Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 678, 138. löggjafarþing 171. mál: handtaka og afhending manna milli Norðurlanda vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).
Lög nr. 12 25. febrúar 2010.

Lög um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Skilgreining á norrænni handtökuskipun.
     Norræn handtökuskipun er ákvörðun sem tekin er í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð um að biðja eitthvert þessara ríkja um að handtaka og afhenda eftirlýstan mann vegna meðferðar á sakamáli sem getur varðað fangelsisrefsingu eða annars konar frjálsræðissviptingu í ríkinu sem hefur gefið handtökuskipunina út eða til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri ákvörðun um frjálsræðissviptingu.

2. gr.

Form og innihald norrænnar handtökuskipunar.
     Handtökuskipun skal vera rituð á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku og hafa að geyma eftirfarandi upplýsingar sem fram koma á eyðublaði fyrir norræna handtökuskipun:
 1. persónuauðkenni og ríkisfang eftirlýsts manns,
 2. nafn, heimilisfang, símanúmer, faxnúmer og netfang þess sem hefur gefið handtökuskipunina út,
 3. hvort fyrir liggi endanlegur dómur, handtökuskipun eða önnur ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif,
 4. tegund afbrots ásamt upplýsingum um hvar og hvenær það var framið og hver var þáttur eftirlýsts manns í því,
 5. um dæmda refsingu eða refsiramma sem gildir um afbrotið í því ríki sem gaf handtökuskipunina út,
 6. aðrar afleiðingar afbrotsins eftir því sem unnt er.

     Evrópsk handtökuskipun sem gefin er út af norrænu ríki í samræmi við rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins frá 13. júní 2002 um evrópska handtökuskipun og málsmeðferð um afhendingu milli aðildarríkjanna telst einnig norræn handtökuskipun.
     Nú er eftirlýstur maður skráður í Schengen-upplýsingakerfið og skal slík skráning teljast norræn handtökuskipun ef skráningin hefur að geyma þær upplýsingar sem fram koma í 1. mgr.

3. gr.

Tengsl við lög um meðferð sakamála.
     Þegar annað er ekki tekið fram í þessum lögum gilda ákvæði laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.

II. KAFLI
Skilyrði afhendingar samkvæmt norrænni handtökuskipun.

4. gr.

Skylda til að afhenda eftirlýstan mann.
     Skylt er að afhenda mann sem eftirlýstur er í norrænni handtökuskipun nema fyrir hendi séu synjunarástæður skv. 5. eða 6. gr.
     Nú er handtökuskipunin gefin út vegna fleiri refsiverðra verknaða en eins og skal þá afhenda eftirlýstan mann þótt skilyrði fyrir afhendingu séu einungis varðandi einn af verknuðunum. Ef skyldubundin synjunarástæða skv. 5. gr. er fyrir hendi varðandi einn eða fleiri af verknuðunum skal setja það skilyrði fyrir afhendingu að eftirlýstur maður sæti ekki málsmeðferð vegna viðkomandi verknaða. Ef valkvæð synjunarástæða skv. 6. gr. er fyrir hendi er heimilt að setja slíkt skilyrði.

5. gr.

Skyldubundnar synjunarástæður.
     Eftirlýstur maður verður ekki afhentur þegar:
 1. veitt hefur verið sakaruppgjöf hér á landi vegna sama verknaðar,
 2. hann getur ekki sökum aldurs borið refsiábyrgð hér á landi vegna verknaðarins,
 3. hann hefur verið dæmdur fyrir sama verknað hér á landi með endanlegum dómi og refsingin hefur þegar verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki lengur unnt að fullnusta hana,
 4. hér á landi liggur fyrir endanlegur dómur þar sem beitt hefur verið öryggisráðstöfunum gagnvart honum vegna sama verknaðar og þeim hefur þegar verið aflétt, verið er að framkvæma þær eða ekki lengur unnt að framkvæma þær,
 5. hér á landi liggur fyrir endanleg viðurlagaákvörðun vegna sama verknaðar sem þegar hefur verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki lengur unnt að fullnusta hana,
 6. mál gegn honum vegna sama verknaðar hefur verið afgreitt með ákærufrestun hér á landi nema forsendur séu til að taka mál upp að nýju, eða
 7. ríkissaksóknari hefur upplýsingar um að honum hafi verið refsað fyrir sama verknað með endanlegum dómi í ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu eða önnur endanleg ákvörðun í slíku ríki kemur í veg fyrir frekari málsmeðferð vegna sama verknaðar og slík ákvörðun hefur verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki lengur unnt að fullnusta hana.


