Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 621, 136. löggjafarþing 187. mál: uppbygging og rekstur fráveitna (heildarlög).
Lög nr. 9 9. mars 2009.

Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna.


I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að:
  1. afmarka skyldur sveitarfélaga hvað varðar fráveitumál og fráveituframkvæmdir,
  2. tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið,
  3. skýra réttindi og skyldur eigenda og notenda fráveitna og
  4. stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna.


2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um uppbyggingu og starfrækslu fráveitna.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
  1. Frárennsli: Rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt er í fráveitur.
  2. Fráveita: Leiðslukerfi og búnaður til meðhöndlunar og hreinsunar skólps. Til fráveitu telst allt lagnakerfi sem flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, atvinnufyrirtækjum, götum, gönguleiðum, lóðum og opnum svæðum, svo sem tengingar við einstakar fasteignir, niðurföll, svelgir, brunnar, safnkerfi, tengiræsi, sniðræsi, stofnlagnir, yfirföll og útræsi. Til fráveitu teljast einnig öll mannvirki sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem hreinsivirki, dælu- og hreinsistöðvar og set- og miðlunartjarnir.
  3. Frístundabyggð: Afmarkað svæði innan jarðar eða jarða þar sem eru a.m.k. 10 lóðir undir frístundahús, sbr. lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008. Frístundahús eru hús sem ætluð eru til frístundanotkunar og þar sem heilsársbúseta er óheimil.
  4. Heimæð: Fráveitulögn sem flytur frárennsli að tengingu frá mannvirkjum og lóðum, þ.m.t. leigulóðum sveitarfélagsins.
  5. Hreinsivirki: Búnaður til hreinsunar á skólpi og/eða ofanvatni áður en því er veitt í viðtaka, þ.m.t. rotþrær með siturlögnum.
  6. Landnotkunarreitur: Reitur með eina skilgreinda landnotkun. Landnotkunarreitur nær að jafnaði ekki yfir minna svæði en götureit. Innan landnotkunarreits er meiri hluti reits helgaður aðalnotkun samkvæmt skilgreiningu viðkomandi landnotkunarflokks, sbr. skipulagsreglugerð.
  7. Ofanvatn: Regnvatn og leysingarvatn sem rennur í fráveitur af húsþökum, götum, gangstéttum og öðru þéttu yfirborði.
  8. Persónueiningar: Magn lífrænna efna, næringarsalta og annarra efna sem samsvarar því sem einn einstaklingur er að jafnaði talinn losa frá sér á sólarhring.
  9. Safnkerfi: Lögn eða lagnir sem lagðar eru innan hverfa eða landnotkunarreits og safna frárennsli af afmörkuðu svæði áður en því er veitt í stofnlögn.
  10. Sameiginlegt hreinsivirki: Hreinsivirki sem reist er til sameiginlegra nota fyrir íbúa sveitarfélags, hluta sveitarfélags, fyrirtæki, stofnanir eða félög einstaklinga.
  11. Skólp: Mengað vatn sem greinist í húsaskólp og iðnaðarskólp eða blöndu af húsaskólpi eða iðnaðarskólpi og/eða ofanvatni.
  12. Stjórn fráveitu: Sá aðili sem ber ábyrgð á daglegri stjórn fráveitunnar, hvort sem um er að ræða sveitarstjórn, sérstaka stjórn fráveitu eða annan þann aðila sem fer með málefni fráveitu.
  13. Stofnlögn: Fráveitulögn sem flytur frárennsli milli hverfa eða frá hverfi til hreinsistöðva.
  14. Tenging: Tengiæð milli heimæðar og fráveitukerfis við mörk lands sveitarfélagsins, þ.m.t. leigulóðir sveitarfélagsins, götu, gangstétt eða opið svæði.
  15. Viðtaki: Svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.
  16. Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra.


II. KAFLI
Fráveitur sveitarfélaga o.fl.

4. gr.

