Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1515, 144. löggjafarþing 670. mál: Norðurlandasamningur um erfðir og skipti á dánarbúum.
Lög nr. 75 9. júlí 2015.

Lög um breytingu á Norðurlandasamningi um erfðir og skipti á dánarbúum.


1. gr.

     Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd samning, sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 1. júní 2012 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum, um breytingar á samningi sömu ríkja frá 19. nóvember 1934, um erfðir og skipti á dánarbúum, sem staðfestur var með lögum nr. 108 8. maí 1935.

2. gr.

     Þegar samningur sá sem um ræðir í 1. gr. hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.


Fylgiskjal.

Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um breytingu á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar sem undirritaður var í Kaupmannahöfn þann 19. nóvember 1934 um erfðir og skipti á dánarbúum.
     
     Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa sammælst um eftirfarandi:
I. grein.
     Á samningnum milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar sem undirritaður var í Kaupmannahöfn þann 19. nóvember 1934 um erfðir og skipti á dánarbúum eru eftirfarandi breytingar gerðar:
     
      Fyrirsögn I. kafla skal hljóða svo:
      I. Arfur og erfðaskrá.
     
      1. gr. skal hljóða svo:
     Ákvæðum þessa samnings skal beitt í málum sem varða arf og erfðaskrá eftir þann, sem við andlát sitt var ríkisborgari og var búsettur í einhverju samningsríkjanna, nema annað leiði af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 650/2012 frá 4. júlí 2012 um dómslögsögu, lagaval, viðurkenningu og fullnustu dóma og viðurkenningu og fullnustu staðfestra opinberra gagna í tengslum við arf og útgáfu evrópsks arfleiðsluvottorðs.
     
      2. gr. skal hljóða svo:
     Hafi arfleifandi ekki mælt fyrir á annan veg samkvæmt því sem segir í 3. gr. skal um rétt til arfs eftir hann beita lögum þess samningsríkis sem hinn látni var búsettur í þegar hann lést.
     Ef í ljós kemur í undantekningartilvikum að hinn látni hafi við andlátið, að öllum kringumstæðum virtum, haft nánari tengsl við annað samningsríki en það ríki sem beita ætti lögum samkvæmt 1. málsgr., skal beita lögum hins ríkisins varðandi álitaefni um rétt til arfs.
     
      3. gr. skal hljóða svo:
     Arfleifandi getur mælt fyrir um að réttur til arfs eftir hann skuli fara eftir lögum þess samningsríkis sem hann átti ríkisfang í þegar fyrirmælin voru gefin eða við andlát hans.
     Arfleifandi sem hefur ríkisfang í fleiri en einu samningsríkjanna getur valið löggjöf eins þessara ríkja sem hann átti ríkisfang í þegar fyrirmælin voru gefin eða við andlát hans.
     Hafi arfleifandi ákveðið að réttur til arfs eftir viðkomandi skuli leiddur til lykta í ríki sem ekki er samningsríki, fer um gildi ákvörðunarinnar eftir almennum reglum sem gilda þar um í sérhverju samningsríkjanna.
     
      Við samninginn bætist ný grein, 3a, svohljóðandi:
     Fyrirmæli um lagaval skulu, svo að þau teljist gild, gefin í því formi sem gildir um erfðaskrár eða koma fram í skilmálum erfðaskrár. Afturköllun fyrirmæla um lagaval skal, svo að hún teljist gild, gefin í því formi sem gildir um afturköllun erfðaskráa. Við úrlausn á því hvort formkröfur fyrirmælanna eða afturköllunarinnar séu gildar, skal farið eftir því sem segir í 8. gr.
     
      Við samninginn bætist ný grein, 3b, svohljóðandi:
     Sérhvert samningsríkjanna getur ákveðið að ákvörðun um lagaval, sem tilgreind er í 3. gr., sem tekin er af arfleifanda búsettum í því ríki, þegar fyrirmælin voru gefin, gildi því aðeins um skiptingu arfsins gagnvart maka eða sambúðaraðila að makanum eða sambúðaraðilanum hafi verið tilkynnt um fyrirmælin.
     
