Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1533, 140. löggjafarþing 735. mál: atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða (heildarlög).
Lög nr. 60 25. júní 2012.

Lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.


I. KAFLI
Gildissvið, markmið, skýringar og skyldutrygging.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um starfsendurhæfingarsjóði, framlög til þeirra og rétt einstaklinga til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja einstaklingum með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa atvinnutengda starfsendurhæfingu sem skal vera einn þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfa saman eins og kostur er og leitast við að skilgreina og sinna hlutverkum sínum með þeim hætti að sem flestir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði.

3. gr.

Atvinnutengd starfsendurhæfing.
     Í lögum þessum merkir atvinnutengd starfsendurhæfing ferli sem felur í sér ráðgjöf og úrræði fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa til að auka starfsgetu þeirra og stuðla markvisst að endurkomu þeirra til vinnu að fullu eða hluta. Atvinnutengd starfsendurhæfing skal byggð á einstaklingsbundinni áætlun, sbr. b-lið 1. mgr. 10. gr., þar sem unnið er með styrkleika einstaklingsins samhliða því að lögð er áhersla á að draga úr áhrifum hindrana sem skerða starfsgetu hans.

4. gr.

Skyldutrygging og aðild að starfsendurhæfingarsjóði.
     Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sem eru á aldrinum 16 til 70 ára, skal tryggður réttur til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með greiðslu iðgjalds í starfsendurhæfingarsjóð, sbr. 5. gr., að uppfylltum skilyrðum laga þessara.
     Um aðild að starfsendurhæfingarsjóði fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs velur launamaður sér starfsendurhæfingarsjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Sá sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi velur sér starfsendurhæfingarsjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Ráðherra skal með reglugerð viðurkenna þann starfsendurhæfingarsjóð sem iðgjaldi skal skilað til sé ekki kveðið á um aðild að starfsendurhæfingarsjóði í kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti eða hann ekki valinn þegar það á við.
     Óheimilt er að neita einstaklingi um aðild að starfsendurhæfingarsjóði, svo sem á grundvelli heilsufars, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns, enda uppfylli hann skilyrði laga þessara um aðild að starfsendurhæfingarsjóði.

II. KAFLI
Framlög til starfsendurhæfingarsjóða.

5. gr.

Framlag atvinnurekenda.
     Öllum atvinnurekendum og þeim sem stunda sjálfstæða starfsemi er skylt að greiða iðgjald vegna sjálfra sín og launamanna er starfa hjá þeim til starfsendurhæfingarsjóðs, sbr. 2. mgr. 4. gr. Iðgjald atvinnurekanda og þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi til starfsendurhæfingarsjóðs skal vera 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     Iðgjald skv. 1. mgr. skal greitt í hverjum mánuði til þess lífeyrissjóðs sem lífeyrisiðgjald vegna launamanns eða þess er stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er greitt til. Um gjalddaga og eindaga þess fer eftir reglum þeim sem gilda um skil lífeyrisiðgjalds til viðkomandi lífeyrissjóðs.
     Lífeyrissjóður skal skila innheimtu iðgjaldi skv. 1. mgr. til hlutaðeigandi starfsendurhæfingarsjóðs eigi síðar en á tíunda degi næsta mánaðar eftir að því er skilað til lífeyrissjóðs, sbr. 2. mgr., að frádreginni þóknun vegna umsýslunnar. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og iðgjaldið fellur í gjalddaga. Atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi skulu upplýsa lífeyrissjóðinn um til hvaða starfsendurhæfingarsjóðs iðgjaldi skuli skilað, ella skal iðgjaldinu skilað til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra viðurkennir að taki við iðgjöldum þegar sjóður er ekki valinn, sbr. 2. mgr. 4. gr.
     Lífeyrissjóður skal árlega innheimta vangreidd iðgjöld skv. 1. mgr. gegn greiðslu innheimtuþóknunar.
     Við ákvörðun þóknana skv. 3. og 4. mgr. skal tryggt að umsýsla og innheimta lífeyrissjóðsins hafi ekki kostnaðarauka í för með sér fyrir lífeyrissjóðinn, sbr. 4. og 5. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ráðherra skal ákveða þóknun náist ekki samkomulag um hana milli hlutaðeigandi lífeyrissjóðs og starfsendurhæfingarsjóðs.

6. gr.