Hlutverk sveitarfélaga.
     Sveitarfélag ber ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu.
     Í þéttbýli skal sveitarfélag koma á fót og starfrækja sameiginlega fráveitu.
     Utan þéttbýlis þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha og/eða atvinnustarfsemi felur í sér losun sem nemur u.þ.b. 50 persónueiningum eða meira á hverja 10 ha skal sveitarfélagið sjá til þess að skólpi sé safnað á kerfisbundinn hátt með safnkerfi, stofnlögnum og sameiginlegu hreinsivirki.
     Sveitarstjórn setur í deiliskipulag ákvæði um safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki þar sem þess er þörf, sbr. 3. mgr., og sendir áætlun um nýjar og endurbættar fráveitur til heilbrigðisnefndar í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. getur heilbrigðisnefnd heimilað að beitt sé öðrum lausnum en safnkerfi og sameiginlegu hreinsivirki þar sem losun er minni en 2.000 persónueiningar og ef ríkar ástæður mæla með, svo sem ef kostnaður er óvenjumikill miðað við umhverfislegan ávinning. Við mat á slíkum lausnum skal heilbrigðisnefnd taka tillit til gæða, getu og skilgreiningar viðtaka, jarðvegsgerðar, legu lands og umhverfisaðstæðna að öðru leyti.
     Í dreifbýli er sveitarfélagi heimilt að koma á fót og starfrækja fráveitu.
     Þar sem sveitarfélagi er heimilt að koma á fót og starfrækja fráveitu skal það hafa forgangsrétt til þess.
     Fráveitur sem sveitarfélag setur á fót samkvæmt þessari grein skulu vera í eigu sveitarfélaga, sbr. þó 6. gr.
     Þar sem sveitarfélagi er skylt samkvæmt þessari grein að koma á fót og reka fráveitu skal það hafa einkarétt til þess. Sama gildir þar sem sveitarfélag nýtir forgangsrétt sinn skv. 7. mgr.
     Sveitarstjórn getur kveðið nánar á um fyrirkomulag fráveitumála í sveitarfélaginu og kröfur um hreinsun í samþykkt sem hún setur á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

5. gr.

Rekstur fráveitu.
     Sveitarstjórn fer með rekstur og stjórn fráveitu á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi sérstaklega verið ákveðið, sbr. 6. gr.
     Sveitarfélagi eða félagi í eigu sveitarfélaga sem fer með rekstur fráveitu er heimilt að gera þjónustusamninga við einkaaðila um rekstur einstakra þátta fráveitunnar.

6. gr.

Heimild til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélags.
     Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi sem að meiri hluta er í eigu sveitarfélaga skyldur sínar og réttindi hvað varðar uppbyggingu, rekstur og eignarhald fráveitna samkvæmt lögum þessum.
     Við ráðstöfun skv. 1. mgr. skal í samningi, eftir því sem við á, kveðið á um eignarrétt á fráveitu, eftirlit sveitarstjórnar með rekstri fráveitunnar og innlausnarrétt sveitarfélagsins á fráveitu og fastafjármunum fráveitunnar auk annarra atriða sem sveitarstjórn telur nauðsynleg.
     Ef ekki er kveðið á um annað í samningi aðila skal innlausnarverð fráveitu og fastafjármuna skv. 1. mgr. miðast við afskrifað endurstofnverð þessara eigna. Ef ágreiningur verður um verð skera dómkvaddir matsmenn úr nema samningsaðilar verði ásáttir um að leysa ágreininginn á annan hátt.

7. gr.

Samvinna sveitarfélaga.
     Sveitarstjórnum er heimilt að koma á fót og reka sameiginlega fráveitu. Sveitarstjórnir skulu gera með sér samkomulag um með hvaða hætti fráveitunni skuli komið á fót og hún rekin. Ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, gilda um samvinnu sveitarfélaga á þessu sviði nema annað sé sérstaklega tekið fram.

III. KAFLI
Aðrar fráveitur.

8. gr.

Fráveitur einkaaðila.
     Þar sem sveitarstjórn nýtir ekki heimild sína skv. 6. mgr. 4. gr. skal landeigandi sjá til þess að skólp sé hreinsað og koma á safnkerfi, stofnlögnum og sameiginlegu hreinsivirki eftir því sem nánar er kveðið á um í deiliskipulagi. Þar sem ekki er til staðar sameiginleg fráveita skal frárennsli einstakra húsa veitt í hreinsivirki.

9. gr.

Frístundabyggð.
     Þegar land er skipulagt sem frístundabyggð skal landeigandi eða félag í frístundabyggð þar sem það á við koma á fót fráveitu eða gera samning við starfandi fráveitu að höfðu samráði við sveitarstjórn. Þegar sveitarfélag skipuleggur frístundabyggð á eigin landi skal sveitarfélagið koma á fót fráveitu.

10. gr.

Land í sameign.
     Nú er landareign í sameign og hluti eigenda óskar eftir því að koma á fót fráveitu til að veita skólpi og öðru frárennsli frá landareigninni, og getur þá sá eða þeir sem meiri hluta landareignar eiga tekið ákvörðun um framkvæmdina. Er hinum þá skylt að taka hlutfallslega þátt í kostnaði sem af því hlýst.

