Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1501, 132. löggjafarþing 607. mál: lax- og silungsveiði (heildarlög).
Lög nr. 61 14. júní 2006.

Lög um lax- og silungsveiði.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra.

2. gr.

Gildissvið.
     Ákvæði laga þessara gilda um alla veiði úr ferskvatnsfiskstofnum á íslensku forráðasvæði, nema aðra skipan leiði af ákvæðum annarra laga.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum, reglugerðum og reglum, settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
  1. Afréttur: Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.
  2. Almenningur í stöðuvatni: Sá hluti stöðuvatns sem er fyrir utan 115 m breitt vatnsbelti (netlög) landareigna þeirra sem að vatninu liggja.
  3. Á: Straumvatn frá ósasvæði til upptaka.
  4. Áll: Sá staður langs eftir vatni, stöðuvatni eða straumvatni þar sem dýpi er mest milli grynninga eða sandeyra sem eigi teljast bakkar. Nú eru álar fleiri en einn og heitir sá höfuðáll sem vatnsmestur er.
  5. Áveita: Mannvirki sem notað er til þess að veita vatni á land.
  6. Bakki: Fast takmark á farvegi straumvatns eða legi stöðuvatns, svo sem klettar, gróið land eða eyrar sem vatn fellur eigi yfir í meðalvexti eða sjór um stórstraumsflæði.
  7. Eignarland: Landsvæði, þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
  8. Farvegur: Vatnsleg sem vatnsfall rennur eftir, hvort heldur af manna völdum eða náttúru.
  9. Fasteign: Afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt.
  10. Ferskvatnsvistkerfi: Tiltekið svæði þar sem vatnadýr tengjast hvert öðru og umhverfi sínu á einn eða annan hátt.
  11. Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska og annarra vatnadýra, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
  12. Fiskför: För fisks um veiðivatn.
  13. Fiskigengd: Sá fjöldi fiska sem gengur í veiðivatn eða elst upp í veiðistærð í veiðivatni.
  14. Fiskihverfi: Veiðivatn eða -vötn sem sami fiskstofn byggir og fer um fram og aftur eða ætla má að sami fiskstofn byggi og fari um fram og aftur þá er ræktaður hefur verið.
  15. Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fisk í veiðivatni eða arð af veiðivatni.
  16. Fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á tilteknum stað og tíma en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
  17. Fiskur: Lax (Salmo salar), silungur (urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss)), áll (Anguilla anguilla og Anguilla rostrata) eða annar vatnafiskur ef ræktaður verður.
  18. Fiskvegur: Hvers konar mannvirki er gerir veiðivötn fiskgeng eða greiðir fiskför um þau.
  19. Framkvæmd í veiðivatni: Hvers konar framkvæmd í og við veiðivatn, svo sem mannvirki, efnistaka eða jarðrask, sem hefur áhrif á lífríki, rennsli, veiði og ásýnd veiðivatns.
  20. Föst veiðivél: Veiðitæki sem fest er í vatni og fiskur getur ánetjast í eða króast af, svo sem lagnet, króknet og girðing.
  21. Geldstofn: Vatnafiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
  22. Göngusilungur: Silungur er gengur úr sjó í ósalt vatn, svo sem sjóbirtingur (urriði) og sjóreyður (bleikja).
  23. Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og föngun þeirra sem fullvaxta fiska á sleppistað þegar þeir ganga úr sjó í ferskvatn, annaðhvort til slátrunar eða flutnings í annað veiðivatn til endurveiða.
  24. Háflæði: Mesta rennsli eða hækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og þegar auð er jörð.
  25. Jörð: Lögbýli samkvæmt ábúðarlögum.
  26. Kvísl: Hluti af straumvatni sem fellur sér milli bakka.
  27. Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni.
  28. Lögn: Staður í vatni þar sem fastri veiðivél verður við komið.
  29. Merkivatn: Vatn það sem landamerkjum ræður.
  30. Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
  31. Ós í á: Sá staður þar sem straumur þverár sameinast straumi höfuðár.
  32. Ós í sjó: Sá staður þar sem straumur ár hverfur í sjó um stórstraumsfjöru.
  33. Ós í stöðuvatn: Sá staður þar sem straumur ár hverfur í stöðuvatn.
  34. Ós úr stöðuvatni: Sá staður þar sem straumlína ár hefst í stöðuvatni.
  35. Ósasvæði: Svæði í straumvatni er nær frá ósi í sjó upp til þess staðar þar sem straumlína hverfur um stórstraumsflæði.
  36. Rennsli: Hreyfing vatns, hvort heldur er af manna völdum eða náttúru.
  37. Sjálfbær nýting fiskstofna: Nýting þar sem ekki er gengið á fiskstofn. Eftir veiði er hrygningarstofn nægilega stór til þess að tryggja eðlilega nýliðun og til þess að viðhalda fjölbreytileika stofnsins.
  38. Sjávarfiskur: Fiskur sem lifir allan sinn lífsferil í sjó.
  39. Sjór: Salt vatn utan árósa.
  40. Straumlína (strengur): Lína sem liggur eftir endilöngu straumvatni um þá staði þess þar sem straumur er mestur.
  41. Straumvatn: Ósalt vatn, á eða ósasvæði sem í er greinilegur straumur, þá er enginn vöxtur er í, og um stórstraumsfjöru.
  42. Stöðuvatn: Ósalt vatn sem eigi er í greinilegur straumur annar en sá sem stafar af sjávarföllum, vindi eða aðrennsli í leysingum.
  43. Vatn: Ósalt vatn með föstu legi eða farvegi, straumvatn eða stöðuvatn.
  44. Vatnadýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
  45. Vatnafiskur: Fiskur sem lifir að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
  46. Vatnasilungur: Silungur sem elur allan aldur sinn í ósöltu vatni, svo sem vatnaurriði, vatnableikja (reyður), lækjasilungur og murta.
  47. Vatnsfall: Rennandi vatn í afmörkuðum farvegi, þó að tíma- og staðbreytilegur sé, sem rennur undan þyngdaraflinu niður á við.
  48. Vatnsleg: Lægð í landi, sem vatn stendur í, vatnsfall eða stöðuvatn, ásamt tilheyrandi botni og bökkum allt að vatnsborðsstöðu við háflæði. Lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljast ekki til vatnslegs.
  49. Vatnsmiðlun: Geymsla og miðlun vatns til þess að breyta náttúrulegu vatnsmagni straumvatns (vatnsfalls) eða til þess að stýra rennsli vatns.
  50. Vatnsnýting: Vatnstaka, veiting eða virkjun vatns til heimilis- og búsþarfa, í arðsemisskyni eða til að verja fasteign spjöllum.
  51. Vatnsveita: Mannvirki til að flytja vatn til notenda.
  52. Vatnsvirki: Mannvirki umhverfis vatn, í eða yfir vatni eða við það.
  53. Veiðifélag: Félag allra veiðiréttarhafa í sama fiskihverfi, veiðivatni eða landsvæði, sbr. 38. gr.
  54. Veiðihlutur: Hundraðshluti jarðar í veiði vatns samkvæmt arðskrá.
  55. Veiðimagn: Samanlögð þyngd veiddra fiska.
  56. Veiðimál: Hvers konar mál er lúta að lax-, silungs- og álaveiði, fiskrækt eða fiskeldi.
  57. Veiðiréttarhafi: Sá einstaklingur sem á hverjum tíma fer með rétt fasteignar til veiði, sbr. fyrirmæli II. kafla laga þessara.
  58. Veiðitala: Tala veiddra fiska.
  59. Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.
  60. Veiðivél: Sjá föst veiðivél.
  61. Villtur fiskstofn: Fiskstofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum.
  62. Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.
  63. Örmerkingar: Merkingar á laxi með málmflísum í trjónuna.


4. gr.

