Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1208, 126. löggjafarþing 505. mál: hönnun (heildarlög).
Lög nr. 46 19. maí 2001.

Lög um hönnun.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Hönnuður eða sá sem sækir rétt sinn til hans getur með skráningu samkvæmt lögum þessum öðlast einkarétt á hönnun (hönnunarrétt).

2. gr.

     Í lögum þessum eru eftirfarandi hugtök skilgreind sem hér segir:
 1. Hönnun merkir útlit vöru eða hluta vöru sem ræðst af einstökum þáttum eða skreytingu hennar, einkum línum, útlínum, litum, lögun, gerð og/eða efni;
 2. vara merkir handunninn hlut eða hlut sem framleiddur er með tæknilegum hætti, þ.m.t. hlut sem ætlaður er í samsetta vöru, umbúðir, útbúnað, grafísk tákn og leturgerðir, að undanskildum tölvuforritum;
 3. samsett vara merkir vöru sem hefur að geyma marga hluti sem unnt er að skipta um þannig að vöruna megi taka í sundur og setja saman á ný.


3. gr.

     Hönnunarréttur getur einungis tekið til nýrrar og sérstæðrar hönnunar.
     Hönnun telst ný ef eins hönnun hefur ekki verið gerð aðgengileg almenningi fyrir umsóknardag, eða forgangsréttardag ef forgangsréttar er krafist. Hönnun telst eins og önnur hönnun ef einstakir þættir hönnunar eru aðeins ólíkir í óverulegum atriðum.
     Hönnun telst sérstæð ef heildarmynd sú sem hún veitir upplýstum notanda er frábrugðin heildarmynd hans af annarri hönnun sem hefur verið gerð aðgengileg almenningi fyrir umsóknardag, eða forgangsréttardag ef forgangsréttar er krafist. Við mat á því hvort hönnun telst sérstæð skal taka mið af því svigrúmi sem hönnuður hefur haft við gerð hönnunarinnar.

4. gr.

     Hönnun vöru, sem er hluti af samsettri vöru, telst aðeins ný og sérstæð:
 1. ef hluti hennar, sem hefur verið felldur inn í hina samsettu vöru, er sýnilegur við eðlilega notkun og
 2. sýnilegi hlutinn fullnægir kröfunni um nýjung og sérstæði.

     Eðlileg notkun telst hagnýting notanda á endanlegu notkunarstigi á samsettu vörunni, þó að undanskildu viðhaldi eða viðgerð.

5. gr.

     Hönnun telst aðgengileg almenningi samkvæmt lögum þessum ef hún hefur verið skráð eða gerð opinber með öðrum hætti ellegar hún hefur verið höfð til sýnis, hagnýtt í viðskiptum eða orðið þekkt með öðrum hætti.
     Hönnunin telst ekki orðin aðgengileg almenningi:
 1. ef ekki verður með sanngirni talið að kunnáttumenn á viðkomandi sviði á Evrópska efnahagssvæðinu hafi við venjulegar starfsaðstæður getað fengið vitneskju um téð tilvik 1. mgr. fyrir umsóknardag, eða forgangsréttardag ef forgangsréttar er krafist, eða
 2. aðrir hafa öðlast vitneskju um hönnunina í trúnaði sem krafist hefur verið með ótvíræðum hætti eða ætla má að hafi verið krafist.


6. gr.

     Hönnun telst ekki aðgengileg almenningi ef hún hefur á síðustu tólf mánuðum fyrir umsóknardag, eða forgangsréttardag ef forgangsréttar er krafist, verið gerð aðgengileg almenningi:
 1. fyrir atbeina hönnuðar eða þess sem sækir rétt sinn til hans, ellegar fyrir atbeina annars aðila á grundvelli upplýsinga eða athafna hönnuðar eða þess sem sækir rétt sinn til hans, eða
 2. vegna misbeitingar gagnvart hönnuði eða þeim sem sækir rétt sinn til hans.


7. gr.

     Hönnun nýtur ekki verndar ef hún eða notkun hennar:
 1. stríðir gegn siðgæði eða allsherjarreglu,
 2. felur heimildarlaust í sér auðkenni sem njóta verndar skv. 6. gr. Parísarsamningsins frá 20. mars 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar eða önnur merki, tákn eða skjaldarmerki sem hafa sérstakt gildi fyrir almenning,
 3. felur heimildarlaust í sér vörumerki eða heiti á virkri atvinnustarfsemi annars aðila,
 4. felur heimildarlaust í sér verk sem nýtur verndar samkvæmt höfundalögum,
 5. brýtur gegn hönnun sem þegar nýtur verndar samkvæmt umsókn um eða skráningu á hönnun hér á landi eða samkvæmt alþjóðlegri skráningu sem hefur gildi hér á landi.


8. gr.

