Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 1997.  Útgáfa 121a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum

1966 nr. 30 28. apríl1. gr. Í lögum þessum merkir:
    Sláturfénaður: Sauðfé, nautgripir, hross, svín, geitfé, hreindýr, alifuglar og önnur dýr, sem ætluð eru til manneldis.
    Sláturafurðir: Kjöt og slátur af öllum sláturfénaði.
    Læknir: Dýralæknir sá, er heilbrigðisskoðunina annast, eða hver sá læknir eða læknanemi, sem löggiltur hefur verið til starfsins samkvæmt 7. gr. laga þessara.
    Kjötmatsmaður: Hver sá undirkjötmatsmaður, er lýtur yfirkjötmatsmanni.

2. gr. Sláturfénaði (sauðfé, geitum, svínum, nautgripum og hrossum), sem slátra á í því augnamiði að flytja kjötið nýtt, kælt, fryst, saltað eða á annan hátt verkað á erlendan markað eða til sölu og neyslu innanlands, skal slátra í löggiltum sláturhúsum og kæling og frysting kjötsins fara fram í löggiltum frystihúsum. [Landbúnaðarráðuneyti] 1) löggildir sláturhús og frystihús, að fengnum meðmælum frá yfirdýralækni eða hlutaðeigandi héraðsdýralækni, ef húsin eru að dómi þeirra svo fullkomin að gerð og öllum útbúnaði, að hægt sé þess vegna að fullnægja nauðsynlegum heilbrigðis- og hreinlætiskröfum.
[Ráðherra getur þó, þar sem brýn nauðsyn krefur, tímabundið leyft slátrun í sláturhúsum sem ekki eru svo úr garði gerð að löggilding geti farið fram á þeim, ef yfirdýralæknir eða hlutaðeigandi héraðsdýralæknir telja að slátrun og meðferð sláturafurða geti tekist þar á viðunandi hátt. Undanþágu má þó ekki veita nema til 1. júní 1990.] 2)
Ráðherra setur reglur um útbúnað sláturhúsa og frystihúsa, söltunar- og reykhúsa, að fengnum tillögum yfirdýralæknis og kjötmatsformanns. 3)
    1)L. 85/1971, 1. gr. 1. mgr. 2)L. 51/1988, 1. gr. 3)Rg. 205/1967, sbr. 312/1992, (um útbúnað sláturhúsa o.fl.) og rg. 260/1980, sbr. 238/1987 og 550/1995 (um útbúnað alifuglasláturhúsa o.fl.).
3. gr. Hver sá, sem hyggst slátra sauðfé eða öðrum fénaði, sbr. 2. gr., í þeim tilgangi að selja afurðir á opinberum markaðsstöðum, skal senda [landbúnaðarráðuneyti] 1) umsókn um löggildingu húsa til slátrunar og frystingar og geymslu á sláturafurðum, söltunar o.s.frv. Hver sá, sem hyggst byggja hús til slátrunar og frystingar á sláturafurðum eða gera meiri háttar breytingar og endurbætur á slíkum húsum, skal senda [landbúnaðarráðuneyti] 1) teikningar af húsunum og fá samþykki þess á þeim, áður en framkvæmdir hefjast. Leita skal umsagnar yfirdýralæknis eða héraðsdýralæknis um teikningarnar og fyrirhugaðar breytingar og endurbætur. Eftir löggildingu annast héraðsdýralæknar eftirlit með slátur- og frystihúsum í hlutaðeigandi umdæmum undir stjórn yfirdýralæknis. Í reglugerð má setja ákvæði um þekkingu og verkkunnáttu verkstjóra og sláturhússtjóra.
    1)L. 85/1971, 1. gr.
4. gr. Nú fullnægir löggilt slátur- eða frystihús eigi lengur skilyrðum þeim, sem sett voru fyrir löggildingu, og ber þá dýralækni, sem eftirlitið hefur annast, að skýra þeim, sem sláturleyfi hefur, og yfirdýralækni samstundis frá því. Setur yfirdýralæknir umráðamönnum hússins hæfilegan frest til að lagfæra það, sem ábótavant er, og fellur löggildingin niður um stundarsakir, ef eigi er bætt úr göllunum innan hins ákveðna frests. Hann tilkynnir þá jafnframt [landbúnaðarráðuneyti] 1) og aðilum þeim, sem sláturleyfin veita, að slátrun á þeim stað skuli þá þegar stöðvuð, uns úr sé bætt.
Héraðsdýralæknir skal framkvæma skoðun á slátur- og frystihúsum á þeim tíma, sem gefur nægan frest til úrbóta, ef þörf krefur, fyrir næstu sláturtíð.
    1)L. 85/1971, 1. gr.