Stjórnsýsla.
     Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Landbúnaðarstofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt, nema á annan veg sé mælt í lögum þessum.
     Í samræmi við fyrirmæli einstakra greina laga þessara er ráðherra heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd þeirra í reglugerð.
     Þegar talað er um reglur í lögum þessum er átt við svæðis- og tímabundnar reglur sem Landbúnaðarstofnun setur á grundvelli laganna eða reglugerða ráðherra sem settar eru með stoð í lögum þessum.
     Við setningu reglugerða og reglna samkvæmt lögum þessum skal leita faglegra umsagna eftir því sem við kann að eiga, þar með talið frá viðkomandi veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum.
     Öll veiðifélög samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga þessara hafa með sér landssamtök, Landssamband veiðifélaga, sem gætir sameiginlegra hagsmuna þeirra.

II. KAFLI
Um veiðirétt.

5. gr.

Veiðiréttur.
     Eignarlandi hverju fylgir veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum.
     Í þjóðlendum er íslenska ríkið eigandi veiðiréttar samkvæmt lögum þessum með þeim takmörkunum sem leiðir af veiðirétti afréttareigenda, sbr. ákvæði 7. gr.
     Ábúð á jörð fylgir veiðiréttur sem jörðinni tilheyrir, nema á annan veg semjist milli jarðeiganda og ábúanda.
     Þegar vatn skilur fasteignir, sem veiðiréttur fylgir, er landeiganda einum heimil veiði fyrir landi sínu. Mönnum er þó ævinlega heimil för í annarra land til þess að koma í veg fyrir missi afla eða koma í veg fyrir tjón á veiðibúnaði. Ávallt skulu þeir gæta þess að valda sem minnstri röskun á hagsmunum nágranna og bæta tjón ella á grundvelli mats skv. VII. kafla laga þessara.
     Ef farvegur straumvatns breytist eða stöðuvatn tekur sér nýtt leg færist veiðiréttur til eigenda þeirra fasteigna er land eiga undir, sbr. þó 7. og 8. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.

6. gr.

Veiðiréttur í almenningi stöðuvatns.
     Fasteignaeigendum, er land eiga að stöðuvatni, er einum heimil veiði í almenningi vatnsins, þar með talin dorgveiði um ís, og er hún þeim öllum jafnheimil. Ef forn venja er til þess að veiðiréttur í almenningi stöðuvatns fylgi tiltekinni eða tilteknum fasteignum gildir sú skipan mála.

7. gr.

Veiðiréttur á afrétti í þjóðlendu.
     Þeim jörðum sem rétt eiga til upprekstrar á afrétt í þjóðlendu fylgir veiðiréttur í vötnum þeim sem á þeim afrétti eru, með sama hætti og verið hefur. Veiðifélag fer að jafnaði með hagnýtingu og ráðstöfun veiði í slíkum vötnum.

8. gr.

Veiðiréttur í óskiptri sameign.
     Ef fasteign eða veiðiréttur samkvæmt lögum þessum er í óskiptri sameign er sameigendum öllum veiði jafnheimil.
     Rétt er þeim er telur sig vanhaldinn að krefjast skipta á veiði, annaðhvort þannig að hvor eða hver hafi sinn hluta vatns eða veiði sinn tíma, dag eða vikur, í samræmi við eignarhluta sinn. Skal skorið úr um skiptinguna með mati skv. VII. kafla laga þessara náist samkomulag ekki.

9. gr.

Aðskilnaður veiðiréttar frá fasteign.
     Ekki má skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu frá fasteign, hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma. Ráðherra getur þó, að fenginni jákvæðri umsögn Landbúnaðarstofnunar, veitt undanþágu frá banni þessu. Á lögbýlum, þar sem stundaður er landbúnaður, skal þess gætt við veitingu undanþágu að aðskilnaður valdi því ekki að torvelt verði eftirleiðis að stunda þar landbúnað. Þá má slíkur aðskilnaður ekki valda hættu á því að fiskstofnar viðkomandi veiðivatns verði ofnýttir.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að skilja stangveiðirétt frá fasteign um tiltekinn tíma, allt að tíu árum. Ef ekki er á annan veg samið felst í slíkri ráðstöfun afsal veiðiréttarhafa á rétti til annarrar veiði en stangveiði á umsömdu tímabili.

10. gr.

Innlausnarréttur.
     Veiðiréttindi ein og sér, sem skilin hafa verið frá fasteign fyrir gildistöku laga þessara, er eigendum fasteigna þeirra sem rétturinn hefði ella fylgt, sbr. 5. gr., rétt að leysa til sín, hverjum á og fyrir sínu landi að fengnu leyfi ráðherra. Áður en afstaða er tekin til slíkrar leyfisveitingar skal leita umsagnar Landbúnaðarstofnunar og viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, hafi veiðifélag ekki verið stofnað.
     Ef hinn fráskildi veiðiréttur liggur um eða fyrir landi fleiri en einnar fasteignar þarf hið minnsta samþykki 3/ 4 hluta þeirra er veiðiréttur upphaflega tilheyrði. Um vægi atkvæða fer samkvæmt reglum þeim er gilda um atkvæðisrétt í veiðifélagi eftir því sem við á, í samræmi við fyrirmæli VI. kafla laga þessara.
     Þegar innlausnar er krafist, en þó ekki af hálfu allra þeirra fasteignareigenda er innlausnarrétt eiga, getur eigandi veiðiréttarins krafist þess að þeir landeigendur sem innlausnar krefjast leysi jafnframt til sín veiðirétt þeirra sem ekki vilja innleysa.
     Ef ágreiningur er um verðmæti innleysts veiðiréttar fer um mat skv. VII. kafla laga þessara.
     Ef innlausnar samkvæmt grein þessari er ekki krafist innan fimm ára frá gildistöku laganna fellur innlausnarrétturinn niður.

11. gr.

Ófriðun sels.
     Ef selur er í veiðivatni, ósi þess eða ósasvæði er þeim er veiðirétt eiga samkvæmt lögum þessum heimilt að styggja hann og skjóta.
     Nú fara ekki saman nytjar sellátra og selalagna annars vegar og nýting og viðkoma lax og göngusilungs í veiðivatni hins vegar. Getur Landbúnaðarstofnun þá, að ósk veiðifélags eða veiðiréttarhafa og að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, heimilað ófriðun sellátursins og upptöku allra selalagna í eða við það veiðivatn eða fiskihverfi.
     Ef sannað þykir að aðgerðir þær sem Landbúnaðarstofnun heimilar skv. 2. mgr. hafi í för með sér tjón á fjárhagslegum hagsmunum þeirra er sellátur eiga eða nytja skulu veiðiréttarhafar þeir er aðgerðanna óska bæta tjónið. Bætur skulu ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara.

III. KAFLI
Um veiðistjórn.

12. gr.

Skráning veiðivatna.
     Skrá skal öll veiðivötn og veiðiréttarhafa og annast Landbúnaðarstofnun þá skráningu.
     Við gerð og frágang skrár skv. 1. mgr. skal þess gætt að samræmi sé milli hennar og annarra skráa sem haldnar eru lögum samkvæmt af opinberum aðilum og geyma upplýsingar um eiginleika og eignarhald fasteigna.
     Veiðiréttarhöfum er skylt að veita Landbúnaðarstofnun þær upplýsingar sem hún óskar eftir og nauðsynlegar eru skráningarinnar vegna.
     Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um skráningu veiðivatna og þær upplýsingar sem við slíka skráningu skulu liggja fyrir.

13. gr.

Veiðiskýrslur.
     Gera skal skýrslu um veiði í sérhverju veiðivatni og netlögum sjávarjarða og hvílir skylda til skýrslugjafar á handhafa veiðiréttar og sérhverjum þeim er veiði stundar.
     Skýrslugjöf skal vera samræmd fyrir landið allt og í formi sem Landbúnaðarstofnun útbýr og leggur til.
     Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki er veiðifélag, skulu sjá til þess að skýrslur séu gefnar um veiði í sérhverju veiðivatni og að þeim sé skilað til Landbúnaðarstofnunar. Upplýsingar úr skýrslum skulu aðgengilegar Veiðimálastofnun og öðrum rannsóknar- og ráðgjafaraðilum.
     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli um skráningu veiði.

14. gr.

Laxveiðar í sjó.
     Ekki má veiða lax í sjó. Veiðist lax í veiðitæki í sjó skal sleppa honum strax aftur.

15. gr.