Framlag lífeyrissjóða.
     Lífeyrissjóður, sem veitir viðtöku iðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, skal inna af hendi sérstakt gjald til starfsendurhæfingarsjóðs vegna sjóðfélaga sem nemur sömu fjárhæð og greidd hefur verið til þess sama starfsendurhæfingarsjóðs skv. 1. mgr. 5. gr. vegna hlutaðeigandi sjóðfélaga.
     Lífeyrissjóður skal skila gjaldi skv. 1. mgr. til starfsendurhæfingarsjóðs eigi síðar en á tíunda degi næsta mánaðar eftir að atvinnurekandi eða sá sem stundar sjálfstæða starfsemi stendur skil á lífeyrisiðgjaldi til sjóðsins.

7. gr.

Framlag ríkisins.
     Hluti af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald skal renna til starfsendurhæfingarsjóða, sbr. 3. gr. laga um tryggingagjald.
     Framlagið skal greitt í október hvert ár og skiptast milli starfsendurhæfingarsjóða á grundvelli hlutdeildar hvers sjóðs í heildarframlögum skv. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. til starfsendurhæfingarsjóða á næstliðnu almanaksári.

III. KAFLI
Starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

8. gr.

Tryggingavernd.
     Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum er:
 1. Sá sem iðgjald er greitt fyrir til starfsendurhæfingarsjóðs skv. 5. gr. og telst hann tryggður í allt að tólf mánuði eftir að síðasta greiðsla barst starfsendurhæfingarsjóði eða lengur ef ástæða þess að hann hefur ekki getað tekið þátt á vinnumarkaði að fullu er í eðlilegu samhengi við þann heilsubrest sem varð til þess að hann hætti störfum.
 2. Sá sem fær greiðslur frá sjúkrasjóði eða fjölskyldu- og styrktarsjóði stéttarfélags, Atvinnuleysistryggingasjóði eða Fæðingarorlofssjóði, tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, tekjutengdar greiðslur samkvæmt lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum eða er fjarverandi frá eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi vegna veikinda.
 3. Sá sem nýtur tryggingaverndar á grundvelli samnings starfsendurhæfingarsjóðs við ráðherra, sbr. 9. gr.

     Sá sem telst tryggður skv. 1. mgr. skal jafnframt uppfylla skilyrði skv. 11. gr. til að eiga rétt til þjónustu starfsendurhæfingarsjóða.

9. gr.

Samningur við ráðherra.
     Þeir sem hyggjast standa að stofnun og rekstri starfsendurhæfingarsjóðs skulu gera samning við ráðherra um þjónustu sjóðsins, sbr. 10. gr., við einstaklinga utan vinnumarkaðar, þar á meðal þá sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar og þá sem fá fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og eftir atvikum aðra þá sem eiga ekki rétt til þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 8. gr., að uppfylltum skilyrðum 11. gr. Kostnaður vegna atvinnutengdrar starfsendurhæfingar þessara einstaklinga greiðist ekki sérstaklega en telst felast í framlagi úr ríkissjóði skv. 7. gr.
     Samningar skv. 1. mgr. skulu almennt vera ótímabundnir. Í þeim skal meðal annars kveðið á um eftirlit ráðherra með þjónustu sjóðsins skv. 23. gr., skil á fjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um mat á árangri. Árlega skal fara yfir framgang samningsins og möguleika til þróunar en endurskoða skal samninginn reglulega.

10. gr.

Þjónusta á vegum starfsendurhæfingarsjóða.
     Starfsendurhæfingarsjóður skal:
 1. Skipuleggja, hafa umsjón með og fjármagna þjónustu ráðgjafa í atvinnutengdri starfsendurhæfingu sem aðstoða þá sem eru tryggðir skv. 8. gr. og hafa þörf fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu, sbr. 11. gr.
 2. Móta og fjármagna gerð sérstakra einstaklingsbundinna áætlana um atvinnutengda starfsendurhæfingu fyrir þá sem eru tryggðir skv. 8. gr. og hafa þörf fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu, sbr. 11. gr.
 3. Fjármagna viðeigandi úrræði, aðgerðir og verkefni á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar fyrir þá sem eru tryggðir skv. 8. gr. og hafa þörf fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu, sbr. 11. gr., samkvæmt einstaklingsbundnum áætlunum eftir því sem við á hverju sinni.
 4. Veita atvinnurekendum og stjórnendum nauðsynlega fræðslu og stuðning með það að markmiði að stuðla að endurkomu einstaklinga til starfa eða auka möguleika þeirra til þátttöku í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa.

