% af gjaldstofni skv. III. kafla.
  3. 4., 5., 6. og 7. mgr. falla brott og breytist töluröð annarra málsgreina í samræmi við það.
  4. Í stað tilvísunarinnar „8. mgr.“ í 9. og 10. mgr. kemur: 4. mgr.


2. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Hafi Tryggingastofnun ríkisins fallist á umsókn um almannatryggingar hér á landi skv. 9. gr. b laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, skal heimilt að taka við greiðslu tryggingagjalds og fullnægja þannig skilyrðum almannatryggingalaga um greiðslu þess. Ríkisskattstjóra er heimilt að setja reglur um upplýsinga- og skýrslugjöf og eftir atvikum reglur um rafræn skil samkvæmt þessari málsgrein.

3. gr.

     Við 13. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Hafi innheimtumaður hafið aðför vegna vangoldinnar staðgreiðslu tryggingagjalds skulu þau aðfararúrræði sem innheimtumaður hefur gripið til halda lögformlegu gildi sínu eftir álagningu tryggingagjalds vegna þess hluta kröfunnar sem rekja má til vangoldinnar staðgreiðslu.
     Séu ekki gerð fullnægjandi skil á álögðu eða endurákvörðuðu tryggingagjaldi innan 15 daga frá eindaga er innheimtumanni heimilt með aðstoð lögreglu að stöðva atvinnurekstur launagreiðanda með innsigli á starfsstöðvar, skrifstofur, útibú, tæki og vörur þar til full skil hafa farið fram.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 2002.