Veiðar göngusilungs í sjó.
     Ekki má veiða göngusilung í sjó. Slíkar veiðar eru þó heimilar í netlögum sjávarjarða og skulu þær hlíta sömu reglum og veiði silungs í ósöltu vatni eftir því sem við getur átt.
     Við veiðar göngusilungs í fastar veiðivélar í netlögum einstakra sjávarjarða skal miða við þann netafjölda sem viðkomandi fasteign hafði síðustu fimm ár fyrir gildistöku laga um lax- og silungsveiði, nr. 53/1957. Landbúnaðarstofnun skal halda skrá um framangreindan rétt sjávarjarða til netaveiði í netlögum og sinna eftirliti með þeim veiðum í samræmi við ákvæði laga þessara.
     Á tímabilinu 1. apríl til 1. október ár hvert má ekki leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns, sem fiskur gengur í, en 1.500 metra ef meðalvatnsmagn ár er innan við 25 m 3 á sekúndu en 2.000 metra ef vatnsmagnið er meira. Gangi lax í straumvatn má þó aldrei leggja net né hafa ádrátt í sjó nær en 2.000 metra. Á framangreindu tímabili má ekki leggja net né hafa ádrátt í sjó nær hafbeitarstöð í starfrækslu en 1.500 metra.
     Ef stangveiði er stunduð í netlögum sjávarjarða á svæðum þeim sem tilgreind eru í 3. mgr. er eiganda sjávarjarðar skylt að hafa fullt samráð við veiðifélög eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki er veiðifélag, og eigendur viðkomandi hafbeitarstöðvar.
     Landbúnaðarstofnun er að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni veiðifélaga eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög, sem hagsmuna eiga að gæta heimilt með reglum að takmarka eða banna á tilteknum svæðum og um tiltekinn tíma veiði silungs samkvæmt grein þessari, ef slíkt er nauðsynlegt, til þess að tryggja fiskigengd í nærliggjandi veiðivötn.
     Ef sannað þykir að takmarkanir skv. 5. mgr. hafi í för með sér tjón á fjárhagslegum hagsmunum eiganda sjávarjarðar skulu þeir bæta honum tjónið sem takmörkunin er til hagsbóta fyrir. Bætur skulu ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara.
     Landbúnaðarstofnun setur nánari reglur um netaveiði göngusilungs í sjó.

16. gr.

Takmarkanir á veiði sjávarfiska.
     Að fenginni heimild sjávarútvegsráðuneytisins getur Landbúnaðarstofnun að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni veiðifélags eða veiðiréttarhafa takmarkað eða bannað veiði sjávarfiska framan við árósa straumvatna ef sýnt þykir að slíkar veiðar geti spillt fiskigengd í viðkomandi veiðivötn eða að slíkt er af öðrum ástæðum nauðsynlegt til verndar fiskstofnum veiðivatnsins. Áður en gripið er til slíkrar takmörkunar eða banns skal leita umsagnar Veiðimálastofnunar.
     Ef sannað þykir að takmarkanir skv. 1. mgr. á veiðum innan netlaga hafi í för með sér tjón á fjárhagslegum hagsmunum tiltekins landeiganda skulu þeir bæta tjónið sem takmörkunin er til hagsbóta fyrir. Bætur skulu ákvarðaðar með mati skv. VII. kafla laga þessara.

17. gr.

Veiðitími lax.
     Laxveiðar eru heimilar á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert, en þó aðeins í 105 daga innan þess tímabils. Landbúnaðarstofnun er heimilt, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, að lengja veiðitíma í allt að 120 daga og allt til 31. október ár hvert í þeim veiðivötnum þar sem fyrst og fremst er veitt úr stofnum sem viðhaldið er með viðvarandi sleppingu seiða. Þá er Landbúnaðarstofnun, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilt að lengja um allt að fimmtán daga veiðitímabil skv. 1. málsl. í þeim veiðivötnum þar sem öllum laxi er sleppt.
     Á veiðitíma þeim sem um getur í 1. mgr. skal lax vera friðaður fyrir allri veiði a.m.k. 84 stundir í viku hverri. Netaveiði má aldrei stunda frá föstudagskvöldi klukkan 22 til þriðjudagsmorguns klukkan 10.
     Ef lax veiðist á tímabilinu frá 1. apríl og þar til veiðitími skv. 1. mgr. hefst er skylt að sleppa slíkum fiski.
     Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
     Í reglum skv. 4. mgr. er m.a. heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
  1. fjölda veiðidaga skv. 1. mgr.,
  2. takmarkanir á notkun tiltekinna veiðitækja á ákveðnum tímabilum,
  3. ákvörðun um daglegan veiðitíma,
  4. ákvörðun um mörk veiðisvæða.


18. gr.

Veiðitími göngusilungs.
     Veiðar göngusilungs eru heimilar frá 1. apríl til 10. október ár hvert, en í veiðivatni, þar sem megnið af veiðinni er villtur laxastofn, skulu lok veiðitíma miðast við 30. september ár hvert. Þó getur Landbúnaðarstofnun, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilað stangveiðar utan þess veiðitíma í veiðivötnum þar sem slíkar veiðar hafa verið stundaðar.
     Á veiðitíma þeim sem um getur í 1. mgr. skal göngusilungur vera friðaður gegn allri veiði 84 stundir í viku hverri. Netaveiði má aldrei stunda frá föstudagskvöldi klukkan 22 til þriðjudagsmorguns klukkan 10.
     Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
     Í reglum skv. 3. mgr. er m.a. heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
  1. fjölda veiðidaga skv. 1. mgr. vegna dorgveiði,
  2. takmarkanir á notkun tiltekinna veiðitækja á ákveðnum tímabilum,
  3. ákvörðun um daglegan veiðitíma,
  4. ákvörðun um mörk veiðisvæða.


19. gr.

Veiðitími vatnasilungs.
     Veiðar á vatnasilungi eru heimilar frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
     Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
     Í reglum skv. 2. mgr. er m.a. heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
  1. alfriðun veiðivatns um tiltekið tímabil,
  2. tímabundna friðun innan veiðitímabils, t.d. um ákveðinn daga- eða vikufjölda,
  3. takmarkaðar veiðar til heimilisþarfa á friðunartíma,
  4. friðun vatnasilungs á hrygningarstöðvum,
  5. ákvörðun um mörk veiðisvæða.


20. gr.

Álaveiðar.
     Álaveiðar eru heimilar allt árið. Að álaveiðum skal jafnan þannig staðið að veiðar og gengd lax og silungs spillist eigi.
     Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur. Í slíkum reglum skal m.a. kveðið á um tíma- eða staðbundnar friðanir áls og gerð og frágang heimilla veiðitækja.

21. gr.

Ósaveiðar.
     Eigi má veiða fisk með föstum veiðivélum í ósum í ár eða ósum í stöðuvötn og eigi 100 metra upp frá slíkum ósum eða 250 metra niður frá þeim. Eigi má heldur veiða fisk með föstum veiðivélum í ósum úr stöðuvötnum þeim er lax eða göngusilungur fer um né 50 metra upp eða niður frá slíkum ósum.
     Landbúnaðarstofnun getur, að ósk hlutaðeigandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, bannað eða takmarkað umfram það sem greinir í 1. mgr. alla veiði eða tilteknar veiðiaðferðir, þar með talið stangveiði, upp eða niður frá ósi, enda þyki slíkt nauðsynlegt vegna fiskigengdar og viðhalds veiði í vatninu.
     Bann eða takmörkun veiði skv. 2. mgr. skal vera tímabundin, sé þess kostur. Ef sannað þykir að slíkt bann eða takmörkun valdi tilteknum veiðiréttarhafa tjóni umfram aðra skulu þeir veiðiréttarhafar við viðkomandi veiðivatn, sem bannið eða takmörkunin er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir, bæta tjónið á grundvelli mats skv. VII. kafla laga þessara.

22. gr.

