Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1436, 153. löggjafarþing 533. mál: almannatryggingar og félagsleg aðstoð (réttindaávinnsla og breytt framsetning).
Lög nr. 18 4. apríl 2023.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (réttindaávinnsla og breytt framsetning).


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. 4. tölul. orðast svo: Tryggingatímabil: Það tímabil tryggingaverndar sem réttindaákvörðun samkvæmt lögum þessum byggist á.
 2. Orðin „28. gr.“ og „sams konar“ í 8. tölul. falla brott.


2. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, örorkustyrks, barnalífeyris, aldursviðbótar og tekjutryggingar.

3. gr.

     Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist: sbr. 59. og 64. gr.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
 1. Orðin „að fenginni tillögu stjórnar“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
 2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Við skipun í embætti forstjóra skal ráðherra skipa nefnd þriggja aðila til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Ráðherra setur nefndinni reglur um mat á umsóknum. Nefndin skal láta ráðherra í té skriflega rökstudda umsögn um hæfni umsækjenda.
 4. 1. málsl. 3. mgr. fellur brott.
 5. Í stað tilvísunarinnar „2. mgr.“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 3. mgr.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga þessara.
 3. Í stað tilvísunarinnar „55. gr.“ í 3. mgr. kemur: 34. gr.


6. gr.

     14. gr. laganna flyst, ásamt fyrirsögn, og verður 15. gr.

7. gr.

     Í stað III. og IV. kafla laganna koma þrír nýir kaflar, III. kafli, Ellilífeyrir og sveigjanleg taka lífeyris, með átta nýjum greinum, 16.–23. gr., IV. kafli, Greiðslur vegna örorku, með átta nýjum greinum, 24.–31. gr., og IV. kafli A, Greiðslur, endurmat réttinda og uppgjör greiðslna, með 13 nýjum greinum, 32.–44. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (16. gr.)
Skilyrði og ávinnsla ellilífeyris.
     Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið tryggðir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma. Ákvæði þessarar málsgreinar á einnig við um heimilisuppbót samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
     Tekið skal tillit til tryggingar-, starfs- eða búsetutímabila sem lokið er samkvæmt löggjöf annars samningsríkis, að því marki sem nauðsynlegt er og í samræmi við nánari ákvæði gagnkvæms milliríkjasamnings, sbr. 59. gr., til að fullnægja skilyrði 1. málsl. 1. mgr. enda hafi umsækjandi verið tryggður samkvæmt lögunum í a.m.k. eitt ár.
     
     b. (17. gr.)
Ellilífeyrir sjómanna.
     Einstaklingur sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur á rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þessa kafla. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár.
     Hafi sjómaður stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur að hluta eða öllu leyti á báti sem ekki hefur borið skylda til að lögskrá á er heimilt að ákvarða honum ellilífeyri frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sú sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi meðan á henni stóð.
     
     c. (18. gr.)
Réttindahlutfall.
     Heimilt er að ákvarða þeim sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt lögum þessum ellilífeyri í sama réttindahlutfalli.
     
     d. (19. gr.)
Sveigjanleg taka ellilífeyris.
     Heimilt er að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins, sbr. 1. mgr. 20. gr. Heimildin er bundin því skilyrði að viðkomandi hafi ekki fengið greiddan ellilífeyri frá almannatryggingum eða skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. þó 3. mgr. Umsækjanda skal þó vera heimilt að draga umsókn sína til baka innan 30 daga frá afgreiðslu umsóknar án þess að það hafi áhrif á rétt til hækkunar lífeyris. Hafi greiðsla lífeyris átt sér stað er full endurgreiðsla forsenda afturköllunar.
     Heimilt er að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyrisins, sbr. 2. mgr. 20. gr. Heimild þessi er bundin því skilyrði að samþykkt hafi verið umsókn um greiðslu lífeyris samkvæmt áunnum réttindum hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.
     Heimilt er að greiða hálfan áunninn ellilífeyri samkvæmt lögum þessum frá 65 ára aldri til þeirra sem eiga rétt á ellilífeyri frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafa fengið samþykki viðkomandi sjóða til að taka hálfan lífeyri hjá þeim og fresta töku lífeyris að hálfu. Skilyrði um samþykki viðkomandi sjóða á þó einungis við um þá lífeyrissjóði sem heimila greiðslu lífeyris að hluta. Heimild þessi er enn fremur bundin því skilyrði að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði en þó ekki í meira en hálfu starfi.
     Ákvæði 1.–3. mgr. eiga einnig við um heimilisuppbót samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
     
     e. (20. gr.)
Áhrif sveigjanlegrar töku ellilífeyris.
     Hafi töku ellilífeyris verið frestað, sbr. 1. mgr. 19. gr., skal fjárhæð ellilífeyris hækka hlutfallslega til frambúðar, byggt á tryggingafræðilegum grunni, reiknað frá ellilífeyrisaldri skv. 16. gr. fram til þess tíma er taka lífeyris hefst.
     Hafi töku ellilífeyris verið flýtt, sbr. 2. og 3. mgr. 19. gr., skal fjárhæð ellilífeyris lækka hlutfallslega til frambúðar, byggt á tryggingafræðilegum grunni, reiknað frá þeim tíma er taka lífeyris hefst og til ellilífeyrisaldurs skv. 16. gr.
     Þegar hálfur áunninn ellilífeyrir er greiddur skv. 3. mgr. 19. gr. skal fjárhæð hans lækka í samræmi við 2. mgr. og fjárhæð hins frestaða hluta lífeyrisins hækka í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar.
     
