Lagasafn. Íslensk lög 1. maí 1999. Útgáfa 123b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um fæðingarorlof
1987 nr. 57 31. mars
1. gr. [Fæðingarorlof samkvæmt lögum þessum merkir leyfi frá launuðum störfum vegna:
a. meðgöngu og fæðingar,
b. frumættleiðingar barns yngra en fimm ára eða
c. töku barns yngra en fimm ára í varanlegt fóstur.]
1)
1)L. 51/1997, 1. gr.
2. gr. [Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingarorlofi í allt að sex mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. þó ákvæði
15. og
16. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum. Skipti foreldrar með sér þessu fæðingarorlofi verður samanlagt orlof þeirra aldrei lengra en sex mánuðir.]
1)

[Auk réttar foreldra skv. 1. mgr. á faðir rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi sem taka má hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns, þó skal réttur föður vera fjórar vikur ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður. Jafnframt á faðir rétt á fæðingarorlofi í tvær vikur til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt. Notfæri faðir sér ekki rétt samkvæmt þessari málsgrein fellur hann niður.

Réttur föður til fæðingarorlofs er bundinn því skilyrði að hann sé í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð með móður barnsins.]
2)
1)L. 51/1997, 2. gr. 2)L. 147/1997, 1. gr.
3. gr. [Heimilt er konu að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Beri fæðingu að fyrir áætlaða töku fæðingarorlofs telst fæðingarorlofið hafið á fæðingardegi.

Upphaf sex mánaða fæðingarorlofs vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 2. gr., miðast við þann tíma þegar barnið kemur á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef barn, sem ættleiða á, er sótt til útlanda skal ættleiðandi foreldri þó heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.]
1)
1)L. 51/1997, 3. gr.
4. gr. [Tilkynna skal atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs með 21 dags fyrirvara, nema sérstakar aðstæður geri það ókleift. Vilji móðir hefja störf að nýju áður en lokið er fæðingarorlofi skal hún á sama hátt tilkynna það atvinnurekanda með 21 dags fyrirvara. Faðir, sem ætlar að taka [fæðingarorlof],
1) skal tilkynna atvinnurekanda það með sama fyrirvara og jafnframt hve lengi hann verður frá störfum.]
2)
1)L. 147/1997, 2. gr. 2)L. 51/1997, 4. gr.
5. gr. …
1)
1)L. 51/1997, 5. gr.
6. gr. Skylt er, þar sem því verður við komið, að færa barnshafandi konu til í starfi ef það er þess eðlis að heilsu hennar eða fósturs er af því hætta búin, enda verði ekki við komið breytingum á starfsháttum. Slík tilfærsla skal ekki hafa áhrif á launakjör viðkomandi til lækkunar.
7. gr. Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sama gildir um foreldri í fæðingarorlofi.

Brjóti atvinnurekandi gegn ákvæði fyrri málsgreinar skal hann greiða bætur. Við ákvörðun bóta skal m.a. taka mið af ráðningartíma starfsmanns hjá viðkomandi atvinnurekanda.
8. gr. Ákvæði laga þessara skerða ekki þann heildarrétt sem verkalýðsfélög kunna að hafa samið um umfram það sem í lögum þessum greinir.
9. gr. [Um greiðslur í fæðingarorlofi fer samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar.]
1)
1)L. 51/1997, 6. gr. Sjá og rg. 546/1987, sbr. 20/1989.
10. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1988.