Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1604, 144. löggjafarþing 571. mál: fjármálafyrirtæki (starfsleyfi, aukið eftirlit o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 57 9. júlí 2015.

Lög um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (starfsleyfi, áhættustýring, stórar áhættuskuldbindingar, starfskjör, eignarhlutir, eiginfjáraukar o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. a laganna:
 1. Orðin „önnur hlutdeild sem“ í 3. tölul. falla brott.
 2. 4. tölul. fellur brott.
 3. Orðin „aðilar í staðfestri samvist“ og „staðfestri samvist eða“ í a-lið 5. tölul. falla brott.
 4. Orðið „rafeyrisfyrirtæki“ í 10. tölul. fellur brott.
 5. Við bætast tólf nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Fyrirtæki tengt fjármálasviði: Með fyrirtæki tengdu fjármálasviði er átt við fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja þá starfsemi sem um getur í 2.–12. tölul. 1. mgr. 20. gr.
  2. Móðurfélag: Fyrirtæki telst vera móðurfélag þegar það:
   1. ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,
   2. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda,
   3. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa ráðandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,
   4. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu, eða
   5. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.
   6.      Við mat á atkvæðisrétti og réttindum til að tilnefna eða víkja frá stjórnarmönnum eða stjórnendum skal leggja saman réttindi sem móðurfélag og dótturfélag ráða yfir.
         Við mat á atkvæðisrétti í dótturfélagi skal ekki talinn með atkvæðisréttur sem fylgir eigin hlutum dótturfélagsins eða dótturfélögum þess.
  3. Dótturfélag: Fyrirtæki sem hafa þau tengsl við fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem lýst er í 15. tölul. teljast vera dótturfélög. Fyrirtæki sem er dótturfélag dótturfélags telst einnig vera dótturfélag móðurfélags.
  4. Samstæða: Móðurfélag og dótturfélög þess mynda samstæðu.
  5. Eignarhaldsfélag á fjármálasviði: Með eignarhaldsfélagi á fjármálasviði er átt við fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem ekki er blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem dótturfélögin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði og a.m.k. eitt dótturfélagið er fjármálafyrirtæki.
  6. Blandað eignarhaldsfélag: Með blönduðu eignarhaldsfélagi er átt við móðurfélag sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði, fjármálafyrirtæki eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi þar sem a.m.k. eitt dótturfélag er fjármálafyrirtæki.
  7. Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi: Með blönduðu eignarhaldsfélagi í fjármálastarfsemi er átt við móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, þar sem a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu.
  8. Fjármálagerningur: Með fjármálagerningi samkvæmt lögum þessum er átt við fjármálagerning eins og hann er skilgreindur í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
  9. Fjármálasamsteypa: Með fjármálasamsteypu samkvæmt lögum þessum er átt við samstæðu félaga, eða félög sem hafa með sér náin tengsl, sbr. 1. tölul. þessarar greinar, þar sem eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni og a.m.k. einn aðili innan samstæðunnar starfar á fjármálasviði og annar aðili starfar á vátryggingasviði og þar sem umsvif á samstæðugrundvelli og/eða samanlögð umsvif á fjármálasviði annars vegar og hins vegar samsvarandi umsvif á vátryggingasviði eru hvor um sig talin mikilvæg samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 3. mgr. 109. gr. Fari enginn eftirlitsskyldur aðili fyrir samstæðunni, en starfsemi samstæðunnar fer aðallega fram á fjármála- eða vátryggingasviði samkvæmt skilgreiningu í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 3. mgr. 109. gr., telst samstæðan vera fjármálasamsteypa. Sérhverja undirsamstæðu sem uppfyllir skilyrði 1. málsl. þessa töluliðar skal líta á sem fjármálasamsteypu.
  10. Hlutdeildarfélag: Með hlutdeildarfélagi samkvæmt lögum þessum er átt við félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag og dótturfélög þess eiga eignarhluti í og hafa veruleg áhrif á eða beinn og óbeinn eignarhlutur nemur 20% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti.
  11. Kaupauki: Starfskjör starfsmanns fjármálafyrirtækis sem að jafnaði eru skilgreind með tilliti til árangurs og eru ekki þáttur í föstum starfskjörum starfsmanns þar sem endanleg fjárhæð eða umfang þeirra liggur ekki fyrir með nákvæmum hætti fyrir fram.
  12. Stór áhættuskuldbinding: Með stórri áhættuskuldbindingu er átt við áhættuskuldbindingu, þ.e. lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhluti og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis, svo og aðrar skuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtækinu, sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni.


2. gr.

     Við 6. tölul. 5. gr. laganna bætist: og hlutfallslegt eignarhald hvers þeirra.

3. gr.

     Við 2. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við mat á umsókn um veitingu starfsleyfis er óheimilt að byggja mat á umsókninni, eða synjun, á sjónarmiðum um þarfir á fjármálamarkaði hér á landi.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 9. gr. laganna:
 1. 2. tölul. orðast svo: fullnægi fyrirtækið ekki ákvæðum laga þessara um stofnfé, hlutafé, eigið fé, stórar áhættuskuldbindingar eða laust fé.
 2. Við bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. uppfylli fjármálafyrirtæki ekki lengur þau lögbundnu skilyrði sem það þurfti að uppfylla til þess að hljóta starfsleyfi,
  2. geti fjármálafyrirtæki ekki sýnt fram á að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum og/eða innlánseigendum,
  3. brjóti fjármálafyrirtæki gegn skyldu til þess að viðhalda eiginfjárauka vegna kerfisáhættu skv. 84. gr. b og takmarkanir á grundvelli 6. mgr. 84. gr. a hafa ekki náð tilætluðum árangri.


5. gr.

     Á eftir 2. mgr. 17. gr. laganna koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Innri ferlar fjármálafyrirtækis skv. 1. mgr. skulu, eftir því sem við á, taka til áhættuþátta skv. 78. gr. a – 78. gr. i. Fjármálafyrirtæki skal hafa verkferla sem tryggja upplýsingaskipti á milli áhættustýringar og stjórnar vegna allra helstu áhættuþátta í starfsemi félagsins og breytinga á þeim.
     Áhættustýring fjármálafyrirtækis skal fara fram í einingu sem er óháð öðrum starfseiningum þess. Fjármálafyrirtæki skal tryggja að áhættustýring hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir, m.a. til þess að afla gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru í starfsemi áhættustýringar.
     Áhættustýring skal sjá til þess að greining, mæling og skýrslugjöf um áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækis fari fram og sé fullnægjandi, þ.m.t. skýrslur til stjórnenda og eftirlitsaðila. Áhættustýring skal taka virkan þátt í mótun áhættustefnu fjármálafyrirtækis og hafa aðkomu að viðameiri ákvörðunum um áhættustýringu. Áhættustýring skal hafa heildstæða yfirsýn yfir helstu áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækis.
     Framkvæmdastjóri ræður yfirmann áhættustýringar. Yfirmaður áhættustýringar skal búa við sjálfstæði sem stjórnandi og hafa umsjón með og bera ábyrgð á þeirri einingu þar sem áhættustýring fjármálafyrirtækis fer fram. Tryggt skal að yfirmaður áhættustýringar hafi milliliðalausan aðgang að stjórn. Yfirmaður áhættustýringar skal leggja fyrir áhættunefnd stjórnar, eða stjórn fyrirtækisins sé áhættunefnd ekki til staðar, skýrslu um framkvæmd áhættustýringar svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en árlega. Láti yfirmaður áhættustýringar af störfum skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Yfirmanni áhættustýringar verður hvorki sagt upp störfum né hann færður til í starfi nema að fengnu samþykki stjórnar.
     Ef starfsemi fjármálafyrirtækis réttlætir ekki sérstakt stöðugildi yfirmanns áhættustýringar getur Fjármálaeftirlitið heimilað að annar starfsmaður hafi umsjón með áhættustýringu fjármálafyrirtækisins, enda sé gætt að hagsmunaárekstrum. Við slíkt mat skal Fjármálaeftirlitið hafa hliðsjón af eðli og umfangi starfsemi fyrirtækisins og því hversu margþætt hún er. Fjármálaeftirlitinu er heimilt, í reglum settum skv. 8. mgr., að kveða á um hvenær starfsemi fjármálafyrirtækis réttlætir að ekki sé til staðar sérstakt stöðugildi yfirmanns áhættustýringar.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
 1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í reglunum skal m.a. kveðið á um almenn samskipti fjármálafyrirtækja við viðskiptavini sína, upplýsingagjöf til viðskiptavina og meðhöndlun kvartana.
 2. 3. mgr. fellur brott.


7. gr.

     Við 1. mgr. 20. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Útgáfu rafeyris.

8. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

     2. og 3. mgr. 29. gr. a laganna orðast svo:
     Fjármálafyrirtæki er óheimilt að veita stjórnarmanni, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanni eða þeim sem á virkan eignarhlut í því, og aðila í nánum tengslum við framangreinda aðila, lán eða aðra fyrirgreiðslu nema gegn traustum tryggingum. Með fyrirgreiðslu er átt við lánveitingu, verðbréfaeign, eignarhluti, veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis, afleiðusamninga og aðrar skuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtæki eða lánveitingu til þriðja aðila með tryggingu í fjármálagerningum útgefnum af einum eða fleiri aðilum sem eiga virkan eignarhlut í því eða aðila í nánum tengslum við þá. Samtala láns og annarrar fyrirgreiðslu sem heimilt er að veita hverjum og einum aðila og aðila í nánum tengslum við hann skv. 1. málsl. má hæst vera 200 millj. kr. að teknu tilliti til takmarkana skv. 30. gr. Viðskipti fjármálafyrirtækis við eigendur virkra eignarhluta og stjórnarmanna, eða aðila í nánum tengslum við þá, skulu lúta sömu reglum og viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum. Um viðskipti framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna við fjármálafyrirtækið fer skv. 2. mgr. 57. gr. Takmörkun 1. málsl. á lánum eða öðrum fyrirgreiðslum gildir ekki um lánveitingar til eigenda virkra eignarhluta ef eigandi virks eignarhlutar er ríki eða sveitarfélag. Lán eða fyrirgreiðsla skv. 1. málsl. tekur ekki til innláns í eigu annars fjármálafyrirtækis.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur um útreikning láns eða annarrar fyrirgreiðslu skv. 2. mgr., um hvað teljist til traustrar tryggingar, um hámarksfjárhæðir lána eða annarra fyrirgreiðslna án trygginga þegar um hóp náinna aðila er að ræða og um tryggingar sem heimila að farið sé yfir fjárhæð skv. 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágur fyrir því að fara yfir fjárhæð skv. 3. málsl. 2. mgr. í sérstökum tilvikum og heimilt að kveða á um slík tilvik í reglum sem það setur skv. 1. málsl.

10. gr.

     30. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum.
     Áhættuskuldbinding vegna eins viðskiptamanns eða hóps tengdra viðskiptamanna, að teknu tilliti til áhættumildandi þátta samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins, má ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. 84. og 85. gr.
     Áhættuskuldbindingar vegna viðskiptamanns sem er fjármálafyrirtæki, eða vegna hóps tengdra viðskiptamanna þar sem einn, eða fleiri, er fjármálafyrirtæki, mega ekki nema meira en annaðhvort 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis eða 10 milljörðum kr., hvort sem nemur hærri fjárhæð. Ákvæði 1. málsl. er háð því að samtala áhættuskuldbindinga þeirra viðskiptamanna í hópnum sem ekki eru fjármálafyrirtæki fari ekki upp fyrir 25% af eiginfjárgrunni fyrirtækisins.
     Þegar hlutfallið 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis nemur lægri fjárhæð en 10 milljörðum kr. mega áhættuskuldbindingar vegna viðskiptamanns eða hóps tengdra viðskiptamanna skv. 2. mgr. ekki vera hærri en 100% af eiginfjárgrunni.
     Ákvæði 1.–3. mgr. eiga ekki við um verðbréfafyrirtæki sem ekki hafa starfsheimildir skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr., verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða.
     Leiki vafi á því hverjir teljast til hóps tengdra viðskiptamanna er fjármálafyrirtæki skylt að tengja aðila saman nema viðkomandi fjármálafyrirtæki geti sýnt fram á hið gagnstæða.
     Fari áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækis yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1.–3. mgr. skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Fjármálaeftirlitið getur veitt fyrirtækinu frest til að koma skuldbindingum sínum í lögmætt horf. Fjármálaeftirlitið getur í einstökum tilvikum veitt fjármálafyrirtæki undanþágu frá takmörkunum 1.–3. mgr.
     Fjármálaeftirlitið skal setja nánari reglur um stórar áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa. Í þeim skal m.a. kveðið á um heimilaða frádráttarliði, áhættumildandi þætti, hámark samtölu stórra áhættuskuldbindinga og heimildir fjármálafyrirtækja til að reikna út eiginfjárkröfu vegna umframáhættu stórra áhættuskuldbindinga.

11. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 37. gr. laganna orðast svo: Í tilkynningu skal koma fram hvaða ríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin, og þegar fjármálafyrirtæki hyggst veita þjónustu á grundvelli laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, skal tilkynna um það hvort fyrirtæki hyggst nota fasta umboðsmenn.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
 1. 2. málsl. orðast svo: Hið sama á við hyggist aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur nái eða fari yfir 20%, 33% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfélag hans.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Kaup á virkum eignarhlut geta ekki komið til framkvæmda fyrr en tímafrestur Fjármálaeftirlitsins skv. 2. málsl. 2. mgr. 43. gr., sbr. 42. gr., er liðinn eða Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut að hann sé hæfur til að fara með eignarhlutinn.


13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir móttöku tilkynningar skv. 40. gr., sbr. 41. gr., skal Fjármálaeftirlitið staðfesta móttöku hennar. Í staðfestingu skal koma fram fyrir hvaða dag megi vænta niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins. Telji Fjármálaeftirlitið að afla þurfi ítarlegri upplýsinga en þeirra sem upp eru taldar í 1. mgr. 41. gr. frá þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut getur það krafið viðkomandi um þær. Slík krafa skal sett fram eigi síðar en fimmtíu virkum dögum eftir staðfestingu tilkynningar. Fjármálaeftirlitið hefur sextíu virka daga frá staðfestingu tilkynningar skv. 1. málsl. til þess að meta hvort það telur þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hæfan til að fara með eignarhlutinn. Sé óskað eftir viðbótarupplýsingum frá viðkomandi, sbr. 3. málsl., bætist bið eftir upplýsingum við dagafjölda skv. 5. málsl., þó ekki umfram tuttugu virka daga. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að óska aftur eftir frekari upplýsingum. Slík beiðni lengir ekki framangreinda tímafresti. Ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut er staðsettur í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, eða hann lýtur ekki opinberu fjármálaeftirliti innan Evrópska efnahagssvæðisins, bætist bið eftir upplýsingum við dagafjölda skv. 5. málsl. en þó ekki umfram þrjátíu virka daga.
 3. Í stað orðanna „í hópi fyrirtækja“ í 2. málsl. 4. tölul. 2. mgr. kemur: í samstæðu félaga.


14. gr.

     Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 43. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi Fjármálaeftirlitið óskað eftir upplýsingum skv. 42. gr. og þær ekki borist innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í ákvæðinu eða þær eru ófullnægjandi að mati Fjármálaeftirlitsins getur Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

15. gr.

     46. gr. a laganna fellur brott.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
 1. Hlutfallstalan „25%“ í 2. málsl. fellur brott.
 2. Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ í 2. málsl. kemur: dótturfélag.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „skv. 40. gr. og“ í 1. málsl. kemur: skv. 40. gr. eða.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Teljist einstaklingur eða lögaðili ekki lengur hæfur til þess að fara með virkan eignarhlut er heimilt að veita hæfilegan frest til úrbóta sé það unnt að mati Fjármálaeftirlitsins. Verði úrbótum ekki við komið eða líði frestur sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt skv. 1. málsl. skal Fjármálaeftirlitið grípa til þeirra úrræða sem getið er um í 46. gr. Við mat á hæfi samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. horft til 2. mgr. 42. gr.
 4. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Upplýsingaskylda og viðvarandi mat á hæfi eiganda virkra eignarhluta.


18. gr.

     52. gr. laganna orðast svo:
     Stjórnarmenn skulu vera búsettir í aðildarríki eða ríki sem er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Framkvæmdastjóri skal vera búsettur í aðildarríki. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa gott orðspor og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um gjaldeyrismál, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera fjárhagslega sjálfstæðir og hafa yfir að ráða reynslu og þekkingu eða hafa lokið námi sem nýtist í starfi. Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu jafnframt hafa þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stundar, þ.m.t. áhættuþáttum.
     Samsetning stjórnar fjármálafyrirtækis skal vera með þeim hætti að stjórnin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að skilja þá starfsemi sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stundar, þ.m.t. helstu áhættuþætti.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og hvernig staðið skuli að hæfismati. Starfsmönnum fjármálafyrirtækis er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis.
     Fjármálafyrirtæki skal verja fullnægjandi fjármunum og mannafla til þess að kynna starfsemi fjármálafyrirtækisins fyrir stjórnarmanni og tryggja að hann hljóti viðeigandi þjálfun til stjórnarsetunnar.
     Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn og framkvæmdastjóra og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum greinar þessarar og 52. gr. a sé fullnægt.
     Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn þurfa á hverjum tíma að uppfylla hæfisskilyrði þessarar greinar og 52. gr. a og reglna settra skv. 5. mgr. Fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna til sérstakrar skoðunar.