Gönguhelgi.
     Í straumvatni eða hluta straumvatns þar sem veiði er stunduð með föstum veiðivélum skal fiskur eiga frjálsa för eftir miðju vatni og nefnist þar gönguhelgi.
     Gönguhelgi tekur yfir þriðjung af breidd straumvatns um miðbik og ósasvæði skv. 1. mgr. 21. gr. Þó skal fiskur eiga frjálsa för eftir aðalstraumlínu, þótt skemmra liggi frá bakka en nemur þriðjungi af breidd vatns.
     Nú rennur straumvatn í kvíslum og skal þá haga veiði í hverri kvísl sem hún væri sérstakt vatn.
     Nú greinir menn á um gönguhelgi eða aðalstraumlínu og skal þá skorið úr með mati skv. VII. kafla laga þessara.

23. gr.

Veiðar við fiskvegi.
     Ekki má veiða eða styggja fisk í fiskvegi eða fiskteljara nær neðra mynni þeirra en 30 metrum og ekki nær efra mynni þeirra en 20 metrum. Ekki má spilla fiskvegum eða fiskteljurum eða tálma með nokkrum hætti fiskför að þeim né um þá.Veiðifélagi er þó heimilt, með samþykki Landbúnaðarstofnunar, að setja aðrar reglur um veiðar í námunda við fiskvegi.

24. gr.

Svæðisbundin friðun lax og göngu- og vatnasilungs.
     Ef nauðsyn ber til að draga úr veiði eða friða heilt vatn eða hluta þess um tiltekinn tíma gegn allri veiði eða takmarka einstakar veiðiaðferðir í vatninu til verndar fiskstofnum þess getur Landbúnaðarstofnun sett reglur um slíka friðun, að fenginni tillögu eða umsögn Veiðimálastofnunar. Áður en slíkar reglur eru settar skal jafnan leita umsagnar viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki er veiðifélag.
     Með sömu skilmálum og greinir í 1. mgr. er Landbúnaðarstofnun heimilt að setja reglur um friðun tiltekinna svæða í vatni, þar sem fiskur safnast saman til hrygningar, eða vegna fyrirstöðu á göngu, enda sé það mat Veiðimálastofnunar að veiði á þeim stöðum sé skaðleg fiskstofnum vatnsins.
     Friðun skv. 2. mgr. getur ýmist verið bundin við tiltekinn tíma eða ótímabundin. Ef sannað þykir að bann eða takmörkun valdi tilteknum veiðiréttarhafa tjóni umfram aðra skulu þeir veiðiréttarhafar við viðkomandi veiðivatn, sem bannið eða takmörkunin er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir, bæta tjónið. Ef eigi semst skal ákveða bætur með mati skv. VII. kafla laga þessara.

25. gr.

Eyðing fisks.
     Ef rétt þykir að eyða fiski eða lagardýrum úr veiðivatni vegna sjúkdóma eða sníkjudýra getur Landbúnaðarstofnun heimilað slíkt. Skal áður aflað umsagnar viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög, Veiðimálastofnunar, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og fisksjúkdómanefndar. Ef nauðsyn ber til skal kveða á um notkun tiltekinna efna við eyðingu fiskstofnsins, með þeim skilyrðum sem þurfa þykir.

26. gr.

Veiðar í klak- og vísindaskyni og merkingar vatnafiska.
     Heimilt er veiðifélögum að veiða lax eða silung til hrognatöku vegna fiskræktar enda liggi fyrir samþykkt fiskræktaráætlun, sbr. lög um fiskrækt. Þá getur Landbúnaðarstofnun heimilað veiðiréttarhöfum, þar sem ekki er veiðifélag, að veiða lax eða silung til hrognatöku í sama skyni. Eru slíkar veiðar undanþegnar ákvæðum III. og IV. kafla laga þessara en um nánari framkvæmd þeirra fer eftir lögum um fiskrækt.
     Landbúnaðarstofnun getur heimilað þeim er rannsóknir stunda á lífríki ferskvatns veiðar ferskvatnsfiska í vísindaskyni, þar með talið í eignarlöndum. Eru slíkar veiðar undanþegnar ákvæðum III. kafla laga þessara um veiðistjórn og ákvæðum IV. kafla um veiðitæki og veiðiaðferðir.
     Til veiða í vísindaskyni þarf veiðiskírteini sem Landbúnaðarstofnun gefur út á nafn einstaklings, eða stofnunar ef rannsóknir eru stundaðar á hennar vegum. Landbúnaðarstofnun er heimilt að gera ákveðnar kröfur um færni og kunnáttu þeirra sem óska eftir veiðiskírteini. Skal skírteinið gilda tímabundið. Að jafnaði skal tiltekið til hverra veiðivatna rannsókn tekur. Ef sérstaklega stendur á, t.d. þar sem rannsóknir eru stundaðar á landsvísu eða afmörkuðum svæðum landsins, er ekki þörf slíkrar tilgreiningar. Veiðar í vísindaskyni skulu, eftir því sem kostur er, stundaðar í samráði við veiðifélög eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög.
     Handhafa veiðiskírteinis er ekki heimilt að hagnýta sér í eigin þágu þann fisk sem veiddur er í vísindaskyni. Veiðiréttarhafa er heimilt að hagnýta sér aflann, en ber að öðru leyti ekki endurgjald vegna slíkrar veiði.
     Landbúnaðarstofnun veitir heimildir til merkinga á vatnafiskum með skilyrðum sem hún setur og heldur gagnabanka um merkingar. Eigendur veiðiréttar og þeir sem veiði stunda skulu skila merkjum til Landbúnaðarstofnunar, í samræmi við reglur sem stofnunin setur.
     Landbúnaðarstofnun getur sett reglur um upprunamerkingu á þeim laxi sem boðinn er til sölu og gert sérstakar kröfur um merkingar á stangveiddum slátruðum laxi sem veiddur er í ám. Landbúnaðarstofnun leggur þá til slík merki, hagsmunaaðilum að kostnaðarlausu.

IV. KAFLI
Um veiðitæki og veiðiaðferðir.

27. gr.

Veiðitæki og veiðiaðferðir í straumvatni.
     Í straumvatni má við veiðar aðeins nota færi, stöng, lagnet og króknet.
     Ekki má í straumvatni veiða fisk með krók eða sting eða í háf. Þó má nota þessi tæki til þess að bjarga á land fiski sem fastur er á öngli eða í neti. Ekki má veiða fisk með því að veita af honum vatni.
     Landbúnaðarstofnun getur, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilað veiðifélagi eða veiðiréttarhafa ádráttarveiði á göngusilungi á veiðisvæði sínu. Ádráttarveiði á laxi er einungis heimil í vísindaskyni og til öflunar klakfisks. Landbúnaðarstofnun er einnig heimilt að leyfa veiði með girðingum og kistum þar sem sérstaklega hagar til, enda setji hún með sama skilorði ákvæði um gerð og notkun þessara veiðitækja umfram það sem segir í lögum þessum.
     Ekki er heimilt að stunda samhliða veiði á stöng og veiði með föstum veiðivélum eða ádrætti á sama svæði í straumvatni eða svæði stöðuvatns þar sem göngufiskur fer um.

28. gr.

