Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 871, 141. löggjafarþing 416. mál: rannsóknarnefndir (skipun nefndar, kostnaður við gagnaöflun og skaðleysi nefndarmanna).
Lög nr. 158 28. desember 2012.

Lög um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011.


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Héraðsdómara sem er skipaður til setu í rannsóknarnefnd skal veitt leyfi frá störfum dómsins meðan nefndin starfar. Ríkisstarfsmenn skulu enn fremur eiga rétt á launalausu leyfi þann tíma sem rannsóknarnefnd starfar. Leyfi sem veitt er hefur ekki áhrif á önnur starfsréttindi, þar á meðal aðild að lífeyrissjóði.
     Verði nefndarmaður forfallaður eða ef hann getur ekki af öðrum ástæðum sinnt starfinu getur forseti Alþingis skipað annan mann til þess að taka sæti í nefndinni.

2. gr.

     Á eftir 6. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Gögn skulu afhent á því formi sem rannsóknarnefnd ákveður innan tilgreinds tíma og án endurgjalds. Þegar krafa beinist að aðila sem er til rannsóknar, sbr. 3. og 5. mgr. 5. gr., og þegar sérstaklega stendur á, getur rannsóknarnefnd ákveðið að kostnaður af afhendingu gagna greiðist að hluta eða að öllu leyti af nefndinni, sbr. 3. mgr. 3. gr.

3. gr.

     Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Skaðleysi nefndarmanna.
     Kröfum í einkamáli og málum skv. 2. og 3. tölul. 242. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, út af atriðum er koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar eða öðrum skýrslum í tengslum við rannsóknina verður ekki beint gegn nefndarmönnum sem unnið hafa að rannsókninni. Sama gildir ef mál er höfðað út af málsmeðferð í tilefni af henni. Íslenska ríkið ber ábyrgð á athöfnum þeirra eftir almennum reglum hvort sem mál er höfðað fyrir innlendum eða erlendum dómstóli. Verði mál höfðað fyrir erlendum dómstóli gegn nefndarmanni, þrátt fyrir 1. málsl., greiðir íslenska ríkið allan kostnað hans við rekstur málsins og aðrar áfallnar kröfur af því tilefni.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 3. gr. (13. gr. a) tekur jafnframt til þeirra nefndarmanna sem skipaðir hafa verið fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli laga um rannsóknarnefndir.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 2012.