      5. gr. fellur brott.
     
      6. gr. fellur brott.
     
      7. gr. fellur brott.
     
      8. gr. skal hljóða svo:
     Að því er varðar form erfðaskrár arfleifanda telst það gilt ef erfðaskráin uppfyllir þær formkröfur sem kveðið er á um í lögum á þeim stað sem erfðaskráin er gerð eða þar sem arfleifandi var búsettur þegar hún var gerð eða við andlát hans eða í lögum þess ríkis sem arfleifandi átti ríkisfang í við gerð erfðaskrárinnar eða þegar hann lést. Taki erfðaskráin til fasteignar skal hún teljast gild hvað form snertir, ef hún uppfyllir formkröfur sem mælt er fyrir um í lögum á þeim stað þar sem fasteignin er.
     Reglurnar í 1. málsgr. gilda eftir því sem við á um breytingu eða afturköllun á erfðaskrá. Afturköllun telst einnig gild hvað formið snertir ef afturköllunin er í samræmi við lögin, sem töldust gild varðandi form erfðaskrárinnar sem er afturkölluð, samkvæmt því sem segir í 1. málsgr.
     Hafi arfleifandi samkvæmt lögum ríkis, sem ekki er samningsríki, átt lögheimili í því ríki, má hann nota það lögheimili í stað heimilisfangs sem 1. og 2. málsgr. taka til.
     Rísi vafi samkvæmt 1.–3. málsgr. um beitingu laga í ríki, sem ekki er samningsríki, skal beita almennum reglum sem gilda þar að lútandi í sérhverju samningsríkjanna.
     
      9. gr. skal hljóða svo:
     Um heimild til að geta gert eða afturkallað erfðaskrá skal farið eftir lögum þess samningsríkis sem samkvæmt 2. gr. eða 3. gr. skal beita um rétt til arfs eftir hinn látna. Arfleifandi telst einnig hafa haft heimild til að gera eða afturkalla erfðaskrána hafi hann haft heimild til þess samkvæmt lögum þess samningsríkis sem hann var búsettur í þegar hann gerði eða afturkallaði erfðaskrána. Ef arfleifandi var þá búsettur í ríki, sem ekki er samningsríki, skal beita almennum reglum sem gilda þar að lútandi í sérhverju samningsríkjanna.
     
      10. gr. skal hljóða svo:
     Álitaefni um hvort erfðaskrá eða afturköllun erfðaskrár sé gild vegna sálarástands arfleifanda eða vegna svika, blekkinga, þvingunar eða annarra ótilhlýðilegra áhrifa, skal meta samkvæmt lögum þess ríkis, sem arfleifandi var búsettur í þegar erfðaskráin eða afturköllun hennar var gerð. Ef arfleifandi var þá búsettur í ríki, sem ekki er samningsríki, skal beita almennum reglum sem gilda þar að lútandi í sérhverju samningsríkjanna.
     
      11. gr. skal hljóða svo:
     Ef ríkisborgari samningsríkis var búsettur í Finnlandi eða Svíþjóð þegar hann lést, skal beita lögum sem þar gilda varðandi málsókn til að andmæla gildi erfðaskrár, en málsókn þarf að hefja innan tiltekins tíma, eftir að honum hefur verið birt erfðaskráin.
     Ákvæðum í norskum lögum, um að málsókn þurfi að hefja innan tiltekins frests til að andmæla gildi erfðaskrár, skal einnig beita vegna erfðaskrár ríkisborgara annars samningsríkis, ef hann var búsettur í Noregi þegar hann lést.
     