6. gr.

Valkvæðar synjunarástæður.
     Heimilt er að synja beiðni um afhendingu á eftirlýstum manni þegar:
 1. rannsókn vegna sama verknaðar er í gangi hér á landi og hún beinist að hinum eftirlýsta,
 2. verknaðurinn er framinn að hluta eða að öllu leyti á íslensku yfirráðasvæði eða í íslenskri refsilögsögu og er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum,
 3. ríkissaksóknari hefur vitneskju um að í ríki sem ekki er þátttakandi í Schengen-samstarfinu hafi honum verið refsað fyrir sama verknað með endanlegum dómi, refsingin hefur þegar verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða hún er fallin niður samkvæmt lögum viðkomandi ríkis,
 4. handtökuskipunin varðar fullnustu refsivistar samkvæmt dómi og sá sem er eftirlýstur er búsettur eða dvelst á Íslandi eða er íslenskur ríkisborgari og íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að fullnusta refsingu dómsins eða ákvörðun um frjálsræðissviptingu samkvæmt honum, eða
 5. dómsmálayfirvöld í landinu þar sem beðið er um fullnustu hafa ákveðið annaðhvort að hefja ekki saksókn vegna afbrotsins sem norræna handtökuskipunin grundvallast á eða hafa hætt við saksókn sem hafin er, eða hinn eftirlýsti hefur hlotið dóm í öðru norrænu landi vegna sömu háttsemi sem kemur í veg fyrir frekari saksókn.


7. gr.

Skilyrt afhending.
     Þegar handtökuskipun varðar afhendingu eftirlýsts manns vegna málsmeðferðar og hann er búsettur hér á landi eða íslenskur ríkisborgari er heimilt að setja það skilyrði fyrir afhendingu að viðkomandi verði sendur aftur hingað til lands til að afplána hugsanlega refsingu.

8. gr.

Skilyrði fyrir afhendingu. Sérreglan.
     Setja skal það sem skilyrði fyrir afhendingu eftirlýsts manns að hann verði ekki framseldur eða afhentur til ríkis utan Norðurlanda vegna verknaðar sem framinn er fyrir afhendinguna nema:
 1. hann samþykki það sjálfur,
 2. hann hafi ekki yfirgefið landið sem hann var afhentur, enda hafi hann átt þess kost í 45 daga,
 3. hann hafi sjálfviljugur farið aftur til landsins sem hann var afhentur eftir að hafa yfirgefið það, eða
 4. dómsmála- og mannréttindaráðuneyti samþykki framsalið eða afhendinguna.

     Heimilt er að hefja málsmeðferð gegn manni sem afhentur er frá Íslandi eða fullnusta refsingu gagnvart honum vegna verknaðar sem framinn er fyrir afhendingu nema:
 1. fyrir hendi séu skyldubundnar synjunarástæður skv. 5. gr., eða
 2. verknaðurinn sé framinn að hluta eða að öllu leyti á íslensku yfirráðasvæði eða í íslenskri refsilögsögu, hann sé ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum og ríkissaksóknari hafi ekki veitt samþykki fyrir málsmeðferð eða fullnustunni.


III. KAFLI
Málsmeðferð vegna norrænnar handtökuskipunar.

9. gr.

Framsending til ríkissaksóknara.
     Handtökuskipun frá öðru norrænu ríki skal send til ríkissaksóknara. Nú berst handtökuskipun til annars stjórnvalds hér á landi og skal það þá strax framsenda hana til ríkissaksóknara og tilkynna þeim sem gaf handtökuskipunina út um framsendinguna.

10. gr.

