Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 672, 131. löggjafarþing 269. mál: Lánasjóður sveitarfélaga (heildarlög).
Lög nr. 136 20. desember 2004.

Lög um Lánasjóð sveitarfélaga.


1. gr.

     Lánasjóður sveitarfélaga er sjálfstæð stofnun, sameign allra sveitarfélaga á Íslandi, en þau bera þó ekki ábyrgð á skuldbindingum hans. Lánasjóðurinn skal starfa sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og uppfylla skilyrði þeirra laga, sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.

2. gr.

     Megintilgangur lánasjóðsins er að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða. Skilyrði fyrir því að lánasjóðurinn veiti lán eða ábyrgðir til fyrirtækja og stofnana sveitarfélaga er að þau séu að öllu leyti í eigu sveitarfélaga eða sveitarfélaga og ríkissjóðs sem beri ábyrgð á skuldbindingum þeirra gagnvart lánasjóðnum.

3. gr.

     Æðsta vald í málefnum lánasjóðsins er í höndum eigendafunda þar sem eiga sæti fulltrúar sem sveitarfélögin hafa kosið til setu á landsþingum Sambands íslenskra sveitarfélaga í samræmi við lög þess.
     Halda skal ársfund lánasjóðsins í tengslum við landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, óháð ákvæðum um tímamörk í lögum um hlutafélög. Á ársfundi skal taka fyrir í það minnsta endurskoðaða ársreikninga lánasjóðsins, skýrslu stjórnar um rekstur lánasjóðsins síðastliðið ár og kjör stjórnar og endurskoðanda.

4. gr.

     Eigendafundur setur samþykktir fyrir lánasjóðinn þar sem kveðið er nánar á um stjórn hans og rekstur. Samþykktirnar eða breytingar á þeim öðlast gildi þegar þær hafa verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

5. gr.

     Ársfundur kýs stjórn lánasjóðsins í samræmi við samþykktir hans. Stjórnin setur útlánareglur sem kveða nánar á um skilyrði lánveitinga úr sjóðnum. Stjórnin mótar jafnframt stefnu um fjármálaþjónustu lánasjóðsins við sveitarfélög og aðra starfsemi sem rekin verður í eðlilegum tengslum við megintilgang sjóðsins.

6. gr.

     Reikningsár Lánasjóðs sveitarfélaga er almanaksárið. Ársreikningur lánasjóðsins skal fullgerður, endurskoðaður og undirritaður af stjórn hans fyrir marslok ár hvert. Að fenginni samþykkt ársfundar lánasjóðsins á ársreikningnum skal hann birtur í B-deild Stjórnartíðinda.

7. gr.

     Óheimilt er að ráðstafa eigin fé eða tekjuafgangi lánasjóðsins með greiðslu arðs eða niðurfærslu eigin fjár.

8. gr.

     Lánasjóði sveitarfélaga verður ekki slitið, hann lagður niður eða sameinaður öðrum stofnunum eða félögum eða honum formbreytt nema með lögum.

9. gr.

     Skuldabréf fyrir lánum sem lánasjóðurinn tekur og veitir skulu undanþegin stimpilgjöldum.

10. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 35/1966, um Lánasjóð sveitarfélaga, með síðari breytingum.

11. gr.

     Við gildistöku þessara laga verða eftirtaldar breytingar á öðrum lögum:
 1. Á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum:
  1. Í stað hlutfallstölunnar „1,58%“ í a-lið 10. gr. laganna kemur: 1,7%.
  2. C-liður 10. gr. laganna fellur brott.
  3. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum hljóðar svo:
  4.      Til að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans, sbr. ákvæði laga um grunnskóla, nr. 66/1995, með síðari breytingum, skal 200 millj. kr. varið til að styrkja stofnframkvæmdir við grunnskólabyggingar árið 2005 og 135 millj. kr. árið 2006.
 2. Við 1. málsl. 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, bætist: og vegna ábyrgða sem það veitir skv. 6. mgr.
 3. Við lög nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
 4.      Þeir starfsmenn Lánasjóðs sveitarfélaga, sem aðild eiga að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins við gildistöku laga þessara og eru í störfum sem flytjast til Sambands íslenskra sveitarfélaga og halda þeim áfram, skulu eiga rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum með óslitinni réttindaávinnslu meðan þeir gegna þar störfum.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Félagsmálaráðherra staðfestir fyrstu samþykktir lánasjóðsins samkvæmt tillögu stjórnar sjóðsins.
     Umboð núverandi stjórnar lánasjóðsins helst óbreytt þar til ný stjórn hefur verið kjörin á fyrsta ársfundi hans.
     Nú vanrækir sveitarfélag greiðslu afborgana og vaxta af lánum úr lánasjóðnum, sem tekin voru fyrir gildistöku laga þessara, á réttum gjalddaga, og getur ráðherra þá greitt vanskilin af framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eftir því sem til vinnst. Sama gildir um greiðslur sem Lánasjóður sveitarfélaga kann að hafa innt af hendi vegna ábyrgða sem hann hefur tekist á hendur skv. 10. gr. laga nr. 35/1966.
     Lánasjóður sveitarfélaga skal innan mánaðar frá gildistöku laga þessara sækja um starfsleyfi sem lánafyrirtæki skv. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, sbr. einnig 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Sjóðnum er heimilt að starfa samkvæmt ákvæðum laga þessara og samþykktum um sjóðinn þar til ákvörðun um veitingu starfsleyfis liggur fyrir.
     Lög þessi skulu endurskoðuð eigi síðar en við árslok 2008.

Samþykkt á Alþingi 10. desember 2004.