Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 938, 132. löggjafarþing 268. mál: vatnalög (heildarlög).
Lög nr. 20 31. mars 2006.

Vatnalög.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.
     Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:
  1. Almenningur: Sá hluti vatns sem liggur fyrir utan netlög fasteignar.
  2. Áveita: Mannvirki sem notað er til þess að veita vatni á land.
  3. Búsþarfir: Búsþarfir til kvikfjárræktar.
  4. Eignarland: Landsvæði, þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
  5. Farvegur: Vatnsleg sem vatnsfall rennur eftir, hvort heldur af manna völdum eða náttúru.
  6. Fasteign: Afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt.
  7. Grunnvatn: Allt vatn neðan jarðar í samfelldu vatnslagi í gegnmettuðum jarðlögum, kyrrstætt eða rennandi, sem er í beinni snertingu við jarðlögin.
  8. Háflæði: Mesta rennsli eða hækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og auðri jörð.
  9. Heimilisþarfir: Þarfir til venjulegs heimilishalds.
  10. Jarðhiti: Jarðvarmaforði í jarðlögum, varmastraumur úr iðrum jarðar og heitt grunnvatn sem flytur jarðvarmaorku.
  11. Lágflæði: Minnsta rennsli eða lækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og auðri jörð.
  12. Mannvirki: Hvers konar manngerðar tilfæringar, t.d. hús, brú eða virkjun.
  13. Merkivatn: Vatn það sem ræður landamerkjum.
  14. Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns eða vatnsfalls sem fasteign liggur að.
  15. Orkunýting: Hvers konar hagnýting orkulinda sem byggist á breytingu einnar tegundar orku í aðra.
  16. Orkuver: Land eða lóð, hús og önnur mannvirki til orkuvinnslu eða breytingar einnar tegundar orku í aðra.
  17. Rennsli: Hreyfing vatns, hvort heldur er af manna völdum eða náttúru.
  18. Stöðuvatn: Vatn sem sýnist slétt í logni og straumlaust að sjá enda þótt flætt geti gegnum það.
  19. Vatnsból: Mannvirki, t.d. brunnar, borholur eða virkjaðar lindir, eða náttúruleg vatnsleg þar sem vatn er tekið eða nytjað á staðnum.
  20. Vatnsfall: Rennandi vatn í afmörkuðum farvegi, þó að tíma- og staðbreytilegur sé, sem rennur undan þyngdaraflinu niður á við.
  21. Vatnsflæði: Rennsli vatns sem vatnsmagn á tímaeiningu, í l/sek. eða m3/sek.
  22. Vatnsleg: Lægð í landi, sem vatn stendur í, vatnsfall eða stöðuvatn, ásamt tilheyrandi botni og bökkum allt að vatnsborðsstöðu við háflæði. Lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljast ekki til vatnslegs.
  23. Vatnsmiðlun: Geymsla á vatni til þess að breyta náttúrulegu vatnsmagni straumvatns (vatnsfalls) eða til stýringar á rennsli vatns.
  24. Vatnsnýting: Vatnstaka, veiting eða virkjun vatns til heimilis- og búsþarfa, í arðsemisskyni eða til að verja fasteign spjöllum.
  25. Vatnsveita: Mannvirki til að flytja vatn til notenda.
  26. Vatnsvirki: Mannvirki um vatn, í eða yfir vatni eða við það.
  27. Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.


II. KAFLI
Eignarhald á vatni.

4. gr.

Eignarréttur að vatni.
     Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.

5. gr.

Sameign á vatni.
     Fasteignareigendur sem hafa aðgang að sama vatni eiga sama rétt til þess í hlutfalli við þá nýtingu sem er gerleg á eða fyrir landi þeirra. Ef ekki verður samkomulag um nýtingu skal skera úr með mati dómkvaddra matsmanna.
     Komi upp ágreiningur milli rétthafa um nýtingu vatns sem ekki fæst jafnaður, t.d. ef landamerki fasteigna tveggja eða fleiri rétthafa liggja þannig að nýting vatns verður ekki aðskilin, skal afla mats dómkvaddra matsmanna um hvernig hagkvæmast sé að nýta vatnið og hver sé hlutfallslegur réttur hvers og eins til nýtingar.

6. gr.