Handtaka, gæsluvarðhald og beiting annarra þvingunarráðstafana.
     Ríkissaksóknari skal þegar gera ráðstafanir til að eftirlýstur maður verði handtekinn, nema ljóst sé að synja beri um afhendingu skv. 5. gr. eða að hennar verði synjað skv. 6. gr. Við handtöku skal eftirlýstur maður upplýstur um handtökuskipunina, um hugsanlega málsmeðferð vegna annarra verknaða, um þýðingu samþykkis fyrir afhendingu og hann spurður hvort hann samþykki afhendingu. Jafnframt skal honum skipaður verjandi.
     Nú er eftirlýstur maður ekki afhentur í beinu framhaldi af handtöku og skal þá gera kröfu um að hann sæti gæsluvarðhaldi. Við mat á beiðni um gæsluvarðhald skal dómur leggja til grundvallar upplýsingar í handtökuskipuninni nema þær séu augljóslega rangar. Þegar fallist er á beiðni um gæsluvarðhald skal því ekki markaður lengri tími en tvær vikur, sem heimilt er að framlengja um sama tíma í hvert sinn. Þessi tímamörk gilda ekki þegar fyrir liggja fleiri ósamrýmanlegar handtökuskipanir eða framsalsbeiðnir eða viðkomandi hefur verið framseldur hingað til lands frá ríki utan Norðurlanda. Beita má vægari þvingunarráðstöfunum þegar þær teljast fullnægjandi til að koma í veg fyrir að eftirlýstur maður strjúki. Frestur til að kæra úrskurð um gæsluvarðhald eða beitingu annarra þvingunarráðstafana til Hæstaréttar er einn sólarhringur.

11. gr.

Forréttindi og friðhelgi.
     Nú nýtur eftirlýstur maður forréttinda eða friðhelgi varðandi málsmeðferð eða fullnustu refsingar hér á landi og skal ríkissaksóknari þá strax senda viðkomandi stjórnvöldum beiðni um að afnema forréttindin eða friðhelgina.

12. gr.

Afhending á eftirlýstum manni sem áður hefur verið afhentur eða framseldur til Íslands.
     Nú hefur eftirlýstur maður verið afhentur hingað til lands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar og er þá heimilt að afhenda hann áfram til annars norræns ríkis á grundvelli norrænnar handtökuskipunar vegna refsiverðs verknaðar sem framinn var fyrir afhendingu hingað.
     Nú hefur eftirlýstur maður verið framseldur hingað til lands frá ríki utan Norðurlanda og skal viðkomandi þá ekki afhentur ef það gengur gegn skilyrðum framsals hingað. Í slíkum tilvikum skal senda beiðni til viðkomandi ríkis og óska eftir samþykki til afhendingar.

13. gr.

Ákvörðun um afhendingu.
     Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu á eftirlýstum manni.
     Nú samþykkir eftirlýstur maður afhendingu og skal ríkissaksóknari þá strax og í síðasta lagi innan þriggja sólarhringa frá því að samþykki var gefið taka ákvörðun um hvort skilyrði séu fyrir afhendingu. Eftirlýstur maður getur einnig samþykkt málsmeðferð vegna annarra refsiverðra verknaða sem framdir voru fyrir afhendingu. Samþykki skal vera skriflegt og gefið eftir að viðkomandi hefur verið upplýstur um þýðingu samþykkis. Unnt er að afturkalla samþykki. Samþykki um málsmeðferð vegna annarra refsiverðra verknaða verður einungis afturkallað að samþykki um afhendingu sé afturkallað.
     Nú vill ríkissaksóknari afhenda eftirlýstan mann í samræmi við beiðni í handtökuskipun en hann samþykkir ekki afhendingu eða dregur samþykki til baka fyrir afhendingu og skal málið þá lagt fyrir héraðsdóm. Með úrskurði ákveður héraðsdómur hvort skilyrði séu til afhendingar. Ef unnt er skal fjallað um það atriði í sama þinghaldi og þegar fjallað er um beiðni um gæsluvarðhald. Þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun skulu lagðar til grundvallar nema þær séu augljóslega rangar. Heimilt er að kæra úrskurð til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum um meðferð sakamála að öðru leyti en því að kærufrestur er einn sólarhringur. Kæra frestar afhendingu. Ef dómur úrskurðar að skilyrði séu til afhendingar ákveður ríkissaksóknari innan þriggja sólarhringa hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu. Ef unnt er skal ákvörðun um afhendingu á eftirlýstum manni í þessum tilvikum tekin innan 30 daga frá handtöku.
     Frestir skv. 2. og 3. mgr. byrja ekki að líða fyrr en ríkissaksóknari hefur móttekið fullnægjandi upplýsingar til að taka ákvörðun. Nú nýtur eftirlýstur maður forréttinda eða friðhelgi hér á landi vegna þess verknaðar sem tilgreindur er í handtökuskipuninni og byrjar frestur í slíkum tilvikum ekki að líða fyrr en forréttindin eða friðhelgin hafa verið afnumin. Nú eiga ákvæði 2. mgr. 12. gr. við og byrja frestir þá ekki að líða fyrr en viðkomandi ríki hefur veitt samþykki sitt.
     Ef ekki reynist í sérstökum tilvikum unnt að taka ákvörðun í máli innan tilgreindra fresta skal ríkissaksóknari strax skýra þeim sem gaf handtökuskipun út frá því.
     Ákvörðun ríkissaksóknara um afhendingu á eftirlýstum manni er endanleg.
     Nú liggur ákvörðun um afhendingu fyrir og skal ríkissaksóknari þá þegar tilkynna það til þess aðila sem gaf handtökuskipunina út.
     Ráðherra getur sett reglur um upplýsingagjöf til eftirlýsts manns og samþykki.