     Hönnunarréttur nær ekki til þeirra þátta í útliti vöru sem:
 1. ráðast eingöngu af tæknilegri virkni vöru eða
 2. framleiða þarf í nákvæmlega sömu lögun og stærð til að vöruna, sem hönnunin er hluti af, megi tæknilega tengja annarri vöru, ellegar láta hana í, á, um eða við aðra vöru þannig að báðar vörurnar geti gegnt hlutverki sínu.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. 1. mgr. er unnt að öðlast hönnunarrétt ef hönnunin er ný og sérstæð skv. 3. gr. og gefur færi á margs konar samsetningu eða samtengingu vara í kerfi úr víxlanlegum einingum.

9. gr.

     Í hönnunarrétti felst að aðrir en hönnuður megi ekki heimildarlaust hagnýta hönnun, sbr. þó undantekningar í 10.–12. gr. Ekki má t.d. heimildarlaust framleiða, bjóða til sölu, markaðssetja, flytja inn eða út eða nota vöru sem einkennist af hönnuninni, svo og safna birgðum í áðurgreindu skyni.
     Hönnunarréttur skv. 1. mgr. tekur til sérhverrar hönnunar sem gefur upplýstum notanda ekki aðra heildarmynd.

10. gr.

     Hönnunarréttur tekur ekki til:
 1. athafna sem framkvæmdar eru í einkaþágu,
 2. athafna sem framkvæmdar eru í tilraunaskyni og
 3. eftirgerðar til notkunar við tilvísanir eða í fræðslu enda brjóti slíkar athafnir ekki í bága við góða viðskiptahætti, skaði ekki venjulega notkun hönnunar óhæfilega og heimildar sé getið.


11. gr.

     Enn fremur tekur hönnunarréttur ekki til:
 1. búnaðar skipa og loftfara sem skrásett eru í öðru ríki meðan þau eru stödd um stundarsakir í íslenskri lögsögu,
 2. innflutnings hingað til lands á varahlutum og aukabúnaði til viðgerða á skipum og loftförum skv. 1. tölul. og
 3. vinnu við viðgerðir á skipum og loftförum skv. 1. og 2. tölul.


12. gr.

     Hönnunarréttur tekur ekki til athafna í tengslum við þá vöru sem nýtur verndar hafi eigandi hönnunarréttar eða einhver með samþykki hans markaðssett vöruna á Evrópska efnahagssvæðinu.

II. KAFLI
Umsókn um skráningu hönnunar.

13. gr.

     Umsókn um skráningu hönnunar skal skila til Einkaleyfastofunnar sem heldur hönnunarskrá.
     Umsókn skal hafa að geyma upplýsingar um nafn umsækjanda og tilgreiningu á vörunni eða vörunum sem hönnun tekur til.
     Umsókn skulu fylgja myndir (teikningar eða ljósmyndir) er greinilega sýni hönnun þá er óskast vernduð. Auk þess má senda inn líkan með umsókninni.
     Nafn hönnuðar, eins eða fleiri, skal tilgreina í umsókn. Sé umsækjandi annar en hönnuður skal umsækjandi sanna rétt sinn til hönnunar.
     Umsókn skulu fylgja tilskilin gjöld, sbr. 53. gr.

14. gr.

     Umsókn um skráningu hönnunar telst ekki lögð inn fyrr en umsækjandi hefur afhent myndir sem lýsa hönnuninni, tilgreint þá vöru, sem hönnunin tekur til, og greitt tilskilin gjöld, sbr. 53. gr.
     Umsókn má ekki breyta þannig að hún varði aðra hönnun en þá sem lýst er í umsókninni.

15. gr.

     Í einni og sömu umsókn er heimilt að sækja um vernd á fleiri en einni hönnun ef þær vörur, er hönnun tengist, mynda samstæðu og verða flokkaðar í sama flokk samkvæmt Locarno-samningnum frá 8. október 1968 um alþjóðlega flokkun hönnunar.
     Nánari reglur um slíka samskráningu skal setja í reglugerð.

16. gr.

     Hafi verið sótt um skráningu hönnunar í annarri umsókn um hönnun eða smáeinkaleyfi hér á landi eða í öðru ríki, sem er aðili að Parísarsamningnum frá 20. mars 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar eða Alþjóðaviðskiptastofnuninni, innan sex mánaða frá umsóknardegi í hinu ríkinu skal litið svo á að seinni umsóknin hafi verið lögð inn samtímis hinni fyrri enda leggi umsækjandi fram kröfu þess efnis.
     Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við þegar um er að ræða ríki sem er ekki aðili að Parísarsamningnum eða Alþjóðaviðskiptastofnuninni ef það ríki viðurkennir samsvarandi forgangsrétt íslenskra umsókna og lög þess eru í aðalatriðum í samræmi við Parísarsamninginn.
     Ef sótt er um skráningu hönnunar innan sex mánaða frá því að hönnun er sýnd í fyrsta skipti á opinberri eða opinberlega viðurkenndri alþjóðlegri sýningu skal litið svo á að umsóknin hafi verið lögð inn á þeim tíma. Með alþjóðlegum sýningum er átt við sýningar samkvæmt samningnum um heimssýningar sem undirritaður var í París 22. nóvember 1928.