Ef merkivötn skilja fasteignir.
     Þar sem merkivötn skilja fasteignir er hvorri rétt að nota vatnið að jöfnu eftir þörfum sínum. Dreifist vatn í farvegi skal hvorri fasteign fylgja jafn réttur til vatnsins þó að ekki skiptist til helminga um miðlínu. Ef vatn er svo lítið að ekki nægi báðum eða öllum skal ákveða skipti og notkun þess með mati dómkvaddra matsmanna.

7. gr.

Leyfi til að skilja vatnsréttindi frá fasteign.
     Ekki má skilja við fasteign vatnsréttindi til heimilis- og búsþarfa nema með leyfi ráðherra.

8. gr.

Aðskilnaður vatns frá fasteign og skipting vatnsréttinda.
     Nú eru vatnsréttindi framseld án þess að eignarréttur að fasteign sé jafnframt framseldur og fer þá um réttarvernd þeirra samkvæmt ákvæðum þinglýsingalaga er varða fasteignir.
     Nú er framseldur hluti fasteignar sem liggur að vatni eða á og eru vatnsréttindi innifalin í kaupunum nema öðruvísi sé kveðið á um. Þó skal sá hluti fasteignar sem eftir stendur hafa næg vatnsréttindi til að fullnægja þörfum skv. 15. gr.
     Ef sameignarlandi er skipt skulu hverjum eignarhluta fylgja, svo sem frekast er kostur, næg vatnsréttindi til að fullnægja þörfum skv. 15. gr.

9. gr.

Skylda til þátttöku í vatnsveitu, áveitu, vatnsmiðlun eða vörnum gegn vatnságangi.
     Nú eiga menn fasteign í félagi og vilja sumir stofna til vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa á eigninni, koma þar á fót samáveitu, stofna til vatnsmiðlunar eða verjast ágangi vatns og getur þá sá eða þeir sem eiga meiri hluta fasteignar ákveðið að ráðast í framkvæmdir enda er hinum þá skylt að taka tiltölulegan þátt í kostnaði öllum af þeim ef talið verður að fasteigninni muni verða meira hagræði af framkvæmdunum en kostnaðinum nemur.
     Ef ekki verður samkomulag um framkvæmd eða umsjón verksins eða um skiptingu kostnaðar skal skorið úr með mati dómkvaddra matsmanna.

III. KAFLI
Landamerki í vötnum.

10. gr.

Landamerki í vatnsföllum.
     Nú skilur vatnsfall fasteignir og á þá hvort land í miðjan farveg nema önnur lögmæt skipun sé þar á gerð.
     Ekki breytast merki þótt farvegur breytist.

11. gr.

Landamerki í stöðuvötnum.
     Nú liggur fasteign að stöðuvatni og fylgir vatnsbotn þá þeim bakka sem hann verður talinn framhald af, 115 metra út í vatn (netlög).
     Ef stöðuvatn er merkivatn og er eigi 230 metrar á breidd skal miðlína þess ráða merkjum nema önnur lögmæt skipun hafi verið á gerð.
     Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði og fylgir vatnsbotn þá landi sem þurrt land væri.
     Ef eyjar, hólmar eða sker eru í stöðuvatni fylgja þeim netlög sem áður segir. Nú á maður eyjar, hólma eða sker fyrir landi annars manns og er sundið mjórra en 230 metrar og ræður þá miðlína sundsins merkjum.
     Jafnan skal miða við lágflæði í vatni.
     Ef breyting verður á vatnsbotni skulu netlög vera þar sem þau voru áður.

12. gr.

Landamerki milli fasteigna sem liggja að stöðuvatni eða vatnsfalli sömu megin.
     Nú liggja tvær fasteignir eða fleiri að stöðuvatni eða vatnsfalli sömu megin og fylgja þá netlög þeim bakka sem næstur er hverju sinni.

IV. KAFLI
Farvegur.

13. gr.

Forn farvegur.
     Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.
     Óheimilt er fasteignareiganda eða öðrum nema lög heimili:
  1. að breyta vatnsbotni, straumstefnu eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð,
  2. að gerstífla vatnsfall eða gera mannvirki í vatni eða yfir því,
  3. að veita vatni af fasteign sinni á aðra fasteign ef af því stafar tjón eða hætta.


14. gr.