Fastar veiðivélar í straumvatni.
     Lagnet og króknet skulu liggja frá bakka eða garði er gengur þvert á straum út frá bakka, beint út í straumvatn eða forstreymis. Leiðara má hafa frá krók, og telst hann hluti veiðivélar. Ekki má leggja lagnet svo að af verði gildra, og ekki má nota tvöföld net.
     Á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert mega net þau er í 1. mgr. greinir, á þeim svæðum sem lax gengur um, ekki vera smáriðnari en svo að 4,5 cm séu á milli hnúta, þegar net eru vot, og á sama við um leiðara frá krókneti eða öðrum föstum veiðivélum.
     Veiðifélag setur reglur um gerð og möskvastærð silungsveiðineta á félagssvæði sínu ef ætlunin er að stunda þar netaveiðar á silungi. Slíkar reglur skulu samþykktar af Landbúnaðarstofnun, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar.
     Milli fastra veiðivéla, hvort sem þær eru sömum megin í straumvatni eða ekki, skal jafnan vera hundrað metra bil eftir endilöngu vatni, þar sem skemmst er á milli þeirra. Þó má bil aldrei vera skemmra en fimmföld lengd veiðivéla frá bakka og út á vatn. Til fastrar veiðivélar telst fjarlægð hennar frá bakka straumvatns, svo og leiðari.
     Ekki má fjölga föstum veiðivélum frá því sem var síðustu fimm árin fyrir gildistöku laga nr. 53/1957, um lax- og silungsveiði. Landbúnaðarstofnun getur þó, ef sérstaklega stendur á, heimilað fjölgun lagna, enda mæli Veiðimálastofnun ekki gegn slíku.
     Ef heimil veiðitæki samkvæmt lögum þessum þykja, að mati Veiðimálastofnunar, stofna viðgangi fiskstofns í veiðivatni í hættu, er Landbúnaðarstofnun heimilt að fækka föstum veiðivélum í því vatni. Skal áður aflað umsagnar viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki er veiðifélag.
     Ef sannað þykir að ákvarðanir Landbúnaðarstofnunar skv. 5. mgr. valdi tilteknum veiðiréttarhafa tjóni umfram aðra veiðiréttarhafa í sama veiðivatni skulu þeir veiðiréttarhafar, sem ákvörðunin er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir, bæta tjónið. Skulu bætur ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara, ef eigi semur.

29. gr.

Stangveiði í straumvatni.
     Við veiði með færi og stöng skal nota agn, lifandi eða dautt, sem fiskur eltir og tekur. Aldrei má við slíka veiði nota krækjur eða neitt annað sem festir í fiski honum að óvörum og án þess að hann elti það.
     Veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um stangveiði á veiðisvæði sínu sem gilda skulu í a.m.k. átta ár. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
     Í reglum skv. 2. mgr. skal kveða á um eftirfarandi atriði:
  1. fjölda stanga sem á má veiða hverju sinni,
  2. aðra tilhögun veiði sem nauðsynleg þykir.

     Ef ágreiningur rís um skiptingu veiðitíma, veiðistaði eða endurgjald fyrir stangveiði milli veiðiréttarhafa er þeim sem telur sig vanhaldinn heimilt að krefjast mats skv. VII. kafla laga þessara, ef eigi semur.

30. gr.

Veiðitæki og veiðiaðferðir í stöðuvötnum.
     Í stöðuvatni má við veiðar aðeins nota færi, dorg, stöng, lóð, lagnet og ádráttarnet. Í almenningi stöðuvatns er ádráttarveiði þó óheimil.
     Ekki má í stöðuvatni veiða fisk með krók eða sting eða í háf. Þó má nota þessi tæki til þess að bjarga á land fiski sem fastur er á öngli eða í neti.
     Veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiði á veiðisvæði sínu. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
     Í reglum skv. 3. mgr. er m.a. heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
  1. undanþágu til notkunar annarra veiðitækja en greinir í 1. mgr.,
  2. fjölda, gerð og notkun þeirra veiðitækja sem leyfð eru,
  3. lágmarksstærð fisks sem veiða má,
  4. fjarlægð stangveiði frá föstum veiðivélum,
  5. undanþágu frá banni við ádrætti í almenningi stöðuvatns.

     Fari lax og göngusilungur um stöðuvatn skulu gilda um það sömu reglur og um straumvötn með tilliti til staðsetningar fastra veiðivéla og gönguhelgi. Að öðru leyti gilda reglur laga þessara um veiði í straumvötnum um veiði í stöðuvötnum eftir því sem við getur átt.

31. gr.

Tæki og aðferðir við veiðar göngusilungs í sjó.
     Veiða má göngusilung í netlögum sjávarjarða á færi, stöng og í lagnet. Við þær veiðar má ekki nota nein þau veiðitæki sem ætluð eru til laxveiða.

32. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um veiðitæki og veiðiaðferðir samkvæmt kafla þessum, þ.m.t. um merkingu fastra veiðivéla.
     Landbúnaðarstofnun getur með reglum heimilað notkun annarra veiðitækja og aðrar veiðiaðferðir en greinir í kafla þessum, enda telji Veiðimálastofnun að slíkt skaði hvorki lífríki vatns, fiskigengd né fiskför.

V. KAFLI
Um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í og við veiðivötn.

33. gr.

Um heimild til mannvirkjagerðar í veiðivötnum.
     Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Landbúnaðarstofnunar. Um byggingarleyfis- og framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir fer einnig samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og reglum settum samkvæmt þeim.
     Með umsókn framkvæmdaraðila eða landeiganda til Landbúnaðarstofnunar um leyfi til framkvæmda við ár og vötn skulu fylgja álit viðkomandi veiðifélags þegar það á við og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Leyfi Landbúnaðarstofnunar skal aflað áður en ráðist er í framkvæmd.
     Ef sérstök ástæða þykir til getur Landbúnaðarstofnun krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi til framkvæmdar er veitt. Landbúnaðarstofnun getur í slíkum tilvikum kveðið nánar á um til hvaða þátta úttektin skuli ná.
     Kostnaður vegna nauðsynlegra líffræðilegra úttekta skal greiddur af þeim sem óskar eftir leyfi til framkvæmda.

34. gr.

Fiskvegir.
     Landbúnaðarstofnun getur, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilað veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum, þar sem ekki er veiðifélag, að gera fiskveg eða önnur sambærileg mannvirki í vatni eða meðfram vatni. Þar sem ekki er starfandi veiðifélag þarf ósk um slíkt að koma frá a.m.k. 2/ 3 veiðiréttarhafa.
     Ráðherra getur heimilað veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum skv. 1. mgr. að taka eignarnámi land, landsafnot, vatn eða afnot vatns sem með þarf til gerðar, starfrækslu og viðhalds fiskvegar eða annarra sambærilegra mannvirkja. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati.
     Með sömu skilyrðum og greinir í 1. mgr. getur Landbúnaðarstofnun heimilað lokun fiskvegar, tímabundið eða ótímabundið.
     Ef sannað þykir að beiting heimilda skv. 1. og 3. mgr. valdi tilteknum veiðiréttarhafa tjóni umfram aðra skulu þeir veiðiréttarhafar, sem ákvörðunin er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir, bæta tjónið. Skulu bætur ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara, ef eigi semur.

35. gr.

Önnur mannvirkjagerð.
     Ef heimiluð er á grundvelli annarra laga gerð mannvirkis sem tálmar fiskför í eða við veiðivatn er þeim sem heimild fær skylt að kosta gerð og viðhald fullnægjandi fiskvegar samkvæmt ákvæðum 34. gr.
     Skylda til gerðar fiskvegar skv. 1. mgr. er ekki fyrir hendi ef sýnt er fram á með mati skv. VII. kafla laga þessara að gerð fiskvegarins og viðhald hafi til muna meiri kostnað í för með sér en sem nemur tjóni á veiði þeirra veiðiréttarhafa sem land eiga að veiðivatni ofan mannvirkis. Tjón þeirra skal hins vegar sá bæta að fullu er heimild fær til mannvirkjagerðar.
     Ef vatni er veitt úr eða í veiðivatn til áveitu, vatnsveitu, vatnsaflsvirkjana eða annarra nota, sem ekki tengjast veiði eða fiskför, getur Landbúnaðarstofnun sett það skilyrði að svo sé búið um hnútana að fiskur eða fiskseiði gangi ekki í skurði eða leiðslur. Kostnað, er af slíku hlýst, skal sá greiða er á eða hagsbóta nýtur af framkvæmdinni.
     Hafi vatnsmiðlun áhrif á vatnsmagn í veiðivatni skal ávallt haga henni þannig að sem minnst röskun hljótist af fyrir lífríki, fiskför og veiði. Rekstraraðila miðlunar er skylt að hafa samráð við veiðifélag eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki er veiðifélag, um vatnsmagnsbreytingar sem fyrirhugaðar eru á hverjum tíma og líklegar eru til að hafa áhrif á fiskför.

36. gr.

Skaðabætur.
     Ef sannað þykir að framkvæmd eða mannvirkjagerð í eða við veiðivatn spilli fiskigengd, lífríki veiðivatns eða öðrum þeim hagsmunum sem verndar njóta samkvæmt lögum þessum og slíkt veldur tilteknum veiðiréttarhafa tjóni, skal sá aðili er að framkvæmd stendur bæta tjónið. Skulu bætur ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara, ef eigi semur.

