Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 844, 145. löggjafarþing 333. mál: höfundalög (einkaréttindi höfunda, samningskvaðir o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 9 1. mars 2016.

Lög um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (endurskoðun höfundalaga, einkaréttindi höfunda og samningskvaðir).


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Með þeim takmörkunum sem í lögum þessum greinir hefur höfundur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að gera það aðgengilegt almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd, í þýðingu eða annarri aðlögun, í annarri tegund bókmennta eða lista eða með annarri tækni.
     Eintakagerð telst sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er. Það telst m.a. eintakagerð ef verk er flutt yfir á miðil sem nota má til endurmiðlunar.
     Verk telst gert aðgengilegt almenningi þegar:
 1. eintök af því eru boðin til sölu, leigu eða láns eða er dreift til almennings á annan hátt,
 2. eintök af því eru sýnd opinberlega,
 3. verkið er flutt opinberlega.

     Það telst vera opinber flutningur í skilningi 3. tölul. 3. mgr. þegar:
 1. verki er miðlað til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal þegar það er sent út í útvarpi eða gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn getur fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði sem hann sjálfur kýs,
 2. verk er flutt á vinnustað fyrir stóran hóp manna sem endranær er talinn vera lokaður hópur,
 3. útvarpsflutningur á tónlist eða bókmenntaverki er gerður aðgengilegur almenningi á þann hátt að honum er endurvarpað með hátalara eða á annan sambærilegan hátt í rými sem er opið almenningi.

     Flutningur verks í útvarpi nær bæði til hljóðvarps og sjónvarps nema annars sé getið.

2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Verk telst birt þegar það hefur löglega verið gert aðgengilegt almenningi.
     Verk telst gefið út þegar eintök af því hafa með réttri heimild verið boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu eða þeim dreift til almennings á annan hátt.

3. gr.

     3. og 4. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

4. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Nú er verk sem lög þessi taka til, eða hlutar þess, skráð sem hönnun samkvæmt lögum nr. 46/2001 og útilokar það ekki samhliða höfundavernd.

5. gr.

     Á eftir 12. gr. a laganna kemur ný grein, 12. gr. b, svohljóðandi:
     Söfn sem falla undir 1. mgr. 12. gr. hafa heimild til að gera eintök af birtum verkum í safni sínu og gera þau aðgengileg almenningi að fullnægðum skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a.

6. gr.

     3. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að endurbirta listaverk í almennu fræðsluefni, í sambandi við gagnrýni og við vísindalega umfjöllun, þótt í fjárhagslegum tilgangi sé, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Þetta gildir þó ekki ef höfundur hefur bannað samningsaðila slíka notkun verks.

7. gr.

     15. gr. a laganna fellur brott.

8. gr.

     18. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er opinberum eða einkareknum stofnunum, samtökum og atvinnufyrirtækjum að gera eða láta gera til notkunar innan starfsemi sinnar eintök af útgefnum verkum, sem og með upptöku að gera eintök af verkum sem send eru út í hljóðvarpi eða sjónvarpi eða gerð aðgengileg í dreifikerfi fjölmiðlaveitu þannig að hver og einn geti fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Þetta gildir þó ekki ef höfundur hefur bannað samningsaðila slíka notkun verks.
     Ákvæði 1. mgr. gildir hvorki um kvikmyndaverk sem gerð eru til sýninga í kvikmyndahúsum, þó að þau hafi verið send út í sjónvarpi, nema því aðeins að um sé að ræða stutt brot úr verkinu, né um forrit á stafrænu formi.
     Eintök sem gerð eru með heimild í 1. mgr. má einungis nota til eigin starfsemi innan þeirrar stofnunar, samtaka eða fyrirtækis sem samningur skv. 26. gr. a tekur til.

9. gr.

     Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heimilt er stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga og öðrum stofnunum sem starfa í almannaþágu og ekki í fjárhagslegum tilgangi að gera með mynd- eða hljóðupptöku eintök af verkum, sem hljóðvarpað er eða sjónvarpað eða eru gerð aðgengileg í dreifikerfi fjölmiðlaveitu þannig að hver og einn geti fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa og þá sem vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum eru ófærir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Þess háttar upptökur má aðeins nota innan stofnunar sem samningur tekur til, sbr. 26. gr. a.

10. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Útvarpsstöðvum er heimilt að senda út útgefin verk, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Sama á við um opinberan flutning annarra aðila á útgefnum verkum, enda feli slíkur flutningur ekki í sér miðlun efnis í skilningi 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. Þetta á þó ekki við um leiksviðsverk, kvikmyndir eða verk sem höfundur hefur lagt bann við að séu flutt í útvarpi eða annars staðar.
     Ákvæði 1. mgr. tekur ekki til sendinga útvarps um gervihnött nema sendingin fari samtímis fram um sendi á jörðu niðri.
     Þegar útvarpsstöð er heimilt að útvarpa verki er henni frjáls upptaka þess á hljóðrit eða myndrit til eigin nota í sinni innri starfsemi. Nánari reglur um upptöku verka, varðveislu þeirra og not útvarpsstöðva má setja í reglugerð.

11. gr.

     23. gr. a laganna orðast svo:
     Verki sem er löglega útvarpað beint eða um gervihnött má endurvarpa til almennings um kapalkerfi óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu útsendingu, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a.

12. gr.

     Á eftir 23. gr. a laganna kemur ný grein, 23. gr. b, svohljóðandi:
     Útvarpsstöðvum er heimilt, ef fullnægt er skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a, að nota verk úr safni sínu til endurútsendingar og gera þau aðgengileg þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, sem og til þess að gera eintök af verkunum sem nauðsynleg eru í því skyni að senda þau út eða gera þau aðgengileg. Ákvæði þessarar greinar gildir einungis um verk sem send hafa verið út fyrir gildistöku laga þessara og teljast til eigin framleiðslu viðkomandi útvarpsstöðvar.
     Höfundur getur bannað útvarpsstöð að hagnýta verk sitt með þeim hætti sem heimilað er í 1. mgr.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
 1. 2.–8. málsl. 2. mgr. falla brott.
 2. Í stað orðanna „samkvæmt 3. gr.“ í 5. mgr. kemur: skv. 2. gr.


14. gr.

     Á eftir 26. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 26. gr. a – 26. gr. c, svohljóðandi:
     
     a. (26. gr. a.)
     Nú hafa samtök rétthafa, sbr. 4. mgr., gert samning við notanda um þar tilgreinda hagnýtingu verka á grundvelli heimilda í 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. 18. gr., 4. mgr. 19. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a og 1. mgr. 23. gr. b, og fær þá sá notandi rétt til þess að hagnýta önnur verk sömu tegundar þó að samtökin komi ekki fram fyrir hönd höfunda þeirra verka, á sama hátt og með sömu skilmálum og felast í samningnum við samtökin og hinum tilvitnuðu ákvæðum. Réttur notanda skv. 1. málsl. nefnist samningskvaðaleyfi.
     Samningskvaðaleyfi geta notendur einnig fengið sem samið hafa um slíkt við samtök rétthafa, sbr. 4. mgr., að því tilskildu að:
 1. samningurinn um slíkt samningskvaðaleyfi taki til afmarkaðs og vel skilgreinds sviðs,
 2. samningskvaðaleyfi sé forsenda þess að nýting sé möguleg,
 3. samningurinn sé skriflegur og í honum tekið fram að hann veiti samningskvaðaleyfi.

