Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1048, 146. löggjafarþing 272. mál: umgengni um nytjastofna sjávar o.fl. (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).
Lög nr. 49 14. júní 2017.

Lög um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).


I. KAFLI
Breyting á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
     Við öflun sjávargróðurs er ekki skylt að skilja meðafla frá, en ráðherra er heimilt að setja fyrirmæli í reglugerð um hvernig skuli staðið að eftirliti með skráningu hans og skoðun afla.

2. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Skipstjóri skips sem flytur sjávargróður frá skipum sem afla hans til löndunarhafnar skal halda aflanum sérgreindum þannig að færa megi aflann á rétt skip í aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

II. KAFLI
Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum.

3. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Fyrirmæli II. og IV. kafla gilda ekki um sjávargróður.
     Nýting sjávargróðurs skal, auk ákvæða í þessum lögum, vera í samræmi við lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, og lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995, eftir því sem við á.

4. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu stunda rannsóknir og vöktun á sjávargróðri og vistgerðum, vistkerfum og lífríki sem tengist honum. Hafrannsóknastofnun skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um nýtingu sjávargróðurs, sbr. II. kafla A, og skal leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands um ráðgjöf sína.
     Ráðgjöf, rannsóknir og vöktun á nýtingu sjávargróðurs skal m.a. taka mið af 2. gr. laga um náttúruvernd um verndarmarkmið fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir og lögum um vernd Breiðafjarðar.
     Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu gera vöktunaráætlun um nýtingu sjávargróðurs sem verður hluti af vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru í samræmi við 1. og 2. mgr. 74. gr. laga um náttúruvernd.
     Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að gera samninga við aðra aðila, svo sem stofnanir, náttúrustofur eða háskólasetur, um framkvæmd einstakra rannsókna eða vöktunar eftir því sem við á. Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu halda gagnagrunna um niðurstöður rannsókna og vöktunar og skulu niðurstöðurnar birtar reglulega og vera öllum aðgengilegar.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki um sjávargróður.

5. gr.

     Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, II. kafli A, Sjávargróður, með þremur nýjum greinum, 15. gr. a – 15. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (15. gr. a.)
Leyfi til að afla sjávargróðurs.
     Enginn má stunda öflun á sjávargróðri í atvinnuskyni frá skipi nema hafa fengið til þess sérstakt leyfi sem Fiskistofa veitir á skip. Leyfi þetta fellur niður hafi skip ekki verið notað við öflun sjávargróðurs í tólf mánuði og eins ef skip er fært af skrá sem Fiskistofa heldur um skip sem hafa leyfi samkvæmt þessari grein.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um að þeir sem taka sjávargróður í fjörum í atvinnuskyni, án þess að notast við skip, skuli skila skýrslu um tökuna til Fiskistofu.
     Öll sömu fyrirmæli og gilda um fiskiskip og fiskveiðar skv. III., V. og VI. kafla laga þessara og öðrum lögum á sviði sjávarútvegs, m.a. um færslu afladagbókar, löndun, vigtun og skráningu afla, eftirlit með veiðum og greiðslu veiðigjalds, gilda, eftir því sem við á, um skip sem hafa leyfi skv. 1. mgr. og öflun sjávargróðurs frá þeim.
     Heimilt er að setja skilyrði í leyfi skv. 1. mgr. er lúta að búnaði skipa, merkingum afla, áhrifum á sjávargróður og aðferðum við öflun hans.
     Skip sem stunda öflun á sjávargróðri í atvinnuskyni skulu leggja upp aflann í móttökustöð fyrir viðkomandi svæði skv. 15. gr. c.
     Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um ræktun sjávargróðurs, sölvatekju eða aðra minni háttar töku sjávargróðurs sem nemur minna en 10 tonnum á ári, eftir því sem nánar er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð.
     
     b. (15. gr. b.)
Svæði til nýtingar.
     Áður en sá sem hefur leyfi skv. 15. gr. a hefur öflun sjávargróðurs innan netlaga sjávarjarðar þarf að hafa náðst samkomulag við landeiganda um heimild til öflunarinnar.
     Ráðherra er heimilt að skipta nýtingarsvæðum sjávargróðurs, utan netlaga sjávarjarða, í tiltekin afmörkuð svæði og takmarka öflun sjávargróðurs utan þeirra. Þá er heimilt að banna tímabundið öflun innan þessara nýtingarsvæða til að gefa tíma til endurvaxtar á sjávargróðri eftir nýtingu. Áður en ákvarðanir eru teknar samkvæmt þessari málsgrein skal að jafnaði leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og annarra aðila eftir atvikum, svo sem Breiðafjarðarnefndar við nýtingu sjávargróðurs í Breiðafirði.
     