     Starfsendurhæfingarsjóðir skulu sjá til þess að þjónusta skv. a–c-lið 1. mgr. sé skipulögð þannig að einstaklingar sem eru tryggðir skv. 8. gr. og hafa þörf fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu, sbr. 11. gr., fái þjónustuna sem næst heimabyggð sinni.
     Þegar tryggður einstaklingur skv. 8. gr. hefur þörf fyrir þjónustu sem veitt er innan annarra þjónustukerfa á vegum ríkis og sveitarfélaga til að ná árangri við að bæta starfsgetu sína skulu ráðgjafar starfsendurhæfingarsjóða leita eftir samstarfi við hlutaðeigandi þjónustuaðila í samráði við viðkomandi einstakling.
     Starfsendurhæfingarsjóði er jafnframt heimilt að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu, einn og sér eða í samstarfi við aðra aðila.

11. gr.

Skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóða.
     Skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs er að einstaklingur búi við heilsubrest sem hindrar fulla þátttöku hans á vinnumarkaði og að hann stefni að endurkomu á vinnumarkað eða að auka þátttöku á vinnumarkaði svo fljótt sem verða má. Enn fremur er það skilyrði að einstaklingurinn hafi þörf fyrir þjónustuna, hún sé til þess fallin að auðvelda honum að fara aftur til vinnu og líkleg til árangurs á þeim tíma sem hún er veitt. Þá er það skilyrði að einstaklingurinn hafi vilja og getu til að taka markvissan þátt í atvinnutengdri starfsendurhæfingu og fylgja þeirri áætlun sem þar er sett fram.
     Starfsendurhæfingarsjóður metur hvort skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt.
     Starfsendurhæfingarsjóði er heimilt að binda þjónustu við einstakling skv. 10. gr. við það skilyrði að hann skuldbindi sig til virkrar þátttöku í atvinnutengdri starfsendurhæfingu, þar með talið með því að lýsa sig reiðubúinn til þátttöku í atvinnutengdri starfsendurhæfingu sem getur að hluta farið fram í vinnuumhverfi, með starfskynningum, vinnuprófunum, þátttöku í sjálfboðaverkefnum eða reynsluráðningu á vinnumarkaði.

12. gr.

Meðferð persónuupplýsinga.
     Upplýsingaskrár starfsendurhæfingarsjóða þar sem fram koma upplýsingar um þá sem njóta þjónustu sjóðanna skulu varðveittar með öruggum hætti þannig að upplýsingarnar glatist ekki. Starfsmenn sem starfa á vegum starfsendurhæfingarsjóða og koma að ráðgjöf og gerð einstaklingsbundinna áætlana og þurfa af þeirri ástæðu á upplýsingum um hlutaðeigandi að halda skulu hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum í upplýsingaskrá þess sjóðs sem þeir starfa hjá. Hið sama á við um fagaðila sem starfa á vegum sjóðsins og eru bundnir trúnaðarskyldu samkvæmt öðrum lögum. Að öðru leyti er aðgangur að upplýsingaskrá starfsendurhæfingarsjóðs óheimill.
     Sé rekstri starfsendurhæfingarsjóðs hætt skal flytja upplýsingarnar sem skráðar eru skv. 1. mgr. til embættis landlæknis.
     Sá sem nýtur þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs á rétt til aðgangs að upplýsingum um sjálfan sig, hvort sem er í heild eða að hluta, og til að fá afrit af þeim ef hann óskar þess.
     Að öðru leyti gilda lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

IV. KAFLI
Stofnun, starfsemi og stjórn starfsendurhæfingarsjóða.

13. gr.

Viðurkenning ráðherra.
     Starfsendurhæfingarsjóður skal starfa sem sjálfseignarstofnun sem stofnuð er af félögum á vegum einstaklinga eða samtaka á vinnumarkaði. Sjóðurinn skal að jafnaði taka reglulega við greiðslum skv. 5. gr. vegna að lágmarki 10.000 launamanna og/eða þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
     Þeir sem hyggjast standa að stofnun og rekstri starfsendurhæfingarsjóðs skulu tilkynna fyrirhugaðan rekstur til ráðherra. Ráðherra veitir starfsendurhæfingarsjóði viðurkenningu að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
 1. Að fyrir liggi samþykktir (skipulagsskrá) í samræmi við 14. gr.
 2. Að fyrir liggi innkaupastefna fyrir sjóðinn í samræmi við 18. gr.
 3. Að fyrir liggi samningur við ráðherra skv. 9. gr.