     f. (21. gr.)
Fjárhæð ellilífeyris.
     Fullur ellilífeyrir skal vera 3.693.948 kr. á ári. Hálfur ellilífeyrir skal vera 1.846.980 kr. á ári. Fjárhæð lífeyris samkvæmt þessum kafla skal lækka um 45% af eigin tekjum lífeyrisþega, sbr. 22. gr., uns lífeyririnn fellur niður.
     
     g. (22. gr.)
Tekjugrunnur.
     Til tekna samkvæmt þessum kafla teljast tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að teknu tilliti til ákvæða sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Til tekna teljast einnig tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu eftirfarandi tekjur ekki teljast til tekna:
 1. Greiðslur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð.
 2. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
 3. Greiðslur úr viðbótarlífeyrissparnaði.
 4. Lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við, í samræmi við nánari ákvæði samninganna, sbr. 58., 59. og 64. gr.

     Við útreikning fulls ellilífeyris skal lífeyrisþegi hafa almennt frítekjumark sem nemur 300.000 kr. á ári. Þá skal lífeyrisþegi hafa sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna sem nemur 2.400.000 kr. á ári.
     Við útreikning hálfs ellilífeyris skal lífeyrisþegi hafa almennt frítekjumark sem nemur 3.900.000 kr. á ári. Þá skal lífeyrisþegi hafa sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna sem nemur 2.400.000 kr. á ári.
     Tekjur maka lífeyrisþega hafa ekki áhrif á útreikning á fjárhæð ellilífeyris. Þó skulu fjármagnstekjur, sbr. 11. tölul. 2. gr., skiptast til helminga milli hjóna við útreikning lífeyris. Skiptir ekki máli hvort þeirra er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
     Tryggingastofnun er heimilt, að ósk lífeyrisþega, að dreifa eigin tekjum lífeyrisþegans sem stafa af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi á allt að 10 ár. Ekki er heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tímabili.
     
     h. (23. gr.)
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa kafla, m.a. um réttindaávinnslu og búsetutíma, sveigjanlega töku lífeyris, breytingar á hlutfalli vegna frestaðrar eða flýttrar töku lífeyris, tekjugrunn, útreikning og framkvæmd greiðslna.
     
     i. (24. gr.)
Skilyrði og ávinnsla örorkulífeyris.
     Rétt til örorkulífeyris öðlast þeir sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku, sbr. 25. gr., eru 18 ára eða eldri en hafa ekki náð ellilífeyrisaldri eins og hann er ákveðinn skv. 1. mgr. 16. gr., og eru tryggðir hér á landi, sbr. I. kafla. Umsækjendur um örorkulífeyri skulu enn fremur uppfylla a.m.k. eitt eftirfarandi skilyrða:
 1. hafa verið tryggðir hér á landi samfellt a.m.k. þrjú síðustu árin áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75%,
 2. hafa verið tryggðir hér á landi við 18 ára aldur og metnir til a.m.k. 75% örorku frá 18 ára aldri,
 3. hafa verið tryggðir hér á landi í samfellt síðustu tólf mánuði áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75% og áður annaðhvort verið tryggðir hér á landi í a.m.k. 20 ár eftir 16 ára aldur eða að lágmarki fimm ár eftir 16 ára aldur enda hafi þá búseta erlendis eftir 16 ára aldur ekki staðið lengur en í fimm ár.

     Full réttindi ávinnast nemi tryggingatímabil a.m.k. 40 almanaksárum frá 16 ára aldri til ellilífeyrisaldurs.
     Sé ekki um full réttindi að ræða reiknast örorkulífeyrir í hlutfalli við áunnin tryggingatímabil umsækjanda frá 16 ára aldri fram til þess tíma að 75% örorkumat liggur fyrir í fyrsta sinn. Við tryggingatímabilið skal bæta tímabilinu sem reiknast frá þeim tíma sem 75% örorkumat liggur fyrir í fyrsta sinn og fram til ellilífeyrisaldurs, sbr. þó 4. mgr. 56. gr.
     Tekið skal tillit til tryggingar-, starfs- eða búsetutímabila sem lokið er samkvæmt löggjöf annars samningsríkis, að því marki sem nauðsynlegt er og í samræmi við nánari ákvæði gagnkvæms milliríkjasamnings, sbr. 59. gr., enda hafi umsækjandi verið tryggður samkvæmt lögunum í a.m.k. eitt ár.
     
     j. (25. gr.)
Örorkumat.
     Greiðslur örorkulífeyris eru bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.
     Tryggingastofnun metur örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Heimilt er að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.
     Tryggingastofnun er heimilt að semja um kostnað vegna mats á möguleikum til endurhæfingar.
     Tryggingastofnun gefur út örorkuskírteini til þeirra sem uppfylla skilyrði 1. mgr. og eru jafnframt sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.
     