Heimild til að fella vatnsfall í fornan farveg eða koma honum í samt lag.
     Nú breytist farvegur af náttúrulegum ástæðum og er þá fasteignareiganda hverjum sem bagi verður að breytingunni rétt að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag. Ef til þess þarf afnot af annarri fasteign eru þau heimil samkvæmt leyfi ráðherra, en þá getur eigandi þeirrar fasteignar krafist bóta fyrir tjón og óþægindi sem slíkt bakar honum. Ef ágreiningur verður skal skorið úr með eignarnámsmati.
     Nú hefur sama ástand haldist í 20 ár eða lengur og skal þá um það fara svo sem það hefði að fornu fari verið svo.

V. KAFLI
Aðgangsröð að vatni.

15. gr.

Forgangur að vatni.
     Vatnstaka til heimilis- og búsþarfa gengur fyrir annarri vatnsnýtingu. Heimilisþörf gengur fyrir búsþörf.
     Heimilt er fasteignareiganda að sækja sér vatn til heimilis- og búsþarfa á aðra fasteign ef eiganda þeirrar fasteignar verður ekki óhæfilegur bagi að enda sé slík vatnstaka á eigin fasteign ómöguleg eða til muna erfiðari. Þegar svo hagar til getur eigandi þeirrar fasteignar sem vatn er tekið úr krafist bóta, þar með talið fyrir tjón og óþægindi sem framkvæmdin bakar honum. Náist ekki samkomulag með aðilum um bætur skulu þær ákveðnar með eignarnámsmati.
     Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til töku vatns til vatnsveitu á eftir heimilis- og búsþörfum fasteignareigenda. Um vatnsveitur sveitarfélaga fer samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga.
     Nái sveitarfélag ekki samkomulagi við fasteignareiganda um töku vatns í landi hans til vatnsveitu, eða um önnur atriði sem nauðsynleg má telja í því sambandi, getur iðnaðarráðherra heimilað að nauðsynlegt land, mannvirki og aðstaða til nýtingar og töku vatnsins og lagningar vatnsveitu, sem og önnur réttindi fasteignareiganda, verði tekin eignarnámi.

16. gr.

Ef vatn er of lítið til að fullnægja þörfum skv. 15. gr.
     Nú er vatn of lítið til að fullnægja þörfum þeim sem í 15. gr. segir og á þá hver sú fasteign sem tilkall hefur til þess vatns sama tilkall til vatnsins eftir þörfum sínum.
     Ef menn greinir á um það hversu hver þurfi mikils vatns skal skera úr með mati dómkvaddra matsmanna.

17. gr.

Vatnsból.
     Nú gerir fasteignareigandi vatnsból á fasteign sinni og skal hann þá gæta þess að ekki sé minnkuð eða heft aðsókn vatns að vatnsbólum annarra fasteignareigenda. Komi upp ágreiningur um nýtingu vatns fer um hann skv. 2. mgr. 5. gr.

VI. KAFLI
Nýting vatnsorku.

18. gr.

Takmarkanir á orkunýtingarrétti.
     Orkunýtingarréttur fasteignareiganda takmarkast við það að enginn sé sviptur vatnsnotum skv. 15. gr. né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun né vatni sem nota þarf með þeim hætti spillt fyrir neinum svo að til verulegra óþæginda horfi.

19. gr.

Er merkivötn skilja fasteignir.
     Þar sem merkivötn skilja fasteignir hafa eigendur beggja jafnan rétt til að nota vatn úr þeim til orkuvinnslu.
     Eigandi hvorrar fasteignar fyrir sig á rétt til svo mikils af vatnsorkunni sem svarar hálfu vatnsflæði merkivatnsins og fallhæð þeirri sem er fyrir landi hans enda hafi ekki önnur lögmæt skipun verið á gerð.

VII. KAFLI
Mannvirki.

20. gr.

Mannvirki varðar tvær fasteignir.
     Nú vill eigandi annars vatnsbakka merkivatns gera mannvirki í vatni til vatnsnýtingar og þarf að nota til þess land hinum megin og skal hann þá bjóða eiganda þess lands að gera mannvirki með sér og nota vatnið að réttri tiltölu. Nú verða þeir sammála um framangreint, en greinir á um framkvæmd verksins, skiptingu kostnaðar eða vatnsnot, og skal þá skera úr með mati dómkvaddra matsmanna.
     Nú vill eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í mannvirkjagerð og getur ráðherra þá heimilað eignarnám til afnota af landi hans til að framkvæma verkið og nota vatnið. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati.

