Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 1997.  Útgáfa 121b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Fósturskóla Íslands

1973 nr. 10 6. aprílI. kafli. Skipulag Fósturskólans, hlutverk og starfshættir.
1. gr. Fósturskóli Íslands er ríkisskóli með aðsetri í Reykjavík.
Skólinn er jafnt fyrir karla sem konur.
2. gr. Hlutverk skólans er að mennta fólk til uppeldisstarfa á hvers konar uppeldisstofnunum fyrir börn frá fæðingu til 7 ára aldurs, svo sem vöggustofum, dagheimilum, vistheimilum, leikskólum, forskólabekkjum barnaskóla og leikvöllum. Heimilt er að fela Fósturskóla Íslands að mennta fólk til starfa á skóladagheimilum.
3. gr. Í starfsemi Fósturskólans skal að því stefnt að veita nemendum fræðilega þekkingu og starfsþjálfun til þess að stunda uppeldisstörf á þeim sviðum, sem skólanum er ætlað að fást við, sbr. 2. gr.
Leggja skal áherslu á uppeldisleg markmið og starfshætti þeirra stofnana, sem skólinn menntar starfslið til, og á þann hagnýta grundvöll, sem starfsemi þeirra er reist á. Námið á að veita innsýn í almenna uppeldis- og sálarfræði og þó sérstaklega þróunarsálfræði barna. Stefnt skal að því að efla alhliða þroska nemenda, þjálfa sjálfstæða hugsun og sjálfstæð vinnubrögð, jafnframt því sem lögð er áhersla á samvinnu í hópstarfi, hugkvæmni, alúð og skyldurækni í starfi.
4. gr. Skólinn skal leitast við að fylgjast sem gerst með nýjungum í uppeldis- og sálarfræði, einkum varðandi barnasálfræði og uppeldisleg markmið, starfshætti og fyrirkomulag þeirra stofnana, sem skólinn menntar starfslið til.
5. gr. Skólinn skal annast endurmenntun og viðbótarmenntun starfsfólks á þeim uppeldissviðum, sem starfsemi skólans tekur til, með skipulegri fræðslu, námskeiðum og kynningu á markverðum nýjungum í uppeldismálum. Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð, að skólinn haldi námskeið fyrir aðstoðarfólk, sem ráða þarf að dagvistunarheimilum, meðan skortur er á fóstrum.
Um námstíma og starfssvið skal kveða nánar á í reglugerð.
6. gr. Fósturskólinn skal hafa náið samband við Kennaraháskóla Íslands, m.a. um framhaldsmenntun fóstra. Skal kveða nánar á um það og tengsl milli skólanna í reglugerð.

II. kafli. Stjórn skólans.
7. gr. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn Fósturskóla Íslands.
Við skólann skal vera skólanefnd, sem menntamálaráðuneytið skipar til 4 ára í senn, og starfar hún samkvæmt erindisbréfi, er ráðuneytið setur. Formaður er skipaður án tilnefningar, einn nefndarmaður er skipaður samkvæmt tilnefningu Fóstrufélags Íslands og annar samkvæmt tilnefningu Barnavinafélagsins Sumargjafar, meðan það fer með stjórn barnaheimila í Reykjavík í umboði borgarstjórnar. Ef rekstur barnaheimila í Reykjavík verður falinn borgarstofnunum, skal einn skólanefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu borgarráðs Reykjavíkur.
Við Fósturskóla Íslands skal vera skólaráð skólastjóra til aðstoðar um stjórn skólans og rekstur. Skólastjóri skal vera formaður þess, en auk hans sitja í ráðinu tveir kennarar skólans og tveir fulltrúar nemenda, kosnir til eins árs í senn.
Ákveða skal nánar í reglugerð um starfssvið skólanefndar og skólaráðs.
8. gr. Við Fósturskólann skal starfa nemendaráð, sem sé skólastjóra til aðstoðar í málefnum nemenda. Nemendaráð kýs fulltrúa í skólaráð, sbr. 7. gr., með þeim réttindum, sem tiltekin eru í ákvæðum reglugerðar. Nemendur setja reglur um skipan, starfssvið og starfshætti nemendaráðs, og skulu þær háðar samþykki skólaráðs og staðfestingu yfirstjórnar skólans.

