Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1443, 131. löggjafarþing 720. mál: fjáröflun til vegagerðar (uppgjör þungaskatts).
Lög nr. 71 24. maí 2005.

Lög um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     
     a. (IX.)
     Í stað þess að öðru gjaldtímabili þungaskatts skv. B-lið 7. gr. ljúki 10. júní 2005 skal því ljúka 30. júní 2005. Eigandi eða umráðamaður ökutækis skal án sérstakrar tilkynningar koma með ökutæki sitt til álestraraðila á tímabilinu frá 15. júní til 30. júní 2005 og láta lesa af ökumæli og skrá stöðu hans.
     Gjalddagi þungaskatts skv. 1. mgr. er 1. júlí 2005 og eindagi er 15. ágúst 2005.
     Sé lesið af ökumæli ökutækis sem er undir 10.000 kg að leyfðri heildarþyngd, eða ökumæli bifreiðar sem ætluð er til fólksflutninga, á tímabilinu 15. til og með 29. júní skal akstur ökutækisins áætlaður frá álestrardegi til loka álestrartímabils. Aksturinn skal áætlaður þannig að reiknað er út meðaltal ekinna kílómetra á dag á milli álestra og það margfaldað með fjölda þeirra daga er eftir eru af álestrartímabilinu.
     Ef eigandi eða umráðamaður ökutækis lætur ekki lesa af ökumæli þess á álestrartímabilinu gilda ákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr.
     
     b. (X.)
     Gjaldskyldir aðilar skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skulu senda tollstjóra upplýsingar um birgðir af olíu sem fellur undir gildissvið þeirra laga og er í þeirra eigu eða vörslu 1. júlí 2005. Í þeim upplýsingum skal koma fram hve mikið af birgðum er á innlendum birgða- og sölustöðum. Upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein skulu berast tollstjóra eigi síðar en 1. ágúst 2005.
     Aðilar sem ekki eru gjaldskyldir skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skulu senda tollstjóra upplýsingar um birgðir af olíu sem fellur undir gildissvið þeirra laga og er í þeirra eigu eða vörslu 1. júlí 2005 ef þær eru yfir 5.000 lítrum. Þeim aðilum ber að greiða olíugjald af heildarbirgðum sínum í samræmi við ákvæði þeirra laga. Eiganda eða umráðamanni birgða skal skylt að aðstoða við birgðakönnun óski tollstjóri slíkrar aðstoðar. Tollstjóri getur krafist upplýsinga frá innflytjendum og seljendum gas- og dísilolíu um sölu til viðskiptamanna er fram fór fyrir 1. júlí 2005. Þeir sem gjaldskyldir eru samkvæmt þessari málsgrein skulu skila olíugjaldi til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en 15. ágúst 2005.
     Þrátt fyrir ákvæði 24. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., gildir ákvæði þetta þar til staðin hafa verið skil á olíugjaldi af þeim gjaldskyldu birgðum sem eru í landinu 1. júlí 2005, í samræmi við 2. mgr.
     
     c. (XI.)
     Þrátt fyrir 24. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skal ákvæði til bráðabirgða I, sbr. lög nr. 59/1994, gilda til 1. janúar 2006.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.