Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. febrúar 2000. Útgáfa 125a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um ónæmisaðgerðir
1978 nr. 38 11. maí
1. gr. Ónæmisaðgerðir, sem lög þessi taka til, eru bólusetning gegn:
1. barnaveiki,
2. kíghósta,
3. stífkrampa,
4. mænusótt,
5. mislingum,
6. rauðum hundum,
7. berklaveiki,
8. bólusótt,
9. heilahimnubólgu,
10. hettusótt,
11. öðrum sóttum, ef virk ónæmisaðgerð gegn þeim verður kunn og sérstök smithætta er fyrir hendi,
12. enn öðrum sóttum, þegar sérstaklega stendur á, einkum í sambandi við ferðir manna úr landi.
2. gr. Almenningi skal gefinn kostur á ónæmisaðgerð samkvæmt 1. gr. 1.–5. tölul., svo eftir því sem þörf krefur samkvæmt 1. gr. 6.–12. tölul., þó samkvæmt 12. tölul. aðeins að svo miklu leyti sem því verður við komið.
Ónæmisaðgerðir samkvæmt lögum þessum annast heilsugæslustöðvar.
3. gr. Þegar ætla má, að sérstakir aðilar eigi öðrum fremur á hættu að sýkjast af hættulegri sótt (svo sem farmenn á sjó, áhafnir loftfara, læknar, hjúkrunarfólk, sóttgæslumenn, ferðamenn, tollgæslumenn o.s.frv.), er heilsugæslustöð heimilt í samráði við landlækni að gera ráðstafanir til þess, að slíkir aðilar verði bólusettir gegn þeirri sótt, sem um er að ræða.
Þegar mikil sótthætta er yfirvofandi, er heilbrigðismálaráðherra heimilt að fyrirskipa almenna bólusetningu gegn þeirri sótt, sem um er að ræða, og láta hana ná til tiltekinna svæða, eða landsins í heild ef þurfa þykir.
4. gr. Heilsugæslustöðvar skulu, í samráði við landlækni, gera almenningi nægilega kunnugt, hvernig framkvæmdum ónæmisaðgerða samkvæmt lögum þessum skuli hagað, svo að almenningur eigi hæfilega greiðan aðgang að þeim, eftir því, sem til hagar á hverjum stað, og hafi af þeim sem fyllst not.
Berklayfirlæknir hefur yfirstjórn bólusetningar gegn berklaveiki með höndum og segir fyrir um framkvæmd hennar.
5. gr. Nú kemur í ljós, að bóluefni, sem notað hefur verið til ónæmisaðgerða, samkvæmt lögum þessum, hefur verið óvirkt, og skal sú ónæmisaðgerð metin ógerð, og skal hún endurtekin með virku bóluefni, svo fljótt sem við verður komið, teljist slíks þörf eða fari viðkomandi fram á slíkt.
6. gr. Landlæknir gerir úr garði og lætur heilsugæslustöðvum í té sérstakar skírteinisbækur, ónæmisskírteini. Skal sérhver sá, er leitar ónæmisaðgerðar hjá heilsugæslustöð, hafa slíka bók í höndum, varðveita hana og láta skrá í hana allar ónæmisaðgerðir, er hann gengst undir samkvæmt lögum þessum.
7. gr. Stefnt skal að því að ráða ekki starfsfólk að hælum eða öðrum stofnunum þar sem vistaðir eru sjúklingar, sem þjást af berklaveiki, nema það svari jákvætt við ónæmisprófun ellegar gangist undir sérstaka ónæmisbólusetningu áður en það hefur störf.
8. gr. Heilsugæslustöðvar skulu skrá ónæmisaðgerðir samkvæmt lögum þessum í spjaldskrá, enda við því búnar að gefa vottorð þar að lútandi, ef á þarf að halda, svo sem ef ónæmisskírteini glatast. Ónæmisaðgerðir skólalækna skal skrá í nemendaskrá hlutaðeigandi skóla.
Skólayfirlæknir hefur yfirumsjón með bólusetningum í skólum og segir fyrir um framkvæmd þeirra.
9. gr. Heilsugæslustöðvar skulu í ársskýrslu sinni á þar til gerðu eyðublaði, sem landlæknir lætur í té, gera skýrslur um ónæmisaðgerðir þær, sem framkvæmdar hafa verið í umdæmi þeirra á árinu samkvæmt lögum þessum. Skal skýrslan bera með sér gegn hverjum sóttum hefur verið bólusett, og hversu margir gegn hverri sótt.
10. gr. … 1)
Kostnaður af framkvæmd ónæmisaðgerða samkvæmt 1. gr. 1.–11. tölul. laga þessara greiðist úr ríkissjóði.
Kostnað vegna framkvæmda ónæmisaðgerða samkvæmt 1. gr. 12. tölul. laga þessara greiða hlutaðeigendur sjálfir.
1)L. 75/1994, 5. gr.
11. gr. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð, þar sem kveðið er nánar á um einstök atriði varðandi framkvæmd laga þessara, þar á meðal um tilhögun hinna einstöku ónæmisaðgerða.
[12. gr. Innflutningur og notkun á lifandi smitefnum (bakteríum, veirum, sveppum, sníkjudýrum og „lifandi“ ónæmisefnum), sem valdið geta sjúkdómum eða sýkingu í mönnum, dýrum og fiskum, er óheimil.
Heilbrigðisráðherra er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. mgr. mæli ríkar ástæður með samkvæmt sérstakri umsókn opinberra rannsóknastofnana. Í umsókn skulu koma fram ítarlegar upplýsingar um notkun, framleiðslu, meðferð, gerð íláta, merkingu íláta, geymslu, varúðarráðstafanir og eyðingu efnanna. Heilbrigðisráðherra getur sett sem skilyrði fyrir veitingu slíkra leyfa, sé um að ræða tilraunir, að viðkomandi kaupi vátryggingu er nái yfir allan hugsanlegan skaða. Leyfi til innflutnings og notkunar samkvæmt þessari grein á efnum, er valdið geta sjúkdómum eða sýkingu í dýrum eða fiskum, er og háð samþykki landbúnaðarráðherra.
Áður en leyfi er veitt samkvæmt þessari grein skal ávallt leita umsagnar landlæknis eða yfirdýralæknis, eftir því sem við á hverju sinni.] 1)
1)L. 28/1984, 1. gr.
[13. gr.]1) Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
1)L. 28/1984, 2. gr.