17. gr.

     Einkaleyfastofan kannar auk formskilyrða hvort umsókn taki til hönnunar í skilningi 1. tölul. 2. gr. og samræmist 1. og. 2. tölul. 7. gr.
     Umsækjandi getur farið fram á að Einkaleyfastofan rannsaki einnig hvort umsókn fullnægi skilyrðum 3. og 5. tölul. 7. gr. og samræmist að öðru leyti ákvæðum laga þessara.
     Með beiðni um rannsókn skv. 2. mgr. skal fylgja tilskilið gjald, sbr. 53. gr.

18. gr.

     Teljist umsókn fullnægja settum reglum skal hönnun skráð. Einkaleyfastofan skal flokka hönnun í samræmi við ákvæði Locarno-samningsins frá 8. október 1968 um alþjóðlega flokkun hönnunar. Tilkynning um skráningu hönnunar skal birt í ELS-tíðindum sem Einkaleyfastofan gefur út.
     Að beiðni umsækjanda má þó fresta skráningu í allt að sex mánuði frá umsóknardegi, eða forgangsréttardegi ef forgangsréttar er krafist. Beiðni um frestun skal koma fram í umsókn.

19. gr.

     Ef umsókn um skráningu hönnunar er ekki í samræmi við ákvæði laga eða reglna eða telji Einkaleyfastofan að aðrar tálmanir leiði til þess að synja beri um skráningu skal umsækjanda tilkynnt það og honum veittur kostur á að tjá sig eða lagfæra umsóknina innan tilskilins frests.
     Komi ekki fram athugasemdir frá umsækjanda né lagfæring á umsókninni innan tilskilins frests skal umsókn afskrifuð.
     Að beiðni umsækjanda skal umsókn tekin fyrir á ný ef hann, innan tveggja mánaða frá því að tilskilinn frestur rann út, tjáir sig um málið eða lagfærir umsóknina enda greiði hann endurupptökugjald, sbr. 53. gr. Endurupptaka getur aðeins átt sér stað einu sinni.
     Telji Einkaleyfastofan eitthvað því til fyrirstöðu að umsókn verði samþykkt, og hafi umsækjanda verið gefinn kostur á að tjá sig um annmarkann, skal umsókninni hafnað nema Einkaleyfastofan telji ástæðu til að gefa umsækjanda á ný kost á málsmeðferð skv. 1. mgr.

20. gr.

     Telji Einkaleyfastofan að eitthvað komi í veg fyrir skráningu, sbr. 19. gr., er unnt að skrá hönnunina í breyttri mynd ef hún fullnægir kröfum um vernd og heldur sérkennum sínum.
     Sé umsækjandi ekki samþykkur hinni breyttu mynd skal umsókn hafnað.

III. KAFLI
Aðgengi að umsókn og upplýsingaskylda.

21. gr.

     Frá og með skráningardegi hönnunar skulu umsóknargögn aðgengileg almenningi.
     Þegar sex mánuðir eru liðnir frá umsóknardegi, eða forgangsréttardegi ef forgangsréttar er krafist, skulu gögn aðgengileg almenningi þótt birting skv. 18. gr. hafi ekki farið fram. Hafi verið tekin ákvörðun um að afskrifa umsókn eða hafna henni mega umsóknargögn þó ekki vera aðgengileg nema umsækjandi fari fram á endurupptöku eða kæri ákvörðun um höfnun.
     Ef umsækjandi óskar þess skulu umsóknargögn gerð aðgengileg fyrr en kveðið er á um í 1. og 2. mgr.
     Þegar umsóknargögn verða aðgengileg skv. 2. og 3. mgr. skal birta auglýsingu um það.

22. gr.

     Beri umsækjandi um skráningu hönnunar fyrir sig umsókn sína gagnvart öðrum áður en hún er gerð almenningi aðgengileg er honum skylt að veita viðkomandi aðgang að umsóknargögnum sé þess krafist.
     Gefi maður til kynna með því að snúa sér beint til annars, með auglýsingu, áritun á vöru eða umbúðir hennar eða öðrum hætti, að sótt hafi verið um skráningu hönnunar eða hún skráð, án þess að tilgreina þó jafnframt númer umsóknar eða skráningar, er honum skylt að veita þeim sem þess krefst þær upplýsingar án ástæðulausrar tafar. Ef upplýsingar eru til þess fallnar að gefa í skyn að sótt hafi verið um hönnun eða hún skráð án þess að slíkt sé skýrt tekið fram er skylt, sé þess krafist, að veita án ástæðulausrar tafar upplýsingar um hvort svo sé.

IV. KAFLI
Gildistími skráðrar hönnunar.

23. gr.

     Skráð hönnun gildir eitt eða fleiri fimm ára tímabil frá umsóknardegi. Skráningu má endurnýja til fimm ára í senn þar til 25 ára verndartíma er náð.

24. gr.

