Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1034, 138. löggjafarþing 158. mál: Íslandsstofa (heildarlög).
Lög nr. 38 6. maí 2010.

Lög um Íslandsstofu.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.

2. gr.

Hlutverk.
     Stofnuð er Íslandsstofa. Hlutverk hennar er:
  1. að vera samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að efla ímynd og orðspor Íslands,
  2. að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf í því skyni að greiða fyrir útflutningi á vöru og þjónustu,
  3. að laða til landsins erlenda ferðamenn með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi,
  4. að laða erlenda fjárfestingu til Íslands, upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fjárfestingarmál,
  5. að styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis.


3. gr.

Stjórn.
     Stjórn Íslandsstofu skipa sjö menn valdir til þriggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fjóra stjórnarmenn eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu mennta- og menningarmálaráðherra og einn án tilnefningar. Utanríkisráðherra skipar formann stjórnar að höfðu samráði við aðra tilnefningaraðila. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Að höfðu samráði við ráðgjafaráð skipuleggur stjórnin og ákveður verkefni Íslandsstofu, samþykkir árlega starfs- og fjárhagsáætlun stofunnar og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra Íslandsstofu og ákveður starfskjör hans.
     Stjórnin skal í samráði við viðkomandi ráðuneyti sjá til þess að starfrækt séu fagráð um áherslur í markaðs- og kynningarmálum erlendis á sviði ferðaþjónustu, matvælagreina, umhverfismála, menningarmála og fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi. Eftir atvikum getur stjórnin með sama hætti skipað fagráð á fleiri sviðum. Þá skipar stjórnin ráðgjafaráð er skal vera henni til ráðuneytis um stefnumörkun og áherslur í störfum stofunnar. Málsvarar mikilvægustu hagsmuna á starfssviði stofunnar skulu eiga sæti í ráðgjafaráðinu sem kemur saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Utanríkisráðherra setur nánari reglur um ráðgjafaráðið, þ.m.t. um fjölda fulltrúa, samkvæmt tillögum stjórnarinnar.
     Stjórnin boðar til aðalfundar Íslandsstofu sem halda skal fyrir 1. maí ár hvert. Rétt til setu á aðalfundum eiga þeir aðilar sem tilnefna fulltrúa í stjórn Íslandsstofu, fulltrúar í ráðgjafaráði og þeir aðilar sem eiga fulltrúa í fagráðum Íslandsstofu. Stjórninni er heimilt að bjóða fleirum til setu á aðalfundi. Á aðalfundi gerir stjórnin grein fyrir stefnumótun Íslandsstofu og störfum sínum og fagráða og birtir rekstraráætlanir og ársreikninga.

4. gr.

Rekstur.
     Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn Íslandsstofu og ræður starfsfólk. Íslandsstofa hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald og er undanþegin tekjuskatti. Stjórn Íslandsstofu ákveður gjaldskrá fyrir þjónustu. Þess skal gætt að útseld þjónusta standi að mestu leyti undir kostnaði við þau störf sem unnin eru samkvæmt beiðni einstakra aðila sem leita eftir þjónustu Íslandsstofu. Ríkisendurskoðun annast árlega endurskoðun reikninga stofunnar.

5. gr.

Tekjur.
     Tekjur Íslandsstofu eru:
  1. Markaðsgjald, 0,05%, sem lagt er á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds eins og hann er skilgreindur í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Um álagningu og innheimtu markaðsgjalds fer eftir ákvæðum þeirra laga. Markaðsgjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
  2. Framlög í fjárlögum.
  3. Þóknun fyrir veitta þjónustu.
  4. Þjónustusamningar við stofnanir og samtök.
  5. Sérstök framlög og aðrar tekjur. Íslandsstofu ber að stofna til samstarfs við þá aðila sem vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta og skal ráðstafa 14% af tekjum af markaðsgjaldi til verkefna af þeim toga.


6. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn stjórnar Íslandsstofu, að kveða nánar á um starfsemi Íslandsstofu í reglugerð.

7. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002, með síðari breytingum.

8. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
  1. Í stað orðanna „Útflutningsráðs Íslands“ í 1. mgr. 5. gr. laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005, með síðari breytingum, kemur: Íslandsstofu.
  2. Í stað orðsins „Útflutningsráði“ í 1. mgr. 12. gr. kvikmyndalaga, nr. 137/2001, með síðari breytingum, kemur: Íslandsstofu.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Við gildistöku laga þessara tekur Íslandsstofa við öllum réttindum og skyldum Útflutningsráðs Íslands, eignum þess og skuldum.

II.
     Verði ekki annað ákveðið með lögum fellur markaðsgjald skv. 1. tölul. 5. gr. niður frá og með 1. janúar 2013, þó þannig að álagning gjaldsins fari fram árið 2013 vegna gjaldstofns ársins 2012.

III.
     Utanríkisráðherra skal boða til stofnfundar Íslandsstofu innan átta vikna frá gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 29. apríl 2010.