19. gr.

     Á eftir 52. gr. laganna kemur ný grein, 52. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, en 52. gr. a – 52. gr. c laganna verða 52. gr. b – 52. gr. d:
Önnur störf stjórnarmanna.
     Stjórnarmaður skal verja fullnægjandi tíma í störf sín í þágu fjármálafyrirtækis. Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis mega hvorki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila sem er í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis mega einungis sinna þeim lögmannsstörfum fyrir annað fjármálafyrirtæki sem ekki geta valdið hættu á hagsmunaárekstrum á milli félaganna tveggja eða á fjármálamarkaði. Hyggist stjórnarmaður taka að sér lögmannsstörf fyrir annað fjármálafyrirtæki skal hann fá skriflegt samþykki stjórnar fjármálafyrirtækisins sem hann er stjórnarmaður í fyrir því að hann megi taka að sér umrætt starf, tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfið sem hann hyggst taka að sér og upplýsa Fjármálaeftirlitið um eðli starfsins og umfang þess. Stjórnarmaður ber sönnunarbyrði um að lögmannsstarf sem hann tekur að sér fyrir annað fjármálafyrirtæki brjóti ekki gegn ákvæði þessu. Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá stjórnarmanni í því skyni að meta hvort brotið hafi verið gegn ákvæðinu.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur stjórnarmaður eða starfsmaður fjármálafyrirtækis tekið sæti í stjórn annars fjármálafyrirtækis, vátryggingafélags eða fjármálasamsteypu eða aðila í nánum tengslum við framangreinda aðila ef um er að ræða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu fjármálafyrirtækisins eða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu félags með yfirráð í fjármálafyrirtækinu. Sama gildir um lögmann móðurfélags.
     Stjórnarseta skv. 2. mgr. skal háð því að hún skapi ekki, að mati Fjármálaeftirlitsins, hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði. Í þessu sambandi skal m.a. horft til eignarhalds aðila og tengsla félagsins sem um ræðir við aðra aðila á fjármálamarkaði, svo og hvort tengslin geti skaðað heilbrigðan og traustan rekstur fjármálafyrirtækisins.

20. gr.

     54. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Framkvæmd starfa stjórnar, ábyrgð hennar og verkaskipting stjórnar og framkvæmdastjóra.
     Stjórn fjármálafyrirtækis ber ábyrgð á starfsemi og stefnumótun félagsins sem og áhættustefnu og að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits sem samræmist lögum þessum og reglum settum með stoð í þeim. Stjórn ber ábyrgð á að fullnægjandi eftirlit sé viðhaft með bókhaldi og að meðferð fjármuna félagsins sé í samræmi við lög og reglur sem um starfsemina gilda. Stjórn ber jafnframt ábyrgð á að stjórnarhættir og innra skipulag stuðli að skilvirkri og varfærinni stjórn fyrirtækisins, aðskilnaði starfa og að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra. Stjórn skal árlega endurmeta stjórnarhætti sína með tilliti til viðurkenndra leiðbeininga um stjórnarhætti og bregðast við með viðeigandi hætti ef þörf er á.
     Stjórnarmaður skal starfa af heiðarleika, heilindum og fagmennsku og vera sjálfstæður í hugsun til þess að geta með skilvirkum hætti metið, gagnrýnt og haft eftirlit með ákvarðanatöku framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækisins.
     Í samþykktum fjármálafyrirtækis skal kveðið á um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra. Stjórn skal hafa skilvirkt eftirlit með að framkvæmdastjóri félagsins starfi eftir lögum og reglum.
     Stjórn skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar. Í reglum þessum skal fjallað sérstaklega um heimildir stjórnar til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti, framkvæmd reglna um sérstakt hæfi stjórnarmanna, meðferð stjórnar á upplýsingum um einstaka viðskiptamenn, setu stjórnarmanna í stjórnum dótturfélaga og hlutdeildarfélaga og framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna. Stjórn fjármálafyrirtækis skal senda Fjármálaeftirlitinu afrit af reglunum innan 14 daga frá því að þær eru settar eða þeim er breytt.
     Stjórnarformanni í fjármálafyrirtæki er óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig.
     Stjórn skal fylgjast með því og tryggja eftir bestu getu að tilkynningar og upplýsingar sem félaginu ber að veita samkvæmt lögum þessum séu réttar.
     Fjármálafyrirtæki skal fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Í því skyni skal fjármálafyrirtækið m.a. birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækisins í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu og gera grein fyrir stjórnarháttum sínum á vefsíðu fyrirtækisins og birta þar yfirlýsingu um stjórnarhætti sína. Þar skal koma fram á vefsíðu fjármálafyrirtækis eða í ársreikningi þess hvernig fjármálafyrirtæki uppfyllir kröfur um stjórnarhætti samkvæmt lögum þessum.

21. gr.

     Á eftir 54. gr. laganna kemur ný grein, 54. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Hlutverk stjórnar vegna áhættustýringar.
     Stjórn fjármálafyrirtækis skal samþykkja áhættustefnu, áhættuvilja og framkvæmd áhættustýringar, sbr. 17. gr., og tryggja að innri ferlar vegna áhættustýringar séu yfirfarnir eigi sjaldnar en árlega. Til slíkra ferla teljast m.a. ferlar er varða áhættutöku og takmörkun á þeirri áhættu sem hefur, eða kann að hafa, áhrif á starfsemi fyrirtækis.
     Stjórn fjármálafyrirtækis skal við störf sín verja hæfilegum tíma í að fjalla um helstu áhættuþætti í starfsemi fyrirtækisins. Stjórn skal tryggja að nægjanlegum fjármunum og tíma sé varið í virka áhættustýringu og áhættumat þannig að innan fyrirtækisins sé yfirsýn yfir helstu áhættuþætti. Einnig skal stjórn, eftir atvikum, hafa eftirlit með mati á eignum félagsins, notkun innri líkana og notkun mats frá lánshæfismatsfyrirtækjum.

22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
 1. 2. málsl. orðast svo: Stjórn fyrirtækis getur veitt heimild til slíks á grundvelli reglna sem fjármálafyrirtæki setur og sendir Fjármálaeftirlitinu afrit af.
 2. Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ í 4. málsl. kemur: dótturfélagi.


23. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Fjármálafyrirtæki skal setja reglur um viðskipti sín við framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn og senda Fjármálaeftirlitinu afrit af reglunum innan 14 daga frá því að þær eru staðfestar af stjórn.
 2. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Um viðskipti fjármálafyrirtækis og starfsmanna þess, eða aðila í nánum tengslum við þá, fer samkvæmt reglum sem stjórn fjármálafyrirtækis setur og birtar skulu opinberlega.
 3. Orðin „eftir því sem kostur er“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.


24. gr.

     57. gr. a laganna orðast svo ásamt fyrirsögn.
Kaupaukakerfi.
     Að teknu tilliti til heildarafkomu fjármálafyrirtækis yfir lengri tíma, undirliggjandi áhættu og fjármagnskostnaðar er fjármálafyrirtæki heimilt að ákvarða starfsmönnum kaupauka á grundvelli kaupaukakerfis. Samtala veitts kaupauka til starfsmanns, að meðtöldum þeim hluta greiðslu sem fresta skal samkvæmt reglum settum skv. 4. mgr., má á ársgrundvelli ekki nema hærri fjárhæð en 25% af árslaunum viðkomandi án kaupauka.
     Þrátt fyrir 1. mgr. er óheimilt að veita stjórnarmönnum og starfsmönnum sem starfa við áhættustýringu, innri endurskoðun eða regluvörslu kaupauka.
     Áunnin réttindi starfsmanna samkvæmt kaupaukakerfi skulu færð til gjalda á hverju ári eftir því sem reikningsskilareglur heimila og sérstaklega skal gerð grein fyrir þeim í skýringum með ársreikningi.
     Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um kaupaukakerfi. Í reglunum skal m.a. kveðið á um skilgreiningu kaupauka, markmið kaupaukakerfis, árangurs- og áhættumat, innra eftirlit, jafnvægi á milli fastra launa og kaupauka, frestun kaupauka, ráðningarkaupauka, lækkun, afturköllun eða endurgreiðslu kaupauka, og upplýsingagjöf og gagnsæi.

25. gr.

     Orðin „sbr. 4. mgr. 97. gr.“ í 1. mgr. 59. gr. laganna falla brott.