21. gr.

Heimild til framkvæmda.
     Ef fasteignareigandi gerir stíflu í vatnsfarvegi og veitir vatni úr náttúrulegum farvegi, hvort sem er um opinn skurð, pípu eða jarðgöng, ef nauðsynlegt er vegna vatnsnota, skal þess gætt að ekki séu gerðar skemmdir á fasteignum annarra manna um nauðsyn fram. Ekki má veita meira vatni úr eðlilegum farvegi í þessu skyni en þörf er á, en öllu skal því veitt í fornan farveg ef unnt er og svo fljótt sem kostur er.
     Ef nauðsyn krefur getur ráðherra veitt eiganda fasteignar skv. 1. mgr. heimild til eignarnáms. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati.

22. gr.

Breyting á vatnsfarvegi.
     Heimilt er fasteignareiganda að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns, til vatnsveitugerðar, áveitugerðar, orkunýtingar o.s.frv.
     Nú þarf sá sem ætlar að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. afnot af fasteignum annarra manna og getur þá ráðherra veitt heimild til eignarnáms. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati ef ekki semst með aðilum.
     Ráðherra er rétt að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. enda sé það gert til að verja fasteignir eða önnur mannvirki sem varða almannaheill. Heimilt er ráðherra að taka fasteignir eignarnámi í þessu skyni. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati.

23. gr.

Heimild til vatnsmiðlunar.
     Leita skal leyfis Orkustofnunar til að framkvæma vatnsmiðlun eða breyta henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu er 1.000 fermetrar eða stærra við hæstu vatnsstöðu. Ef framkvæmd vatnsmiðlunar er liður í virkjun fallvatns til raforkuframleiðslu skal miðlunarleyfið talið hluti af virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum og skal þá leita leyfis í samræmi við þau lög.

24. gr.

Heimild eiganda til að veita vatni af fasteign sinni.
     Ef nauðsyn krefur má fasteignareigandi veita vatni af fasteign sinni á aðrar fasteignir enda sé ekki unnt að losna við það með öðrum hætti. Með sama hætti má hann veita vatni í skurði á aðrar fasteignir eða grafa þar skurði í því skyni, en skurðum skal þá svo langt fram haldið að eigendum annarra fasteigna verði ekki óþarfur bagi að. Ráðherra getur heimilað eignarnám til afnota af fasteign manns í þessu skyni. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati.

25. gr.

Niðurlagning mannvirkis.
     Niðurlagning mannvirkis samkvæmt þessum kafla, þar með talið stöðvun á viðhaldi, er háð samþykki Orkustofnunar. Eigandi mannvirkis skal leggja áætlun um niðurlagningu fyrir Orkustofnun til samþykktar þar sem m.a. skulu vera upplýsingar um hvernig verkið verði framkvæmt.

26. gr.

Aðgæsluskylda.
     Mannvirki og framkvæmdir allar samkvæmt þessum kafla skulu þannig úr garði gerð að af þeim stafi hvorki hætta né veruleg óþægindi fyrir umferð eða spjöll á eign annars manns nema honum sé skylt að hlíta því samkvæmt lögum eða samningum.

VIII. KAFLI
Vatnafélög.

27. gr.

Stofnun vatnafélaga.
     Heimilt er fasteignareigendum að stofna félag um:
  1. Vatnsveitu.
  2. Áveitu.
  3. Varnir við ágangi vatns.
  4. Vatnsmiðlun.
  5. Annað sem lögmætan tilgang hefur samkvæmt lögum þessum.

     Fara skal um félög skv. 1. mgr. svo sem í þessum kafla segir.

28. gr.

Stofnfundarboð.
     Þeir fasteignareigendur sem stofna vilja vatnafélag skv. 27. gr. skulu boða til stofnfundar eigendur þeirra fasteigna sem ætla má að aðild gætu átt að félaginu. Komi til löglegrar stofnunar félagsins telst kostnaður allur af fundarboði, fundarhaldi, uppdráttum af fyrirhuguðum framkvæmdum og mannvirkjum o.s.frv. til stofnkostnaðar.

29. gr.