     Beiðni um endurnýjun skráningar ásamt tilskildu endurnýjunargjaldi, sbr. 53. gr., skal lögð inn hjá Einkaleyfastofunni í fyrsta lagi þremur mánuðum áður en skráningartímabili lýkur og í síðasta lagi sex mánuðum eftir lok þess.
     Berist Einkaleyfastofunni ekki beiðni um endurnýjun á því tímabili sem um getur í 1. mgr. skal skráning afmáð úr hönnunarskrá.
     Sé beiðni ekki í samræmi við ákvæði laga eða reglna lætur Einkaleyfastofan viðkomandi vita og gefur honum kost á að tjá sig innan tilskilins frests.
     Að þeim tíma liðnum skal Einkaleyfastofan taka afstöðu til beiðninnar enda sé viðkomandi ekki gefinn kostur á að tjá sig á nýjan leik.
     Birta skal tilkynningu um endurnýjun skráningar í ELS-tíðindum.

V. KAFLI
Brottfall skráðrar hönnunar.

25. gr.

     Ógilda má skráningu hönnunar að nokkru eða öllu leyti með dómi ef:
 1. skráning samræmist ekki ákvæðum 1.–8. gr. eða
 2. umsókn hefur verið breytt þannig að hún brjóti í bága við ákvæði 2. mgr. 14. gr.

     Hver sem er getur höfðað mál skv. 1. mgr. en þó einungis:
 1. um rétt til hönnunar: sá sem segist vera löglegur eigandi hönnunar;
 2. um réttindi skv. 2. tölul. 7. gr.: sá sem hefur hagsmuna að gæta vegna viðkomandi notkunar;
 3. um réttindi skv. 3.–5. tölul. 7. gr.: eigandi þeirra réttinda.

     Mál skv. 1. tölul. 2. mgr. skal höfða innan árs frá því að viðkomandi fær vitneskju um skráninguna og aðrar aðstæður sem málið byggist á. Þó má ekki höfða mál síðar en þremur mánuðum eftir skráningu hönnunar ef eigandi skráningarinnar hefur verið í góðri trú þegar hönnunin var skráð eða viðkomandi öðlaðist hönnunarrétt.
     Skráningu hönnunar má fella úr gildi eftir að hönnunarréttur fellur brott eða honum hefur verið afsalað.

26. gr.

     Hafi hönnun verið skráð á annan en þann sem skv. 1. gr. á rétt til hönnunar skal dómstóll að kröfu rétthafa yfirfæra réttinn til hans.
     Hafi sá sem á þennan hátt er sviptur hönnunarrétti í góðri trú hagnýtt uppfinninguna í atvinnuskyni hérlendis eða gert umfangsmiklar ráðstafanir til þess er honum heimilt gegn sanngjörnu endurgjaldi og að öðru leyti með sanngjörnum skilmálum að halda þeirri hagnýtingu áfram eða hefja fyrirhugaða hagnýtingu enda breytist hagnýtingin ekki til muna. Með sömu forsendum hefur skráður nytjaleyfishafi sama rétt.
     Rétt skv. 2. mgr. má aðeins framselja ásamt þeim atvinnurekstri þar sem rétturinn hefur verið hagnýttur eða til stóð að beita honum.

27. gr.

     Þegar hönnun hefur verið skráð má leggja fram beiðni um að Einkaleyfastofan felli skráninguna að nokkru eða öllu leyti úr gildi enda sé tilskilið gjald greitt, sbr. 53. gr. Beiðni getur aðeins byggst á því:
 1. að skráning samræmist ekki ákvæðum 1.–8. gr. eða
 2. umsókn hafi verið breytt þannig að hún brjóti í bága við 2. mgr. 14. gr.

     Beiðni skv. 1. mgr. mega aðeins eftirfarandi leggja fram:
 1. um rétt til hönnunar: sá sem segist vera löglegur eigandi hönnunarréttar;
 2. um réttindi skv. 2. tölul. 7. gr.: sá sem hefur hagsmuna að gæta vegna viðkomandi notkunar;
 3. um réttindi skv. 3.–5. tölul. 7. gr.: eigandi þeirra réttinda.

     Hafi eigandi hönnunarréttar afsalað sér réttinum skal Einkaleyfastofan afmá skráningu hönnunar.
     Sé beiðni skv. 1. mgr. afturkölluð getur Einkaleyfastofan haldið meðferðinni áfram svo framarlega sem stofnunin telur ástæðu til þess.

28. gr.

     Beiðni skv. 1. mgr. 27. gr. skal vera skrifleg og rökstudd. Séu gögn ófullnægjandi getur Einkaleyfastofan beðið um frekari gögn svo að taka megi afstöðu til beiðninnar.
     Komi fram beiðni skv. 1. mgr. 27. gr. skal eiganda skráðrar hönnunar tilkynnt um hana og honum gefið tækifæri til að tjá sig.

29. gr.

