Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 558, 135. löggjafarþing 131. mál: staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl. (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 169 21. desember 2007.

Lög um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 7. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Vinnuveitandi starfsmanna sem ráðnir eru til starfa á grundvelli samnings um útleigu á vinnuafli telst launagreiðandi þeirra samkvæmt lögum þessum hafi starfsmannaleigan ekki skattalegt heimilisfesti hér á landi.
     Starfsmannaleiga sem hefur staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum telst þó launagreiðandi nema um annað hafi verið samið við notendafyrirtæki. Notendafyrirtæki ber ábyrgð sem launagreiðandi hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu, sbr. 20. gr. Fjármálaráðherra er heimilt að binda staðgreiðslu starfsmannaleigu nánari skilyrðum.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

2. gr.

     Á eftir orðinu „Launagreiðendur“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

3. gr.

     Á eftir orðinu „Launagreiðendur“ í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2007.