Efni samþykktar.
     Þegar ákveðið hefur verið að stofna félag skal samþykkt þess sett svo fljótt sem unnt er.
     Í samþykkt skulu vera ákvæði um:
  1. nafn félags, heimilisfang þess og varnarþing,
  2. verkefni félags,
  3. skipun félagsstjórnar, hversu fjölmenn hún skuli vera, hvernig skuli kjósa hana, hvert vald hennar skuli vera og starfssvið, ef stjórn er skipuð fleiri mönnum en einum, hve langan tíma kjör skuli gilda,
  4. eigendur hvaða fasteigna taki þátt í félaginu, svo að ekki verði um það villst, og um atkvæðisrétt á félagsfundum,
  5. reikninga og bókhald félagsins og endurskoðun,
  6. hvernig boða skuli til félagsfunda, hvenær þeir skuli lögmætir, hvaða mál þeir skuli úrskurða og hvert vald þeir hafi að öðru leyti,
  7. hvernig fara skuli um greiðslur kostnaðar þess sem félagsskapurinn hefur í för með sér,
  8. hvaða kvaðir eða eignarhöft leggjast á fasteignir þær sem þátt taka í félagsskapnum,
  9. árstillög félagsmanna,
  10. hvaða reglum skuli eftir farið ef breyta á samþykktum félagsins,
  11. inntöku nýrra félaga, sbr. 30. gr.,
  12. heimild til úrsagnar úr félagi, sbr. 31. gr.,
  13. hvernig fara skuli um félagsslit, hvert atkvæðamagn þurfi til þeirra og hvernig ráðstafa skuli eignum félagsins.

     Í samþykktum skal kveðið svo á að afl atkvæða ráði úrslitum. Ef sérstök ástæða þykir til má ákveða í samþykkt að aukinn meiri hluta þurfi til ákvörðunar um einstök félagsmálefni, önnur en þau sem sérstaklega er um mælt í lögum þessum.
     Gildi samþykkta vatnafélags er háð staðfestingu iðnaðarráðherra.

30. gr.

Nýir félagar.
     Rétt er að taka nýja menn í félag ef lögmætur félagsfundur samþykkir.
     Hverjum þeim sem ekki hefur í upphafi tekið þátt í vatnsveitufélagi í þeim tilgangi sem tilgreindur er skv. 27. gr. er heimilt að gera það síðar enda liggi fasteign hans með þeim hætti að þátttaka hans valdi ekki verulegu óhagræði. Náist ekki samkomulag um heimild til aðildar og/eða um greiðslu endurgjalds, sbr. 4. mgr., skal skorið úr með mati dómkvaddra matsmanna.
     Ef veruleg breyting verður á skyldum félaga vegna töku nýrra félagsmanna eða verkefni félaga breytist verulega fyrir þá sök skal fara með málið sem breytingar á samþykktum félagsins.
     Nú bætist nýr maður í félag og skal hann þá greiða að sínum hluta og frá þeim tíma hlutdeild í stofnkostnaði, þau gjöld sem á félögum hvíla og með sama hætti sem aðrir félagar nema öðruvísi semji. Kosta skal hann sjálfur þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru sérstaklega hans vegna til þess að geta notað mannvirki félagsins.

31. gr.

Úrsögn.
     Segja má maður sig úr félagi, en skal hann þá fá greiddan stofnkostnað sinn að því leyti sem verðmæti hlutar hans er meira en nemur kostnaði og tjóni af brottför hans. Úr ágreiningi skal skorið með mati dómkvaddra matsmanna.
     Ef maður segir sig úr félagi ábyrgist hann þau gjöld sem á hann hafa fallið samkvæmt ákvæðum félagsins til þess tíma er hann fer úr félaginu.

32. gr.

Ábyrgð á skuldum.
     Eignir félags standa fyrir skuldum þess. Enginn félagsmaður ber ábyrgð umfram löglega ákveðna hlutdeild sína í félaginu.

33. gr.

Slit félags.
     Félagi skal slíta:
  1. ef félagar samþykkja það samkvæmt fyrirmælum samþykktar sinnar,
  2. ef félagar eru aðeins tveir og annar krefst þess,
  3. ef það kemur síðar í ljós að ekki er unnt að ná því takmarki sem félagið setti sér, eða það er svo miklum örðugleikum bundið að erfitt þykir að halda félagsskapnum áfram; ágreiningi um það hvort skilyrði félagsslita samkvæmt þessum tölulið séu fyrir hendi skal til lykta ráðið með mati dómkvaddra matsmanna.