     Ef hönnun, sem byggist á forgangsrétti skv. 16. gr., hefur verið skráð eftir að sambærileg hönnun hefur verið skráð skal tilkynna eiganda hinnar skráðu hönnunar það og gefa honum kost á að tjá sig um það. Einkaleyfastofunni er heimilt að ógilda fyrri skráninguna að nokkru eða öllu leyti.
     Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við þegar Einkaleyfastofan fær tilkynningu þar sem farið er fram á að alþjóðleg skráning gildi hér á landi. Þarf þá að vera ljóst að alþjóðlega skráningin hafi öðlast gildi hér, sbr. 1. mgr. 57. gr., áður en sótt var um þá skráningu hönnunar sem þegar hefur verið skráð.

30. gr.

     Sé eitthvað því til fyrirstöðu að skráning hönnunar haldi gildi sínu samkvæmt dómi eða vegna ákvörðunar Einkaleyfastofunnar í kjölfar beiðni skv. 1. mgr. 27. gr. skal fella skráningu úr gildi. Þegar endanlegur dómur eða ákvörðun liggur fyrir skal Einkaleyfastofan birta tilkynningu þar um.
     Telji Einkaleyfastofan að beiðni skv. 1. mgr. 27. gr. leiði ekki til þess að skráning skuli felld úr gildi að nokkru eða öllu leyti skal beiðninni hafnað og skráning standa.

31. gr.

     Á grundvelli dóms eða ákvörðunar vegna beiðni skv. 1. mgr. 27. gr. má viðhalda skráningu hönnunar í breyttri mynd ef hönnunin í þeirri mynd fullnægir skilyrðum um vernd og heldur sérkennum sínum.
     Einkaleyfastofan skal birta tilkynningu um skráninguna í breyttu formi.
     Ef eigandi hönnunarréttar er ekki sammála ákvörðun Einkaleyfastofunnar í kjölfar beiðni skv. 1. mgr. 27. gr. um skráningu hönnunar í breyttri mynd skal fella skráningu hönnunar niður.

32. gr.

     Ef höfðað hefur verið dómsmál til ógildingar hönnun skv. 25. gr. er ekki unnt að leggja fram beiðni skv. 1. mgr. 27. gr. um þá hönnun sem dómsmálið varðar.
     Sé dómsmál höfðað eftir framlagningu beiðni skv. 1. mgr. 27. gr. skal Einkaleyfastofan fresta meðferð beiðninnar þar til dómsmálinu er endanlega lokið nema beiðnin hafi komið frá eiganda hönnunarréttarins.

33. gr.

     Staðhæfi einhver við Einkaleyfastofuna að hann sé rétthafi hönnunarumsóknar eða -skráningar en ekki umsækjandi eða skráður eigandi hönnunarréttar getur Einkaleyfastofan, ef hún telur vafa leika á því, beint þeim tilmælum til viðkomandi að hann höfði mál til staðfestingar kröfu sinni innan tiltekins frests. Ef viðkomandi verður ekki við tilmælunum getur Einkaleyfastofan virt staðhæfingu hans að vettugi. Skal þess og getið í tilmælunum.
     Ef höfðað er mál fyrir dómstólum um rétt til hönnunar getur Einkaleyfastofan frestað frekari meðferð þar til málinu er endanlega lokið.

34. gr.

     Færi einhver sönnur á að hann en ekki umsækjandi eða skráður eigandi hönnunarréttar eigi rétt til hennar skal Einkaleyfastofan skrá hönnunina á nafn hans enda fari viðkomandi fram á það. Sá sem fær umsókn eða skráningu með þessum hætti yfirfærða á sitt nafn skal greiða umsóknargjald að nýju, sbr. 53. gr.
     Komi fram beiðni um yfirfærslu hönnunarumsóknar eða -skráningar skal umsókn eða skráning standa óbreytt þar til endanleg afstaða hefur verið tekin til beiðninnar.

VI. KAFLI
Áfrýjun.

35. gr.

     Umsækjandi eða eigandi hönnunarréttar getur skotið endanlegri ákvörðun Einkaleyfastofunnar til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Sá sem lagt hefur fram beiðni um að skráning hönnunar verði felld úr gildi getur skotið til áfrýjunarnefndar ákvörðun um að skráningin skuli standa í breyttri eða óbreyttri mynd. Sé fallið frá áfrýjun getur áfrýjunarnefnd þó tekið málið til úrskurðar ef sérstakar ástæður mæla með því.

36. gr.

     Áfrýjun skal berast iðnaðarráðuneyti innan tveggja mánaða frá því að viðkomandi var tilkynnt um ákvörðun. Innan sama frests skal greiða ráðuneytinu tilskilið áfrýjunargjald. Áfrýjunargjaldið skal ákveðið sem hámarksgjald vegna kostnaðar eða hluta kostnaðar við áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, m.a. þóknunar til nefndarmanna í einstökum málum, póstburðargjalda, ljósritunarkostnaðar og annars umsýslukostnaðar er til fellur við störf nefndarinnar. Sé áfrýjunargjald ekki greitt innan frestsins skal vísa áfrýjun frá. Áfrýjun frestar frekari meðferð málsins hjá Einkaleyfastofunni.
     Ákvarðanir áfrýjunarnefndar verða ekki bornar undir annað stjórnvald.