14. gr.

Ákvörðun um afhendingu þegar beiðnum lýstur saman.
     Nú liggja fleiri en ein norræn handtökuskipun fyrir varðandi sama einstakling og ákveður ríkissaksóknari þá við hvaða beiðni verður orðið.
     Þegar framsalsbeiðni frá ríki utan Norðurlanda liggur fyrir til viðbótar við eina eða fleiri norrænar handtökuskipanir ákveður dómsmála- og mannréttindaráðuneytið við hvaða beiðni verður orðið.
     Við mat á því við hvaða handtökuskipun eða framsalsbeiðni skuli orðið skal taka tillit til grófleika afbrots, hvar það var framið, hvenær handtökuskipanirnar voru gefnar út og hvort þær eru gefnar út vegna málsmeðferðar eða til fullnustu refsingar.

15. gr.

Frestur til afhendingar.
     Þegar endanleg ákvörðun um afhendingu liggur fyrir skal afhenda eftirlýstan mann eins fljótt og unnt er og í síðasta lagi fimm sólarhringum eftir að ákvörðunin um afhendingu var tekin. Nú er ekki unnt vegna sérstakra aðstæðna að afhenda eftirlýstan mann innan framangreindra tímamarka og skal ríkissaksóknari þá strax semja um nýjan frest við þann sem gaf handtökuskipunina út.
     Heimilt er að fresta afhendingu vegna mjög mikilvægra mannúðarástæðna.

16. gr.

Frestur og tímabundin afhending.
     Heimilt er að fresta afhendingu eftirlýsts manns vegna máls hér á landi gegn honum vegna annars refsiverðs verknaðar eða vegna fullnustu refsingar vegna annars afbrots.
     Í stað þess að fresta afhendingu er heimilt að afhenda eftirlýstan mann tímabundið samkvæmt skilyrðum sem samið er um í skriflegu samkomulagi milli ríkissaksóknara og þess sem gaf handtökuskipunina út.

IV. KAFLI
Afhending til Íslands.

17. gr.

Útgáfa norrænnar handtökuskipunar.
     Ríkissaksóknari getur gefið út handtökuskipun sem send er til annars norræns ríkis vegna meðferðar máls gegn eftirlýstum manni þegar grunur leikur á að hann hafi framið refsiverðan verknað sem getur varðað fangelsisrefsingu. Sama gildir um fullnustu refsingar þegar fyrir liggur endanlegur dómur sem felur í sér fangelsisrefsingu eða aðra frjálsræðissviptingu.
     Efni og form handtökuskipunar skal vera í samræmi við 2. gr. og skal hún send til þess stjórnvalds sem samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkis er bært til að taka á móti handtökuskipun.

18. gr.

Frádráttur gæsluvarðhalds við fullnustu refsingar.
     Nú er eftirlýstur maður sendur hingað til lands vegna fullnustu á refsingu hér á landi og skal þá draga frá refsingunni þann tíma sem hann var sviptur frjálsræði vegna meðferðar beiðninnar um afhendingu í því ríki sem tók á móti handtökuskipuninni. Sama gildir þegar eftirlýstur maður er afhentur vegna málsmeðferðar verði hann dæmdur í fangelsisrefsingu hér á landi vegna þess verknaðar sem tilgreindur er í handtökuskipuninni.

19. gr.

Málsmeðferð vegna annars refsiverðs verknaðar.
     Sækja má þann til saka sem fluttur er hingað til lands fyrir önnur afbrot en þau sem hann er afhentur vegna, framin fyrir afhendinguna, nema:
 1. í því ríki sem afhenti viðkomandi eigi við þau atriði er greinir í a–f-lið 5. gr. eða fyrir liggi upplýsingar um atriði er greinir í g-lið 5. gr., eða
 2. verknaðurinn sé að hluta eða í heild framinn á landsvæði þess ríkis sem afhenti viðkomandi eða á stað sem jafna má til þess og verknaðurinn sé ekki refsiverður samkvæmt löggjöf þess ríkis nema það ríki samþykki málsmeðferðina.