     Óheimilt er að hefja rekstur starfsendurhæfingarsjóðs fyrr en viðurkenning ráðherra samkvæmt 2. mgr. liggur fyrir og skráning sjálfseignarstofnunar hefur formlega tekið gildi.
     Starfsendurhæfingarsjóðum er einum heimilt auk þess sem þeim er skylt að nota í heiti sínu orðið „starfsendurhæfingarsjóður“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum eða til nánari skýringa á starfsemi sinni.

14. gr.

Samþykktir (skipulagsskrá).
     Starfsendurhæfingarsjóður skal í samþykktum (skipulagsskrá) skilgreina starfssvið sitt með viðeigandi hætti þannig að fram komi hverjir eigi aðild að sjóðnum á grundvelli iðgjalda skv. 5. gr. og hverjir eigi rétt á þjónustu sjóðsins á grundvelli 2. og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr., sbr. einnig samning við ráðherra skv. 9. gr.
     Auk þeirra atriða sem um getur í 1. mgr. skal eftirtalið koma fram í samþykktum (skipulagsskrá) starfsendurhæfingarsjóðs:
 1. Heiti, heimili og aðalstarfsstöð sjóðsins.
 2. Markmið, verkefni og hlutverk sjóðsins.
 3. Stofnendur sjóðsins og framlagsfé þeirra.
 4. Stofnfé sjóðsins.
 5. Hvort sjóðurinn skuli taka við öðrum fjármunum en reiðufé í tengslum við stofnunina.
 6. Almenn skilyrði um aðild að sjóðnum og um brottfall aðildar.
 7. Hvernig boða skuli til ársfundar, hvaða mál skuli þar lögð fram, hverjir eigi þar atkvæðisrétt og hvernig atkvæðisréttur er ákveðinn.
 8. Hlutverk stjórnar, fjöldi stjórnarmanna og varamanna þeirra, stjórnartími þessara aðila, svo og hvernig vali þeirra og endurskoðanda skuli háttað, sbr. 16. gr.
 9. Hlutverk og skipan að minnsta kosti 20 manna fulltrúaráðs sem kemur árlega saman. Kveða skal á um val og starfstíma fulltrúaráðsins ásamt hlutverki eða starfssviði þess. Fulltrúaráðið skal meðal annars velja í stjórn í samræmi við ákvæði samþykkta (skipulagsskrá), fylgjast með rekstri sjóðsins og hafa eftirlit með því hvernig stjórn og framkvæmdastjóri ráða málum hans, þar með töldum fjármálum, og setja sjóðnum nauðsynlegar starfsreglur.
 10. Hvernig ráðstafa skuli rekstrarafgangi eða bregðast við ef tap verður á rekstri starfsendurhæfingarsjóðsins.
 11. Framkvæmd reglubundinnar úttektar skv. 2. mgr. 15. gr. á fjárhag, skuldbindingum og starfsemi sjóðsins.
 12. Réttur þeirra sem eru tryggðir skv. 8. gr. til þjónustu og hver séu nánari skilyrði réttar til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar skv. 11. gr. Þá skal kveðið á um framkvæmd þjónustunnar.
 13. Hvernig staðið skuli að breytingu á samþykktum (skipulagsskrá) sjóðsins.
 14. Upplýsingaskylda sjóðsins við þá sem teljast tryggðir skv. 8. gr.
 15. Hver sé bær til að taka ákvörðun um slit starfsendurhæfingarsjóðs.

     Allar breytingar á samþykktum (skipulagsskrá) starfsendurhæfingarsjóðs skal tilkynna ráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur viðurkennt þær, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. Enn fremur skulu samþykktir (skipulagsskrá) vera þeim sem teljast tryggðir skv. 8. gr. aðgengilegar.

15. gr.

