Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1215, 132. löggjafarþing 771. mál: atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga (ríkisborgarar nýrra aðildarríkja).
Lög nr. 21 28. apríl 2006.

Lög um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

1. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum, sbr. lög nr. 19/2004, orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins, ásamt síðari breytingum, að því er varðar atvinnu- og búseturétt ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands, skal atvinnurekandi sem hefur ráðið þá til starfa tilkynna um það til Vinnumálastofnunar fram til 1. maí 2009 samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum. Hið sama gildir um aðstandendur þessara ríkisborgara skv. 10. og 11. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68 á tímabilinu.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

2. gr.

     Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
Meðferð upplýsinga.
     Fái Vinnumálastofnun upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn íslenskum lögum og reglum er stofnuninni heimilt að afhenda hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvaldi eða lögreglu, eftir atvikum, upplýsingarnar.
     Heimilt er við vinnslu upplýsinga að samkeyra upplýsingar Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, lögreglu og skattyfirvalda í þeim tilgangi að kanna hvort atvinnurekendur sem hafa ráðið útlendinga til starfa hafi farið að lögum þessum enda sé um að ræða afmörkuð verkefni en ekki viðvarandi samkeyrslu. Að öðru leyti fer um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

3. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum, sbr. lög nr. 19/2004, orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 14. gr. skal atvinnurekandi tilkynna til Vinnumálastofnunar um ráðningu ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands eða Ungverjalands til starfa fram til 1. maí 2009. Í tilkynningunni skal koma fram nafn atvinnurekanda, kennitala og heimilisfang ásamt nafni útlendingsins, kennitölu og aðsetri hans hér á landi. Enn fremur skal fylgja tilkynningunni ráðningarsamningur sem tryggi útlendingnum laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum. Tilkynningin skal berast Vinnumálastofnun innan tíu virkra daga frá ráðningu. Vinnumálastofnun skal halda skrá yfir þá útlendinga sem koma frá framangreindum ríkjum til að starfa hér á landi.
     Ef atvinnurekandi lætur hjá líða að senda Vinnumálastofnun tilkynningu skv. 1. mgr. getur stofnunin ákveðið að atvinnurekandi greiði dagsektir þar til tilkynning berst stofnuninni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
     Dagsektir mega nema allt að 50.000 kr. á sólarhring. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal m.a. líta til fjölda starfsmanna sem atvinnurekandi lét hjá líða að tilkynna um og hversu stór og umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er.
     Dagsektir skulu renna í ríkissjóð.
     Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um dagsektir eru aðfararhæfar. Málskot til félagsmálaráðuneytis skv. 24. gr. frestar aðför.
     Vinnumálastofnun skal afhenda stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem útlendingur skv. 1. mgr. starfar á afrit af ráðningarsamningi útlendingsins óski stéttarfélagið eftir því enda liggi fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi.
     Ákvæði þetta gildir til 1. maí 2009.

III. KAFLI
Gildistaka.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2006.

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 2006.