III. kafli. Inntaka nemenda í Fósturskólann.
9. gr. Inntaka nemenda í skólann er í höndum skólanefndar. Skólastjóri gerir tillögur til hennar um það efni.
10. gr. Inntökuskilyrði í Fósturskólann eru þessi:
    1. Stúdentspróf, kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands eða gagnfræðapróf að viðbættu tveggja ára námi í framhaldsdeild gagnfræðaskóla eða að viðbættu tveggja ára námi í öðrum skólum, t.d. verslunarskóla, lýðháskóla eða húsmæðraskóla.
    2. Heimilt er að veita umsækjendum skólavist, þótt þeir fullnægi ekki menntunarkröfum 1. tölul., með hliðsjón af hæfniprófum eða öðrum tiltækum matsaðferðum og að nokkru með tilliti til starfsreynslu á þeim stofnunum, sem skólinn menntar starfslið til.
    3. Nemandi skal eigi vera yngri en 18 ára.
    4. Nemandi skal eigi vera haldinn neinum andlegum eða líkamlegum kvilla eða annmarka, er hamli honum í námi eða starfi að dómi skólanefndar.
Ákveða má í reglugerð lágmarkseinkunn í íslensku eða fleiri greinum í sambandi við inntöku nemenda í skólann.
Enn fremur má ákveða í reglugerð að láta alla nemendur ganga undir hæfnipróf.

IV. kafli. Um nám, námstíma og námstilhögun.
11. gr. Námstími í skólanum er þrjú ár, og skal nám vera bóklegt og verklegt.
Um skiptingu náms í bóklegar og verklegar annir skal mælt fyrir í reglugerð.
12. gr. Grunnmenntun sú, sem Fósturskólinn veitir, sbr. 2. gr., skiptist í ýmsar uppeldisgreinar, félagsgreinar, list- og verkgreinar, móðurmálsgreinar og heilsufræðigreinar. Auk þess fer verklegt nám fram í stofnunum, sem skólanefnd viðurkennir og menntamálaráðuneytið samþykkir.
Um nám samkvæmt 1. málsgrein skal nánar ákveðið í reglugerð.
13. gr. Skólanefnd getur undanþegið nemanda, sem áður hefur aflað sér þekkingar í einstökum námsgreinum, samkvæmt 12. gr., tímasókn í þeim að nokkru leyti eða öllu.
14. gr. Stefnt skal að því að starfrækja í tengslum við Fósturskólann og undir yfirstjórn hans æfinga- og tilraunastofnun fyrir börn fram til 7 ára aldurs, þar sem nemendum Fósturskólans sé búin sérstök aðstaða til athugana á atferli og leikjum barna og á uppeldislegum starfsháttum.
Menntamálaráðuneytið leitar samninga við Reykjavíkurborg um skiptingu stofn- og rekstrarkostnaðar við æfinga- og tilraunastofnunina.

V. kafli. Um námsáfanga og próf.
15. gr. Í lok hvers námsáfanga (annar) skal úrskurða um hæfni nemanda til að hefja nám á næsta áfanga.
Kveðið skal á um námsmat í bóklegum og verklegum greinum í reglugerð.
Menntamálaráðuneytið skipar, að fengnum tillögum skólastjóra, prófdómendur í uppeldis- og félagsgreinum og í öðrum greinum eftir því, sem ákveðið er í reglugerð.

