Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1792, 130. löggjafarþing 480. mál: skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (EES-reglur, fjárfestingar o.fl.).
Lög nr. 70 7. júní 2004.

Lög um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. 3. mgr. verður svohljóðandi:
  2.      Eftirtaldir aðilar hafa heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum þessum:
    1. Viðskiptabankar, sparisjóðir og verðbréfafyrirtæki, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.
    2. Líftryggingafélög, sbr. lög um vátryggingastarfsemi.
    3. Lífeyrissjóðir, enda uppfylli þeir skilyrði 4. og 5. gr.

  3. Á eftir 3. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Erlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og verðbréfafyrirtækjum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, er heimilt að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga, með stofnun útibús hér á landi, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eða án stofnunar útibús, sbr. 32. gr. sömu laga. Ákvæði 31., 32., 34. og 35. gr. þeirra laga gilda um heimildir viðskiptabanka, sparisjóða og verðbréfafyrirtækja til að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga eftir því sem við á.
         Erlendum líftryggingafélögum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, er heimilt að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga, með stofnun útibús hér á landi, sbr. 64. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, eða án stofnunar útibús, sbr. 65. gr. þeirra laga. Ákvæði 64.–70. gr. laganna gilda um heimildir líftryggingafélaga til að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga eftir því sem við á.
         Fjármálaráðherra getur sett nánari reglur um með hvaða hætti rétthöfum skulu tryggðar upplýsingar um skilmála samninga um lífeyrissparnað og viðbótartryggingavernd, svo sem um efni þeirra, form og áunnin réttindi.


2. gr.

     Í stað „1.–3. tölul.“ í 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: 1. og 2. tölul.

3. gr.

     Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, svohljóðandi:
     Launþega, sem kemur til starfa hingað til lands frá höfuðstöðvum á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, skal heimilt að greiða til lífeyriskerfis með sama hætti og honum væri heimilt ef hann aflaði teknanna í því landi þar sem höfuðstöðvarnar eru og lífeyriskerfið fellur ekki undir reglugerð nr. 1408/71/EBE. Ef greiðslu iðgjalda til slíks lífeyriskerfis er haldið áfram skv. 1. málsl. eru launþegi sem starfar utan höfuðstöðva og vinnuveitandi hans undanþegnir allri skyldu til að greiða iðgjöld til sambærilegs lífeyriskerfis hér á landi.
     Vinnuveitendur, lífeyrissjóðir og vörsluaðilar lífeyrissparnaðar skulu hafa tiltækar upplýsingar fyrir sjóðfélaga, sem flytjast til annarra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu eða til aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, um áunnin lífeyrisréttindi þeirra úr lífeyriskerfum skv. 1. mgr., með hvaða hætti þau verði varðveitt, hvort unnt sé að flytja þau til erlendra sjóða og hvert beri að snúa sér þegar þau verða virk.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
  1. 7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Í hlutdeildarskírteinum eða hlutum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða samkvæmt lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en verðbréfasafni að baki skírteinunum eða hlutunum skal skipt á aðra töluliði þessarar málsgreinar með tilliti til takmarkana í 2.–6. mgr.
  2. Á eftir 7. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Í hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
  3. Í stað „1., 2. og 5.–8.“ í 2. mgr. kemur: 1., 2. og 5.–9.
  4. Í stað „1., 2., 5., 6. og 8.“ í 3. mgr. kemur: 1., 2., 5., 6., 8. og 9.
  5. Í stað „2., 5., 6., og 8.“ í 4. mgr. kemur: 2., 5., 6., 8. og 9.
  6. Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó skal samanlögð eign skv. 6. og 8. tölul. 1. mgr. ekki vera meiri en 50% af hreinni eign sjóðsins. Eign lífeyrissjóðs skv. 8. tölul. 1. mgr. í sjóðum sem lúta ekki opinberu eftirliti skal þó aldrei vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins.
  7. 5. mgr. orðast svo:
  8.      Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum skv. 2.–9. tölul. 1. mgr. útgefnum af sama aðila eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skal ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins. Þessi takmörkun skal vera 5% fyrir verðbréf skv. 9. tölul. Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum skv. 1. málsl. og innlánum skv. 4. tölul. 1. mgr. skal ekki vera meiri en 25% af hreinni eign sjóðsins. Eigi er lífeyrissjóði heimilt að eiga meira en 15% af hlutafé í hverju fyrirtæki eða í hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu né meira en 25% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum útgefnum af sama verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði eða einstakri deild hans. Þó er lífeyrissjóði heimilt að eiga stærri hluta en 15% í fyrirtæki sem eingöngu sinnir þjónustuverkefnum fyrir lífeyrissjóðina sjálfa. Lífeyrissjóði er óheimilt að binda meira en 25% af hreinni eign í innlánum sama banka eða sparisjóðs.
  9. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  10.      Lífeyrissjóðum er ekki heimilt að fjárfesta eða eiga í fjárfestingarsjóðum skv. 7. tölul. 1. mgr. sem fjármagna sig með lántöku eða skortsölu.


5. gr.

     Í stað „sbr. 1.–9. tölul. 1. mgr. 36. gr.“ í 1. mgr. 37. gr. laganna kemur: sbr. 1.–10. tölul. 1. mgr. 36. gr.

6. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 3. og 6. málsl. 5. mgr. 36. gr. er lífeyrissjóðum heimilt að eiga eða binda hærra hlutfall af hreinni eign sinni í innlánum og verðbréfum en þar er kveðið á um fram til 1. janúar 2006.

7. gr.

     Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun nr. 98/49/EB, um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast á milli aðildarríkja.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 26. maí 2004.