Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1274, 135. löggjafarþing 538. mál: breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 96 12. júní 2008.

Lög um breytingu á lögum er varða verðbréfaviðskipti.


I. KAFLI
Lög nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 120. gr. laganna:
 1. 2. málsl. orðast svo: Upplýsingar teljast opinberar þegar útgefandi fjármálagerninga hefur birt almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu þær, sbr. 122. og 127. gr.
 2. 3. málsl. fellur brott.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 122. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Útgefanda fjármálagerninga, sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF), ber að birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Samhliða opinberri birtingu skv. 1. mgr. skal útgefandi senda upplýsingarnar til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að birta upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar á heimasíðu sinni. Fjármálaeftirlitið, eða aðili sem Fjármálaeftirlitið tilnefnir, skal varðveita upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar í miðlægu geymslukerfi, sbr. 136. gr.


3. gr.

     1. mgr. 127. gr. laganna orðast svo:
     Auk tilkynninga um viðskipti innherja skv. 126. gr. ber útgefanda þegar í stað að birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar um viðskipti stjórnenda útgefanda með hluti í útgefandanum, og aðra fjármálagerninga tengda þeim, eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli, enda nemi markaðsvirði viðskiptanna a.m.k. 500.000 kr. eða samanlögð eignabreyting viðkomandi stjórnanda á hlutum í útgefandanum á næstliðnum fjórum vikum nemi a.m.k. 1.000.000 kr. Samhliða opinberri birtingu skal útgefandi senda upplýsingarnar til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að birta upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar á heimasíðu sinni. Fjármálaeftirlitið, eða aðili sem Fjármálaeftirlitið tilnefnir, skal varðveita upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar í miðlægu geymslukerfi, sbr. 136. gr.

4. gr.

     Á eftir 130. gr. laganna kemur ný grein, 130. gr. a, svohljóðandi:
Tungumál.
     Ef verðbréf útgefanda hafa einungis verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt kafla þessum á íslensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.
     Ef verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og í einu eða fleiri aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt kafla þessum á íslensku, eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir, og annaðhvort á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna samþykkja, að vali útgefanda.
     Ef verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í einu eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu en ekki á Íslandi skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt kafla þessum á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna samþykkja, að vali útgefanda. Ef Fjármálaeftirlitið óskar eftir því skal útgefandi jafnframt birta upplýsingarnar á ensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir, að vali útgefanda.
     Ef verðbréf útgefanda eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda hvíla skyldur 1.–3. mgr. ekki á útgefanda heldur þeim aðila sem óskað hefur eftir töku bréfanna til viðskipta án samþykkis útgefanda.

5. gr.

     Við 131. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd opinberrar birtingar upplýsinga, sbr. 120., 122. og 127. gr.

6. gr.

     Í stað orðanna „VII., VIII. og IX. kafla“ í 1.–3. mgr. 135. gr., 1. mgr. 136. gr. og 1. mgr. 137. gr. laganna kemur: VII., VIII., IX. og XIII. kafla.

II. KAFLI
Lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

7. gr.

     1. tölul. 30. gr. laganna verður svohljóðandi: Verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
 1. hafa verið skráð eða tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir,
 2. ganga kaupum og sölum á öðrum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem er opinn almenningi, starfar reglulega, lýtur opinberu eftirliti og er viðurkenndur með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan, og/eða
 3. hafa verið skráð eða tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða ganga kaupum og sölum á öðrum markaði í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem er opinn almenningi, starfar reglulega, lýtur opinberu eftirliti og er viðurkenndur með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan.
Með peningamarkaðsskjölum er í lögum þessum átt við greiðsluhæf skjöl sem verslað er með á peningamarkaði og ætíð er hægt að meta til verðs.

III. KAFLI
Lög nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

8. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: kauphallir.

IV. KAFLI
Lög nr. 110/2007, um kauphallir.

9. gr.

     Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Kauphöll er heimilt að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð.

10. gr.

     Í stað orðsins „ársskýrslu“ í 3. mgr. 16. gr. laganna kemur: skýrslu stjórnar.

V. KAFLI
Lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 106. gr. laganna:
 1. Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Samruni fjármálafyrirtækis við annað fyrirtæki er aðeins heimill að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Yfirfærsla einstaka rekstrarhluta fjármálafyrirtækis til annars fyrirtækis með öðrum hætti, svo sem sölu, er einnig háð samþykki Fjármálaeftirlitsins. Með rekstrarhluta er í ákvæði þessu átt við starfhæfa einingu innan fjármálafyrirtækis, t.d. útibú.
       Samruni fjármálafyrirtækis við annað fyrirtæki er aðeins heimill ef ákvörðun þar að lútandi hefur hlotið samþykki hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í yfirtekna fyrirtækinu með minnst 2/ 3 hlutum greiddra atkvæða og samþykki hluthafa eða stofnfjáreigenda í yfirtekna fyrirtækinu sem ráða yfir minnst 2/ 3 hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum eða fundum stofnfjáreigenda. Ef hið yfirtekna fyrirtæki er alfarið í eigu yfirtökufélags þarf ekki að koma til atkvæðagreiðslu skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar í yfirtekna félaginu.
 3. 2. mgr., er verður 3. mgr., orðast svo:
 4.      Samruni sparisjóðs við annað fyrirtæki er því aðeins heimill að sparisjóðnum hafi áður verið breytt í hlutafélag samkvæmt ákvæðum VIII. kafla, nema þegar um er að ræða samruna tveggja eða fleiri sparisjóða sem ekki hefur verið breytt í hlutafélag eða hlutafélög.
 5. 5. mgr., er verður 6. mgr., orðast svo:
 6.      Fjármálaeftirlitið skal auglýsa samruna og yfirfærslu rekstrarhluta fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Í auglýsingu skal tilgreina hvenær samruninn eða yfirfærslan tekur gildi, nöfn hlutaðeigandi fyrirtækja, frest til að gera athugasemdir við yfirfærslu innlánsreikninga, hugsanlegar breytingar á greiðslustöðum skuldaskjala og annað sem kunngera þarf viðskiptamönnum sérstaklega.


VI. KAFLI
Gildistaka.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.