Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 773, 133. löggjafarþing 56. mál: Ríkisútvarpið ohf. (heildarlög).
Lög nr. 6 1. febrúar 2007.

Lög um Ríkisútvarpið ohf.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Eignaraðild.
     Ríkisútvarpið ohf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.
     Ríkisútvarpinu ohf. er óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð.

2. gr.

Leyfi til útvarps.
     Ríkisútvarpið ohf. hefur leyfi til útvarps á þeim rásum og tíðnisviðum sem það fær til umráða eða því kann síðar að verða úthlutað.

II. KAFLI
Hlutverk og skyldur.

3. gr.

Útvarpsþjónusta í almannaþágu.
     Hlutverk Ríkisútvarpsins ohf. er rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, svo sem hljóðvarps og sjónvarps, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum.
     Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:
 1. Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
 2. Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring. Enn fremur að birta valda hluta efnis síns, breytta eða óbreytta, ásamt öðru þjónustuefni í breyttu eða óbreyttu formi með öðrum miðlum, þ.m.t. að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.
 3. Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni.
 4. Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.
 5. Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
 6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.
 7. Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.
 8. Að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs.
 9. Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.
 10. Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins.
 11. Að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps.
 12. Að eiga eða leigja, sem og að reka, hvers konar búnað og eignir, þar á meðal tæknibúnað og fasteignir sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi félagsins.
 13. Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.

     Menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu ohf. ber að gera sérstakan þjónustusamning um markmið, umfang og nánari kröfur skv. 2. mgr. um útvarpsþjónustu í almannaþágu.

4. gr.

Önnur starfsemi.
     Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að standa að annarri starfsemi en kveðið er á um í 3. gr. sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti.
     Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að miðla áður framleiddu efni í eigu félagsins, svo sem rituðu máli, hljómplötum, hljóðsnældum, geisladiskum, myndböndum og margmiðlunarefni.
     Ríkisútvarpinu ohf. er óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og varðveitt eru hjá félaginu.

5. gr.

Fjárhagslegur aðskilnaður.
     Halda skal fjárreiðum alls reksturs, sem ekki fellur undir útvarp í almannaþágu, aðskildum frá fjárreiðum reksturs vegna útvarps í almannaþágu skv. 3. gr. Er félaginu óheimilt að nota fjármuni frá rekstri skv. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi, þar á meðal starfsemi sem telst vera samkeppnisrekstur.

6. gr.

Efni á erlendu máli.
     Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins ohf., skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði er gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal, eftir því sem kostur er, látin fylgja endursögn eða kynning á íslensku á þeim atburðum sem gerst hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.

III. KAFLI
Stjórnskipulag Ríkisútvarpsins ohf.

7. gr.

Umboð menntamálaráðherra.
     Menntamálaráðherra fer með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu ohf.
     Um réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins ohf. skal mælt nánar fyrir í samþykktum félagsins.

8. gr.

Stjórn Ríkisútvarpsins ohf.
     Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skulu fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþingi ásamt jafnmörgum til vara og skulu þeir kosnir í stjórn félagsins.
     Stjórnarmenn skulu vera lögráða, bú þeirra hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og þeir skulu hafa óflekkað mannorð. Stjórnarmenn skulu í störfum sínum eingöngu hafa að leiðarljósi hagsmuni Ríkisútvarpsins ohf., fyrst og fremst skyldur þess til útvarps í almannaþágu. Þeir mega ekki, hvorki beint né óbeint, inna af hendi nokkurt starf, taka við greiðslu eða hafa nokkurra hagsmuna að gæta í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eða fjölmiðlatengdum fyrirtækjum sem leitt geta til árekstra við hagsmuni Ríkisútvarpsins ohf.

9. gr.

Starfssvið stjórnarinnar.
     Starfssvið stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. nær sérstaklega til eftirfarandi þátta í starfi félagsins:
 1. Að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör.
 2. Að taka ákvarðanir um lán og ábyrgðir til þarfa félagsins.
 3. Að taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna.
 4. Að samþykkja fyrir fram fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár.
 5. Að gera grein fyrir því í ársskýrslu til aðalfundar hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur félagsins um útvarp í almannaþágu.

     Að öðru leyti en að framan greinir ákveðst starfssvið stjórnar í samþykktum félagsins, sbr. lög um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.

10. gr.

Útvarpsstjóri.
     Útvarpsstjóri er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins ohf. og skal uppfylla skilyrði 2. mgr. 8. gr. Hann er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.
     Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf.
     Í samþykktum félagsins má skilgreina nánar starfssvið útvarpsstjóra.

IV. KAFLI
Tekjur Ríkisútvarpsins ohf.

11. gr.