     Ef helmingur félaga eða meira krefst þess er skylt að kjósa skilanefnd til að standa fyrir skiptum félagsins og fer um vald hennar sem skilanefndar við slit hlutafélags.
     Ef eignir félagsins hrökkva ekki fyrir skuldum skal því sem á vantar skipta á félaga að réttri tiltölu við félagsgjöld hvers um sig, eins og þau hafa verið ákveðin samkvæmt gjaldskrá eða öðru lögmætu félagsákvæði. Hver félagi ábyrgist einungis sinn hluta.
     Um skiptin fer annars samkvæmt ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl.

IX. KAFLI
Stjórnsýsla.

34. gr.

Yfirstjórn.
     Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
     Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til iðnaðarráðherra. Um meðferð máls fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

35. gr.

Tilkynningarskylda.
     Skylt er að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir í eða við vötn vegna vatnsnýtingar, þar á meðal framkvæmdir sem ekki eru leyfisskyldar samkvæmt þessum lögum eða öðrum.
     Ekki er þó skylt að senda tilkynningu skv. 1. mgr. þegar Landbúnaðarstofnun er send skrifleg umsókn um framkvæmd í eða við veiðivatn skv. VII. kafla laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Landbúnaðarstofnun skal þegar henni berst umsókn um leyfi fyrir framkvæmdum þegar í stað senda Orkustofnun afrit af öllum slíkum umsóknum.
     Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði fyrir framkvæmdum og starfsemi sem taldar eru nauðsynlegar af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í vatni eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Heimild Orkustofnunar til þess að setja slík skilyrði nær þó ekki til framkvæmda og starfsemi á friðlýstum svæðum sem háðar eru leyfi Umhverfisstofnunar.
     Orkustofnun skal gera tilkynningarskyldum aðila grein fyrir því innan fjögurra vikna frá því að tilkynning barst stofnuninni hvort hún hyggst banna tilkynntar framkvæmdir, setja skilyrði fyrir þeim skv. 3. mgr. eða gera aðrar athugasemdir við framkvæmdir þær sem tilkynntar hafa verið. Berist athugasemdir Orkustofnunar ekki tilkynningarskyldum aðila innan frestsins skal líta svo á að engar athugasemdir séu gerðar við fyrirhugaðar framkvæmdir. Ákveði Orkustofnun að setja tilkynningarskyldum aðila skilyrði skv. 3. mgr. skal ákvörðun liggja fyrir innan fjögurra vikna frá lokum fjögurra vikna frests samkvæmt þessari málsgrein.
     Iðnaðarráðherra skal með reglugerð, að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið, setja nánari fyrirmæli um framkvæmd tilkynningarskyldu, útfærslu skilyrða sem setja má fyrir framkvæmdum og önnur atriði samkvæmt þessari grein.

36. gr.

Eftirlit og úrræði.
     Orkustofnun hefur stjórnsýslu og eftirlit með vatnsnýtingu og framkvæmdum samkvæmt lögum þessum. Telji Orkustofnun að framkvæmdir eða starfsemi í vötnum samræmist ekki lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða öðrum heimildum getur hún krafist þess að úr verði bætt að viðlögðum dagsektum. Orkustofnun skal upplýsa ráðherra um brot leyfishafa sem varðað geta dagsektum. Dagsektir geta numið 10.000–500.000 kr. á dag. Við ákvörðun dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og þeirra hagsmuna sem í húfi eru. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt þeim sem hún beinist að á sannanlegan hátt. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
     Ef brot eru ítrekuð eða stórfelld getur Orkustofnun fellt niður leyfi samkvæmt lögum þessum og bannað framkvæmdir eða starfsemi sem heimil er á grundvelli 35. gr.
     Áður en gripið er til úrræða skv. 1. og 2. mgr. skal Orkustofnun ávallt veita skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.

X. KAFLI
Eignarnáms- og bótaákvæði.

37. gr.