26. gr.

     Fyrirsögn VII. kafla laganna orðast svo: Stjórn, stjórnarhættir og starfsmenn.

27. gr.

     IX. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Meðhöndlun áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækis, 78. gr., 78. gr. a – 78. gr. i og 79. gr., orðast svo, ásamt greinarfyrirsögnum:
     
     a. (78. gr.)
Áhættunefnd.
     Fjármálafyrirtæki skal starfrækja áhættunefnd. Nefndin skal að lágmarki skipuð þremur mönnum, þar af tveimur stjórnarmönnum fjármálafyrirtækisins hið minnsta. Starfsmönnum fjármálafyrirtækisins er óheimilt að eiga sæti í nefndinni. Nefndarmenn skulu búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að móta áhættustefnu og áhættuvilja félagsins. Áhættunefnd skal sinna ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn fyrirtækisins, m.a. vegna mótunar áhættustefnu og áhættuvilja fyrirtækisins.
     Áhættunefnd skal hafa aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem nefndin telur sig þurfa til starfa sinna.
     Áhættunefnd skal m.a. kanna hvort hvatar sem falist geta í starfskjarastefnu fjármálafyrirtækis, þar á meðal breytilegum starfskjörum, samræmist áhættustefnu fyrirtækisins og yfirfara hvort kjör á eignum og skuldbindingum, þar á meðal á innlánum og útlánum, sem boðin eru viðskiptavinum fjármálafyrirtækis taki að fullu mið af viðskiptalíkani og áhættustefnu fyrirtækisins. Ef kjör endurspegla ekki áhættuna samkvæmt viðskiptalíkani og áhættustefnu fyrirtækisins skal áhættunefnd leggja fram úrbótaáætlun til stjórnar.
     Fjármálafyrirtæki er heimilt að sameina störf áhættunefndar og endurskoðunarnefndar skv. IX. kafla A í lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Nefndarmenn sameinaðrar nefndar skulu búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að sinna verkefnum sem annars hefðu verið falin hvorri nefnd fyrir sig. Fjármálaeftirlitið getur með hliðsjón af stærð, eðli og umfangi rekstrar fjármálafyrirtækis, og því hversu margþætt starfsemi fyrirtækisins er, krafist þess að fjármálafyrirtæki aðskilji störf áhættunefndar og endurskoðunarnefndar.
     Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af stærð, eðli og umfangi rekstrar fjármálafyrirtækis, og því hversu margþætt starfsemi fyrirtækisins er, veitt undanþágu frá starfrækslu áhættunefndar eða frá einstökum þáttum í starfsemi áhættunefndar. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að skilyrða undanþágu til fjármálafyrirtækja. Starfsskyldur áhættunefndar skv. 2. og 3. mgr. skulu þá að breyttu breytanda hvíla á stjórn fjármálafyrirtækis.
     
     b. (78. gr. a.)
Útlána- og mótaðilaáhætta.
     Fjármálafyrirtæki skal byggja lánveitingar sínar á traustum og vel skilgreindum viðmiðum og tryggja að ferlar vegna samþykktar, breytinga, endurnýjunar og endurfjármögnunar lánveitinga, eða hvers kyns skilmálabreytinga þeirra, séu til staðar.
     Fjármálafyrirtæki skal beita eigin aðferðafræði sem gerir því kleift að meta útlánaáhættu af áhættuskuldbindingum einstakra lántakenda, verðbréfum, verðbréfuðum stöðum og útlánasafni í heild. Eigin aðferðafræði skal ekki eingöngu eða athugasemdalaust byggjast á mati lánshæfismatsfyrirtækja. Þegar fjármálafyrirtæki byggir eiginfjárútreikninga sína á einkunn matsfyrirtækis, eða eftir atvikum á því að áhættuskuldbinding hafi ekki hlotið einkunn, skal það ekki undanskilið því að nýta aðrar viðeigandi upplýsingar við mat á eiginfjárþörf.
     Fjármálafyrirtæki skal nota skilvirk kerfi og aðferðir við stýringu útlánasafns og hafa eftirlit með áhættuskuldbindingum fjármálafyrirtækis, þ.m.t. greiningu á vanefndum, virðisbreytingum og varúðarniðurfærslum.
     Dreifing útlánasafns fjármálafyrirtækis skal vera fullnægjandi með tilliti til þeirra markaða sem fyrirtækið starfar á og útlánastefnu þess.
     
     c. (78. gr. b.)
Eftirstæð áhætta.
     Fjármálafyrirtæki skal, m.a. með skjalfestri stefnu og ferlum, meðhöndla og stýra þeirri áhættu sem verður eftir þegar viðurkenndar aðferðir þess við mildun útlánaáhættu reynast ekki jafnárangursríkar og vænst var.
     
     d. (78. gr. c.)
Samþjöppunaráhætta.
     Fjármálafyrirtæki skal, m.a. með skjalfestri stefnu og ferlum, meðhöndla og stýra samþjöppunaráhættu sem verður til vegna sérhvers mótaðila fyrirtækisins. Undir mótaðila falla m.a. hópar tengdra viðskiptamanna, miðlægir mótaðilar, mótaðilar í sömu grein innan sama geira hagkerfisins, á sama landsvæði eða í sömu atvinnugrein eða aðilar sem framleiða sömu hrávöru. Við mat og greiningu á samþjöppunaráhættu skal taka mið af aðferðum við mildun útlánaáhættu sem og áhættu sem tengist stórum, óbeinum áhættuskuldbindingum, m.a. vegna trygginga fyrir áhættuskuldbindingum frá einum útgefanda.
     
     e. (78. gr. d.)
Áhætta vegna verðbréfunar.
     Fjármálafyrirtæki skal, m.a. með skjalfestri stefnu og ferlum, meta og meðhöndla áhættu, þ.m.t. orðsporsáhættu, vegna verðbréfunar, þar sem fyrirtækið er fjárfestir, útgefandi eða umsýsluaðili slíkra gerninga. Fjármálafyrirtæki skal jafnframt tryggja að efnahagslegt inntak viðskiptanna endurspeglist að fullu í áhættumati og ákvörðunum stjórnenda.
     Fjármálafyrirtæki sem er útgefandi verðbréfunar á áhættuskuldbindingum vegna veltufjármögnunar með ákvæðum um heimild til greiðslu fyrir gjalddaga skal hafa til staðar lausafjáráætlun þar sem tekið er tillit til áætlaðra afborgana og afborgana fyrir gjalddaga.
     
     f. (78. gr. e.)
Markaðsáhætta.
     Fjármálafyrirtæki skal hafa skjalfesta stefnu og ferla til að greina, mæla og stýra öllum verulegum þáttum sem orsaka markaðsáhættu og áhrifum af henni.
     Í þeim tilvikum þegar skortstaða gjaldfellur á undan gnóttstöðu skal fjármálafyrirtæki gera ráðstafanir svo að tryggt sé að ekki skapist lausafjárskortur.
     Fjármálafyrirtæki skal hafa yfir að ráða nægu eigin fé til þess að mæta öllum verulegum markaðsáhættuþáttum sem ekki eru meðhöndlaðir sérstaklega við útreikning á lögbundnum eiginfjárkröfum.
     
     g. (78. gr. f.)
Vaxtaáhætta vegna viðskipta utan veltubókar.
     Fjármálafyrirtæki skal greina, meta og stýra áhættu vegna mögulegra vaxtabreytinga sem hafa áhrif á viðskipti þess utan veltubókar.
     
     h. (78. gr. g.)
Rekstraráhætta.
     Fjármálafyrirtæki skal hafa skjalfesta stefnu og ferla til að meta og stýra rekstraráhættu, þ.m.t. vegna áhættulíkana og fátíðra atburða sem geta haft alvarlegar afleiðingar. Fjármálafyrirtæki skal í þessum tilgangi tilgreina hvað telst til rekstraráhættu.
     Fjármálafyrirtæki skal hafa viðbragðsáætlun og áætlun um samfelldan rekstur til að tryggja áframhaldandi starfsemi sína og takmörkun á tjóni ef alvarleg röskun verður á starfsemi fyrirtækisins.
     