VI. kafli. Um starfslið Fósturskólans.
16. gr. Fósturskóli Íslands skal vera svo vel búinn starfsliði, að hann geti rækt þær skyldur, er lög mæla fyrir um, þ. á m. við umsjónar- og ráðgjafastörf, störf á skrifstofu og við önnur verkefni.
Skólanefnd gerir, að fengnum tillögum skólastjóra, ár hvert tillögur til menntamálaráðuneytisins um framlög til skólans í þessu skyni, sbr. 21. gr.
17. gr. Fastir starfsmenn Fósturskólans eru opinberir starfsmenn.
[Ráðherra skipar skólastjóra til fimm ára í senn. Skólastjóri ræður kennara og aðra starfsmenn.] 1)
1)
    1)L. 83/1997, 102. gr.
18. gr.1)
    1)L. 51/1978, 18. gr.
19. gr. Nú hefur kennari gegnt embætti í 5 ár og óskar að hverfa frá störfum um skeið til að efla þekkingu sína og kennarahæfni. Skal hann þá senda menntamálaráðuneytinu beiðni um orlof ásamt greinargerð um, hvernig hann hyggst verja orlofstímanum, sem skal notaður til
    a. reglulegs náms í viðurkenndri menntastofnun, eða
    b. a.m.k. tveggja mánaða námsferðar, sem skipulögð er eða boðið til af aðila eða stofnun, sem menntamálaráðuneytið viðurkennir. Ef menntamálaráðuneytið telur umsókn og greinargerð kennara fullnægjandi, getur það veitt honum orlof, allt að einu ári, á föstum embættislaunum.
Menntamálaráðuneytið getur veitt kennara, er orlof hlýtur, styrk til að standa straum af kostnaði við ferðalög og námsdvöl í sambandi við orlofið, ef hann ver því til að stunda reglulegt nám við viðurkennda menntastofnun eða til námsferðar, sem hann nýtur ekki sambærilegs styrks til frá öðrum aðilum. Þá getur menntamálaráðuneytið auglýst eftir umsækjendum til að leggja fyrir sig tiltekið nám, gegn veitingu orlofs eða sérstakra styrkja, nema hvort tveggja sé. Styrki til viðbótar orlofi má veita af fé því, sem í fjárlögum er hverju sinni ætlað til að kosta orlof kennara. Þá getur menntamálaráðuneytið eða aðrir aðilar í samstarfi við það efnt til allt að þriggja vikna námsferða með hópum kennara á þeim árstíma, sem skólar hérlendis starfa ekki. Slíkar ferðir skulu að jafnaði farnar í júní eða ágúst, þegar kennurum gefst kostur á að kynnast skólum erlendis í starfi. Þeir aðilar, sem fyrir slíkum ferðum standa, skulu skipuleggja þær fyrir fram og birta væntanlegum þátttakendum fyrirhugaða starfs- og ferðaáætlun. Menntamálaráðuneytið getur veitt af orlofsveitingu styrk, sem nemur allt að 2/ 3 af áætluðum ferða- og dvalarkostnaði þeirra kennara, sem þátt taka í slíkum hópferðum. Enginn kennari getur fengið á starfsævi sinni hærri fjárhæð í orlof og orlofsstyrki samanlagt en nemur 1 1/ 2 árs embættislaunum hans.
Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um framkvæmd orlofs kennara. Skal þess gætt eftir föngum, að það trufli ekki störf skóla eða torveldi þau. Að orlofi loknu skulu kennarar skila til ráðuneytisins skýrslu um störf sín og nám á orlofstímanum. Skilyrði má setja þeim, sem hljóta orlof eða styrk til reglulegs náms, að þeir starfi að námi loknu við skólann í minnst þrjú ár. Ákvæði þessi taka einnig til skólastjóra. Heimilt er ráðuneytinu að veita kennurum orlof með launum að nokkru eða öllu leyti til þess að vinna að samningu eða útgáfu kennslubóka eða kennslugagna. Enn fremur er heimilt að veita kennara launalaust leyfi, þegar sérstakar ástæður mæla með því. Nýtur staðgengill eða staðgenglar hans þá þeirra launa.
Kennarar skólans skulu eiga þess kost, eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, að sækja námskeið í kennslugreinum sínum sér að kostnaðarlausu til að auka og endurnýja þekkingu sína. Skal þeim skylt að sækja slík námskeið, ef eigi koma til lögleg forföll að dómi skólastjórnar.
20. gr. Um laun og vinnutíma starfsmanna skólans fer eftir kjarasamningum opinberra starfsmanna.
Menntamálaráðuneytið ákveður kennsluskyldu skólastjóra.

VII. kafli. Um húsrými og tæki.
21. gr. Að fengnum tillögum skólanefndar sér menntamálaráðuneytið skólanum fyrir húsrými, er nægi til allrar starfsemi hans, svo sem kennslustofum af viðeigandi gerð, bókasafni og lesstofum, félagsherbergjum nemenda, skrifstofu og húsnæði fyrir kennara o.fl.
Í reglugerð skal kveða nánar á um þessi efni, þ. á m. um lágmarkskröfur um hlutfall milli húsrýmis og nemendafjölda.
Fósturskólanum skal séð fyrir safni bóka og annarra kennslugagna, er nemendur eigi aðgang að, svo og þeim kosti kennslutækja, sem þörf er á.
Skólastjóri gerir árlega áætlun um rekstur skólans og kostnað við skólahald næsta skólaár, sem hann leggur fyrir skólanefnd. Skólanefnd gerir síðan tillögur til menntamálaráðuneytisins um fjárveitingu til skólans, sem liggja skulu fyrir við undirbúning fjárlagafrumvarps.

VIII. kafli. Um heilsuvernd.
22. gr. Í reglugerð skulu sett ákvæði um heilsuvernd í Fósturskóla Íslands, þ. á m. ákvæði um skólalækni og skólahjúkrunarkonu og eftirlit með heilbrigði nemenda og hollustuháttum í skólanum.

IX. kafli. Ýmis ákvæði.
23. gr. Í reglugerð, 1) sem menntamálaráðuneytið setur, að höfðu samráði við skólastjóra og skólanefnd, skal m.a. kveðið á um skólatíma og leyfi, reglu og aga og vinnudag nemenda og kennara í skólanum, en auk þess skal mæla þar fyrir um framkvæmd laganna að öðru leyti eftir því, sem efni er til.
    1)Rg. 137/1979, sbr. 492/1986.

X. kafli. Ákvæði til bráðabirgða. …