VI. KAFLI
Um veiðifélög.

37. gr.

Starfsvettvangur veiðifélags og félagsaðild.
     Í því skyni að markmiðum laga þessara skv. 1. gr. verði náð er mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi. Hlutverk slíks félags er m.a. eftirfarandi:
  1. að sjá til þess að reglum laga þessara og samþykktum viðkomandi félags um veiðistjórnun og veiðiaðferðir sé framfylgt á félagssvæðinu,
  2. að stunda fiskrækt á félagssvæðinu, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra,
  3. að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra,
  4. að ráðstafa rétti til stangveiði í fiskihverfi í heild eða að hluta með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, en þó þannig að gætt sé markmiða laganna um sjálfbæra nýtingu,
  5. að hafa að öðru leyti með höndum verkefni þau sem því eru falin í lögunum og varða framkvæmd þeirra.

     Félagsmenn veiðifélags eru allir þeir sem skráðir eru veiðiréttarhafar á félagssvæðinu skv. 12. gr., en um atkvæðisrétt þeirra fer skv. 40. gr.
     Veiðifélag sem starfar samkvæmt lögum þessum skal taka til allrar veiði í umdæmi félagsins og eftir stofnun þess er öllum óheimilt að veiða í vatni á félagssvæðinu nema samkvæmt heimild frá félaginu.
     Hafi veiðifélag ráðstafað í heild stangveiði á félagssvæði sínu er einstökum félagsmönnum skylt að veita aðgang að veiðistöðum fyrir landi sínu. Ávallt skulu þeir sem aðgengis njóta gæta þess að valda sem minnstri röskun á hagsmunum félagsmanns.
     Ef nýr aðili tekur við veiðirétti skv. II. kafla laga þessara fyrir afsal eða á grundvelli ábúðarsamnings er þeim aðila skylt að gerast félagsmaður í veiðifélagi og taka á sig skuldbindingar fráfarandi félagsmanns.
     Sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyra þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga, og í arðskrárhlutfalli.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um starfsemi veiðifélaga svo sem nánar er kveðið á um í kafla þessum.

38. gr.

Umdæmi veiðifélags.
     Umdæmi veiðifélags getur náð yfir heilt fiskihverfi, einstakt veiðivatn í fiskihverfi, hluta af veiðivatni, þar sem sérstaklega hagar til um veiði eða vatnskosti, eða veiðivötn á afrétti sem eru hluti af einu eða fleiri fiskihverfum og eru á sama landsvæði.
     Landbúnaðarstofnun skal ákveða umdæmi veiðifélags að höfðu samráði við veiðiréttarhafa á væntanlegu félagssvæði.
     Ef veiði hefst fyrir eða á landi fasteignar, sem liggur að fiskihverfi veiðifélags en er utan félagssvæðis, skal sú fasteign tilheyra félagssvæðinu, og er viðkomandi veiðiréttarhafa skylt að gerast félagi.
     Ef félagssvæði er hluti straumvatns skal umdæmi félags ná svo langt upp með vatninu sem veiði er stunduð, nema sérstaklega standi á, t.d. vegna fiskræktar.

39. gr.

Stofnun veiðifélags.
     Þar sem ekki er starfandi veiðifélag fyrir geta einn eða fleiri veiðiréttarhafar átt frumkvæði að stofnun veiðifélags og boðun stofnfundar, en að þeim frátöldum Landbúnaðarstofnun.
     Til stofnfundar skal boða alla þekkta veiðiréttarhafa á fyrirhuguðu félagssvæði, sbr. 12. gr. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um boðun stofnfundar og dagskrá hans. Til annarra funda en stofnfundar í veiðifélagi skal boða með sama hætti.
     Á stofnfundi skal setja veiðifélagi samþykktir sem hafa a.m.k. að geyma ákvæði um:
  1. nafn félags,
  2. heimilisfang og varnarþing,
  3. félagssvæði og skulu þar taldar upp allar þær fasteignir eða einstaklingar og lögaðilar sem veiðiréttindi eiga skv. II. kafla laga þessara,
  4. verkefni félagsins,
  5. skipun og starfssvið félagsstjórnar,
  6. málsmeðferðarreglur, reikninga félags og endurskoðun,
  7. skyldu til framlagningar fjárhagsáætlunar fyrir komandi starfsár á aðalfundi félags,
  8. meðferð afla félags eða arðs og greiðslu kostnaðar af starfsemi félags.
Ráðherra skal í reglugerð setja veiðifélögum fyrirmynd að samþykkt í samræmi við efni málsgreinar þessarar.
     Í samþykktum má ákveða að félag skuli starfa í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Hver deild ráðstafar þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setur.
     Atkvæði 2/ 3 hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna þarf til þess að samþykktir séu löglega gerðar eða þeim breytt. Sé fundarsókn ekki næg skal boða til annars fundar með sama hætti og að framan greinir, og ræður þar afl atkvæða.
     Hafi veiðifélag ekki sett sér lögmætar samþykktir, þrátt fyrir ákvæði greinar þessarar, getur Landbúnaðarstofnun sett félagi samþykktir sem gilda þar til lögmætar samþykktir hafa verið settar af félaginu sjálfu.
     Sá er vefengja vill lögmæti stofnaðs veiðifélags getur borið ágreining þar að lútandi undir dómstóla innan sex mánaða frá stofnfundi.
     Samþykkt skv. 3. mgr. skal staðfest af Landbúnaðarstofnun og birt í B-deild Stjórnartíðinda eftir að málskotsfrestur skv. 7. mgr. er liðinn.

40. gr.

Atkvæðisréttur í veiðifélagi.
     Á félagssvæði veiðifélags fylgir eitt atkvæði hverri jörð sem veiðirétt á í samræmi við ákvæði laga þessara. Hið sama gildir um veiðifélag sem einungis tekur til veiðivatna á afréttum í þjóðlendu. Með jörð í framangreindum skilningi er átt við þær jarðir sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976.
     Ef eigendur jarðar eða veiðiréttar eða ábúendur jarðar eru fleiri en einn skulu þeir gera með sér skriflegan samning um það hver fari með atkvæðisréttinn og skal það tilkynnt veiðifélagi með sannanlegum hætti. Hið sama gildir þegar jörð hefur löglega verið skipt í ákveðnum hlutföllum milli eigenda.
     Þegar sameinaðar hafa verið jarðir, sem veiðirétt hafa, fylgir eitt atkvæði hinni sameinuðu jörð.
     Þegar veiðiréttur hefur löglega verið skilinn frá jörð, eða land hefur verið fellt úr tölu jarða með samþykki réttra yfirvalda, skal eitt atkvæði koma fyrir þá jörð eða það land sem veiðirétturinn tilheyrði upphaflega.
     Ef landareign er leigð samkvæmt ábúðarlögum skal ábúandi fara með atkvæðisrétt ábúðarjarðar sinnar, nema á annan veg hafi verið samið, sbr. 3. mgr. 5. gr.
     Félagsmaður má fela öðrum að fara með atkvæði sitt, enda sé umboðið skriflegt og ekki eldra en þriggja mánaða. Geta skal umboðsins í fundargerðabók.
     Ef lagt er fyrir fund í veiðifélagi að ráðast vegna starfsemi félagsins í framkvæmdir, sem hafa fjárútlát í för með sér er nema a.m.k. 25% af tekjum félags af veiði á því starfsári, getur hver félagsmaður krafist þess að ákvörðun ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Gildir þá hver eining í arðskrá sem eitt atkvæði. Í samþykktum veiðifélags er heimilt að ákveða að regla þessi um atkvæðagreiðslur gildi í fleiri tilgreindum tilvikum sem varða ákvarðanatöku í veiðifélagi.
     Um málefni, sem ekki er sérstaklega kveðið á í lögum eða samþykktum félags, ræður afl atkvæða.

41. gr.