VII. KAFLI
Refsi- og bótaábyrgð o.fl.

37. gr.

     Sá sem af ásetningi brýtur gegn hönnunarrétti skal sæta sektum. Sé brot alvarlegt, einkum ef ætlunin er að afla verulegs og augljóslega ólögmæts ávinnings með brotinu, getur refsing verið fangelsi allt að einu ári.
     Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum, settum samkvæmt þeim, má einnig gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum enda séu brot tengd starfi hjá lögaðilanum.
     Sókn sakar á sá sem misgert er við. Þó sæta brot skv. 2. málsl. 1. mgr. opinberri ákæru ef sá krefst þess sem misgert er við. Skulu slík mál rekin í samræmi við lög um meðferð opinberra mála.

38. gr.

     Sá sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn hönnunarrétti skal greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu hönnunar og skaðabætur fyrir annað tjón sem brot hans hefur haft í för með sér.
     Hagnist einhver af broti gegn hönnunarrétti án þess að um ásetning eða gáleysi hafi verið að ræða skal hann, ef og að því marki sem það telst sanngjarnt, greiða endurgjald og skaðabætur skv. 1. mgr. Bætur þessar skulu þó ekki vera hærri en ætla má að nemi hagnaði hins bótaskylda af brotinu.

39. gr.

     Hafi verið brotið gegn hönnunarrétti getur dómstóll ákveðið í þeim tilgangi að girða fyrir frekari brot, að kröfu þess sem misgert er við og að svo miklu leyti sem það telst sanngjarnt, að vörum, sem hafa verið framleiddar eða fluttar inn ólöglega, skuli breyta á tiltekinn hátt, þær skuli ónýta eða þær afhentar brotaþola gegn endurgjaldi. Sama gildir um hluti ef notkun þeirra felur í sér brot á hönnunarrétti. Ákvæðum 1. og 2. málsl. skal þó ekki beita gagnvart þeim sem hefur í góðri trú eignast viðkomandi vörur eða öðlast réttindi yfir þeim og hefur ekki sjálfur brotið gegn hönnunarrétti.
     Þegar mjög sérstakar ástæður eru fyrir hendi og þess er krafist getur dómstóll, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., leyft yfirráð yfir ólöglega framleiddum eða innfluttum vörum á verndartíma hönnunar eða hluta þess tíma gegn hæfilegu endurgjaldi og sanngjörnum kjörum að öðru leyti.

40. gr.

     Sé hönnun, sem sótt hefur verið um skráningu á, hagnýtt í heimildarleysi eftir að umsóknargögn hafa verið gerð aðgengileg almenningi gilda ákvæðin um brot gegn hönnunarrétti á sama hátt enda leiði umsóknin til skráningar hönnunarréttar. Þetta á þó ekki við um ákvæði 39. gr. Ef tjón hlýst af broti sem framið er áður en umsóknargögn eru gerð aðgengileg almenningi skal viðkomandi greiða skaðabætur en þó eigi í ríkari mæli en skv. 2. mgr. 38. gr.

41. gr.

     Í málum vegna brota á hönnunarrétti má því aðeins halda því fram að hönnunarréttur sé ekki til staðar að kröfu hafi verið beint að eiganda hönnunarréttar um ógildingu skráningar, eftir atvikum eftir að honum var stefnt samkvæmt reglum 45. gr. Sé skráning ógilt verður ákvæðum 37.–40. gr. ekki beitt.

42. gr.

     Sá sem lætur undir höfuð leggjast að fullnægja skyldum sínum skv. 22. gr. eða gefur rangar upplýsingar skal sæta sektum enda sé ekki mælt fyrir um þyngri refsingu í öðrum lögum. Hann skal og bæta það tjón sem af slíku hefur hlotist að því marki sem sanngjarnt verður talið.
     Ákvæði 2. og 3. mgr. 37. gr. gilda eftir því sem við á.

VIII. KAFLI
Réttarfar.

43. gr.

     Í dómsmálum, er varða rétt til hönnunar, ógildingu skráningar og yfirfærslu skráningar til annars en umsækjanda og eiganda hönnunarréttar, teljast umsækjandi og eigandi hönnunarréttar, sem eiga ekki lögheimili hér á landi, hafa varnarþing í Reykjavík.

44. gr.

     Sá sem höfðar mál til ógildingar á skráðri hönnun til að fá skráningu yfirfærða á annað nafn skal tilkynna það Einkaleyfastofunni og skal þess getið í hönnunarskrá. Samtímis skal hann með ábyrgðarbréfi tilkynna málshöfðunina öllum skráðum nytjaleyfishöfum sé heimilisfangs þeirra getið í hönnunarskránni. Nytjaleyfishafi, sem höfðar mál vegna brots á hönnunarrétti, skal með sama hætti tilkynna eiganda hönnunarréttar það.
     Nú sinnir stefnandi ekki tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og getur dómari þá veitt honum stuttan frest í því skyni. Að öðrum kosti skal vísa máli hans frá dómi.