5. gr. Heilbrigðisskoðun skal fram fara á öllum sláturfénaði, sem um getur í lögum þessum, áður en slátrun fer fram, og mega ekki líða meira en 12 klst. frá þeirri skoðun og til slátrunar. Enn fremur skal heilbrigðisskoðun á öllu kjöti og slátri af þeim sláturfénaði, sem um getur í lögum þessum, fara fram í sláturhúsinu, áður en afurðirnar eru boðnar til sölu á opinberum markaði, þ.e. áður en kæling, frysting, söltun eða önnur verkun fer fram. Að skoðun lokinni skal dýralæknir eða hver sá, sem löggiltur hefur verið til starfsins, merkja kjötið samkvæmt reglugerð, er ráðherra setur um heilbrigðisskoðun og merkingu á kjöti og slátri, að fengnum tillögum yfirdýralæknis.
[Til að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit dýralækna með sláturafurðum skal landbúnaðarráðherra innheimta gjald af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins. Eftirlitsgjaldið miðast við raunkostnað en má þó ekki vera hærra en 2,50 kr. á hvert kíló kjöts miðað við vísitölu framfærslukostnaðar í janúar 1995. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu, innheimtu, gjalddaga, lögvernd og annað er lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldsins.] 1)
Í reglum þeim, sem ráðherra setur samkvæmt þessari grein, má ákveða hámarksþóknun fyrir læknisskoðun og merkingu kjöts og annarra sláturafurða. 2)
    1)L. 160/1994, 1. gr. 2)Rg. 168/1970, sbr. 630/1982, 399/1987, 597/1994 og 466/1996.
6. gr. Sláturafurðir, sem reynast spilltar eða sýktar, svo að hætta geti stafað af að nota þær til manneldis, eftir úrskurði kjötskoðunarlæknis, skulu þegar í stað ónýttar samkvæmt reglum, er ráðuneytið setur, á þann hátt, að tryggt sé að engin hætta geti stafað af þeim.
Ekki má slátra í sláturhúsi sýnilega sjúku sláturfé, er sýkingarhætta getur stafað af að áliti kjötskoðunarlæknis, nema sérstakur klefi sé til þeirra afnota einna í sláturhúsinu.
Sjálfdauðar skepnur eða afurðir af þeim má aldrei flytja inn í sláturhús eða frystihús.
Búpening, sem kominn er í sláturhúsrétt, má eigi flytja þaðan til lífs, heldur skal honum slátrað, nema komi til leyfi sauðfjársjúkdómanefndar.
7. gr. Dýralæknar annast heilbrigðisskoðun og merkingu á kjöti og öðrum sláturafurðum, sbr. 5. gr. þessara laga. Náist ekki til dýralæknis, skipar ráðherra, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, lækni til starfsins, enda hafi hann lokið kjötskoðunarprófi hjá dýralækni hér á landi. Ef nauðsyn krefur, má fela heilbrigðisskoðun öðrum, sem í því skyni hafa hlotið næga þekkingu og þjálfun, að dómi yfirdýralæknis, enda starfi þeir eingöngu undir stjórn dýralæknis.
8. gr. Allt kjöt og slátur af sláturfénaði, er um getur í lögum þessum, sem flutt er á erlendan markað eða til sölu innanlands, skal metið, flokkað og merkt eftir tegundum og gæðum af kjötmatsmönnum, sem starfa undir umsjón yfirkjötmatsmanna.
Ráðuneytið setur reglugerð um slátrun, mat, flokkun, merkingu, frystingu, söltun, umbúðir, flutning og meðferð kjöts og sláturs, að fengnum tillögum kjötmatsformanns og yfirdýralæknis, er hafi samráð við framleiðsluráð landbúnaðarins og helstu kjötsöluaðila.
Ef þörf þykir, getur ráðherra sett sérstakar reglur um slátrun, meðferð, mat og merkingu á kjöti, slátri, gærum og hausum, sem selt er innanlands eða til ákveðinna landa, eftir því hvaða kröfur eru gerðar í því efni. 1)
    1)Rg. 160/1984, 188/1988, sbr. 434/1988, 364/1990, 311/1992, 398/1993, 355/1993, 118/1994, 271/1994, 93/1994, 252/1995 og 466/1996.
9. gr. Ráðherra skipar kjötmatsformann og 4 yfirkjötmatsmenn og hafi hver yfirkjötmatsmaður ákveðið starfssvæði. Kjötmatsformaður hafi ekki ákveðið starfssvæði, enda skal hann hafa yfirumsjón með þeim atriðum í lögum þessum, er snerta verksvið yfirkjötmatsmanna, og samræma mat og flokkun á kjöti og innyflum af sláturfénaði, samkvæmt reglugerðum, sem settar eru um þau efni í samræmi við 8. gr. laga þessara, á landinu öllu. Einnig skal hann, eftir því sem við verður komið, gera athugun á kjöti og öðrum sláturafurðum, sem fluttar eru á erlendan markað og til helstu sölustaða innanlands, og framkvæma yfirmat á þeim, ef þurfa þykir.