     Ákvæði 2. mgr. gildir þó ekki um verk ef höfundur þess hefur bannað samningsaðila slíka notkun.
     Samtök rétthafa sem stofna til samninga sem veita samningskvaðaheimild, sbr. 1. og 2. mgr., skulu hafa viðurkenningu ráðherra. Viðurkenning er háð því að samtök séu í forsvari fyrir verulegan hluta höfunda tiltekinna verka sem notuð eru hér á landi. Ráðherra getur ákveðið að samtök sem viðurkenningu hljóta á nánar tilteknum sviðum skuli vera sameiginleg samtök tveggja eða fleiri félagssamtaka sem uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. Ráðherra setur nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar, þ.m.t. endurskoðun viðurkenningar, þeirra samtaka sem nefnd eru í 1. og 2. mgr. auk samtaka sem 2. mgr. 47. gr. tekur til.
     
     b. (26. gr. b.)
     Þóknun fyrir notkun sem fer fram á grundvelli samnings um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a skal ákvörðuð á sama hátt gagnvart öllum þeim höfundum sem samningskvaðaleyfið tekur til, hvort sem þeir eru innan eða utan þeirra rétthafasamtaka sem eru aðilar að samningnum.
     Þeir höfundar sem rétthafasamtök koma ekki fram fyrir geta gert kröfu til þess að fá einstaklingsbundna þóknun fyrir not á grundvelli samningskvaðaleyfisins þó að slíkur réttur komi hvorki fram í samningi samtakanna um samningskvaðaleyfi við notanda né í reglum samtakanna um þóknun. Ákveða má fjárhæð einstaklingsbundinnar þóknunar samkvæmt ákvæðum 57. gr. Kröfu um slíka þóknun verður einungis beint að samtökunum og skal hún vera skrifleg.
     Rétthafasamtök sem eru aðilar að samningi sem veitir samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a skulu birta upplýsingar á viðeigandi hátt um að slíkur samningur hafi verið gerður ásamt upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að rétthafar sem ekki eru í samtökunum geti gert kröfur um þóknun.
     Kröfur um þóknun, sem samtök sem hafa hlotið viðurkenningu skv. 4. mgr. 26. gr. a kunna að gera á hendur notendum vegna hagnýtingar verka skv. 23. gr. a, skulu allar gerðar á sama tíma og vera skriflegar.
     Kröfur um þóknun fyrir hagnýtingu verka samkvæmt samningskvaðaleyfi fyrnast á fjórum árum frá því að hagnýtingin átti sér stað. Skrifleg krafa, sbr. 2. og 4. mgr., rýfur fyrningarfrestinn.
     
     c. (26. gr. c.)
     Nú nást ekki samningar sem samningskvaðaleyfi skv. 1. mgr. 26. gr. a verður byggt á og getur þá aðili að samningsumleitunum farið fram á sáttameðferð.
     Krafa um sáttameðferð skal send ráðherra. Slíka kröfu má bera fram þegar einn af aðilunum hefur slitið samningsumleitunum eða hafnað ósk um samningsumleitun eða þegar ekki verður séð að samningsumleitanir muni leiða til lausnar.
     Sérstakur sáttasemjari, tilnefndur af ráðherra, skal annast sáttameðferð. Hann skal vera óháður samningsaðilum og ekki hafa persónulegan ávinning af niðurstöðunni. Við sáttaumleitanir skal stuðst við þær tillögur til lausnar sem aðilarnir kunna að hafa lagt fram. Sáttasemjari getur lagt til við aðilana að gert verði út um deilumál með gerðardómi og getur aðstoðað þá við val á gerðarmönnum.
     Sáttasemjari getur borið fram tillögu um lausn deilumáls og getur krafist þess að tillagan verði innan nánar tiltekins frests borin undir ákvörðunarbærar stofnanir samningsaðila til samþykktar eða synjunar. Ef deilan varðar endurvarp um kapalkerfi skv. 23. gr. a verður litið svo á að tillagan sé samþykkt ef enginn mótmælir henni innan þriggja mánaða. Sáttasemjari tilkynnir ráðherra um niðurstöðu sáttameðferðar.
     Sáttasemjari getur ákveðið að eldri samningar skuli gilda áfram þó að samningstímabili sé lokið eða því muni ljúka meðan á sáttameðferð stendur. Ekki er þó heimilt að framlengja gildistíma eldri samnings lengur en í tvær vikur eftir að aðilarnir hafa tekið afstöðu til sáttatillögu skv. 4. mgr. eða tillögu um gerð eða eftir að sáttasemjari hefur tilkynnt að þýðingarlaust sé að bera fram þess háttar tillögur.
     Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um starf sáttasemjara og kostnað vegna starfa hans.

15. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður svohljóðandi: Takmarkanir á höfundarétti og umsýsla höfundaréttar á grundvelli samningskvaða.

16. gr.

     3. mgr. 45. gr. laganna orðast svo:
     Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–5. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 3. og 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 23. gr., 23. gr. a, 23. gr. b, 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr., 53. gr. og 57. gr.

17. gr.

     45. gr. a laganna fellur brott.

18. gr.

     2. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
     Eftir því sem við á skal beita ákvæðum 2.–5. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 3. og 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 23. gr. b, 24. gr., 3. mgr. 26. gr., 26. gr. a – 26. gr. c og 57. gr.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „innheimtusamtökum framleiðenda og listflytjendafélaga“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: samtökum framleiðenda og listflytjenda.
 2. 3. og 4. mgr. orðast svo:
 3.      Þegar framleiðandi hljóðrits eða listflytjandi á rétt til þóknunar skv. 1. málsl. 1. mgr. skal hún fara eftir heildarsamningi milli samtaka skv. 2. mgr. og notanda eða samtaka hans. Þeim samtökum skal heimilt að setja gjaldskrár um flutning af hljóðritum utan útvarps, enda feli slíkur flutningur ekki í sér miðlun efnis í skilningi 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. Ágreiningi um þóknun geta aðilar skotið til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. Nefndin getur gert notanda að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu þóknunar þar til hún hefur verið ákveðin, en ella mælt fyrir um stöðvun á notkun verndaðra hljóðrita uns trygging hefur verið sett.
       Ákvæði þessi gilda ekki um myndrit.


20. gr.

     3. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
     Eftir því sem við á skal beita ákvæðum 2.–4. mgr. 2. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 24. gr. og 3. mgr. 26. gr.

21. gr.

     Í stað orðanna „5. mgr. 23. gr.“ í 1. mgr. 50. gr. c laganna kemur: 3. mgr. 23. gr.

22. gr.

     53. gr. a laganna fellur brott.

23. gr.

     Í stað orðanna „samkvæmt 3. gr.“ í 1. tölul. 2. mgr. 54. gr. laganna kemur: skv. 2. gr.

24. gr.

     57. gr. laganna orðast svo:
     Takist ekki samningur um fjárhæð þóknunar skv. 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 16.–18. gr., 4. mgr. 19. gr., 20. og 21. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a, 23. gr. b, 26. gr. b og 47. gr., eða önnur ágreiningsefni vegna samningskvaðaheimilda, getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð þriggja manna nefndar sem ráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd skv. 58. gr. tilnefnir.
     Úrskurður nefndarinnar felur í sér fullnaðarúrlausn um ágreiningsefnið á stjórnsýslustigi. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um starfshætti nefndarinnar sem og um greiðslu málskostnaðar.

25. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. a laganna:
 1. Í stað orðanna „löggildingu“ og „löggildingin“ og orðanna „skv. 23. gr. og 23. gr. a“ í 1. mgr. kemur: viðurkenningu; viðurkenningin; og: skv. 4. mgr. 26. gr. a vegna ákvæða 23. gr. og 23. gr. a.
 2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar sett er fram krafa um lögbann samkvæmt þessari heimild skal þjónustuþega tryggð sambærileg réttarstaða og gerðarþola til hagsmunagæslu við fyrirtöku lögbannsgerðar eftir því sem við verður komið, auk tilkynningar um lögbannsgerð að henni lokinni, skv. 14. og 18. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990.


26. gr.

     Í stað orðanna „2. mgr. 2. gr.“ í 4. tölul. 1. mgr. 60. gr. laganna kemur: 2. mgr. 3. gr.

27. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. febrúar 2016.