45. gr.

     Þegar eigandi hönnunarréttar höfðar mál vegna brota á hönnunarrétti og stefndi gerir kröfu um að hönnunin verði dæmd ógild skal stefndi senda tilkynningar skv. 1. mgr. 44. gr. til Einkaleyfastofunnar og skráðra nytjaleyfishafa. Ákvæði 2. mgr. 44. gr. eiga hér einnig við.
     Í málum vegna brota á hönnunarrétti, sem nytjaleyfishafi höfðar, getur stefndi stefnt eiganda hönnunarréttar án tillits til varnarþings hans og beint að honum kröfu um ógildingu hönnunar.

46. gr.

     Endurrit dóma í málum samkvæmt lögum þessum skal dómari að eigin frumkvæði láta Einkaleyfastofunni í té.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.

47. gr.

     Umsækjandi eða eigandi hönnunarréttar, sem á ekki lögheimili hér á landi, skal hafa umboðsmann búsettan á EES-svæðinu sem getur fyrir hans hönd tekið við stefnu og öllum tilkynningum um hönnunina með bindandi áhrifum. Nafn og heimilisfang umboðsmanns skal skrá í hönnunarskrá.
     Tilnefni umsækjandi eða eigandi hönnunarréttar ekki umboðsmann skv. 1. mgr. innan tilskilins frests skal umsókn afmáð.

48. gr.

     Glati umsækjandi rétti af þeirri ástæðu að hann eða umboðsmaður hans hefur ekki virt frest sem Einkaleyfastofan hefur veitt honum á grundvelli laga þessara skal Einkaleyfastofan endurveita honum réttinn ef umsækjandi hefur gert allt sem með sanngirni má af honum krefjast til að virða frestinn. Beiðni um slíkt skal berast innan tveggja mánaða frá brottfalli hindrunar er töfinni olli, en þó aldrei síðar en einu ári frá lokum frestsins. Innan sama frests skal umsækjandi bæta úr ágöllum og greiða tilskilið endurveitingargjald, sbr. 53. gr.
     Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við með sama hætti ef eigandi hönnunarréttar eða umboðsmaður hans hefur ekki greitt endurnýjunargjald innan frests skv. 24. gr., sbr. 53. gr. Beiðni um endurveitingu í þeim tilvikum þarf þó að hafa borist og endurnýjunargjald vera greitt innan sex mánaða frá lokum frestsins.
     Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við um frest skv. 16. og 36. gr.

49. gr.

     Hafi eigandi hönnunarréttar veitt öðrum leyfi til að nota hönnunina (nytjaleyfi) má nytjaleyfishafi ekki framselja rétt sinn nema um það hafi verið samið.
     Sé nytjaleyfi veitt fyrirtæki má framselja það ásamt fyrirtækinu nema um annað sé samið.

50. gr.

     Nytjaleyfishafa er að fengnu samþykki eiganda hönnunarréttar heimilt að höfða mál vegna brota á hönnunarrétti.
     Nytjaleyfishafa er heimilt að gerast aðili að réttaraðgerðum sem eigandi hönnunarréttar á frumkvæði að enda eigi nytjaleyfishafi rétt á bótum vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir eða gæti orðið fyrir vegna brots.

51. gr.

     Verði aðilaskipti að skráðri hönnun, m.a. nytjaleyfi veitt, hönnun veðsett, aðför gerð í henni eða hún fellur til þrotabús, skal þess getið í hönnunarskrá enda berist beiðni þar um frá viðkomandi aðila.
      Sé um samskráningu að ræða verða aðilaskipti ekki færð í hönnunarskrá nema þau nái til hönnunarsamstæðu í heild.
     Mál varðandi hönnun má ætíð höfða gegn þeim sem er skráður eigandi í hönnunarskrá og skulu tilkynningar Einkaleyfastofunnar sendar honum.

52. gr.

     Einkaleyfastofunni er eftir beiðni heimilt að taka að sér sérstök verkefni á sviði hönnunar og hönnunarréttar.
     Iðnaðarráðherra setur reglur um slíka þjónustu og greiðslu fyrir hana, sbr. 53. gr.

53. gr.

     Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara, m.a. um hönnunarumsóknir og meðferð þeirra, meðferð andmælamála, endurnýjun og brottfall hönnunarskráningar, færslu í hönnunarskrá, efni og útgáfu ELS-tíðinda og verklag Einkaleyfastofunnar. Þá skal ráðherra ákveða gjöld samkvæmt lögunum, sbr. 36. gr.
     Gjöld skulu standa straum af kostnaði við rekstur Einkaleyfastofunnar vegna hönnunarmálefna og við þjónustu sem veitt er, m.a. könnun Einkaleyfastofunnar á formskilyrðum og jafnvel efnisskilyrðum venjulegra umsókna, alþjóðlegra umsókna og endurupptekinna umsókna, þjónustu vegna samskráningar, birtingu, m.a. á myndum, yfirfærslu alþjóðlegra umsókna, umsýslu vegna endurnýjunar umsókna, könnun vegna ógildingar skráningar, útskriftir úr hönnunarskrám og þjónustuverkefni.
     Gjöld samkvæmt lögum þessum renna beint til Einkaleyfastofunnar og innheimtir hún gjöldin.

X. KAFLI
Alþjóðleg skráning hönnunar.

54. gr.

     Með alþjóðlegri skráningu hönnunar er átt við skráningu hönnunar samkvæmt Genfarsamningnum frá 2. júlí 1999 um breytingu á Haag-samningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar.

55. gr.

     Umsókn um alþjóðlega skráningu hönnunar skal lögð inn hjá Einkaleyfastofunni eða alþjóðaskrifstofunni er starfar á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO). Skilyrði fyrir viðtöku umsóknar um alþjóðlega skráningu samkvæmt lögum þessum hér á landi er að umsækjandi sé íslenskur ríkisborgari, íslenskur lögaðili eða einstaklingur búsettur hér á landi eða að aðili reki hér á landi virka atvinnustarfsemi.
     Sé umsókn um alþjóðlega skráningu hönnunar lögð inn hjá Einkaleyfastofunni skal stofnunin senda hana áfram til alþjóðaskrifstofunnar. Fyrir móttöku og meðferð umsókna skal greiða tilskilið gjald, sbr. 53. gr.

56. gr.

     Telji Einkaleyfastofan alþjóðlega skráningu hönnunar óskráningarhæfa hér á landi skal alþjóðaskrifstofunni send niðurstaða Einkaleyfastofunnar ásamt rökstuðningi innan tilgreinds frests. Eiganda skráningar er heimilt að tjá sig um málið og óska eftir því að það verði tekið til skoðunar að nýju. Eigandi skráningar skal þá tilnefna umboðsmann skv. 47. gr.
     Telji Einkaleyfastofan ekkert því til fyrirstöðu að alþjóðleg skráning hönnunar gildi hér á landi skal hún birt í ELS-tíðindum.

57. gr.

     Alþjóðleg skráning hönnunar, sem gildir á Íslandi, hefur sömu réttaráhrif og önnur skráð hönnun hér á landi frá skráningardegi hinnar alþjóðlegu skráningar eða forgangsréttardegi.
     Endurnýjun alþjóðlegrar skráningar hönnunar fer eftir reglum Genfarsamningsins. Þegar Einkaleyfastofunni berst tilkynning frá alþjóðaskrifstofunni um endurnýjun alþjóðlegrar skráningar skal hún færð í hönnunarskrá og birt í ELS-tíðindum.

58. gr.

     Um umsókn og meðferð alþjóðlegrar skráningar hönnunar gilda ákvæði II. kafla laganna ef ekki er kveðið á um annað í þessum kafla.

59. gr.

     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa kafla, þar á meðal um birtingu alþjóðlegrar skráningar hönnunar, andmæli gegn skráningu, endurnýjun og gjöld.

XI. KAFLI
Gildistaka.

60. gr.

     Lög þessi, sem sett eru m.a. á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/71/EB frá 13. október 1998 um lögvernd hönnunar, öðlast gildi 1. október 2001. Ákvæði X. kafla laganna öðlast þó ekki gildi fyrr en við birtingu auglýsingar ráðherra um að Genfarsamningurinn frá 2. júlí 1999 um breytingu á Haag-samningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar hafi öðlast gildi að því er Ísland varðar.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 48/1993, um hönnunarvernd, með síðari breytingum.
     Um óskráðan hönnunarrétt, sem stofnast hefur fyrir gildistöku laga þessara, gilda ákvæði eldri laga um hönnunarvernd.
     Með þeim undantekningum, sem greindar eru í 5.–6. mgr., gilda ákvæði laga þessara einnig um hönnun sem skráð hefur verið eða sótt hefur verið um skráningu á við gildistöku laga þessara.
     Um meðferð umsókna, sem lagðar hafa verið inn hjá Einkaleyfastofunni fyrir gildistöku laga þessara, skal fara samkvæmt ákvæðum eldri laga um hönnunarvernd.
     Hafi einhver fyrir gildistöku laga þessara hagnýtt sér hönnun með þeim hætti að ekki þurfti samþykki eiganda hönnunar samkvæmt eldri lögum um hönnunarvernd en samþykki hans er áskilið samkvæmt lögum þessum getur viðkomandi haldið hagnýtingunni áfram þrátt fyrir ákvæði laga þessara. Sá sem hefur við gildistöku laga þessara gert umtalsverðar ráðstafanir til að hagnýta hönnun getur með sömu skilyrðum hagnýtt sér hana.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2001.