      12. gr. skal hljóða svo:
     Hafi arfleifandi gert erfðasamning, gefið dánargjöf eða erfingi hefur afsalað sér arfi eftir hann, skal dæma um gildi álitaefnis þar að lútandi eftir lögum þess ríkis sem samkvæmt 2. gr. eða 3. gr. gilda um rétt til arfs eftir hinn látna.
     Hið sama gildir þegar meta á hvort telja skuli fjármuni sem erfingi hefur þegið af arfleifanda á meðan hann var á lífi, sem fyrirframgreiðslu upp í arf.
     Ef álitaefni rís eftir 1. eða 2. málsgr. um beitingu laga ríkis, sem ekki er samningsríki, skal beita almennum reglum sem gilda þar að lútandi í sérhverju samningsríkjanna.
     
      15. gr. fellur brott.
     
      16. gr. skal hljóða svo:
     Um fyrningu réttar til arfs eða dánargjafar eftir arfleifanda skal beita lögum þess ríkis sem samkvæmt 2. gr. eða 3. gr. skal beita um rétt til arfs eftir hinn látna.
     
      17. gr. skal hljóða svo:
     Um ábyrgð erfingja eða arftaka á skuldum ríkisborgara samningsríkis eða á því að fyrirmæli erfðaskrár séu uppfyllt eða að dánargjöf verði innt af hendi, skal beita lögum þess ríkis þar sem arfleifandi var búsettur þegar hann lést.
     
      18. gr. skal hljóða svo:
     Áskorun til kröfuhafa, að viðlagðri ógildingu kröfu sé henni ekki lýst í tæka tíð, sem gefin hefur verið út í búi eftir ríkisborgara í einhverju samningsríkjanna, gildir ekki varðandi kröfur sem kunnugt var um, ef kröfuhafi er búsettur í einhverju hinna samningsríkjanna og hann hefur ekki í tæka tíð fengið sérstaka tilkynningu um áskorunina og afleiðingar hennar eða hefur á annan hátt fengið vitneskju um hana.
     
      19. gr. skal hljóða svo:
     Um skiptameðferð dánarbús og skiptingu arfs eftir ríkisborgara samningsríkis skal farið eftir lögum þess samningsríkis sem hinn látni var búsettur. Komi dómstóll eða annað stjórnvald að málinu samkvæmt lögunum heyrir það undir dómstól eða stjórnvöld í því ríki.
     Hafi eftirlifandi maki sem er ríkisborgari í samningsríki, setið í óskiptu búi og skipta á búinu, fer um búskiptin samkvæmt lögum þess ríkis þar sem eftirlifandi maki er búsettur eða var búsettur þegar hann lést, og í þeim mæli sem lögin mæla fyrir um atbeina dómstóla þessa samningsríkis.
     Skiptameðferð skal einnig ná til eigna búsins sem eru í einhverju hinna samningsríkjanna.
     
      20. gr. skal hljóða svo:
     Um rétt maka við búskiptin samkvæmt 19. gr. til þess að taka til sín ákveðnar eignir, gegn eða án greiðslu, skal beita þeim lögum sem eru tilgreind í 19. gr. Hið sama gildir um heimild maka við skiptin til að fá frest til greiðslu arfshluta gegn því að erfinginn eigi veðrétt vegna kröfu sinnar, þó þannig að veðrétt í eignum í öðru samningsríki er einungis hægt að stofna samkvæmt lögum sem þar gilda.
     
      21. gr. skal hljóða svo:
     Ágreiningur um rétt til arfs eða dánargjafar eftir þann sem var ríkisborgari samningsríkis og var búsettur í slíku ríki, og um réttindi eftirlifandi maka og um kröfur sem gerðar eru á hendur dánarbúinu en ekki gegn arfþegum eða makanum persónulega heyrir undir dómstólana í því ríki, sem samkvæmt 19. gr. er ákvarðandi fyrir skiptameðferðina.
     Með samþykki aðilanna má þó höfða málið í einu hinna samningsríkjanna, nema dómstóll, skiptaforstjóri eða skiptastjóri tilnefndur af dómstólnum, annist meðferðina eða að málið varði sjálf skiptin á búinu. Mál varðandi gildi erfðaskrár eftir arfleifanda sem var búsettur í Finnlandi eða Svíþjóð, er ekki unnt að höfða í hinum ríkjunum. Sama gildir um mál sem er höfðað í því skyni að fá rift skiptum eftir einhvern, sem var búsettur í Finnlandi.
     