Arðskrá.
     Veiðifélagi er skylt að láta gera skrá er sýni hluta þann af veiði eða arð af veiði sem koma skal í hlut hverrar fasteignar, lögaðila eða einstaklings er veiðirétt á í vatni á félagssvæði.
     Við niðurjöfnun veiði eða úthlutun arðs af henni skal m.a. taka tillit til:
  1. aðstöðu til netaveiði og stangveiði,
  2. landlengdar að veiðivatni, vatnsmagns og stærðar vatnsbotns og
  3. hrygningar- og uppeldisskilyrða fisks.

     Arðskrá skal leggja fram til samþykktar eða synjunar félagsmanna á löglega boðuðum félagsfundi. Um arðskrá skal greiða atkvæði, og þarf atkvæði 2/ 3 hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna til samþykktar henni. Sé fundarsókn ekki næg skal boða til annars fundar með sama hætti og að framan greinir, og ræður þá afl atkvæða.
     Ef arðskrá er ekki samþykkt ber stjórn veiðifélags að óska eftir mati skv. VII. kafla laga þessara um þau atriði sem greinir í 1. mgr. Einnig er sérhverjum félagsmanni rétt að krefjast mats með framangreindum hætti, enda komi sú krafa fram innan tveggja mánaða frá fundi þar sem arðskrá hefur verið samþykkt.
     Arðskrá skv. 1.–4. mgr. skal staðfest af Landbúnaðarstofnun og birt í B-deild Stjórnartíðinda eftir að málskotsfrestur skv. 4. mgr. er liðinn. Tekur hún gildi tveimur mánuðum eftir slíka birtingu. Komi fram krafa um mat gildir eldri arðskrá ef henni er til að dreifa þar til matsgerð skv. VII. kafla laga þessara liggur fyrir og arðskrá á grundvelli hennar hefur verið staðfest og birt.
     Heimilt er veiðifélagi samkvæmt ákvörðun félagsfundar eða stjórnar, svo og einstökum félagsmönnum, að krefjast endurskoðunar á arðskrá átta árum eftir gildistöku hennar.
     Nánari fyrirmæli um arðskrár skal ráðherra setja í reglugerð.

42. gr.

Nánari ákvæði um starfshætti veiðifélags.
     Kostnað af starfsemi veiðifélags skulu félagsmenn greiða í því hlutfalli sem þeir taka arð.
     Félagsstjórn skal senda Landbúnaðarstofnun samþykktir viðkomandi veiðifélags og arðskrá til staðfestingar.
     Skylt er stjórn veiðifélags að gefa Landbúnaðarstofnun skýrslu um starfsemi félagsins og þau atriði önnur sem stofnunin kann að óska eftir og henni eru nauðsynleg við framkvæmd laga þessara.
     Aðalfund veiðifélags skal halda árlega fyrir 1. júní ár hvert og aukafundi eftir þörfum. Boði félagsstjórn ekki til aðalfundar fyrir 1. september ár hvert er þeim sem fund vilja halda heimilt að boða hann. Nánari ákvæði um slíka fundi skal ráðherra setja í reglugerð.

43. gr.

Kæruheimild.
     Nú greinir félagsmenn veiðifélags á um lögmæti ákvörðunar sem tekin hefur verið á fundi veiðifélags eða af félagsstjórn og getur þá hver félagsmaður kært ákvörðunina til Landbúnaðarstofnunar innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun var tekin.
     Landbúnaðarstofnun skal hafa lokið afgreiðslu máls innan tveggja mánaða frá því að kæra barst.
     Reynist hin kærða ákvörðun ólögmæt fellir Landbúnaðarstofnun hana úr gildi. Ákvörðun Landbúnaðarstofnunar samkvæmt þessari grein verður ekki kærð til ráðherra.

VII. KAFLI
Um matsgerðir og skaðabætur.

44. gr.

Skipan matsnefndar o.fl.
     Landbúnaðarráðherra skipar þrjá menn og jafnmarga til vara í matsnefnd til fjögurra ára í senn. Tveir skulu skipaðir að tilnefningu Hæstaréttar Íslands og skulu þeir uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Einn nefndarmaður skal skipaður að tilnefningu stjórnar Landssambands veiðifélaga. Nefndin skiptir með sér störfum. Annar þeirra nefndarmanna sem Hæstiréttur tilnefnir skal vera formaður nefndarinnar.
     Ráðherra er heimilt að framlengja starfstíma matsnefndar um sex mánuði til þess að ljúka þeim málum sem nefndin hafði til meðferðar þegar ráðherra skipar nýja menn í nefndina.
     Heimilt er matsnefndinni að kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar ef þörf þykir. Henni er einnig heimilt að leita eftir áliti eða rannsóknum sérfræðinga eða rannsóknastofnana á lífríki vatns þar sem það hefur þýðingu fyrir úrlausn máls.
     Ráðherra ákveður tímagjald matsmanna og starfsmanns nefndarinnar. Laun og annar kostnaður af starfsemi matsnefndar greiðist með fjárveitingum af fjárlögum. Við ákvörðun matskostnaðar skv. 47. gr. skal miðað við að hann standi almennt undir kostnaði af starfsemi matsnefndarinnar.
     Matsnefnd er heimilt að ráða sér starfsmann.

45. gr.

Beiðni um úrskurð eða matsgerð.
     Ef félagsmenn í veiðifélagi greinir á um arðskrá verður ágreiningi þar að lútandi skotið til matsnefndar í samræmi við 4. og 6. mgr. 41. gr.
     Nú greinir menn á um hvar um sé að tefla sjó, straumvatn, stöðuvatn, á, ós, ósasvæði, kvísl, ál eða takmörk fiskihverfis og er þá heimilt að bera ágreininginn undir úrskurð matsnefndar.
     Matsnefnd fer að auki með önnur þau verkefni sem henni eru falin lögum samkvæmt.
     Beiðni um úrskurð um ágreiningsefni skal vera skrifleg og skal ágreiningsefnið skýrt afmarkað. Beiðninni skulu fylgja öll nauðsynleg gögn.

46. gr.

Málsmeðferð.
     Matsnefnd skal ákveða fyrirtöku máls með a.m.k. viku fyrirvara með skriflegri tilkynningu til veiðifélags og eigenda veiðiréttar, sem málið beinlínis varðar, í ábyrgðarbréfi, símskeyti eða með öðrum tryggilegum hætti. Matsnefnd getur þess í stað óskað eftir því við hlutaðeigandi veiðifélag að það annist tilkynningu til allra eigenda veiðiréttar um fyrirtöku máls. Ef ekki þykir nægilega ljóst fyrir fram hvaða aðilar eigi beinna hagsmuna að gæta skal birta tilkynningu um fyrirtöku máls í Lögbirtingablaði.
     Við fyrstu fyrirtöku máls skal skorað á aðila að upplýsa hvort þeir geri athugasemdir við hæfi nefndarmanna til meðferðar máls. Þá skal og farið yfir afmörkun ágreiningsefnis sem til úrlausnar er og ákvarðar nefndin það nánar sé ástæða til.
     Um meðferð máls fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga sé ekki á annan veg mælt fyrir í lögum þessum.
     Matsnefnd skal ganga á vettvang að tilkvöddum málsaðilum samkvæmt ákvörðun nefndarinnar.
     Matsnefnd skal í rökstuddum skriflegum úrskurði gera grein fyrir niðurstöðu sinni. Form og efni úrskurðarins skal vera í samræmi við 31. gr. stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Úrskurð skal birta með sama hætti og segir í 1. mgr.

47. gr.

Kostnaður af matsgerð.
     Í úrskurði matsnefndar skal kveðið á um kostnað af meðferð máls og skiptingu hans á aðila og rennur hann í ríkissjóð. Veiðifélag skal að jafnaði bera kostnað af endurskoðun arðskrár.
     Til málskostnaðar telst allur kostnaður af matinu, þ.m.t. laun matsmanna samkvæmt tímaskýrslu og sérfræðinga skv. 3. mgr. 44. gr., ferðakostnaður og annar kostnaður, svo og laun starfsmanns nefndarinnar samkvæmt tímaskýrslu.

48. gr.