     i. (78. gr. h.)
Lausafjáráhætta.
     Fjármálafyrirtæki skal hafa áætlanir, stefnu, skjalfesta verkferla, aðferðir og kerfi til að greina, meta, stýra og fylgjast með lausafjáráhættu sem nær yfir viðeigandi tíma, þ.m.t. innan dags, til að tryggja að fyrirtækið búi yfir nægu lausu fé. Slíkar áætlanir, stefnur, ferlar og kerfi skulu sniðin að starfsemi sviða, útibúa og lögaðila innan samstæðu fjármálafyrirtækis og þeim gjaldmiðlum sem þau eiga í viðskiptum með. Áætlanir, stefnur, ferlar og kerfi skulu einnig fela í sér fullnægjandi ráðstöfun fjármuna vegna kostnaðar, ávinnings og áhættu, og skulu taka mið af áhættusniði, umfangi og áhættuþoli. Þá skulu áætlanir, stefnur, ferlar og kerfi taka mið af því hversu margþætt starfsemi fjármálafyrirtækisins er og endurspegla mikilvægi fjármálafyrirtækisins í hverju aðildarríki sem það hefur starfsemi í. Fjármálafyrirtæki skal upplýsa allar viðeigandi starfseiningar fyrirtækisins um áhættuþol þess.
     Fjármálafyrirtæki skal móta áhættusnið vegna lausafjáráhættu sem skal taka mið af eðli, umfangi og því hversu margþætt starfsemi fjármálafyrirtækisins er.
     Fjármálafyrirtæki skal þróa aðferðafræði til að greina, mæla, stýra og fylgjast með fjármögnunarstöðum. Í aðferðafræðinni skal tekið tillit til mikilvægs fjárstreymis, núverandi og áætlaðs, sem stafar af eignum, skuldum og liðum utan efnahagsreiknings, þ.m.t. skilyrtum skuldbindingum og hugsanlegum áhrifum af orðsporsáhættu.
     Fjármálafyrirtæki skal greina á milli veðsettra og kvaðalausra eigna sem eru tiltækar á hverjum tíma, einkum ef neyðarástand ríkir. Jafnframt skal taka mið af staðsetningu eignanna, bæði hvað varðar það ríki þar sem eignarréttindi eru skráð og það hvaða lögaðili fer með eignarhald á eignunum. Fjármálafyrirtæki skal fylgjast með hvort og hvernig eignir eru tiltækar.
     Fjármálafyrirtæki skal taka mið af lögbundnum og rekstrarlegum takmörkunum á mögulegum millifærslum á lausu fé og kvaðalausum eignum milli lögaðila bæði hérlendis og erlendis.
     Fjármálafyrirtæki skal kappkosta að nota fleiri en eina aðferð til að milda áhættu við lausafjárstýringu. Aðrar aðferðir skulu m.a. innihalda ýmis mörk og varaforða lauss fjár svo að fyrirtækið geti staðið af sér margvíslega álagsatburði. Jafnframt skal fjármálafyrirtæki kappkosta að fjármögnun, og aðgangur að henni, sé nægjanlega dreifð. Tilhögun lausafjárstýringar skal endurskoðuð reglulega.
     Fjármálafyrirtæki skal kanna áhrif af ólíkum sviðsmyndum á lausafjárstöðu sína og mildun áhættu og skulu forsendur sem liggja til grundvallar ákvörðunum um fjármögnun fyrirtækisins endurskoðaðar a.m.k. árlega. Í því skyni skulu sviðsmyndirnar einkum taka tillit til liða utan efnahagsreiknings og annarra skuldbindinga, þ.m.t. eininga um sérverkefni á sviði verðbréfunar eða annarra eininga um sérverkefni sem fjármálafyrirtækið kemur að sem útgefandi eða veitir verulegan lausafjárstuðning.
     Fjármálafyrirtæki skal í sviðsmyndunum kanna áhrif vegna einstakra fyrirtækja sem og vegna markaðarins í heild auk þess að kanna blandaðar sviðsmyndir. Við athugun skal tekið mið af ólíkum tímabilum og mismunandi álagsaðstæðum.
     Fjármálafyrirtæki skal aðlaga áætlanir sínar, stefnur og mörk vegna lausafjáráhættu og þróa skilvirka viðbragðsáætlun með tilliti til niðurstaðna úr sviðsmyndum sem tilteknar eru í 7. mgr. til að bregðast við lausafjárvanda. Í áætluninni skal koma fram hvernig fjármálafyrirtæki hyggst mæta lausafjárskorti, þ.m.t. í útibúum í öðrum aðildarríkjum þar sem það hefur starfsemi. Fjármálafyrirtæki skal prófa áætlunina a.m.k. árlega og uppfæra hana með hliðsjón af niðurstöðum úr þeim sviðsmyndum sem tilteknar eru í 7. mgr. Framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skal samþykkja áætlunina og tryggja að innri ferlar séu í samræmi við kröfur ákvæðisins. Fjármálafyrirtæki skal gera ráðstafanir til að tryggja að viðbragðsáætlun geti komið til tafarlausrar framkvæmdar. Viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar lánastofnanir skulu í þeim tilgangi vera með fullnægjandi tryggingar vegna fjármögnunar frá seðlabanka. Í þessu felst m.a. að vera með tryggingar í sömu erlendu gjaldmiðlum og áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækisins sjálfs, sérstaklega þar sem slíkt kann að vera nauðsynlegt vegna starfsemi fyrirtækisins bæði hérlendis og erlendis.
     
     j. (78. gr. i.)
Áhætta vegna óhóflegrar vogunar.
     Fjármálafyrirtæki skal hafa skjalfesta stefnu og ferla til að greina, stýra og vakta áhættu sem hlýst af óhóflegri vogun. Á meðal áhættuvísa um óhóflega vogun er útreikningur vogunarhlutfalls og misræmi á milli eigna og skuldbindinga fjármálafyrirtækis.
     Fjármálafyrirtæki skal meðhöndla áhættu vegna óhóflegrar vogunar með varfærnum hætti og taka tillit til mögulegrar aukinnar áhættu vegna lækkunar á eigin fé vegna vænts eða innleysts taps í samræmi við gildandi reikningsskilareglur. Í því augnamiði skal fjármálafyrirtæki geta staðið af sér ólíka álagsatburði sem tengdir eru áhættu af óhóflegri vogun.
     
     k. (79. gr.)
Eftirlit með meðhöndlun áhættuþátta.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að fjármálafyrirtæki fari eftir þeim kröfum og skyldum sem kveðið er á um í 78. gr. a – 78. gr. g og 78. gr. i og skal fylgjast með því að fyrirtæki meðhöndli sérhvern áhættuþátt sem þar greinir í samræmi við ákvæðin og komi skjalfestum innri ferlum fjármálafyrirtækis í framkvæmd. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um meðhöndlun sérhvers áhættuþáttar samkvæmt þessari málsgrein til að útfæra nánar skyldur fjármálafyrirtækja skv. 78. gr. a – 78. gr. g og 78. gr. i.
     Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fara með eftirlit með því að fjármálafyrirtæki uppfylli kröfur og skyldur vegna lausafjáráhættu, sbr. 78. gr. h, eins og nánar greinir í þessari málsgrein. Seðlabankinn setur reglur um laust fé og stöðuga fjármögnun lánastofnana og hefur eftirlit með þeim samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands. Eftirlit með því að fjármálafyrirtæki, önnur en lánastofnanir, fari eftir kröfum og skyldum skv. 78. gr. h er í höndum Fjármálaeftirlitsins. Hið sama á við um annað eftirlit með lánastofnunum en það sem Seðlabankinn viðhefur á grundvelli reglna um laust fé og stöðuga fjármögnun. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið skulu viðhafa reglubundna samvinnu vegna eftirlits með lausafjáráhættu fjármálafyrirtækja. Fjármálaeftirlitinu er heimilt, að undangengnu samráði við Seðlabanka Íslands, að setja reglur um framkvæmd lausafjárstýringar til að útfæra nánar skyldur skv. 78. gr. h.

28. gr.