Tekjustofnar.
     Tekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf. eru sem hér segir:
 1. Samkvæmt sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldskylda hvílir á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Skal gjaldið nema 14.580 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
 2. Tekjur af auglýsingum, kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess í útvarpi eða í öðrum miðlum. Samanlagðar tekjur Ríkisútvarpsins ohf. af kostun skulu þó eigi vera hærri en sem nemur hlutfalli tekna af kostun í samanlögðum tekjum Ríkisútvarpsins af auglýsingum og kostun á árinu 2006. Ríkisútvarpinu ohf. er óheimilt að selja auglýsingar til birtingar á veraldarvefnum.
 3. Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.

     Um álagningu, innheimtu, eftirlit og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VIII.– XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á.
     Fyrsta virka dag hvers mánaðar skal fjármálaráðuneytið greiða Ríkisútvarpinu ohf. fyrir fram fjárhæð sem svarar til áætlaðs 1/ 12 heildartekna af gjaldi ársins samkvæmt þessari grein.
     Stjórn félagsins skal setja gjaldskrár fyrir auglýsingabirtingu og aðra skylda tekjustofna.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.

12. gr.

Lög um hlutafélög o.fl.
     Að öðru leyti en fram kemur í lögum þessum gilda um Ríkisútvarpið ohf. lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum.
      Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf.

13. gr.

Gildistaka laganna o.fl.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Með lögum þessum eru felld úr gildi lög um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, frá og með 1. apríl 2007, að undanteknum eftirtöldum ákvæðum: 12., 13., 14. og 16. gr., sem falla úr gildi 1. janúar 2009, og 15., 17. og 18. gr., sem falla úr gildi 1. janúar 2012. Heiti þeirra laga verður: Lög um útvarpsgjald og innheimtu þess. Skulu lögin gefin út svo breytt með nýjum greinanúmerum.
     Þar sem í öðrum lögum er vísað til Ríkisútvarpsins er átt við Ríkisútvarpið ohf.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Stofnun hlutafélags um Ríkisútvarpið.
     Í samræmi við lög þessi skal stofnað hlutafélag um Ríkisútvarpið og skal heiti þess vera Ríkisútvarpið ohf. Félagið skal skráð í hlutafélagaskrá. Frestur til þess að setja félaginu sérstakar samþykktir og halda stofnfund er 30 dagar eftir að Alþingi hefur kosið menn til setu í stjórn.
     Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins.
     Menntamálaráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í Ríkisútvarpinu ohf. Við stofnun félagsins skal lögð fram a.m.k. 5.000.000 kr. fjárhæð sem hlutafé.
     Eftir að lög um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, falla úr gildi 1. apríl 2007, sbr. 2. mgr. 13. gr., tekur Ríkisútvarpið ohf. við rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins, og um leið er Ríkisútvarpið lagt niður. Tekur félagið þá m.a. við lögbundnu leyfi Ríkisútvarpsins til útvarpsreksturs. Jafnframt skal Ríkisútvarpið ohf. yfirtaka þær skyldur sem Ríkisútvarpið hefur undirgengist í samningum við þriðju aðila.

II.
Réttindi starfsmanna.
     Þegar stofnunin Ríkisútvarpið verður lögð niður, frá og með 1. apríl 2007, fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.
     Ríkisútvarpið ohf. skal bjóða störf öllum starfsmönnum Ríkisútvarpsins.
     Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum hjá Ríkisútvarpinu, gilda ákvæði laga nr. 70/1996, þó skulu starfsmenn halda biðlaunarétti sínum verði starf þeirra lagt niður fyrir 31. desember 2009.
     Starfsmaður Ríkisútvarpsins, sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira, getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.

III.
Fyrsta stjórn félagsins.
     Eigi síðar en 30 dögum eftir að Alþingi kýs menn til setu í stjórn félagsins, sbr. 8. gr., skal menntamálaráðherra halda stofnfund Ríkisútvarpsins ohf. þar sem jafnt stjórn sem stjórnarformaður félagsins skal kjörinn.

IV.
Lok á umboði útvarpsráðs.
     Umboð aðalmanna og varamanna í útvarpsráði, sem síðast voru kjörnir af Alþingi skv. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, með síðari breytingum, fellur niður við brottfall laga um Ríkisútvarpið, sbr. 2. mgr. 13. gr.

V.
Álagning og innheimta útvarpsgjalds.
     Megintekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf. til og með 31. desember 2008 eru gjöld fyrir útvarpsafnot, gjöld fyrir auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi og öðrum miðlum og aðrir tekjustofnar sem Alþingi kann að ákveða. Menntamálaráðherra skal staðfesta útvarpsgjöld að fengnum tillögum útvarpsstjóra.
     Frá og með 1. janúar 2009 fer um tekjur félagsins skv. 11. gr.

Samþykkt á Alþingi 23. janúar 2007.