     k. (26. gr.)
Fjárhæð örorkulífeyris.
     Fullur örorkulífeyrir skal vera 698.664 kr. á ári. Fjárhæð örorkulífeyris skal lækka um 9% af eigin tekjum lífeyrisþega, sbr. 30. gr., uns greiðslur falla niður.
     Fjárhæð örorkulífeyris skv. 1. mgr. reiknast samkvæmt réttindahlutfalli eins og það er ákvarðað skv. 24. gr.
     
     l. (27. gr.)
Örorkustyrkur.
     Veita skal einstaklingi á aldrinum 18–62 ára örorkustyrk að upphæð 516.492 kr. á ári ef örorka hans er metin a.m.k. 50% og hann uppfyllir skilyrði 24. gr. um tryggingavernd. Slíkan styrk skal enn fremur veita þeim sem uppfyllir skilyrði 1. málsl. þessarar málsgreinar og stundar fullt starf ef örorkan hefur í för með sér verulegan aukakostnað.
     Greiða skal einstaklingi sem náð hefur 62 ára aldri og uppfyllir skilyrði 24. gr. um tryggingavernd og er metinn til a.m.k. 50% örorku örorkustyrk sem skal svara til fulls örorkulífeyris skv. 26. gr.
     Fjárhæð örorkustyrks skal lækka vegna tekna samkvæmt sömu reglum og örorkulífeyrir skv. 26. gr. og um tekjur og framkvæmd tekjuútreiknings fer skv. 30. gr.
     Greiða skal viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafa börn innan 18 ára á framfæri sínu. Viðbótin skal nema 75% af barnalífeyri, sbr. 40. gr., fyrir hvert barn á framfæri.
     
     m. (28. gr.)
Tekjutrygging.
     Þeir sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt lögum þessum eða endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð skulu til viðbótar fá greidda tekjutryggingu að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna. Um ákvörðun réttindahlutfalls tekjutryggingar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega fer skv. 24. gr.
     Tekjutrygging skv. 1. mgr. skal nema 2.237.328 kr. á ári. Fjárhæð tekjutryggingar skal lækka um 38,35% af eigin tekjum greiðsluþega, sbr. 30. gr., uns greiðslur falla niður.
     Samanlögð lækkun örorku- eða endurhæfingarlífeyris og tekjutryggingar skal aldrei fara umfram 38,35% af tekjum greiðsluþega. Komi samtímis til lækkunar þessara greiðslna skal lífeyrir fyrst lækkaður og samsvarandi dregið úr lækkun tekjutryggingar. Ákvæði þessarar málsgreinar um lækkun gilda ekki um heimilisuppbót skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.
     Sinni einstaklingur ekki lagaskyldu um greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðs samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er heimilt að áætla honum tekjur sem koma til frádráttar greiðslu tekjutryggingar.
     
     n. (29. gr.)
Aldursviðbót.
     Aldursviðbót greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt þessum kafla. Aldursviðbót greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Mánaðarleg fjárhæð aldursviðbótar skal vera hlutfall af fullum örorkulífeyri skv. 26. gr. og miðast við þann aldur þegar einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. og 2. mgr. 25. gr. eða uppfyllti skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. eftirfarandi:
18 til og með 24 ára 100%
25 ára 95%
26 ára 90%
27 ára 85%
28 og 29 ára 75%
30 og 31 árs 65%
32 og 33 ára 55%
34 og 35 ára 45%
36 og 37 ára 35%
38 og 39 ára 25%
40 til og með 45 ára 15%
46 til og með 50 ára 10%
51 til og með 55 ára 7,5%
56 til og með 60 ára 5%
61 til og með 66 ára 2,5%

     Um útreikning á fjárhæð aldursviðbótar vegna tekna fer skv. 26. og 30. gr. og um ákvörðun réttindahlutfalls fer skv. 24. gr.
     
     o. (30. gr.)
Tekjugrunnur.
     Til tekna samkvæmt þessum kafla teljast tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að teknu tilliti til ákvæða sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Til tekna teljast einnig tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu eftirfarandi tekjur ekki teljast til tekna:
 1. Greiðslur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð.
 2. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
 3. Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum þegar um er að ræða örorkulífeyri.
 4. Greiðslur úr viðbótarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þegar um er að ræða örorkulífeyri.
 5. Greiðslur úr viðbótarlífeyrissparnaði þegar um er að ræða tekjutryggingu.
 6. Lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við, í samræmi við nánari ákvæði samninganna, sbr. 58., 59. og 64. gr.