Eignarnám.
     Ráðherra getur heimilað að vatnsréttindi verði tekin eignarnámi ásamt nauðsynlegu landi, mannvirkjum, aðstöðu og öðrum réttindum fasteignareiganda í samræmi við ákvæði laga þessara. Ávallt skal þess þó freistað að ná samkomulagi við fasteignareiganda áður en til eignarnáms kemur.
     Framkvæmd eignarnáms á grundvelli þessara laga fer eftir almennum reglum.

38. gr.

Endurgjald.
     Við ákvörðun eignarnámsbóta skal taka sérstakt tillit til óvissu um vatnsréttindin og kostnað af notkun. Einnig skal við ákvörðun eignarnámsbóta koma til frádráttar sérhagur viðkomandi fasteignar af framkvæmdum. Að öðru leyti fer um endurgjald fyrir eignarnumin réttindi eftir almennum reglum.

39. gr.

Dómkvaddir matsmenn.
     Nú segir í lögum þessum að skorið skuli úr ágreiningi með mati dómkvaddra matsmanna og fer þá um dómkvaðningu, þar með talið kostnað af mati, samkvæmt lögum um meðferð einkamála.

XI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

40. gr.

Reglugerð.
     Iðnaðarráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar með talið um starfrækslu vatnafélaga.

41. gr.

Viðurlög.
     Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsingu varði samkvæmt öðrum lögum. Dæma má jafnt lögaðila sem einstakling til greiðslu sekta vegna brota á lögum þessum. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á starfsmann lögaðilans.

42. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2007.
     Jafnframt falla úr gildi frá sama tíma vatnalög, nr. 15/1923.
     Leyfi, sem veitt eru samkvæmt vatnalögum, nr. 15/1923, og eru í gildi við gildistöku laga þessara, halda gildi sínu.
     Um vatnafélög sem starfrækt eru við gildistöku laga þessara skulu gilda ákvæði VIII. kafla laga þessara og samþykktir félagsins eftir því sem við getur átt. Þau félög skulu þó laga starfsemi sína að lögum þessum fyrir 1. janúar 2008.

43. gr.

Breytingar á ýmsum lögum á sviði vatnamála.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.
    1. Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:
    2.      Sveitarfélögum er heimilt að leggja fráveitur, þ.e. leiðslukerfi og búnað til meðhöndlunar á skolpi. Eigendum fasteigna er skylt á sinn kostnað að annast lagningu leiðslna fyrir skolp að lóðarmörkum. Sveitarfélögum er heimilt að leggja gjald á fasteignir til þess að standa straum af kostnaði við að leggja og reka fráveitur. Gjald, sem kveðið skal á um í gjaldskrá, sbr. 5. mgr. 25. gr., getur tekið mið af flatarmáli húss eða lóðar eða fasteignamati og hvoru tveggja. Í gjaldskrá er einnig hægt að kveða á um sérstakt gjald fyrir tengingu við fráveitu.
           Sérstaka ívilnun má veita ef lóð er svo háttað að erfiðara er að koma skolpi eða afrennsli frá henni í holræsi en frá öðrum lóðum yfirleitt og sérstakt aukagjald má á leggja ef skolp frá einhverri lóð er svo á sig komið að telja má meiri útgjöld stafa eða munu stafa af því en öðru skolpi.
           Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.
    3. 25. gr. laganna orðast svo:
    4.      Sveitarfélög setja sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gera um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim enda falli þau undir lögin. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um:
      1. bann og takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds,
      2. meðferð úrgangs,
      3. lagningu fráveitna og greiðslu stofn- og rekstrarkostnaðar vegna þeirra,
      4. gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu,
      5. ábyrgðartryggingar.

           Heilbrigðisnefnd semur drög að samþykktum og breytingum á þeim og leggur fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Sé um að ræða nýmæli í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hann staðfestir samþykktina.
           Synji ráðherra staðfestingar endursendir hann samþykktina til sveitarstjórnar með leiðbeiningum um hvað þurfi til að til staðfestingar komi.
           Samþykktir samkvæmt þessari grein skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.
           Sveitarfélög setja sér gjaldskrár um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við lagningu fráveitu og við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar stofnkostnaður við fráveitu, leyfi, leiga eða þjónusta eru tengd notkun fasteignar. Sveitarfélag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.
  2. 18. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, orðast svo:
  3.      Almenningi er heimil för um vötn með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum þessum og eftir atvikum öðrum lögum.


Samþykkt á Alþingi 16. mars 2006.