Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1232, 135. löggjafarþing 432. mál: breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði (opinbert eignarhald auðlinda, fyrirtækjaaðskilnaður).
Lög nr. 58 7. júní 2008.

Lög um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði.


I. KAFLI
Breyting á vatnalögum, nr. 20 31. mars 2006, með síðari breytingum.

1. gr.

     Á eftir 9. gr. laganna bætist við ný grein, 9. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Takmarkanir á varanlegu framsali opinberra aðila á eignarrétti á vatni.
     Ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem alfarið eru í eigu þeirra, er óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti eignarrétt að vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl umfram 10 MW.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að framselja réttindi til ríkis, sveitarfélags eða félags sem alfarið er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og sérstaklega er stofnað til að fara með eignarhald þessara réttinda.
     Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu, sbr. 2. mgr., er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum skv. 1. mgr. til allt að 65 ára í senn. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.
     Við ákvörðun um það hverjum skuli veittur afnotaréttur skal gæta jafnræðis. Þá skal gæta þess að ákvörðunin stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlinda og fjárfestinga í mannvirkjum.
     Forsætisráðherra skal semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins skv. 3. mgr. Um ráðstöfun og endurgjald fyrir nýtingu réttinda í þjóðlendum fer samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi.

II. KAFLI
Breyting á raforkulögum, nr. 65 27. mars 2003, með síðari breytingum.

2. gr.

     Í stað 3. og 4. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Starfræki vinnslufyrirtæki jarðvarmaorkuver sem bæði vinnur raforku og aðra orku, svo sem heitt vatn eða gufu, skal fyrirtækið í bókhaldi sínu halda reikningum vegna vinnslu raforku aðskildum frá reikningum vegna annarrar vinnslu. Sé hitaveita sem hefur einkaleyfi til starfsemi sinnar háð orkuöflun frá slíku jarðvarmaorkuveri ber því skylda til að afhenda hitaveitu varmaorku í samræmi við þarfir hennar til að sinna skyldum sínum og afkastagetu jarðvarmaorkuversins. Um bókhaldslegan aðskilnað og verðlagningu fyrir afhendingu á slíkri varmaorku fer skv. 41. gr. Rísi ágreiningur um verðlagninguna sker Orkustofnun úr.

3. gr.

     Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Flutningsfyrirtækið skal ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Dreifiveitu, þar sem fjöldi íbúa á dreifiveitusvæðum veitunnar er 10.000 eða fleiri, er óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem henni er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt sérleyfum og lögum þar að lútandi. Dreifiveitu er þó heimilt að stunda aðra starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Stjórn dreifiveitu skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, flutning eða sölu raforku eftir því sem nánar er ákveðið í samþykktum hennar.
 2. Við greinina bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
 3.      Dreifiveita skal ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila.


5. gr.

     2. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
     Sölufyrirtæki sem heimilt er að stunda sérleyfisstarfsemi er óheimilt að niðurgreiða söluna með sérleyfisstarfseminni eða starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Fyrirtæki skulu í bókhaldi sínu halda reikningum vegna sölustarfsemi aðskildum frá annarri starfsemi. Um bókhaldslegan aðskilnað fer að öðru leyti skv. 41. gr.

III. KAFLI
Breyting á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57 10. júní 1998, með síðari breytingum.

6. gr.

     Á eftir 3. gr. laganna bætist við ný grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
     Ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem alfarið eru í eigu þeirra, er óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti eignarrétt að jarðhita og grunnvatni umfram heimilis- og búsþarfir, sbr. 1. mgr. 10. gr. og 14. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að framselja réttindi til ríkis, sveitarfélags eða félags sem alfarið er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og sérstaklega er stofnað til að fara með eignarhald þessara réttinda.
     Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu, sbr. 2. mgr., er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum skv. 1. mgr. til allt að 65 ára í senn. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.
     Við ákvörðun um það hverjum skuli veittur afnotaréttur skal gæta jafnræðis. Þá skal gæta þess að ákvörðunin stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlinda og fjárfestinga í mannvirkjum.
     Forsætisráðherra skal semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins skv. 3. mgr. Um ráðstöfun og endurgjald fyrir nýtingu réttinda í þjóðlendum fer samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi.