     Þrátt fyrir að ákvæði í b-lið 1. mgr. séu ekki uppfyllt er heimilt að sækja þann til saka sem afhentur er hingað til lands vegna afbrota sem framin eru fyrir afhendinguna þegar:
 1. hann hefur ekki yfirgefið landið, enda hafi hann getað gert það í 45 daga, eða
 2. hann hefur komið sjálfviljugur til baka til landsins eftir að hafa yfirgefið það, eða
 3. hann hefur fyrir eða eftir afhendinguna samþykkt málsmeðferð vegna annarra verknaða.


20. gr.

Framsal einstaklings sem afhentur er hingað til lands frá öðru norrænu ríki.
     Einungis er heimilt að framselja mann, sem afhentur hefur verið hingað til lands, til þriðja ríkis að:
 1. sá sem er eftirlýstur samþykki það,
 2. sá sem er eftirlýstur hafi ekki yfirgefið landið, enda hafi hann getað gert það í 45 daga,
 3. sá sem er eftirlýstur hafi komið sjálfviljugur til baka til landsins eftir að hafa yfirgefið það, eða
 4. ríkið sem afhenti eftirlýstan mann hingað til lands samþykki frekara framsal.

     Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið tekur ákvörðun um frekara framsal til ríkis utan Norðurlanda samkvæmt ákvæðum í almennum lögum um framsal sakamanna.

V. KAFLI
Önnur ákvæði í sambandi við afhendingu.

21. gr.

Haldlagning og afhending muna.
     Ríkissaksóknari skal láta leggja hald á mun og afhenda hann þegar munurinn telst hafa þýðingu sem sönnunargagn í málinu sem tilgreint er í handtökuskipuninni eða er ágóði af refsiverða verknaðinum. Sama gildir þegar eftirlýstur maður er látinn eða horfinn.
     Ríkissaksóknari getur látið halda muninum, sbr. 1. mgr., eða afhent hann tímabundið þegar það telst hafa þýðingu vegna sönnunar í tengslum við mál sem rekið er hér á landi.
     Afhending hefur ekki áhrif á gildandi réttindi varðandi muninn. Heimilt er að setja skilyrði fyrir afhendingu ef það er nauðsynlegt til að verja slík réttindi.

22. gr.

Gegnumflutningur.
     Heimilt er að flytja mann sem Danmörk, Finnland, Noregur eða Svíþjóð afhendir til eins af þessum ríkjum um íslenskt yfirráðasvæði án sérstaks samþykkis.

VI. KAFLI
Lokaákvæði.

23. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi þegar samningur um framsal vegna refsiverðra verknaða milli Norðurlandanna (norræn handtökuskipun) tekur gildi í öllum aðildarríkjunum, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, og skal ráðherra birta auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistökuna. Þó er ráðherra heimilt að ákveða með auglýsingu í Stjórnartíðindum að lögin öðlist gildi fyrr gagnvart þeim aðildarlöndum sem hafa skuldbundið sig samkvæmt samningnum. Við gildistöku laga þessara falla brott lög um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962.

24. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. 6. gr. laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69/1963, orðast svo:
 2.      Nú er maður fluttur samkvæmt ákvæðum 5. gr. til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar til að afplána fangelsisrefsingu og skal þá, eftir því sem við á, farið eftir ákvæðum 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).
 3. Eftirfarandi breytingar verða á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, með síðari breytingum:
  1. 3. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
  2.      Samþykki til að viðkomandi maður verði framseldur áfram til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar er þó heimilt að veita ef fyrir hendi eru skilyrði laga um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).
  3. 2. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.
  4. 3. málsl. 4. mgr. 22. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 15/2000, orðast svo: Varðandi beiðnir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð gildir ekki heldur fyrra skilyrði 1. málsl.
  5. 4. málsl. 3. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Fyrsti málsliður gildir ekki varðandi beiðnir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Nú er beiðni um framsal sakamanns til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar móttekin fyrir gildistöku laga þessara og fer þá um meðferð hennar samkvæmt lögum um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962.

Samþykkt á Alþingi 16. febrúar 2010.