     Fjármagnstekjur, sbr. 11. tölul. 2. gr., upp að 98.640 kr. á ári skulu ekki teljast til tekna við útreikning á greiðslum samkvæmt þessum kafla.
     Við útreikning örorkulífeyris skal greiðsluþegi hafa almennt frítekjumark sem nemur 2.575.220 kr. á ári.
     Við útreikning tekjutryggingar skal greiðsluþegi hafa sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna sem nemur 300.000 kr. á ári. Þá skal greiðsluþegi hafa sérstakt frítekjumark vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum sem nemur 328.800 kr. á ári.
     Tekjur maka greiðsluþega hafa ekki áhrif á útreikning greiðslna. Þó skulu fjármagnstekjur skiptast til helminga milli hjóna við útreikning greiðslna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
     Við útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar er ráðherra heimilt að hækka tekjugrunn þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá Tryggingastofnun.
     Tryggingastofnun er heimilt, að ósk lífeyrisþega, að dreifa eigin tekjum lífeyrisþegans sem stafa af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi á allt að 10 ár. Ekki er heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tíu ára tímabili.
     
     p. (31. gr.)
Reglugerðarheimild.
     Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa kafla, m.a. um örorkumat, tekjugrunn, útreikning og ákvörðun greiðslna.
     
     q. (32. gr.)
Upphaf og lok greiðsluréttar og greiðslufyrirkomulag.
     Réttur til greiðslna samkvæmt lögum þessum stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til greiðslna og skulu greiðslur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur er fyrir hendi. Greiðslur falla niður í lok þess mánaðar er greiðslurétti lýkur.
     Greiðslur skulu inntar af hendi fyrir fram fyrsta dag hvers mánaðar. Greiðslur samkvæmt lögum þessum skulu greiddar inn á reikning hjá viðskiptabönkum eða sparisjóðum í eigu greiðsluþega eða umboðsmanns dánarbús.
     Heimilt er, að ósk umsækjanda eða greiðsluþega, að fresta greiðslum og inna greiðslu af hendi í einu lagi eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur umsækjanda eða greiðsluþega á árinu liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.
     Greiðslur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra, sbr. þó 4. mgr. 42. gr.
     
     r. (33. gr.)
Útreikningur og endurreikningur.
     Til grundvallar útreikningi greiðslna hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum almanaksárs. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 47. og 48. gr. Ef um nýja umsókn er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 47. og 48. gr. og réttur til greiðslna reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem greiðsluréttur stofnaðist.
     Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjanda eða greiðsluþega um forsendur útreiknings greiðslna og gefa honum kost á að koma að athugasemdum. Þá skal stofnunin hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem hún aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 48. gr.
     Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.
     Komi í ljós við endurreikning skv. 3. mgr. að um of- eða vangreiðslu hafi verið að ræða fer um það skv. 34. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er við útreikning á greiðslum skv. III. og IV. kafla laga þessara, sbr. einnig 13. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, heimilt að telja atvinnutekjur til tekna greiðsluþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað. Skal Tryggingastofnun við endurreikning greiðslna, sbr. 3. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/ 12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.
     
     s. (34. gr.)
Ofgreiðsla og vangreiðsla.
     Hafi Tryggingastofnun ofgreitt bætur til greiðsluþega samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem greiðsluþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur greiðsluþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.
     Hafi tekjutengdar greiðslur verið ofgreiddar skal það sem ofgreitt var dregið frá öðrum tekjutengdum greiðslum sem greiðsluþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning greiðslna og ofgreiðsla stafar af því að greiðsluþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna. Þá á þetta einnig við ef greiðsluþegi hefur ekki tilkynnt stofnuninni um aðrar breyttar aðstæður sem leiddu til ofgreiðslunnar, sbr. 47. gr.
     Ofgreiddar bætur skal að jafnaði draga frá greiðslum til greiðsluþega á næstu 12 mánuðum eftir að krafa stofnast. Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til greiðsluþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu. Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á 12 mánuðum frá því að krafa stofnaðist skal greiða eftirstöðvar kröfunnar ásamt vöxtum. Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum.
     Ef um vangreiðslu bóta er að ræða skal greiðsluþega eða dánarbúi hans greitt það sem upp á vantar. Greiða skal vexti á þá fjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til greiðslna eru uppfyllt, sbr. þó 32. gr. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr., leiðir til þess að einstaklingur á rétt á bótum en hafði fengið synjun eða lægri greiðslur hjá Tryggingastofnun, sbr. þó 32. gr. Ef vangreiðsla stafar af skorti á upplýsingum, sbr. 49. gr., falla vextir niður.
     Vextir samkvæmt ákvæði þessu skulu vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
     Ákvarðanir Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreiddra bóta samkvæmt ákvæði þessu eru aðfararhæfar, sbr. þó 13. gr.
     
     t. (35. gr.)
Vanræksla greiðsluþega.
     Greiðslur, sem ætlaðar eru greiðsluþega sjálfum, greiðast ekki ef hlutaðeigandi vanrækir að fara að læknisráðum eða neitar að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.
     
     u. (36. gr.)
Greiðslur til þriðja aðila.
     Ef talin er hætta á að greiðslur sem ætlaðar eru greiðsluþega eða framfæranda til framfærslu séu notaðar á þann hátt að eigi samrýmist tilgangi laga þessara er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða þær eða hluta þeirra öðrum en greiðsluþega eða framfæranda. Slíkar ákvarðanir skulu ávallt vera tímabundnar og teknar í samráði við félagsþjónustu hlutaðeigandi sveitarfélags eða barnaverndarþjónustu ef um er að ræða greiðslur vegna framfærslu barna.
     
     v. (37. gr.)
Réttarstaða sambýlisfólks.
     Einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og hjón samkvæmt lögum þessum. Um fjármagnstekjur sambýlisfólks fer skv. 22. og 30. gr.
     Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lögð að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá.
     
