Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 533, 143. löggjafarþing 144. mál: almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð (upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir).
Lög nr. 8 29. janúar 2014.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum (leiðbeiningar- og upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir).


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
  1. Í stað „52. gr.“ í 3. og 4. málsl. 5. mgr. kemur: 39. og 40. gr.
  2. Í stað „52. gr.“ í 6. mgr. kemur: 40. gr.
  3. Í stað „52. gr.“ í 9. mgr. kemur: 39., 40. og 46. gr.


2. gr.

     V. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Leiðbeiningar- og upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir, orðast svo ásamt fyrisögnum og millifyrirsögnum:
     
     a. (37. gr.)
A. Leiðbeiningar- og rannsóknarskylda.
Leiðbeiningarskylda.
     Tryggingastofnun ríkisins skal kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfar eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skal leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn og um framhald málsins.
     Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjendur og greiðsluþega um heimildir stofnunarinnar til vinnslu persónuupplýsinga. Skal þar koma fram frá hverjum stofnuninni er heimilt að afla upplýsinga, um hvaða upplýsingar er að ræða og í hvaða tilgangi unnið er með þær.
     Nú varðar erindi ekki starfssvið stofnunarinnar og skal það þá framsent á réttan stað svo fljótt sem auðið er og viðkomandi leiðbeint eftir því sem unnt er.
     
     b. (38. gr.)
Rannsóknarskylda.
     Tryggingastofnun skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir.
     
     c. (39. gr.)
B. Upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir.
Upplýsingaskylda umsækjenda og greiðsluþega.
     Umsækjanda eða greiðsluþega er rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá er skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.
     Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um maka umsækjanda eða greiðsluþega eftir því sem við getur átt.
     
     d. (40. gr.)
Upplýsingar um tekjur.
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda og greiðsluþega, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og greiðslur hjá lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt.
     Þegar um hjón er að ræða er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu skriflegu samþykki beggja, að afla upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá framangreindum aðilum ef þær gætu haft áhrif á fjárhæð bóta. Sama gildir um tekjur sambúðarfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun skv. 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt.
     Telji umsækjandi, greiðsluþegi eða maki upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar.
     
     e. (41. gr.)
Skortur á upplýsingum.
     Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar og gera honum grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingar er ekki sinnt.
     
     f. (42. gr.)
Upplýsingaskylda heilbrigðisstarfsmanna.
     Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem bera ábyrgð á vörslu sjúkraskráa, sbr. lög um sjúkraskrár, er skylt að veita læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna ákvörðunar um greiðslu bóta og vegna eftirlitshlutverks hennar. Þá er læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits og reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt.
     
     g. (43. gr.)
Upplýsingaskylda annarra aðila.
     Skattyfirvöld, Vinnumálastofnun, Þjóðskrá Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa, lífeyrissjóðir, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Lánasjóður íslenskra námsmanna, viðurkenndar menntastofnanir innan hins almenna menntakerfis og skólar á háskólastigi skulu láta Tryggingastofnun í té upplýsingar með rafrænum hætti eða á annan hátt að því marki sem slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til að unnt sé að framfylgja lögum þessum.
     Þá skulu Tryggingastofnun og sjúkratryggingastofnunin á sama hátt skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum upplýsingum að því marki sem þær eru nauðsynlegar við framkvæmd laganna.
     
     h. (44. gr.)
Upplýsingaskylda án endurgjalds.
     Upplýsingar og gögn sem Tryggingastofnun óskar eftir og unnt er að láta í té skulu veittar án endurgjalds, sbr. þó 20. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, og í því formi sem óskað er, enda liggi fyrir heimild um öflun þessara upplýsinga samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
     
     i. (45. gr.)
Eftirlit og viðurlög.
     Tryggingastofnun skal reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Stofnuninni er heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir eru upp í 43. gr. og nauðsynleg eru til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.
     Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum greiðsluþega.
     Leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi er heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fer skv. 55. gr.
     Leiki rökstuddur grunur á að bætur séu greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá greiðsluþega er heimilt að afla upplýsinga frá þriðja aðila sem ætla má að geti veitt upplýsingar er máli skipta í því skyni að leiðrétta bótagreiðslur.
     Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.
     
     j. (46. gr.)
C. Vernd persónuupplýsinga.
Þagnarskylda og meðferð persónuupplýsinga.
     Starfsfólki Tryggingastofnunar og umboðsskrifstofa hennar er óheimilt að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
     Þagnarskyldan gildir einnig um stjórn Tryggingastofnunar og þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina en eru ekki starfsmenn hennar.
     Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skal Tryggingastofnun gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Stofnunin skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga og setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá skal stofnunin jafnframt gæta ákvæða laga um sjúkraskrár eftir því sem við á.
     Upplýsingar sem aflað er vegna eftirlits á grundvelli ákvæða þessa kafla skal ekki varðveita lengur en nauðsynlegt er og skal þeim eytt að lokinni tímabundinni vinnslu í þágu eftirlits.
     
     k. (47. gr.)
     Ákvæði þessa kafla eiga við um sjúkratryggingastofnunina vegna framkvæmdar á IV. kafla laga þessara, eftir því sem við á.

3. gr.

     52. gr. laganna orðast svo:
     Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum. Þó þurfa þeir sem fá greiddan örorkulífeyri ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri skv. 17. gr. þegar þeir ná 67 ára aldri.
     Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti sem stofnunin telur fullnægjandi. Við afgreiðslu umsóknar skal þess gætt að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir, sbr. 38. gr., svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Sérstaklega skal þess gætt að umsækjandi, sem áunnið hefur sér rétt hjá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, hafi lagt fram umsókn um áunnin réttindi hjá viðkomandi lífeyrissjóðum og er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til upplýsingar um það liggja fyrir, sbr. 41. gr.
     Við meðferð máls og afgreiðslu umsóknar er Tryggingastofnun heimilt að afla upplýsinga frá þeim aðilum sem tilgreindir eru í 43. gr. sem og skv. 4. mgr. 45. gr. sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Sama á við um nauðsynlegar upplýsingar hjá stofnunum erlendis þegar það á við.
     Tryggingastofnun getur aflað upplýsinga skv. 3. mgr. með rafrænum hætti eða á annan hátt. Tryggja skal að upplýsingaöflun og úrvinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur til að unnt sé að framkvæma lögin.
     Ákvæði þessarar greinar eiga við um sjúkratryggingastofnunina eftir því sem við á.

4. gr.

     3. mgr. 53. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
  1. Í stað „52. gr.“ í 2. mgr. kemur: 39. gr.
  2. Í stað „3. mgr. 52. gr.“ í 4. mgr. kemur: 41. gr.
  3. 5. mgr. fellur brott.


II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

6. gr.

     Í stað „52. og 55. gr.“ í 2. málsl. 13. gr. laganna kemur: 39., 40., 46. og 55. gr.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
  1. Í stað „52. gr.“ í 5. mgr. kemur: 39. og 40. gr.
  2. Í stað „52. gr.“ í 6. mgr. kemur: 40. gr.
  3. Í stað „52. gr.“ í 9. mgr. kemur: 39. og 40. gr.


8. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2014.

Samþykkt á Alþingi 21. janúar 2014.