Kjötmatsformaður og yfirkjötmatsmenn skulu hafa góða þekkingu á kjöti og öðrum sláturafurðum og mikla reynslu í öllu því, er lýtur að meðferð og mati sláturafurða.
Ráðherra setur yfirkjötmatsmönnum starfsreglur og ákveður umdæmi þeirra og launakjör.
Ferðakostnað í þágu yfirmatsins skulu þeir fá greiddan samkvæmt reikningi, sem ráðuneytið úrskurðar.
Annan kostnað, sem af yfirmatinu leiðir, skal greiða úr ríkissjóði.
[Til að standa straum af kostnaði við yfirmat samkvæmt lögum þessum og lögum nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum, skal innheimta sérstakt gjald. Gjald þetta skal vera 0,55 kr./kg kjöts sem innvegið er í afurðastöð. Landbúnaðarráðherra er heimilt að kveða nánar á um innheimtu gjaldsins með reglugerð.] 1)
    1)L. 140/1996, 6. gr.
10. gr. Lögreglustjóri skipar kjötmatsmenn, einn eða fleiri á hverjum sláturstað. Fer um tölu þeirra og val eftir tillögum yfirkjötmatsmanns.
Kjötmatsmenn skulu annast mat og flokkun á kjöti og slátri og gæta þess, að reglum um slátrun sé fylgt, einkum að því er varðar hreinlega og góða meðferð sláturafurða. Störf, skyldur og kaup kjötmatsmanna skal ákveðið með reglugerð, og greiða sláturleyfishafar, sem slátrun framkvæma, kaup kjötmatsmanna á hverjum stað.
11. gr. Ekki mega yfirkjötmatsmenn eða kjötmatsmenn þiggja neina aukaþóknun hjá þeim, sem kjötsölu annast, né heldur hafa með höndum sölu á kjöti utanlands eða innan, eða aðra milligöngu í því efni, sem þeir geta haft hagnað af.
Nú vanrækir yfirkjötmatsmaður starf sitt að dómi kjötmatsformanns, og er honum þá skylt að skjóta málinu án tafar til [landbúnaðarráðuneytis], 1) sem fellir úrskurð í því.
Sýni kjötmatsmaður vanrækslu í starfi, beiti hlutdrægni við matið eða leysi það illa af hendi á einhvern hátt að dómi yfirkjötmatsmanns, er yfirkjötmatsmanni heimilt að víkja honum frá um stundarsakir, en tilkynna skal hann kjötmatsformanni og hlutaðeigandi lögreglustjóra samstundis þessa ráðstöfun, sem þá víkur hinum brotlega kjötmatsmanni endanlega frá störfum og skipar annan matsmann í hans stað.
    1)L. 85/1971, 1. gr.
12. gr. Yfirdýralæknir eða heilbrigðisnefnd, sem í hlut á getur fyrirskipað sérstaka læknisskoðun á kjöti og slátri, enda þótt það hafi áður hlotið lögboðna heilbrigðisskoðun og merkingu. Eins má fyrirskipa gæðamat á sláturafurðum, þótt það hafi áður farið fram.
Bæjar- eða sveitarfélag skal sjá fyrir fullnægjandi húsnæði til framangreindrar skoðunar á sláturafurðum gegn sanngjörnu gjaldi, er eigandi afurðanna greiðir, samkvæmt nánari fyrirmælum ráðuneytisins, að fengnum tillögum bæjar- eða sveitarfélags.
13. gr. Ráðherra getur sett reglur, að fengnum tillögum heilbrigðisstjórnar og yfirdýralæknis, um útbúnað kjötbúða og annað, er lýtur að verslun með sláturafurðir, og um það, hverjar vörur megi selja í kjötbúðum aðrar en þær, sem um ræðir í lögum þessum. Ráðherra getur einnig sett reglur, að fengnum tillögum heilbrigðisstjórnar og yfirdýralæknis, um atvinnurekstur við tilbúning matvæla úr sláturafurðum, svo sem pylsugerð, niðursuðu sláturafurða og annað því um líkt.
14. gr. [Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum. Fara skal með mál út af brotum á þeim að hætti opinberra mála.] 1)
Um refsingu fyrir brot kjötskoðunarlækna, yfirkjötmatsmanna og kjötmatsmanna gegn ákvæðum þessara laga fer sem um refsingu fyrir brot opinberra starfsmanna.
    1)L. 75/1982, 32. gr.