     Á eftir 84. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 84. gr. a – 84. gr. f, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (84. gr. a.)
Eiginfjáraukar og samanlögð krafa um eiginfjárauka.
     Til viðbótar við lágmark eiginfjárgrunns skv. 1. mgr. 84. gr. skal fjármálafyrirtæki hafa eiginfjárauka í samræmi við 84. gr. b – 84. gr. e. Til eiginfjárauka er einungis heimilt að telja eiginfjárliði sem teljast til eiginfjárþáttar A skv. 5. mgr. 84. gr.
     Óheimilt er að tvítelja eiginfjárliði með þeim hætti að nýta eigið fé skv. 84. gr. b – 84. gr. e til að mæta eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins á grundvelli a-liðar 1. mgr. 84. gr.
     Eiginfjáraukar bætast við lágmarkseiginfjárgrunn skv. 1. málsl. 1. mgr. 84. gr. og til viðbótar við eiginfjárkröfu skv. a-lið 1. mgr. 84. gr. Sé fjármálafyrirtæki skylt að viðhalda einum eða fleirum þeirra eiginfjárauka sem kveðið er á um í 84. gr. b – 84. gr. e myndar sú skylda samanlagða kröfu um eiginfjárauka. Eiginfjáraukar bætast þannig við kröfu skv. 1. málsl. 1. mgr. 84. gr. og a-lið 1. mgr. 84. gr. svo að fyrst myndast skylda til þess að viðhalda eigin fé til þess að uppfylla eiginfjárkröfu vegna eiginfjárauka vegna kerfisáhættu, þá eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, síðan sveiflujöfnunarauka og að lokum verndunarauka. Samanlagt gildi eiginfjáraukanna myndar þannig samanlagða kröfu um eiginfjárauka.
     Þrátt fyrir 3. mgr., í þeim tilvikum þegar fjármálafyrirtæki ber bæði að viðhalda eiginfjárauka vegna kerfisáhættu, sbr. 84. gr. b, og eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, sbr. 84. gr. c, skal sá eiginfjárauki sem hærri er gilda. Í þeim tilvikum þar sem eiginfjárauki vegna kerfisáhættu, sbr. 84. gr. b, tekur til allra innlendra áhættuskuldbindinga fjármálafyrirtækis, en ekki til áhættuskuldbindinga í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, skal eiginfjárkrafa á grundvelli 84. gr. b leggjast saman við kröfu um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki skv. 84. gr. c.
     Ef ákvörðun er tekin um að fyrirtæki, sem ekki er kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki en tilheyrir samstæðu sem inniheldur kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki og því ber að viðhalda eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki vegna ákvörðunar á grundvelli 4. málsl. 84. gr. c, skuli einnig viðhalda eiginfjárauka vegna kerfisáhættu á grundvelli 2. mgr. 84. gr. b skal samanlögð krafa um eiginfjárauka í tilfelli fyrirtækisins aldrei verða lægri en samanlögð krafa til þess að viðhalda eiginfjárauka skv. 84. gr. d og 84. gr. e og þeim eiginfjárauka sem hærri er skv. 84. gr. b eða 84. gr. c. Í þeim tilvikum þar sem eiginfjárauki vegna kerfisáhættu, sbr. 84. gr. b, tekur til allra innlendra áhættuskuldbindinga samstæðunnar, en ekki til áhættuskuldbindinga í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, skal 4. mgr. gilda.
     Fjármálafyrirtæki sem þegar viðheldur eiginfjáraukum skv. 84. gr. b – 84. gr. e er óheimilt að greiða út arð, breytileg starfskjör til starfsmanna eða aðrar þær útgreiðslur sem verða til þess að fyrirtækið uppfyllir ekki lengur lágmarkskröfur um hlutfall eiginfjárliða undir eiginfjárþætti A nema útgreiðslurnar séu í samræmi við heimildir reglna um hámarksútgreiðslufjárhæð sem settar eru á grundvelli 7. mgr. Ef fjármálafyrirtæki uppfyllir eiginfjárkröfur skv. 1. mgr. 84. gr. en viðheldur ekki eiginfjáraukum skv. 84. gr. b – 84. gr. e er því óheimilt að greiða út arð eða breytileg starfskjör til starfsmanna eða framkvæma aðrar þær greiðslur eða aðgerðir sem hafa áhrif til lækkunar á eiginfjárgrunni umfram hámarksútgreiðslufjárhæð samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur um hámarksútgreiðslufjárhæð og takmarkanir á útgreiðslum fjármálafyrirtækja á arði til hluthafa, breytilegum starfskjörum til starfsmanna og öðrum sambærilegum greiðslum þegar fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki að fullu kröfu til þess að viðhalda eiginfjárauka skv. 84. gr. b – 84. gr. e. Í reglunum skal kveðið á um hvernig heimildir til útgreiðslna skerðast og hámarkshlutfall þeirra.
     
     b. (84. gr. b.)
Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að kveða á um eiginfjárauka vegna kerfisáhættu og gildi hans að undangengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði. Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs skulu einkum byggjast á tillögum og greiningu kerfisáhættunefndar, sbr. lög um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014. Ef eiginfjárauki vegna kerfisáhættu er settur á skal fjármálastöðugleikaráð endurskoða tilmæli sín innan tveggja ára frá því að þau komu til framkvæmda. Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kveða á um eiginfjárauka vegna kerfisáhættu, lækkun eða hækkun hans, skal rökstudd og birt opinberlega, þó að teknu tilliti til 58. gr. laga þessara og 10. gr. laga nr. 66/2014, um fjármálastöðugleikaráð.
     Heimilt er að kveða á um að eitt eða fleiri fjármálafyrirtæki viðhaldi eiginfjárauka vegna kerfisáhættu. Hægt er að kveða á um að eiginfjárauki vegna kerfisáhættu taki mið af samstæðugrunni eða einstaka fyrirtækjum innan samstæðu fjármálafyrirtækisins. Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu skal taka mið af ósveiflutengdri áhættu í fjármálakerfinu, í heild eða að hluta, sem ógnað getur fjármálastöðugleika eða haft alvarlegar afleiðingar fyrir raunhagkerfið. Eiginfjárauka vegna kerfisáhættu má einnig ákveða vegna erlendra áhættuskuldbindinga fjármálafyrirtækis í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Hægt er að kveða á um mishátt gildi eiginfjárauka vegna kerfisáhættu gagnvart einstökum fjármálafyrirtækjum ef eiginfjárauki er ákveðinn til þess að mæta mismunandi áhættu í fjármálakerfinu.
     Eiginfjárauka vegna kerfisáhættu má ákveða sem hlutfall af áhættugrunni fjármálafyrirtækis, sbr. 2. mgr. 84. gr., eða þeim áhættuskuldbindingum sem hann á að taka til. Gildi hans getur numið frá 1% af þeim hluta sem hann tekur til. Fjármálaeftirlitið getur viðurkennt eiginfjárauka vegna kerfisáhættu sem eftirlitsstjórnvald í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu hefur ákveðið vegna áhættuskuldbindinga í því ríki og lagt hann á fjármálafyrirtæki hér á landi ef fjármálafyrirtækið er með starfsemi í ríkinu og eiginfjárauki vegna kerfisáhættu þar í landi nær til þeirrar starfsemi.
     Uppfylli fjármálafyrirtæki ekki kröfur þessarar greinar um að viðhalda nægjanlegu eigin fé vegna eiginfjárauka vegna kerfisáhættu og takmarkanir á útgreiðslum skv. 6. mgr. 84. gr. a eru ekki taldar duga til þess að styrkja eiginfjárgrunn fyrirtækisins eins og kveðið er á um í ákvæðinu getur Fjármálaeftirlitið gripið til eftirfarandi aðgerða gagnvart fyrirtækinu:
 1. Afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta skv. 10. tölul. 1. mgr. 9. gr.
 2. Mælt fyrir um kröfur skv. a–e-lið 1. mgr. 84. gr.
 3. Aukið kröfur til fjármálafyrirtækis, enda sé um að ræða annars konar fjármálafyrirtæki en þau sem hafa starfsleyfi skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr., sbr. 6. gr., um að viðhalda lausu fé og/eða auknu hlutfalli þess.
 4. Óskað eftir því við Seðlabanka Íslands, í þeim tilvikum þar sem um ræðir fyrirtæki með starfsleyfi skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr., sbr. 6. gr., að kröfur til fjármálafyrirtækisins um að viðhalda lausu fé og hlutfalli þess verði auknar.

     Ráðherra setur reglugerð, eftir umsögn fjármálastöðugleikaráðs, um nánari framkvæmd þessarar greinar. Reglugerðin skal m.a. innihalda nánari reglur um málsmeðferð skv. 1. mgr., um aðkomu kerfisáhættunefndar og fjármálastöðugleikaráðs að tilmælum og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um eiginfjáraukann, um innihald og birtingu tilmæla og ákvörðunar um að kveða á um eiginfjáraukann og nánari reglur um rökstuðning tilmæla og ákvörðunar, gildi eiginfjáraukans og nánari málsmeðferð og samskipti við erlendar eftirlitsstofnanir ef hlutfall eiginfjárauka vegna kerfisáhættu er ákveðið hærra en 3% eða 5% af áhættugrunni fjármálafyrirtækis eða sem hlutfall af þeim áhættuskuldbindingum sem hann tekur til. Þá hefur ráðherra einnig heimild til þess að kveða nánar á um heimild til viðurkenningar á eiginfjárauka vegna kerfisáhættu í öðrum ríkjum í sömu reglugerð.
     