      23. gr. skal hljóða svo:
     Ef dánarbú sem um ræðir í 19. gr. er til skipta hjá skiptastjóra í Danmörku eða er til opinberra skipta á Íslandi eða í Noregi, skulu þar gildandi lagaákvæði um takmörkun á rétti kröfuhafa til að leita fullnustu í eignum búsins einnig eiga við um eignir búsins í öðru samningsríki. Þetta á þó ekki við um aðför vegna skatta eða annarra opinberra gjalda í því ríki eða ef krafan varðar eignir, sem eru veðsettar eða haldsréttur er í.
     
      24. gr. skal hljóða svo:
     Ef dánarbú sem um ræðir í 19. gr. er til skipta hjá skiptastjóra í Danmörku eða til opinberra skipta á Íslandi eða í Noregi, sætir forgangsröðun krafna úrlausn á hliðstæðan hátt og eftir 7. gr. samnings um gjaldþrotaskipti frá 7. nóvember 1933.
     
      27. gr. skal hljóða svo:
     Hafi dómstóll í einhverju samningsríkjanna úrskurðað að dánarbúi, sem um ræðir í 19. gr., skuli skipt af dómstól, skiptarétti, skiptaforstjóra eða skiptaráðanda eða með aðstoð skiptamanns eða að það skuli afhent til einkaskipta, skal sá úrskurður einnig vera bindandi í hinum ríkjunum.
II. grein.
     Ákvæði þessa samnings gilda ekki ef arfleifandi hefur látist áður en samningurinn öðlaðist gildi, og heldur ekki, ef eftirlifandi maki hefur setið í óskiptu búi þar sem hinn látni maki hafði látist fyrir umrætt tímamark.
III. grein.
     Samningurinn gildir ekki í Færeyjum eða á Grænlandi, en að loknum samningaviðræðum milli danska dómsmálaráðuneytisins og viðkomandi ráðuneyta hinna samningsríkjanna getur hann einnig tekið gildi þar, með þeim breytingum sem aðstæður í Færeyjum og Grænlandi krefjast.
IV. grein.
     Samningsríkin geta gerst aðilar að samningnum með því að
  1. undirrita hann án fyrirvara varðandi fullgildingu eða
  2. undirrita hann með fyrirvara um fullgildingu eða samþykki ásamt eftirfarandi fullgildingu eða samþykki.

     Fullgildingarskjölum skal komið til vörslu hjá danska utanríkisráðuneytinu.
     Samningurinn tekur gildi fyrsta dag þess mánaðar sem kemur næstur á eftir mánuðinum þegar síðasta samningsríkið hefur komið skjölum um samþykki eða fullgildingu til vörslu hjá danska utanríkisráðuneytinu. Það er forsenda fyrir gildistöku að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 650/2012 frá 4. júlí 2012 um dómslögsögu, lagaval, viðurkenningu og fullnustu dóma og viðurkenningu og fullnustu staðfestra opinberra gagna í tengslum við arf og útgáfu evrópsks arfleiðsluvottorðs hafi öðlast gildi í heild sinni skv. 84. gr. reglugerðarinnar.
     Ef reglugerðin hefur ekki öðlast gildi á þeim degi sem er tilgreindur í 3. mgr., skal samningurinn taka gildi daginn sem hefja má að beita reglugerðinni í heild sinni.
     Danska utanríkisráðuneytið tilkynnir samningsríkjunum um móttöku fullgildingarskjala og um það hvenær samningurinn tekur gildi.
V. grein.
     Frumriti þessa samnings skal komið til vörslu hjá danska utanríkisráðuneytinu, sem skal senda staðfest afrit af honum til hinna samningsríkjanna.
     Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.
     Gjört í Kaupmannahöfn 1. júní 2012 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og á sænsku í tveimur textum, öðrum fyrir Finnland og hinum fyrir Svíþjóð, og eru allir textarnir jafngildir.

Samþykkt á Alþingi 30. júní 2015.