IV. KAFLI
Fráveitulagnir.

11. gr.

Tenging við fráveitu.
     Eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggur á rétt á að fá tengingu við fráveitukerfi. Óski hann þess að fá fleiri tengingar af hagkvæmnisástæðum skulu slíkar tengingar teljast einkaeign hans nema sérstakt samkomulag hafi verið gert um annað. Beiðni um tengileyfi skal senda til fráveitu.
     Engum er heimilt að tengjast í fráveitu nema samþykki stjórnar fráveitu liggi fyrir. Skylt er að lúta í einu og öllu fyrirmælum stjórnar fráveitu um gerð og legu heimæða.
     Þurfi að gera breytingar á tengingum við fráveitu vegna framkvæmda á vegum lóðarhafa skal hann sækja um leyfi til stjórnar fráveitu. Lóðarhafi ber sjálfur kostnað af breytingunum.

12. gr.

Fráveitulagnir.
     Eigandi fráveitu sér um lagningu og viðhald allra fráveitulagna, þ.e. stofnlagna, safnkerfa og fráveitutenginga.
     Eigendum húseigna þar sem fráveita liggur er skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Lagnirnar skulu tengjast lögnum fráveitu á þeim stað og með þeirri hæðarsetningu sem fráveita tilgreinir.
     Í fráveitulögnum skal ofanvatn og skólp aðgreint nema annað sé heimilað.
     Endurnýi eigandi fráveitu fráveitukerfi sitt þannig að í hinu nýja kerfi sé ofanvatn og skólp aðgreint skulu eigendur fasteigna samhliða endurnýjun heimæða eða meiri háttar endurbótum á þeim aðskilja ofanvatn og skólp.
     Þar sem tvær eða fleiri fasteignir nýta sameiginlega heimæð skulu eigendur þeirra í sameiningu annast og kosta lagningu, rekstur og viðhald heimæðar nema um annað hafi verið samið.
     Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og gæta þess að þær stíflist ekki.

V. KAFLI
Gjaldtaka.

13. gr.

Tengigjald.
     Eiganda eða rétthafa fasteignar sem tengst getur fráveitu ber að greiða gjald fyrir tengingu við fráveitukerfi sveitarfélagsins. Gjaldið skal miðað við gerð, stærð og lengd tenginga. Heimilt er sveitarfélaginu að innheimta með tengigjaldi hlutdeild í stofnkostnaði við aðliggjandi fráveitukerfi, þó ekki kostnaði vegna stofnlagna nema þær gegni jafnframt hlutverki safnkerfa.
     Gjaldið og gjalddagi þess skal ákveðið í gjaldskrá skv. 15. gr. Tengigjald er fyrst gjaldkræft við úthlutun lóðar sem er í eigu sveitarfélags eða það hefur ráðstöfunarrétt á og við útgáfu byggingarleyfis á öðrum lóðum.

14. gr.

Fráveitugjald.
     Heimilt er að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.
     Þar sem frárennsli er veitt frá atvinnustarfsemi eða vegna annars en venjulegra heimilisnota í fráveitukerfi sveitarfélags er heimilt að innheimta gjald vegna losunar miðað við innrennsli vatns samkvæmt mæli. Sé vatn notað til framleiðslu þannig að því sé ekki veitt í fráveitukerfi skal notandi mæla notkun þess. Sú notkun skal dregin frá innmældu magni við útreikning á gjaldi. Verði mælingu ekki við komið skulu aðilar meta vatnsnotkun til frádráttar á innmældu vatnsmagni.
     Heimilt er að innheimta sérstakt aukagjald ef frárennsli tiltekins gjaldskylds aðila samkvæmt lögum þessum er svo mengað að það leiði til sérstakra aðgerða við fráveitukerfið, svo sem ef losun fer yfir skilgreind losunarmörk. Sérstakar aðgerðir samkvæmt þessari málsgrein geta einkum falið í sér sértæka hreinsun eða breytingu. Við ákvörðun gjaldsins skal miða við áætlaðan kostnað við aðgerðirnar.
     Gjöld og gjalddagar þeirra samkvæmt þessari grein skulu ákveðin í gjaldskrá skv. 15. gr.

15. gr.

Gjaldskrá fráveitu.
     Stjórn fráveitu skal semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr.
     Miða skal við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Heimilt er að ákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna. Enn fremur er heimilt að miða fráveitugjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar.
     Heimilt er að skipta starfssvæði fráveitu í fráveitusvæði og setja sérstaka gjaldskrá fyrir hvert veitusvæði. Slíka skiptingu skal auglýsa með gjaldskránni.
     Heimilt er að lækka eða fella niður gjöld samkvæmt þessum lögum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum samkvæmt reglum sem sveitarstjórn setur.
     Sveitarfélag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

16. gr.