     c. (84. gr. c.)
Eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki.
     Fjármálaeftirlitið skal árlega kveða á um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fyrirtæki að undangengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði. Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs skulu einkum byggjast á tillögum og greiningu kerfisáhættunefndar, sbr. lög um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014. Eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki getur numið allt að 2% af áhættugrunni, sbr. 2. mgr. 84. gr. Ákvörðun um að setja eiginfjáraukann á og gildi hans skal endurskoða árlega og ber Fjármálaeftirlitinu að óska eftir tilmælum fjármálastöðugleikaráðs fyrir breytingu á ákvörðuninni. Við ákvörðun um hvaða fjármálafyrirtæki skulu viðhalda eiginfjárauka samkvæmt þessari grein skal byggt á skilgreiningu fjármálastöðugleikaráðs á kerfislega mikilvægum aðilum skv. d-lið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 66/2014, um fjármálastöðugleikaráð. Hægt er að ákvarða að eiginfjáraukinn taki mið af samstæðugrunni fyrirtækisins eða tiltekinna félaga innan samstæðu. Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kveða á um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, lækkun eða hækkun hans, skulu rökstudd og birt opinberlega, þó að teknu tilliti til 58. gr. laga þessara og 10. gr. laga nr. 66/2014, um fjármálastöðugleikaráð. Ráðherra setur reglugerð, eftir umsögn fjármálastöðugleikaráðs, um nánari framkvæmd þessarar greinar. Reglugerðin skal m.a. innihalda nánari reglur um málsmeðferð og samskipti við erlendar eftirlitsstofnanir og innihald, rökstuðning og birtingu tillögu og ákvörðunar um að setja á eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki.
     
     d. (84. gr. d.)
Sveiflujöfnunarauki.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að kveða á um sveiflujöfnunarauka og gildi hans að undangengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði. Fjármálastöðugleikaráð skal ársfjórðungslega leggja fram tilmæli um gildi sveiflujöfnunarauka fyrir hvern ársfjórðung. Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs skulu einkum byggjast á tillögum og greiningu kerfisáhættunefndar, sbr. lög um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014. Hækkun á sveiflujöfnunarauka skal taka gildi eigi síðar en 12 mánuðum eftir ákvörðun þess efnis. Heimilt er að kveða á um styttri tímafrest en skv. 4. málsl. ef óvenjulegar aðstæður skapast á fjármálamarkaði og skal það þá sérstaklega rökstutt. Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kveða á um sveiflujöfnunarauka, lækkun eða hækkun hans, skulu rökstudd og birt opinberlega, þó að teknu tilliti til 58. gr. laga þessara og 10. gr. laga nr. 66/2014, um fjármálastöðugleikaráð.
     Gildi sveiflujöfnunarauka er hægt að ákveða sem 0–2,5% af áhættugrunni, sbr. 2. mgr. 84. gr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að kveða á um sveiflujöfnunarauka sem er hærri en 2,5% af áhættugrunni að undangengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði ef áhættuþættir sem liggja til grundvallar mati fjármálastöðugleikaráðs á gildi sveiflujöfnunarauka gefa tilefni til.
     Við útreikning eigin fjár sem viðhalda skal samkvæmt þessari grein skal líta til vegins meðaltals þeirra sveiflujöfnunarauka sem fjármálafyrirtæki er skylt að viðhalda vegna starfsemi sinnar erlendis og reglna sem Fjármálaeftirlitið setur um útreikning hlutfalls sveiflujöfnunarauka. Sveiflujöfnunarauka skal einnig viðhaldið á samstæðugrunni. Að undangenginni tillögu frá fjármálastöðugleikaráði er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kveða á um gildi sveiflujöfnunarauka vegna áhættuskuldbindinga fjármálafyrirtækja í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Að undangenginni tillögu frá fjármálastöðugleikaráði er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kveða á um gildi sveiflujöfnunarauka fyrir fjármálafyrirtæki sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og hafa starfsemi hér á landi. Fjármálaeftirlitið birtir á heimasíðu sinni hlutfall sveiflujöfnunarauka í öðrum ríkjum. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um m.a. útreikning á sveiflujöfnunarauka fyrir fjármálafyrirtæki og viðurkenningu hlutfalls sveiflujöfnunarauka fyrir önnur ríki.
     Fjármálafyrirtæki með starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlun eða rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. 5., 6. eða 7. tölul. 1. mgr. 4. gr., sbr. 6. gr., er undanskilið skyldu til þess að viðhalda sveiflujöfnunarauka skv. 1. mgr. ef það uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:
 1. Ársverk fyrirtækisins eru færri en 250.
 2. Ársvelta fyrirtækisins samkvæmt ársreikningi fer ekki yfir jafnvirði 50 milljóna evra í íslenskum krónum.
 3. Eignir samkvæmt ársreikningi fara ekki yfir jafnvirði 43 milljóna evra í íslenskum krónum.

     Ráðherra setur reglugerð, eftir umsögn fjármálastöðugleikaráðs, um nánari framkvæmd þessarar greinar. Í reglugerðinni skal sérstaklega kveðið á um aðkomu Seðlabanka Íslands, kerfisáhættunefndar og fjármálastöðugleikaráðs að ákvörðun um að kveða á um sveiflujöfnunarauka, gildi sveiflujöfnunarauka, opinbera birtingu og rökstuðning fyrir tillögu og ákvörðun, hvaða viðmið og áhættuþættir liggja til grundvallar ákvörðun um hlutfall sveiflujöfnunarauka.
     
     e. (84. gr. e.)
Verndunarauki.
     Fjármálafyrirtæki skal viðhalda eiginfjárauka sem nefnist verndunarauki. Verndunaraukinn skal nema 2,5% af áhættugrunni, sbr. 2. mgr. 84. gr., og skal auk þess viðhalda honum á samstæðugrunni.
     Fjármálafyrirtæki með starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlun eða rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. 5., 6. eða 7. tölul. 1. mgr. 4. gr., sbr. 6. gr., er undanskilið skyldu til þess að viðhalda verndunarauka skv. 1. mgr. ef það uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:
 1. Ársverk fyrirtækisins eru færri en 250.
 2. Ársvelta fyrirtækisins samkvæmt ársreikningi fer ekki yfir jafnvirði 50 milljóna evra í íslenskum krónum.
 3. Eignir samkvæmt ársreikningi fara ekki yfir jafnvirði 43 milljóna evra í íslenskum krónum.

     
     f. (84. gr. f.)
Áætlun um verndun eigin fjár.
     Viðhaldi fjármálafyrirtæki ekki nægjanlegu eigin fé, til samræmis við kröfu um samanlagðan eiginfjárauka skv. 84. gr. a, skal stjórn fjármálafyrirtækis útbúa og afhenda Fjármálaeftirlitinu áætlun um verndun eigin fjár í samræmi við fyrirmæli þessarar greinar.
     Áætlun um verndun eigin fjár skal m.a. innihalda:
 1. Áætlun um tekjur og gjöld fyrirtækisins og spá um þróun efnahagsreiknings þess.
 2. Upplýsingar um til hvaða úrræða fyrirtækið muni grípa til þess að hækka eiginfjárhlutfall sitt.
 3. Tímasetta áætlun um það hvernig fyrirtækið ráðgerir að hækka eiginfjárhlutfall sitt þannig að það uppfylli á ný skilyrði 84. gr. a um að viðhalda eiginfjárauka.
 4. Aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar til þess að leggja mat á áætlunina.

     Áætlun um verndun eigin fjár skal afhent Fjármálaeftirlitinu innan fimm virkra daga frá því að ljóst er að eigið fé fór niður fyrir leyfileg mörk skv. 84. gr. a. Fjármálaeftirlitið getur veitt fimm daga viðbótarfrest til að afhenda áætlunina.
     Fjármálaeftirlitið leggur mat á áætlunina í samræmi við fyrirmæli þessarar greinar. Áætlun um verndun eigin fjár skal samþykkt ef talið er líklegt að hún komi því til leiðar að fjármálafyrirtæki nái að uppfylla eiginfjárkröfu skv. 84. gr. a innan viðeigandi tímamarka.
     Samþykki Fjármálaeftirlitið ekki áætlunina á grundvelli 4. mgr. getur það:
 1. Mælt fyrir um að fjármálafyrirtækið auki eiginfjárgrunn sinn um tilskilin mörk innan tímafrests sem Fjármálaeftirlitið ákveður.
 2. Takmarkað frekar útgreiðslur umfram það sem kveðið er á um í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 7. mgr. 84. gr. a.


29. gr.

     Við 3. mgr. 87. gr. laganna bætast þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
 1. nöfn dótturfélaga, starfsemi þeirra og hvar starfsemi fer fram; einnig skal birta yfirlit yfir staðsetningu útibúa og hvar félagið veitir þjónustustarfsemi án stofnunar útibús í öðrum ríkjum,
 2. yfirlit yfir hvers konar styrki eða niðurgreiðslur, og fjárhæð þeirra, sem félagið hefur þegið frá hinu opinbera á reikningsárinu,
 3. arðsemi eigna í lykiltölum ársreikningsins; með arðsemi eigna er átt við hagnað félagsins eftir skatta sem hlutfall af meðalstöðu eigna á tímabilinu samkvæmt efnahagsreikningi.


30. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 93. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ tvívegis kemur: dótturfélög.
 2. Orðin „skv. 97. gr.“ falla brott.


31. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 94. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ tvívegis kemur: dótturfélög.
 2. Orðin „skv. 97. gr.“ falla brott.


32. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
 1. 1.–8. mgr. falla brott.
 2. Í stað orðsins „móðurfyrirtæki“ í 9. mgr. og orðsins „móðurfyrirtækið“ í 10. og 11. mgr. kemur: móðurfélag; og: móðurfélagið.


33. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „2. mgr., 4. málsl. 3. mgr. og 4.–6. mgr. 52. gr.“ í lokamálslið 4. mgr. 101. gr. laganna kemur: 2. mgr. og 1. málsl. 5. mgr. 52. gr. og 52. gr. a.

34. gr.

     Í stað orðsins „dótturfyrirtækjum“ í 2. málsl. 1. mgr. og 3. mgr. 107. gr. laganna kemur: dótturfélögum.

35. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „móðurfyrirtækið“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. kemur: móðurfélagið.
 2. 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ákvæði 52. gr. og 52. gr. a um hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra og önnur störf stjórnarmanna, ákvæði 57. gr. a um kaupaukakerfi, ákvæði 57. gr. b um starfslokasamning og ákvæði 84. og 85. gr. um eigið fé gilda einnig um eignarhaldsfélög á fjármálasviði.
 3. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að félag skuli teljast hluti af samstæðu fjármálafyrirtækis þegar fjármálafyrirtækið hefur ráðandi áhrif á félagið.
 5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 6.      Fjármálaeftirlitið setur reglur um eftirlit með fjármálafyrirtækjum á samstæðugrunni.


36. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 110. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „áhættum“ í 15. tölul. kemur: áhættuskuldbindingum.
 2. 19. tölul. fellur brott.
 3. Í stað orðanna „um upplýsingaskyldu“ í 22. tölul. kemur: um upplýsingaskyldu og viðvarandi mat á hæfi eiganda virkra eignarhluta.
 4. Í stað tilvísunarinnar „2., 3., 4. og 7. mgr. 52. gr.“ í 23. tölul. kemur: 2., 3. og 5. mgr. 52. gr. og 52. gr. a.
 5. Í stað tilvísunarinnar „52. gr. b“ í 24. tölul. kemur: 52. gr. c.
 6. Í stað tilvísunarinnar „52. gr. c“ í 25. tölul. kemur: 52. gr. d.
 7. Í stað tilvísunarinnar „2. og 3. mgr.“ í 27. tölul. kemur: 4. og 5. mgr.
 8. Í stað tilvísunarinnar „2. og 3. mgr.“ í 28. tölul. kemur: 1.–3. mgr.


37. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 112. gr. b laganna:
 1. Í stað orðsins „áhættum“ í 11. tölul. kemur: áhættuskuldbindingum.
 2. 14. tölul. fellur brott.
 3. Í stað orðanna „um upplýsingaskyldu“ í 15. tölul. kemur: um upplýsingaskyldu og viðvarandi mat á hæfi eiganda virkra eignarhluta.
 4. Í stað tilvísunarinnar „2. og 3. mgr.“ í 16. tölul. kemur: 4. og 5. mgr.


38. gr.

     Á eftir 116. gr. laganna kemur ný grein, 116. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Upplýsingaskylda vegna könnunar- og matsferlis.
     Fjármálaeftirlitið skal birta opinberlega þau almennu viðmið og aðferðafræði sem stofnunin styðst við vegna könnunar- og matsferlis.

39. gr.

     Á eftir orðunum „93/6/EBE um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana“ í 1. málsl. 117. gr. laganna kemur: 2002/87/EB um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu og um breytingu á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE, 79/267/EBE, 92/49/EBE, 92/96/EBE, 93/6/EBE og 93/22/EBE og á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB og 2000/12/EB.

40. gr.

     Á eftir 117. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 117. gr. a og 117. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (117. gr. a.)
Innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013.
     Ráðherra skal setja reglugerð sem innleiðir ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja. Í reglugerðinni skal kveðið á um hvernig farið verður með eftirlit samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 575/2013 og jafnframt skal koma fram hvernig valákvæðum hennar er beitt hér á landi.
     
     b. (117. gr. b.)
Innleiðing tæknilegra framkvæmdarstaðla og tæknilegra eftirlitsstaðla í íslenskan rétt.
     Ráðherra skal setja reglugerð um nánari útfærslu á birtingu Fjármálaeftirlitsins á þeirri aðferðafræði og þeim almennu viðmiðum sem stofnunin styðst við vegna könnunar- og matsferlis, sbr. 116. gr. a. Reglugerðin skal byggjast á tæknilegum framkvæmdarstaðli Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar um samræmdar gagnsæisskyldur eftirlitsstofnana.
     Fjármálaeftirlitið skal setja reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdarstöðlum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Reglurnar varða nánari útfærslu á einstökum greinum laga þessara eða efni reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja, sem innleidd er á grundvelli 117. gr. a. Reglurnar skulu ná til efnis sem varðar:
 1. gagnaskil vegna i) útreikninga á eiginfjárkröfum og stórum áhættuskuldbindingum, ii) fjárhagslegra upplýsinga, iii) fasteignaveðlána, iv) vogunarhlutfalls og v) veðsetningar á eignum,
 2. gagnsæi vegna eiginfjárgrunns og vogunarhlutfalls,
 3. tilkynningar um starfsemi á milli landa, sbr. 36. og 37. gr., og
 4. upplýsingagjöf á milli eftirlitsaðila í heimaríki og gistiríki, sbr. 34. gr.

     Fjármálaeftirlitið skal setja reglur sem byggjast á tæknilegum eftirlitsstöðlum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Reglurnar varða nánari útfærslu á einstökum greinum laga þessara eða efni reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja, sem innleidd er á grundvelli 117. gr. a. Reglurnar skulu ná til efnis sem varðar:
 1. útreikning á eiginfjárgrunni,
 2. útreikning á útlánaáhættu, þ.m.t. vegna innramatsaðferðar og yfirfærðrar útlánaáhættu vegna verðbréfunar,
 3. útreikning á markaðsáhættu, þ.m.t. vegna matsaðferðar vegna veltubókar,
 4. útreikning á stórum áhættuskuldbindingum,
 5. tilkynningar um starfsemi á milli landa, sbr. 36. og 37. gr., og
 6. upplýsingagjöf á milli eftirlitsaðila í heimaríki og gistiríki, sbr. 34. gr.


41. gr.

     Lokamálsliður 118. gr. laganna fellur brott.

42. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I–III í lögunum orðast svo:
     
     a. (I.)
     Við setningu reglugerðar skv. 117. gr. a er ráðherra heimilt að vísa til birtingar á reglugerð (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja, í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku. Nýti ráðherra þessa heimild skal gera enska útgáfu reglugerðarinnar aðgengilega á vef ráðuneytisins.
     
     b. (II.)
     Við setningu reglugerðar skv. 1. mgr. 117. gr. b er ráðherra heimilt að vísa til birtingar á tæknilegum framkvæmdarstaðli Evrópska bankaeftirlitsins um samræmdar gagnsæisskyldur eftirlitsstofnana í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku. Nýti ráðherra þessa heimild skal gera enska útgáfu tæknilega framkvæmdarstaðalsins aðgengilega á vef ráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins.
     
     c. (III.)
     Við setningu reglna skv. 2. og 3. mgr. 117. gr. b er Fjármálaeftirlitinu heimilt að vísa til birtingar á tæknilegum framkvæmdarstöðlum og eftirlitsstöðlum í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku. Nýti Fjármálaeftirlitið þessa heimild skal stofnunin gera enskar útgáfur tæknilegu framkvæmdarstaðlanna og eftirlitsstaðlanna aðgengilegar á vef sínum.

43. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „2. mgr., 4. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 52. gr. laganna“ í 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum kemur: 2. mgr. og 1. málsl. 5. mgr. 52. gr. og 52. gr. a.

44. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði b-, c- og d-liðar 28. gr. (84. gr. b – 84. gr. d) koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2016.
     Ákvæði e-liðar 28. gr. (84. gr. e) koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2016 og getur gildi verndunaraukans þá hæst orðið 1% fram til 1. júní 2016 og 1,75% frá 1. júní 2016 fram að 1. janúar 2017 og 2,5% eftir það.

Samþykkt á Alþingi 2. júlí 2015.