Framlög standi undir þjónustu og úttekt á fjárhag.
     Framlög til starfsendurhæfingarsjóðs skv. 5.–7. gr. skulu standa undir þeirri þjónustu sem sjóðnum er skylt að veita samkvæmt lögum þessum, samþykktum (skipulagsskrá) sjóðsins og samningi við ráðherra skv. 9. gr. Sjóðurinn skal ábyrgjast skuldbindingar sínar með framlögum skv. 5.–7. gr. og skulu samþykktirnar (skipulagsskráin) miðast við að sjóðurinn geti staðið við þær. Greiðendur skv. 5.–7. gr. bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en framlögum sínum.
     Starfsendurhæfingarsjóður skal á þriggja ára fresti láta fara fram úttekt á fjárhag, skuldbindingum og starfsemi sjóðsins til þess að tryggt sé að þjónusta sjóðsins rúmist innan framlaga til hans.
     Starfsendurhæfingarsjóði er óheimilt að taka lán nema til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi sjóðsins. Starfsendurhæfingarsjóði er þó heimilt að nýta almenna greiðslufresti vegna kaupa á þjónustu eða taka skammtímalán til þess að jafna fjárstreymi.
     Óheimilt er að greiða fé úr starfsendurhæfingarsjóði til þeirra sem að honum standa sem arð eða hvers konar ígildi arðs. Enn fremur er óheimilt að ákvarða þeim sem að starfsendurhæfingarsjóði standa sérstök réttindi úr sjóðnum umfram aðra sem aðild eiga að viðkomandi sjóði.

16. gr.

Stjórn, stjórnarmenn og framkvæmdastjóri.
     Stjórn starfsendurhæfingarsjóðs skal skipuð að lágmarki fimm stjórnarmönnum og jafnmörgum til vara. Stjórnin fer með yfirstjórn sjóðsins og ber ábyrgð á starfseminni í samræmi við lög þessi og samþykktir (skipulagsskrá) sjóðsins. Stjórnartími skal vera fjögur ár nema annað sé ákveðið í samþykktum (skipulagsskrá).
     Hlutverk stjórnar starfsendurhæfingarsjóðs er meðal annars að:
 1. Móta stefnu sjóðsins.
 2. Annast ráðningu framkvæmdastjóra, ákveða laun og ráðningarkjör hans samkvæmt sérstöku erindisbréfi.
 3. Setja reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar, svo sem um rekstur, iðgjöld, þjónustuna sem starfsendurhæfingarsjóðurinn veitir og ráðstöfun fjármuna.
 4. Fjalla um allar meiri háttar ákvarðanir varðandi starfsemi sjóðsins.
 5. Sjá um að nægjanlegt eftirlit sé haft með rekstri, bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins.
 6. Móta innra eftirlit sjóðsins með samstarfsaðilum og skjalfesta eftirlitsferla.
 7. Gera tillögur að breytingum á samþykktum (skipulagsskrá).
 8. Boða til ársfundar fyrir lok júní ár hvert.
 9. Gera tillögu til ársfundar um val á endurskoðanda.
 10. Láta fara fram reglulega úttekt skv. 2. mgr. 15. gr. á fjárhag, skuldbindingum og starfsemi sjóðsins.
 11. Semja ársreikning ásamt framkvæmdastjóra, sbr. 20. gr., sem og skýrslu stjórnar, sbr. 21. gr., fyrir hvert reikningsár.
 12. Skera úr ágreiningsmálum er lúta að ákvörðunum um veitingu þjónustu sem teknar eru á grundvelli mats skv. 1. mgr. 11. gr.

     Halda skal gerðabók um það sem gerist á fundum stjórnar. Fundargerðir skal bera upp á fundum stjórnar og skulu stjórnarformaður og framkvæmdastjóri undirrita fundargerðirnar.
     Stjórnarmenn í stjórn starfsendurhæfingarsjóðs skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld. Um hæfi stjórnarmanna starfsendurhæfingarsjóðs til meðferðar máls fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga.
     Fulltrúaráð ákveður þóknun stjórnarmanna.
     Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og þeim fyrirmælum sem sjóðstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdastjóri einungis gert samkvæmt heimild frá stjórn sjóðsins.
     Stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í tengdum rekstri. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í rekstri þar sem viðkomandi og maki hans, barn hans eða nákomnir ættingjar hans hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Einstaklingur telst hafa ráðandi stöðu í þessu sambandi ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum á samtals 50% hlut eða meira í fyrirtæki.
     Um hæfi framkvæmdastjóra fer skv. 4. mgr. Framkvæmdastjóri getur ekki verið stjórnarformaður starfsendurhæfingarsjóðs.