Úrskurðir matsnefndar og málshöfðunarfrestur.
     Matsnefnd skv. 1. mgr. 44. gr. er sjálfstæð í störfum sínum og verður úrskurðum hennar ekki skotið til annarra stjórnvalda.
     Vilji aðili bera úrskurð nefndarinnar undir dómstóla skal hann höfða mál innan sex mánaða frá því að honum var birtur úrskurður nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum úrskurðar.

49. gr.

Bótaskyld skerðing á veiðirétti.
     Nú hafa lagaákvæði leitt til þess að veiði veiðieiganda skerðist verulega og að mun umfram aðra eigendur veiði í sama fiskihverfi, og á hann þá rétt til bóta úr ríkissjóði eftir mati.
     Nú leiðir ákvörðun veiðifélags um veiði og friðun til þess að veiðieigandi verður að mun öðrum fremur fyrir tjóni og á hann þá rétt til bóta úr hendi annarra veiðieigenda á félagssvæðinu, á meðan sú ákvörðun gildir. Skulu bætur þessar vera árgjald sem ákveðið er með mati, ef ekki semur. Ákveða má þeim er tjón hefur beðið bætur með því að úthluta honum arði í arðskrá. Stjórn veiðifélags er skylt að annast innheimtu bóta á félagssvæðinu.
     Um ákvörðun bótafjárhæðar, greiðslu bóta og endurgjald, er greinir í lögum þessum, skal eftir því sem við á fara eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.

VIII. KAFLI
Refsi- og réttarfarsákvæði.

50. gr.

Um refsingar.
     Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef miklar sakir eru, ef:
  1. hann veiðir án leyfis í vatni annars manns,
  2. hann er staðinn að því að vera með veiðarfæri við veiðivatn annars manns fyrir utan venjulega vegi, nema sannað sé að hann hafi átt þar lögmæt erindi,
  3. hann veiðir á tíma þegar veiði er bönnuð eða á stöðum þar sem veiði er bönnuð,
  4. hann notar veiðitæki eða veiðiaðferðir sem bannað er að nota eða fylgir ekki settum reglum um tilhögun veiðitækja eða um veiðiaðferð,
  5. hann veiðir fisk sem er minni en leyft er að veiða eða sleppir ekki veiddum fiski er sleppa skal,
  6. hann brýtur ákvæði 1. eða 3. mgr. 27. gr., 28. gr., 1. mgr. 29. gr., 1. eða 2. mgr. 30. gr.,
  7. hann spillir fiskvegi eða tálmar á ólögmætan hátt fiskför um vatn,
  8. hann notar sprengiefni, skotvopn, rafmagn, eitruð efni eða deyfandi eða veitir vatni af fiski við veiði,
  9. hann hlítir ekki settum reglum um veiðifélög eða samþykktum þeirra.


51. gr.

Um fullframningarstig brota.
     Brot þau er getur í c-, d- og h-liðum 50. gr. teljast fullframin jafnskjótt og veiðarfæri er komið að veiðistað, nema sannað sé að það hafi verið flutt þangað í lögmætum tilgangi.

52. gr.

Um skaðabótarétt brotaþola.
     Nú veiðir maður án leyfis í vatni annars manns, og skal sá er misgert var við fá allt veiðifang eða andvirði þess auk bóta fyrir annað tjón sem hann kann að hafa orðið fyrir.

53. gr.

Um upptöku veiðitækja og ólöglegs afla.
     Ólögleg veiðitæki og veiðitæki, sem notuð eru með ólöglegum hætti, skulu gerð upptæk. Eins fer um ólöglegt veiðifang, sbr. þó 52. gr.

54. gr.

Um ráðstöfun sektarfjár.
     Sektir samkvæmt lögum þessum og andvirði upptækra veiðitækja renna í ríkissjóð.

55. gr.

Stjórnvaldssektir.
     Lögregla og Landhelgisgæsla Íslands geta lagt stjórnvaldssekt að fjárhæð 50.000 kr. á skipstjóra eða hvern þann sem veitt hefur lax í sjó og af ásetningi eða gáleysi ekki sleppt honum strax aftur. Ef brot er stórfellt má leggja á hinn brotlega 200.000 kr. stjórnvaldssekt. Sektir samkvæmt þessari grein renna í Landhelgissjóð Íslands.

IX. KAFLI
Gildistaka o.fl.

56. gr.

Gildistaka o.fl.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006.
     Ákvæðum VII. kafla skal einvörðungu beitt um mál sem koma til meðferðar matsnefndar eftir gildistöku laganna. Sé mál endurupptekið eftir gildistöku laga þessara skal beita lögunum um þau mál upp frá því.
     Þau mál sem eru til meðferðar hjá matsmönnum og yfirmatsmönnum skv. 2. og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, þegar lög þessi taka gildi, skal til lykta leiða af þeim matsmönnum samkvæmt ákvæðum laga nr. 76/1970, með síðari breytingum.
     Mati skv. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, má skjóta til matsnefndar áður en liðnir eru tveir mánuðir frá birtingu mats.
     Mat skv. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, verður borið undir matsnefnd í samræmi við ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga þessara.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi 1.–22. gr., 24.–61. gr., 85.–89. gr., 1. mgr. 90. gr., 95. og 96. gr. og 101.– 110. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

57. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Lög um Landbúnaðarstofnun, nr. 80/2005:
    1. E-liður 2. gr. fellur brott.
    2. Á eftir 4. gr. kemur ný grein, svohljóðandi:
    3.      Landbúnaðarstofnun skipar eftirlitsmenn með veiði samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði þar sem þurfa þykir enda æski þess veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, og greiði kostnað af eftirlitinu. Á sama hátt skipar Landbúnaðarstofnun eftirlitsmann með klaköflun þar sem þurfa þykir og greiðir viðkomandi klakleyfishafi kostnað sem af þessu leiðir.
           Landbúnaðarstofnun er heimilt að skipa eftirlitsmenn með því að bann við laxveiðum í sjó sé virt. Kostnaður við störf þeirra greiðist úr ríkissjóði.
           Eftirlitsmenn skulu hafa nákvæmar gætur á því að veiði í umdæmi þeirra sé stunduð með löglegum hætti. Þeir safna skýrslum, m.a. skulu þeir gera skrár um veiðivélar, lagnir og drætti í umdæmum sínum og sjá um merkingu veiðarfæra. Nánari fyrirmæli um starfsemi eftirlitsmanna setur Landbúnaðarstofnun í erindisbréfi.
           Landbúnaðarstofnun gefur út skírteini handa eftirlitsmönnum.
           Eftirlitsmenn skulu eiga frjálsa för um veiðivatn, meðfram því og um netlög í sjó eftir því sem þörf krefur. Þeir hafa vald til að taka upp ólögleg veiðitæki eða veiðitæki sem notuð eru á óleyfilegum tíma eða óleyfilegum stað.
  2. Lög um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002: Í stað orðanna „sbr. lög nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. kemur: eða Landbúnaðarstofnun ef ekki er starfandi veiðifélag, sbr. lög um lax- og silungsveiði og lög um fiskrækt.
  3. Lög um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973: Orðin „nr. 76/1970“ í 3. málsl. 1. mgr. 1. gr. falla brott.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Frá gildistöku laga þessara og til loka ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra, laga um eldi vatnafiska, laga um Veiðimálastofnun, laga um fiskrækt og laga um varnir gegn fisksjúkdómum. Hlutverk samráðsnefndar er að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lögin varða helst. Nefndin skal skipuð af landbúnaðarráðherra og í henni sitja ellefu fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangaveiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva, Félagi eigenda sjávarjarða, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarstofnun, Fiskistofu, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Þá skipar landbúnaðarráðherra einn nefndarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.
     Samráðsnefnd skv. 1. mgr. skal innan 18 mánaða frá gildistöku laga þessara og í samráði við hagsmunaaðila móta framtíðarstefnu um netaveiði á laxi og silungi og skila tillögum þar að lútandi til landbúnaðarráðherra, eftir atvikum í formi lagafrumvarps.

II.
     Samþykktum einstakra veiðifélaga skal breytt til samræmis við fyrirmæli og reglur laga þessara, í síðasta lagi innan árs frá gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.