     c. (15. gr. c.)
Leyfi til starfrækslu móttökustöðvar fyrir þang.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð, að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, að mæla fyrir um að enginn megi starfrækja stöð til móttöku þangs til þurrkunar og frekari vinnslu, í atvinnuskyni, frá tilteknum afmörkuðum svæðum nema hafa til þess leyfi Fiskistofu. Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um leyfi. Umsókn skal hafa að geyma áætlun um fjármögnun og uppbyggingu mannvirkja og annars búnaðar, upplýsingar um þekkingu forsvarsmanna á fyrirhugaðri starfsemi, rökstudda áætlun um aflamagn og hvernig staðið verði að öflun þangsins, þ.m.t. aðferðir við slátt, og áform um eignarumráð eða samstarf við eigendur skipa skv. 15. gr. a, auk annarra upplýsinga sem þýðingu geta haft skv. 2. mgr.
     Berist umsóknir um leyfi til móttöku meiri afla en nemur ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, að teknu tilliti til allra aðstæðna, þ.m.t. áformaðra aðferða við töku þangsins, er heimilt að úthluta leyfum til takmarkaðs fjölda umsækjenda þannig að hver fái heimild til móttöku tiltekins afla á ári eða lengra tímabili. Við úthlutun skal leitast við að ekki færri en tveir aðilar hafi heimild til móttöku frá viðkomandi svæði. Þá er heimilt við mat á hæfni umsækjenda að líta til verk- og tækniþekkingar, fjárhagslegrar stöðu, framlags til rannsókna á þangi og vistkerfi stranda og áhrifa fyrirhugaðrar starfsemi á byggðir þar sem gætir langvarandi fólksfækkunar og einhæfs atvinnulífs.
     Heimilt er að binda leyfi skv. 1. mgr. þeim skilyrðum sem þurfa þykir með tilliti til eftirlits með nýtingunni og skipulags nýtingar. Leyfishöfum er skylt að tilkynna um móttekinn afla, m.a. um hvar hann er tekinn, svo sem nánar er greint í reglugerð. Leyfi gilda til 15 ára í senn og skulu endurskoðuð, með tilliti til heimilaðs aflamagns o.fl., eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Heimilt er að breyta eða afturkalla leyfi hvenær sem er ef það telst nauðsynlegt til verndar umhverfinu eða til að endurskipuleggja stjórn nýtingar, sé um að ræða gróf eða endurtekin brot á lögum þessum, öðrum lögum á sviði fiskveiðistjórnar eða skilyrðum leyfis, sé leyfið ekki nýtt eða sé það aðeins nýtt í takmörkuðum mæli.

6. gr.

     Á eftir orðunum „leyfi til strandveiða“ í 1. málsl. 24. gr. laganna kemur: eða leyfi til öflunar sjávargróðurs.

7. gr.

     Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um að starfræksla stöðva til móttöku á þangi frá Breiðafirði sé háð leyfi skv. 15. gr. c enda liggi fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um töku þangs í firðinum.
     Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum skal njóta forgangs umfram aðra umsækjendur við fyrstu útgáfu leyfa skv. 15. gr. c sem nemur allt að 20.000 tonnum alls. Óheimilt er að framlengja eða framselja heimildir veittar samkvæmt ákvæði þessu.
     
     b. (II.)
     Í samræmi við 3.–6. mgr. 3. gr. skal gera rannsóknar- og vöktunaráætlun fyrir lífríki Breiðafjarðar í tengslum við nýtingu sjávargróðurs til a.m.k. þriggja ára. Vakta skal áhrif nýtingar sjávargróðurs til frambúðar ef af henni verður. Í rannsóknar- og vöktunaráætlun skal leitast við að svara sem flestu um áhrif nýtingar sjávargróðurs á lífríki Breiðafjarðar en vistgerðir þangs og þara eru búsvæði fjölda tegunda sem eru mikilvægar jafnt fyrir vistkerfi fjarðarins í heild sem einstaka nytjastofna. Framkvæmd rannsóknar- og vöktunaráætlunar er ætlað að tryggja vistfræðilega nálgun við ákvarðanatöku og mat á vernd og sjálfbærri nýtingu sjávargróðurs í Breiðafirði.
     Að þremur árum liðnum skal ráðherra hefja undirbúning að frumvarpi um sjálfbæra nýtingu sjávargróðurs í Breiðafirði sem taki mið af niðurstöðum rannsókna. Frumvarpið verði lagt fram á Alþingi eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þessa ákvæðis. Kostnaður við rannsóknir og vöktun samkvæmt ákvæði þessu greiðist úr ríkissjóði.
     Úthluti ráðherra leyfum til nýtingar sjávargróðurs í Breiðafirði áður en rannsóknar- og vöktunaráætlun liggur fyrir og tillögur um sjálfbæra nýtingu hafa verið samþykktar skal það aðeins gert til fimm ára í senn og að viðhöfðum ýtrustu varúðarsjónarmiðum.
     
     c. (III.)
     Hefja skal endurskoðun ákvæða um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni í lögum þessum, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um veiðigjald eigi síðar en 1. október 2020. Ákvæðin falla úr gildi 1. janúar 2023.

III. KAFLI
Breyting á lögum um veiðigjald, nr. 74/2012, með síðari breytingum.

8. gr.

     Við 4. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvarða skal veiðigjald fyrir sjávargróður sem hér segir: 500 kr. á hvert landað tonn klóþangs, hrossaþara og stórþara (blautvigt).

9. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018, en þó er heimilt að hefja málsmeðferð til úthlutunar leyfa skv. a- og c-lið 5. gr. (15. gr. a og 15. gr. c) fyrir þann tíma.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2017.