     w. (38. gr.)
Dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun.
     Dvelji lífeyrisþegi lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum falla greiðslur til hans niður ef dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla greiðslur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum þessarar málsgreinar ef sérstaklega stendur á og skal við mat á framlengingu á greiðslum höfð hliðsjón af tekjum greiðsluþega.
     Sjúkrahús og stofnanir skv. 1. mgr. skulu senda Tryggingastofnun mánaðarlega upplýsingar um dvöl.
     Þegar greiðslur falla niður skv. 1. mgr. er heimilt að greiða lífeyrisþega sem dvelst á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða hér á landi ráðstöfunarfé allt að 1.108.872 kr. á ári. Við útreikning á fjárhæð ráðstöfunarfjár skulu tekjur lækka ráðstöfunarfé um 65% uns greiðslur falla niður. Um meðferð tekna samkvæmt þessu ákvæði fer skv. 22. gr.
     Dveljist lífeyrisþegi utan stofnunar nokkra daga í senn en útskrifast samt ekki er heimilt að greiða honum dagpeninga sem nema 4.488 kr. á dag þann tíma.
     
     x. (39. gr.)
Fangelsisvist.
     Afpláni lífeyrisþegi refsingu í fangelsi eða komi sér viljandi undan því að afplána refsingu skulu allar greiðslur til hans falla niður, sbr. 32. gr. Sæti lífeyrisþegi gæsluvarðhaldi eða sé hann á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun skulu allar greiðslur til hans falla niður eftir fjögurra mánaða samfellt gæsluvarðhald eða dvöl. Þegar greiðslur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða ráðstöfunarfé í samræmi við 3. mgr. 38. gr. Verði lífeyrisþegi ekki dæmdur til fangelsisvistar í kjölfar gæsluvarðhalds skulu greiðslur til hans greiddar fyrir það tímabil þegar gæsluvarðhaldsvist stóð yfir.
     Tryggingastofnun getur þó ákveðið að greiðslurnar, eða hluti af þeim, renni til maka hans og barna eða einhvers þriðja aðila sem sér um að greiðslurnar komi þeim að sem mestu gagni.
     
     y. (40. gr.)
Barnalífeyrir.
     Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Ákvæði laga þessara um lækkun bóta vegna tekna hafa ekki áhrif á rétt til greiðslu barnalífeyris.
     Sömu réttarstöðu hafa stjúpbörn og kjörbörn þegar eins stendur á. Þó skal ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið á framfærsluskylt foreldri á lífi.
     Tryggingastofnun getur ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega, svo og með barni einstaklings sem sætir gæsluvist eða afplánar refsingu í fangelsi, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.
     Tryggingastofnun skal greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.
     Barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annast framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 43. gr.
     Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera 511.608 kr.
     
     z. (41. gr.)
Barnalífeyrir vegna sérstakra útgjalda.
     Tryggingastofnun getur greitt sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.
     Framlag skv. 1. mgr. er einungis heimilt að greiða vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með skv. 40. gr. og annað hvort foreldra er látið, barn ófeðrað eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.
     Framlag skv. 1. mgr. verður aðeins ákveðið ef sýslumaður hefur úrskurðað um slíkt framlag samkvæmt beiðni sem honum skal send innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.
     Um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög gilda sömu reglur og um úrskurði vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003.
     
     þ. (42. gr.)
Meðlag.
     Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal nema sömu fjárhæð og barnalífeyrir skv. 40. gr. og vera innan þeirra marka sem þar er kveðið á um aldur barna.
     Á sama hátt skal móðir fá samkvæmt stjórnvaldsúrskurði eða staðfestu samkomulagi greitt hjá Tryggingastofnun:
 1. Framfærslulífeyri í allt að þrjá mánuði skv. 1. mgr. 25. gr. barnalaga.
 2. Hjúkrunar- og framfærslustyrk í allt að níu mánuði skv. 2. mgr. 25. gr. barnalaga.
 3. Kostnað vegna meðgöngu og fæðingar skv. 1. mgr. 26. gr. barnalaga.

     Þegar eftir að sýslumaður hefur veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður getur hún fengið meðlag greitt með barninu innan þeirra marka sem 40. gr. setur.
     Tryggingastofnun er heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 40. gr. ekki við.
     Þeir sem annast framfærslu barns að foreldri látnu eða af öðrum lögmætum ástæðum, þar með talið hlutaðeigandi sveitarfélag hafi það greitt fé til framfærslu barns, eiga sama rétt og foreldri eftir því sem við getur átt.
     
     æ. (43. gr.)
Tilkynning til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.
     Tryggingastofnun skal senda Innheimtustofnun sveitarfélaga innan eins mánaðar tilkynningu um fyrstu greiðslu skv. 42. gr. Tilkynningunni skal fylgja afrit af yfirvaldsúrskurði eða staðfestum samningi.
     Innheimtustofnun sveitarfélaga endurgreiðir Tryggingastofnun greiðslur skv. 1.–3. mgr. 42. gr. mánaðarlega eftir því sem innheimtist. Um skil vegna óinnheimtra skulda fer eftir ákvæðum laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga.
     Ríkissjóður endurgreiðir Tryggingastofnun meðlög vegna barnsfeðra sem framfærslurétt eiga erlendis, svo og meðlög greidd skv. 4. mgr. 42. gr. þar til meðlagsúrskurður liggur fyrir.
     Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mgr. 42. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris skv. 40. gr. vegna barnsins er stofnuninni þó heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.
     