7. gr.

     Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætist: sbr. þó ákvæði 3. gr. a.

8. gr.

     Við 1. mgr. 31. gr. laganna bætist: sbr. þó ákvæði 5. mgr. 3. gr. a.

IV. KAFLI
Breyting á orkulögum, nr. 58 29. apríl 1967, með síðari breytingum.

9. gr.

     Við 30. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Hitaveitu sem dreifir heitu vatni eða gufu á grundvelli einkaleyfis er óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem henni er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt einkaleyfi eða öðrum sérleyfum og lögum þar að lútandi, sbr. þó 1. mgr. 14. gr. raforkulaga. Hitaveitu er þó heimilt að stunda aðra starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Stjórn hitaveitu skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, flutning eða sölu raforku eftir því sem nánar er ákveðið í samþykktum hennar.

10. gr.

     Við 31. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Hitaveita sem starfar á grundvelli einkaleyfis skal ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila.

V. KAFLI
Breyting á vatnalögum, nr. 15 20. júní 1923, með síðari breytingum.

11. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem alfarið eru í eigu þeirra, er óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti rétt til umráða og hagnýtingar því vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl umfram 10 MW.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að framselja réttindi til ríkis, sveitarfélags eða félags sem alfarið er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og sérstaklega er stofnað til að fara með eignarhald þessara réttinda.
     Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu, sbr. 3. mgr., er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum skv. 2. mgr. til allt að 65 ára í senn. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.
     Við ákvörðun um það hverjum skuli veittur afnotaréttur skal gæta jafnræðis. Þá skal gæta þess að ákvörðunin stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlindanna og fjárfestinga í mannvirkjum.
     Forsætisráðherra skal semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins skv. 4. mgr. Um ráðstöfun og endurgjald fyrir nýtingu réttinda í þjóðlendum fer samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi.

12. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2. gr., a-liðar 4. gr., 5. gr. og 9. gr. koma til framkvæmda 1. júlí 2009.

13. gr.

Brottfall annarra laga.
     Við gildistöku laga þessara falla brott eftirfarandi lög:
 1. Lög nr. 98/1935, um virkjun Fljótaár.
 2. Lög nr. 92/1947, um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins.
 3. Lög nr. 34/1949, um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins.
 4. Lög nr. 12/1951, um ný orkuver og nýja orkuveitu rafmagnsveitna ríkisins.
 5. Lög nr. 65/1956, um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins.
 6. Lög nr. 111/1970, um virkjun Lagarfoss.
 7. Lög nr. 60/1981, um raforkuver.
 8. Lög nr. 102/1985, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Kröfluvirkjun í Suður- Þingeyjarsýslu.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 35. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, er heimilt að framselja leyfi til fyrirtækja sem stofnuð eru fram til 1. júlí 2009 til að uppfylla ákvæði a-liðar 4. gr. og 9. gr.
II.
     Iðnaðarráðherra skal beita sér fyrir endurskoðun á sérlögum um orkufyrirtæki, þar sem m.a. verði tekið til skoðunar hvort hægt sé að fella þau brott að hluta eða öllu leyti. Við þá vinnu skal m.a. haft samráð við fjármálaráðherra og eigendur þeirra orkufyrirtækja sem fjallað er um í sérlögum.
III.
     Við gildistöku laga þessara skal forsætisráðherra skipa nefnd til að fjalla um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Nefndin skal í störfum sínum fjalla um leigugjald, leigutíma, endurnýjun leigusamninga og önnur atriði er lúta að réttindum og skyldum aðila. Þá skal nefndin meta hvaða aðgerða sé þörf til að tryggja í senn sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlindanna. Í störfum sínum skal nefndin m.a. hafa til hliðsjónar reynslu annarra þjóða. Þá skal nefndin huga að því með hvaða hætti verði valið á milli þeirra sem áhuga hafa á að nýta auðlindirnar. Nefndin skal skila tillögum sínum fyrir 1. júní 2009.

Samþykkt á Alþingi 29. maí 2008.