Innheimta o.fl.
     Þinglýstur eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu gjalda samkvæmt lögum þessum.
     Heimilt er að innheimta fráveitugjald með fasteignaskatti. Fráveitugjald leggst á ný mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðamótum eftir að þau eru skráð og metin í Landskrá fasteigna en fellur niður frá næstu mánaðamótum eftir að mannvirki er afskráð úr landskránni.
     Fráveitugjaldi og tengigjaldi ásamt innheimtukostnaði og vöxtum fylgir lögveðsréttur í fasteigninni í tvö ár frá gjalddaga. Lögveð þetta gengur fyrir eldri sem yngri samnings- og aðfararveðum og yngri lögveðum. Ef hús brennur eftir að fráveitugjald eða heimæðargjald gjaldfellur er sami forgangsréttur í brunabótafjárhæð fasteignarinnar.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

17. gr.

Aðgangur að fráveitu.
     Þeim sem ekki hefur tekið þátt í uppbyggingu fráveitu er heimilt að veita frárennsli frá sér í fráveitu sem fyrir er. Skal hann greiða fyrir það tiltekið hlutfall stofnkostnaðar, að teknu tilliti til afskrifta. Jafnframt skal hann greiða tiltekið hlutfall rekstrarkostnaðar og viðhalds.
     Ef breyta þarf fráveitu vegna íveitu í hana, sbr. 1. mgr., skal sá er íveitunnar óskar greiða allan kostnað af breytingunni.
     Landeigandi eða lóðarhafi getur krafist þess að fráveita sé svo úr garði gerð í upphafi að hún taki við skólpi frá eign hans, enda greiði hann allan kostnaðarauka er af því stafar.
     Sá sem neytir réttar síns skv. 1. og 3. mgr. þessarar greinar skal setja nægilega tryggingu fyrir því er honum ber að greiða ef þess er krafist.
     Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um aðgang að hreinsivirki fyrir stök hús.

18. gr.

Aðgangur að landi.
     Skylt er landeigendum og lóðarhöfum að láta af hendi land, mannvirki og landsafnot og þola nauðsynlegar eignarkvaðir vegna fráveituframkvæmda og lagna.
     Leiði fráveituframkvæmdir til þess að verðmæti fasteignar lækki eða að nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður var á sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á greiðslu bóta frá eiganda fráveitu, eftir mati dómkvaddra matsmanna ef ágreiningur verður.

19. gr.

Eignarnám.
     Ráðherra getur heimilað að land og/eða lóðarréttindi verði tekin eignarnámi ásamt nauðsynlegum mannvirkjum, aðstöðu og öðrum réttindum fasteignareiganda vegna lagningar fráveitu sveitarfélags í samræmi við ákvæði laga þessara. Ávallt skal þess þó freistað að ná samkomulagi við fasteignareiganda áður en til eignarnáms kemur.
     Framkvæmd eignarnáms á grundvelli þessara laga fer eftir almennum reglum.

20. gr.

Bótaábyrgð vegna tjóns á fráveitukerfi.
     Aðili sem veldur tjóni á fráveitukerfi, svo sem með losun efna eða hluta í fráveitu, ber bótaábyrgð á slíku tjóni þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanns hans.

21. gr.

Reglugerð.
     Ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila, að setja reglugerð um fráveitur sveitarfélaga þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd fráveitumála, m.a. um stjórn og fjármál fráveitu, gjaldtöku og fráveituæðar.

22. gr.

Málskot.
     Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum þessum til úrskurðarnefndar sem starfar skv. VII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

23. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Við gildistöku laga þessara fellur niður X. kafli vatnalaga, nr. 15/1923, og a-liður 1. tölul. 43. gr. vatnalaga, nr. 20/2006.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Tengingar í einkaeign sem lagðar hafa verið fyrir gildistöku laganna verða eign fráveitu í framhaldi af endurnýjun tenginganna.
     Stjórn fráveitu er skylt að yfirtaka tengingu við fráveitu frá safnkerfi að lóðamörkum sveitarfélagsins að skriflegri beiðni eiganda.
     Ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga þessara taka ekki til byggðar sem fyrir er við gildistöku laganna. Ákvæði 8. mgr. 4. gr. gildir ekki um fráveitur sem komið hefur verið á fót fyrir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 2. mars 2009.