     ö. (44. gr.)
Reglugerðarheimild.
     Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa kafla, m.a. um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna, fyrirkomulag innheimtu ofgreiðslna, áhrif dvalar á sjúkrahúsi eða stofnun á greiðslur, um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn eru búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun innir af hendi.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á V. kafla laganna:
 1. 37.–44. gr. flytjast, ásamt fyrirsögnum, og verða 45.–52. gr.
 2. Millifyrirsagnirnar A. Leiðbeiningar- og rannsóknarskylda, B. Upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir og C. Vernd persónuupplýsinga falla brott.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
 1. Í stað tilvísunarinnar „43. gr.“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 51. gr.
 2. Í stað tilvísunarinnar „55. gr.“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 34. gr.
 3. 45. gr. flyst og verður 53. gr.


10. gr.

     46. gr. laganna flyst, ásamt fyrirsögn, og verður 54. gr.

11. gr.

     47. gr. laganna flyst, ásamt fyrirsögn, og verður 14. gr.

12. gr.

     VI. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Almenn ákvæði, orðast svo:
     
     a. (55. gr.)
Umsóknir.
     Sækja skal um allar greiðslur samkvæmt lögum þessum. Þó þurfa þeir sem fá greiddan örorkulífeyri ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri skv. 16. gr. þegar þeir ná ellilífeyrisaldri.
     Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti sem stofnunin telur fullnægjandi. Við afgreiðslu umsóknar skal þess gætt að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir, sbr. 46. gr., svo unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra. Sérstaklega skal þess gætt að umsækjandi, sem áunnið hefur sér rétt hjá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, hafi lagt fram umsókn um áunnin réttindi hjá viðkomandi lífeyrissjóðum og er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu þar til upplýsingar um það liggja fyrir, sbr. 49. gr.
     Við meðferð máls og afgreiðslu umsóknar er Tryggingastofnun heimilt að afla upplýsinga frá þeim aðilum sem tilgreindir eru í 51. gr. sem og skv. 4. mgr. 53. gr. sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra. Sama á við um nauðsynlegar upplýsingar hjá stofnunum erlendis þegar það á við.
     Tryggingastofnun getur aflað upplýsinga skv. 3. mgr. rafrænt eða á annan hátt. Tryggja skal að upplýsingaöflun og úrvinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur til að unnt sé að framkvæma lögin.
     
     b. (56. gr.)
Samspil greiðslna.
     Enginn getur samtímis notið fleiri en einnar tegundar greiðslna samkvæmt lögum þessum vegna sama atviks eða fyrir sama tímabil nema annað sé þar sérstaklega tekið fram. Þó getur lífeyrisþegi samhliða lífeyrisgreiðslum notið greiðslna og styrkja sem er ætlað að mæta útlögðum kostnaði vegna sama atviks.
     Eigi greiðsluþegi rétt á fleiri tegundum greiðslna en einni samkvæmt lögum þessum sem ekki geta farið saman skal greiða honum hærri eða hæstu greiðslurnar.
     Njóti einstaklingur bóta samkvæmt öðrum lögum fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar samkvæmt þessum lögum skulu þær teljast til tekna við útreikning tekjutengdra greiðslna samkvæmt nánari ákvæðum laga þessara. Þetta á einnig við um bætur samkvæmt erlendri löggjöf eftir því sem við getur átt.
     Hafi gagnkvæmur milliríkjasamningur verið gerður við ríkið sem greiðir bæturnar fer um samspil bóta eftir ákvæðum samningsins.
     
     c. (57. gr.)
Bann við framsali og veðsetningu krafna.
     Óheimilt er að framselja eða veðsetja kröfur um greiðslur samkvæmt lögum þessum og hvorki má kyrrsetja þær né gera í þeim fjárnám eða halda þeim til greiðslu opinberra gjalda.
     
     d. (58. gr.)
Útflutningur og skörun bóta.
     Greiða skal bótaþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 59. gr., bætur í samræmi við nánari ákvæði samninganna.
     Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að frá bótum, sem bótaþegi á rétt á hér á landi, dragist bætur sömu tegundar sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.
     
     e. (59. gr.)
Milliríkjasamningar.
     Ríkisstjórninni er heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í þeim má m.a. veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra.
     Í samningum skv. 1. mgr. má m.a. kveða á um að búsetu-, atvinnu- eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til greiðslu bóta við búsetu í öðru samningsríki, jafnræði við málsmeðferð, skörun greiðslna og hvaða löggjöf skuli beita. Í samningum skv. 1. mgr. er enn fremur heimilt að semja um fyrirframgreiðslu meðlags milli samningsríkja, sbr. 42. gr., eins og um bætur almannatrygginga væri að ræða.
     Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.
     
     f. (60. gr.)
Kostnaður við lífeyristryggingar.
     Kostnaður við lífeyristryggingar almannatrygginga greiðist úr ríkissjóði, m.a. af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi. Árleg heildarútgjöld lífeyristrygginga skulu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs.
     