17. gr.

Ársfundur.
     Allir þeir launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem eru tryggðir skv. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. skulu eiga rétt til fundarsetu á ársfundi með málfrelsi og tillögurétt hjá þeim starfsendurhæfingarsjóði sem iðgjald vegna þeirra skv. 5. gr. hefur verið greitt til. Atkvæðisréttur skal vera í samræmi við samþykktir (skipulagsskrá) hlutaðeigandi sjóðs, sbr. 14. gr.
     Ársfund skal halda fyrir lok júní ár hvert og skal hann boðaður með tryggilegum hætti í samræmi við samþykktir (skipulagsskrá) sjóðsins.
     Á ársfundi skal gerð grein fyrir skýrslu stjórnar, ársreikningum og tillögum stjórnar til breytinga á samþykktum (skipulagsskrá) sjóðsins.

18. gr.

Innkaupastefna.
     Starfsendurhæfingarsjóður skal gæta hagkvæmni, jafnræðis og gagnsæis við innkaup á þjónustu. Hann skal áður en hann gengur til samninga um þjónustu gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Slíkur samanburður skal jafnan gerður bréflega eða með rafrænni aðferð. Þá skal sjóðurinn tryggja að ekki sé greitt hærra verð fyrir þjónustuna en eðlilegt getur talist að virtum þeim kostnaðarþáttum sem liggja til grundvallar hverju sinni.
     Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að gera samninga til skamms tíma um rannsóknir, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu, sbr. 4. mgr. 10. gr., án þess að samanburður skv. 1. mgr. fari fram.

19. gr.

Þagnarskylda.
     Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn sem starfa á vegum starfsendurhæfingarsjóðs, svo og endurskoðendur sjóðsins, skulu gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu um heilsufar þeirra sem leita til starfsendurhæfingarsjóðsins, svo sem um ástand þeirra, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
     Þagnarskylda skv. 1. mgr. nær ekki til atvika sem starfsmanni starfsendurhæfingarsjóðs ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lögum. Í þeim tilvikum ber starfsmanni skylda til að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær stjórnvöld. Þagnarskyldan helst að öðru leyti.
     Einstaklingur sem nýtur þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs getur með samþykki sínu veitt starfsmanni starfsendurhæfingarsjóðs heimild til að miðla upplýsingum um sig til annarra aðila.

V. KAFLI
Ársreikningur, skýrsla stjórnar og endurskoðun.

20. gr.

Ársreikningur.
     Stjórn starfsendurhæfingarsjóðs og framkvæmdastjóri skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar. Skýrsla stjórnar skv. 21. gr. ásamt ársreikningi mynda eina heild. Reikningsár starfsendurhæfingarsjóðs er almanaksárið.
     Ársreikningur skal undirritaður af stjórn starfsendurhæfingarsjóðs og framkvæmdastjóra hans. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.
     Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu starfsendurhæfingarsjóðs. Hann skal gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.

21. gr.

Skýrsla stjórnar.
     Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á reikningsárinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hans og afkomu á reikningsárinu en ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.
     Í skýrslu stjórnar skal enn fremur upplýst um eftirfarandi:
 1. atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,
 2. væntanlega þróun sjóðsins og
 3. aðgerðir sem hafa umtalsverða þýðingu fyrir framtíðarþróun hans.

     Skýrsla stjórnar skal veita upplýsingar um fjölda þeirra sem greitt er vegna á árinu, fjölda starfsmanna sjóðsins að meðaltali á reikningsárinu, heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, stjórnar og annarra í þjónustu sjóðsins.

22. gr.

Endurskoðun.
     Endurskoðun hjá starfsendurhæfingarsjóði skal gerð af löggiltum endurskoðanda í samráði við ríkisendurskoðanda.
     Endurskoðanda starfsendurhæfingarsjóðs er óheimilt að sitja í stjórn hans, vera starfsmaður hans eða starfa í þágu hans að öðru en endurskoðun.
     Um endurskoðun hjá starfsendurhæfingarsjóði gilda ákvæði laga um ársreikninga, eftir því sem við á, nema annað komi fram í lögum þessum.
     Verði endurskoðandi var við verulega ágalla í rekstri starfsendurhæfingarsjóðs eða atriði er varða innra eftirlit, innheimtu, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu sjóðsins, svo og ef hann hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um starfsemina hafi verið brotnar, skal hann þegar í stað gera stjórn sjóðsins og ráðherra viðvart. Ákvæði þetta brýtur ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðanda.