     g. (61. gr.)
Árleg áætlanagerð Tryggingastofnunar.
     Tryggingastofnun skal ár hvert haga áætlanagerð sinni vegna útgjalda lífeyristrygginga fyrir næsta almanaksár í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, og senda ráðherra til frekari meðferðar.
     
     h. (62. gr.)
Árleg breyting fjárhæða.
     Greiðslur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 42. gr. og fjárhæð skv. 28. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.
     
     i. (63. gr.)
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerðum.
     
     j. (64. gr.)
Innleiðing EES-reglugerða.
     Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð almannatryggingareglur Evrópusambandsins eins og þær eru felldar inn í viðauka VI við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 frá 1. júlí 2011 sem fellir undir samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, og nr. 987/2009 um framkvæmd hennar. Reglugerðir Evrópusambandsins, sem teknar verða upp í samninginn og fela í sér breytingar eða viðbætur við þær reglugerðir, er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama á við um almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og milliríkjasamninga sem gilda á milli Íslands og Bretlands.

13. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
 1. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 5. mgr. 30. gr. laganna skal örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 hafa 2.400.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
 2. Þrátt fyrir ákvæði 26., 27., 28., 29. og 30. gr. skulu greiðslur örorkulífeyris, örorkustyrks, aldurstengdrar örorkuuppbótar og tekjutryggingar ekki lækka á tímabilinu 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2013 vegna almennra hækkana á örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum.
 3. Við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skal á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2023 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 68,74% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 2. tölul. ákvæðis þessa. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.
 4. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 19. gr. gildir heimild til að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs aðeins um þá sem fæddir eru árið 1952 eða síðar. Þeir sem fæddir eru árið 1951 eða fyrr hafa heimild til að fresta töku ellilífeyris til 72 ára aldurs samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi fram að 1. janúar 2017.
 5. Við útreikning ellilífeyris skal Tryggingastofnun gera samanburð á útreikningi greiðslna til þeirra ellilífeyrisþega sem fá greiddan ellilífeyri 31. desember 2016. Skal stofnunin bera saman annars vegar ellilífeyri, tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ellilífeyrisþega, samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2016, uppreiknað samkvæmt raungildi hvers ár, og hins vegar ellilífeyri og heimilisuppbót samkvæmt þeim reglum sem gilda frá 1. janúar 2017. Leiði samanburðurinn til hærri bóta samkvæmt eldri ákvæðum laganna skal stofnunin greiða mismuninn með þeim hætti að séu heildartekjur ellilífeyrisþega, sbr. 8. tölul. 2. gr., sbr. einnig 22. gr., 100.000 kr. á mánuði eða lægri skal greiða mismuninn að fullu. Greiðslufjárhæðin skal lækka um 1% fyrir hverjar 1.000 kr. umfram það uns hún fellur niður þegar heildartekjur lífeyrisþega nema 200.000 kr. á mánuði.
 6. Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris skv. 24., sbr. 26. gr., slysaörorkulífeyris skv. 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, eða endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, á árinu 2021 skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 53.100 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember 2021, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.
 7. Þeir sem fá eftirstöðvar bóta greiddar sem eingreiðslu frá sjúkratryggingastofnuninni samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og hafa áður fengið mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli 75% slysaörorkumats skulu eiga rétt á að frá sama tíma breytist 75% slysaörorkumat þeirra í 75% örorkumat skv. 24. gr. án sérstakrar umsóknar, að því gefnu að skilyrði 24. gr. séu uppfyllt. Jafnframt skulu þeir eftir því sem við á eiga rétt á öðrum tengdum greiðslum samkvæmt lögunum og lögum um félagslega aðstoð.
 8.      Þeir sem fá eftirstöðvar bóta greiddar í einu lagi frá sjúkratryggingastofnuninni samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og hafa fengið mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli 50–74% slysaörorkumats og til viðbótar einnig fengið greiðslur á grundvelli 75% örorkumats skv. 24. gr. skulu frá sama tíma fá óskertar þær örorkulífeyrisgreiðslur skv. 24., sbr. 26. gr., sem þeir eiga rétt á vegna 75% örorkumats samkvæmt þeirri grein. Jafnframt skulu þeir eftir því sem við á eiga rétt á öðrum tengdum greiðslum samkvæmt lögunum og lögum um félagslega aðstoð.
       Þeir sem fá eftirstöðvar bóta greiddar sem eingreiðslu frá sjúkratryggingastofnuninni samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og hafa fengið mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli 50–74% slysaörorkumats án þess að vera jafnframt metnir til 75% örorku skv. 24. gr. eiga ekki rétt á áframhaldandi greiðslum nema þeir sæki um og fái samþykkt örorkumat skv. 24. eða 27. gr.
       Skerðing örorkugreiðslna skv. 26. eða 27. gr. vegna eingreiðslu vegna slysaörorkumats sem er undir 50% samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skal falla niður frá 1. janúar 2022.
       Þeir sem hafa fengið mánaðarlega greiðslu barnalífeyris samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga fá áframhaldandi barnalífeyri greiddan án sérstakrar umsóknar ef skilyrði 40. gr. eru uppfyllt.
 9. Þrátt fyrir ákvæði 62. gr. laganna skulu bætur samkvæmt lögum þessum, sbr. einnig 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, hækka um 3,0% frá 1. júní 2022. Greiðslur komi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2022.
 10. Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris skv. 24., sbr. 26. gr., eða endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, á árinu 2022 skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 60.300 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember 2022, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.
 11. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 22. gr. og 1. og 2. mgr. 30. gr. skal séreign, sem myndast hefur af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs skv. 1. mgr. 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hjá einstaklingi sem hefur hafið töku lífeyris samkvæmt lögum þessum fyrir 1. janúar 2023, ekki koma til lækkunar við ákvörðun um ellilífeyri, tekjutryggingu og ráðstöfunarfé.


II. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „afplánar“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: refsingu í.
 2. Í stað tilvísunarinnar „49. gr.“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 37. gr.


15. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „18. og 22. gr.“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: 26. og 28. gr.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „umsækjandi“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og.
 2. 3. mgr. orðast svo:
 3.      Fullur endurhæfingarlífeyrir skal vera 698.664 kr. á ári. Fjárhæð endurhæfingarlífeyris skal lækka um 9% af eigin tekjum lífeyrisþega, sbr. 30. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, uns greiðslur falla niður. Um ákvörðun réttindahlutfalls fer skv. 24. gr. laga um almannatryggingar og um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á greiðslur.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. 2. mgr. orðast svo:
 2.      Full heimilisuppbót til ellilífeyrisþega skal vera 933.444 kr. á ári. Uppbótin skal lækka um 11,9% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 22. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, uns hún fellur niður. Um útreikning heimilisuppbótar vegna búsetu fer skv. 1. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og um frítekjumörk vegna tekna fer skv. 22. gr. sömu laga.
 3. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Full heimilisuppbót til einstaklings sem fær örorkulífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar og endurhæfingarlífeyrisþega sem fær greitt skv. 7. gr. laga þessara skal vera 756.240 kr. á ári.
 4. Í stað tilvísunarinnar „2.–4. mgr. 17. gr.“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 1.–3. mgr. 19. gr.
 5. Í stað tilvísunarinnar „23. gr.“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: 22. gr.


18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „örorkulífeyrisþega sem fær greitt skv. 18. gr. laga“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: einstaklingi sem fær örorkulífeyri samkvæmt lögum.
 2. 2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um almannatryggingar skulu þó teljast að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að ekki skal telja til tekna mæðra- og feðralaun skv. 2. gr. og einungis skal telja til tekna 50% af fjárhæð aldursviðbótar skv. 29. gr. laga um almannatryggingar og 95% af fjárhæð tekjutryggingar skv. 28. gr. sömu laga.


19. gr.

     12. gr. laganna fellur brott.

20. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Ef greiðsla samkvæmt lögum þessum er grundvölluð á tekjum umsækjanda eða greiðsluþega skulu þær ákveðnar skv. 22. og 30. gr. laga um almannatryggingar. Einnig skal beita IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga þessara.

21. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
     Við útreikning heimilisuppbótar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skal á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 gera samanburð á útreikningi heimilisuppbótar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2023 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 68,74% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

22. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

23. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999:
  1. Í stað tilvísunarinnar „23. gr.“ í 1. málsl. 19. gr. laganna kemur: 21. gr.
  2. Í stað tilvísunarinnar „48. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: 38. gr.
  3. Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
   1. Í stað tilvísunarinnar „68. gr.“ í 2. mgr. kemur: 59. gr.
   2. Í stað tilvísunarinnar „23. gr.“ í 4. mgr. kemur: 21. gr.
   3. Í stað tilvísunarinnar „39. og 40. gr.“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur: 47. og 48. gr.
   4. Í stað tilvísunarinnar „40. gr.“ í 6. mgr. kemur: 48. gr.
   5. Í stað tilvísunarinnar „5. mgr. 45. gr. og 1. og 2. mgr. 55. gr.“ í 2. málsl. 8. mgr. kemur: 5. mgr. 53. gr. og 1. og 2. mgr. 34. gr.
   6. Í stað tilvísunarinnar „39. og 40. gr.“ í 9. mgr. kemur: 47. og 48. gr.
 2. Lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða, nr. 74/2020:
  1. Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 9. gr. laganna:
   1. Í stað tilvísunarinnar „5. mgr. 48. gr.“ í 1. málsl. kemur: 1. mgr. 38. gr.
   2. Í stað tilvísunarinnar „56. gr.“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: 1. mgr. 39. gr.
  2. Í stað tilvísunarinnar „55. gr.“ í 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: 34. gr.
 3. Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003: Í stað tilvísananna „20. gr. laga um almannatryggingar“ þrívegis í 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur: 40. gr. laga um almannatryggingar.
 4. Lög um bifreiðagjald, nr. 39/1988: Í stað tilvísunarinnar „8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar“ í 2. málsl. a-liðar 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: 38. gr. laga um almannatryggingar.
 5. Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995: Í stað tilvísunarinnar „III. kafla laga um almannatryggingar“ í 1. mgr. 25. gr. laganna kemur: III. og IV. kafla laga um almannatryggingar.


Samþykkt á Alþingi 28. mars 2023.