VI. KAFLI
Eftirlit og slit.

23. gr.

Eftirlit ráðherra.
     Ráðherra hefur eftirlit með að starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sé í samræmi við ákvæði laga þessara, samþykktir (skipulagsskrár) starfsendurhæfingarsjóða og samninga skv. 9. gr.
     Ráðherra hefur heimild til að krefja starfsendurhæfingarsjóði um upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu og er þeim skylt að verða við slíkri kröfu.
     Telji ráðherra að starfsendurhæfingarsjóður uppfylli ekki kröfur samkvæmt lögum þessum, samþykktum (skipulagsskrá) sjóðsins eða samningi skv. 9. gr. eða starfsemi hans sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust skal hann beina tilmælum um úrbætur til sjóðsins.
     Verði starfsendurhæfingarsjóður ekki við tilmælum ráðherra um úrbætur skv. 3. mgr. innan hæfilegs frests skal ráðherra afturkalla viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðs skv. 13. gr. Sé um að ræða ásetning eða stórfellt gáleysi getur ráðherra afturkallað viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðs án þess að veita honum undanfarandi frest til úrbóta.

24. gr.

Slit starfsendurhæfingarsjóðs og yfirfærsla tryggingaverndar.
     Komi til afturköllunar á viðurkenningu ráðherra á starfsendurhæfingarsjóði skv. 4. mgr. 23. gr. skal ráðherra taka ákvörðun um slit sjóðsins. Sjóðurinn skal einnig tekinn til slita ef sá sem er bær til þess að taka ákvörðun um slit starfsendurhæfingarsjóðs samkvæmt samþykktum (skipulagsskrá) tilkynnir um slíka ákvörðun til ráðherra.
     Ráðherra skal í þeim tilvikum sem um getur í 1. mgr. þegar í stað skipa skilanefnd er taki við störfum stjórnar og framkvæmdastjóra sjóðsins. Ráðherra skal á sama tíma tilnefna annan starfsendurhæfingarsjóð til þess að annast tryggingavernd gagnvart þeim sem voru tryggðir hjá sjóðnum við upphaf slitameðferðar hans. Sé sú leið ekki fær getur ráðherra í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Landssamtök lífeyrissjóða leitað annarra leiða til að tryggja áframhaldandi þjónustu eftir því sem kostur er.
     Ákvarðanir um slit starfsendurhæfingarsjóðs skv. 1. mgr., ákvörðun um skipun skilanefndar og ákvörðun um tilnefningu annars starfsendurhæfingarsjóðs skv. 2. mgr. skulu birtar samtímis í Lögbirtingablaði og auglýstar í fjölmiðlum.
     Skylda til greiðslu iðgjalds skv. 1. mgr. 5. gr. og sérstaks gjalds skv. 1. mgr. 6. gr. til starfsendurhæfingarsjóðs fellur niður við birtingu ákvörðunar um slit sjóðsins og skipun skilanefndar. Um leið stofnast skylda til greiðslu gjaldanna til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra tilnefnir skv. 2. málsl. 2. mgr. eða eftir atvikum 3. málsl. 2. mgr.
     Skilanefnd skal láta birta tvisvar í Lögbirtingablaði áskorun til lánardrottna sjóðsins um að lýsa kröfum sínum innan tveggja mánaða frá fyrstu birtingu áskorunar og hefur hún sömu réttaráhrif og gildir um innköllun krafna við gjaldþrotaskipti. Eignir sjóðsins, sem eftir standa þegar skuldir hafa verið greiddar, skulu renna til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra tilnefnir skv. 2. málsl. 2. mgr. eða eftir atvikum 3. málsl. 2. mgr.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

25. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

26. gr.

Frádráttarbærni framlaga atvinnurekenda.
     Framlag atvinnurekenda og þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi til starfsendurhæfingarsjóðs skv. 1. mgr. 5. gr. telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt því ákvæði.

27. gr.

Undanþága frá skattskyldu.
     Starfsendurhæfingarsjóðir skulu undanþegnir tekjuskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt.

28. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. október 2012.
     Þrátt fyrir 1. mgr. kemur ákvæði b-liðar 29. gr. til framkvæmda í október 2013 þegar greiða skal framlag ríkisins skv. 7. gr. í fyrsta skipti.

VIII. KAFLI
Breytingar á öðrum lögum.

29. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum:
 1. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Starfsendurhæfingarsjóðir, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, fái í sinn hlut 0,13% af gjaldstofni skv. III. kafla.
 2. Ný grein bætist við lögin, sem verður 23. gr. a, svohljóðandi ásamt fyrirsögn:
 3. Framlög til starfsendurhæfingarsjóða.
       Framlag skv. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. skal greitt í október ár hvert og byggist á upplýsingum um fjárhæð stofns tryggingagjalds næstliðins árs.
 4. Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
 5.      Þrátt fyrir 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. a skulu starfsendurhæfingarsjóðir, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, á árinu 2013 fá í sinn hlut 0,13% af einum fjórða hluta gjaldstofns næstliðins árs skv. III. kafla. Á árinu 2014 skulu starfsendurhæfingarsjóðir fá í sinn hlut 0,13% af þremur fjórðu hlutum gjaldstofns næstliðins árs skv. III. kafla.


30. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum:
 1. Á eftir 2. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna kemur nýr málsliður, sem verður 3. málsl., svohljóðandi: Framlög lífeyrissjóða til starfsendurhæfingarsjóða samkvæmt lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða teljast framlög í þeim tilgangi sem um ræðir í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. ákvæðis þessa.
 2. Í stað orðsins „júlímánaðar“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XII í lögunum kemur: októbermánaðar.
 3. Nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lögin, svohljóðandi:
 4.      Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna skal framlag lífeyrissjóða skv. 6. gr. laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða á árunum 2012, 2013, 2014 og 2015 ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna.


31. gr.

     Við gildistöku laga þessara kemur í stað orðanna „1. júlí“ í 2. málsl. 4. gr. laga nr. 156/2011, um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (áhættustýring, vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga, starfsendurhæfingarsjóður, hæfi stjórnarmanna og sérstök vaxtaniðurgreiðsla): 1. október.

32. gr.

     Við gildistöku laga þessara verður 1. málsl. 10. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, svohljóðandi: Styrkir úr starfsendurhæfingarsjóðum, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila.

33. gr.

     Við gildistöku laga þessara bætist nýr stafliður, d-liður, við 4. gr. laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, svohljóðandi: starfsendurhæfingarsjóða.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Starfsendurhæfingarsjóðir, sem eru starfandi við gildistöku laga þessara, skulu innan árs frá gildistöku laganna tilkynna reksturinn til ráðherra skv. 13. gr. og uppfylla skilyrði laganna að öðru leyti. Hafi starfsendurhæfingarsjóður ekki nægjanlega marga sjóðfélaga skv. 1. mgr. 13. gr. skal í tilkynningu til ráðherra taka fram hvernig sjóðurinn hyggst uppfylla skilyrði greinarinnar. Um viðurkenningu ráðherra fer skv. 13. gr.

II.
     Stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og Landssamtök lífeyrissjóða skulu endurskoða framlög skv. 5.–7. gr. fyrir lok árs 2014.
     Ráðherra skal skipa fyrir árslok 2015 óháða nefnd sérfræðinga sem geri heildarúttekt á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða samkvæmt lögum þessum. Nefndin skal skipuð þremur til fimm nefndarmönnum og þar af einum tryggingastærðfræðingi. Nefndin skal skila skýrslu til ráðherra eigi síðar en 31. desember 2016.
     Nefndinni skal falið að leggja mat á það hvort framlögum skv. 5.–7. gr. hafi verið ráðstafað með sem skilvirkustum hætti í þágu þeirra markmiða sem stefnt er að í lögum þessum og hvort þjónusta starfsendurhæfingarsjóða hafi haft mælanleg áhrif á örorkubyrði lífeyrissjóða og almannatrygginga og nýgengi örorku á starfstíma starfsendurhæfingarsjóða.
     Starfsendurhæfingarsjóðir skulu bera kostnað af starfi nefndarinnar í hlutfalli við stærð þeirra og starfstíma.

Samþykkt á Alþingi 12. júní 2012.