Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2000.  Útgáfa 125b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um lögskráningu sjómanna

1987 nr. 43 30. marsI. kafli. Um lögskráningarskyldu og lögskráningarstjóra.
1. gr. Lögskráning sjómanna er tvenns konar: lögskráning í skiprúm og lögskráning úr skiprúmi.
Lögskráning fer fram á útgerðarstað skips.
2. gr. Skylt er að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum sem eru 12 rúmlestir brúttó eða stærri.
Heimilt er að lögskrá aðra en skipverja þann tíma sem viðkomandi dvelja um borð í skipi sem er í förum enda leggi þeir fram yfirlýsingu tryggingafélags um líf- og slysatryggingar.
3. gr. [Tollstjórar eru lögskráningarstjórar hver í sínu umdæmi. Utan aðsetursstaða sinna er tollstjórum heimilt að fela hreppstjórum að annast lögskráningar. Einnig er tollstjórum heimilt að skipa fulltrúa til að annast lögskráningar á aðsetursstöðum sínum ef þess gerist þörf.] 1)
Hreppstjórar og lögskráningarfulltrúar [tollstjóra] 1) skv. 1. mgr. skulu hafa eftirlit með skráningu og skila yfirliti til [tollstjóra] 1) um lögskráningar í umdæmum sínum eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Verði þeir varir við að ekki er farið eftir fyrirmælum laga þessara um lögskráningu skulu þeir tafarlaust tilkynna meint brot með símskeyti til hlutaðeigandi skipstjóra og [tollstjóra]. 1) [Tollstjóri] 1) skal hafa eftirlit með lögskráningarfulltrúum í umdæmi sínu.
    1)L. 92/1991, 92. gr.
4. gr. Lögskrá skal í skiprúm:
    1. Hvert sinn er nýr maður eða áhöfn er ráðin á skip.
    2. Í fyrsta sinn á hverju ári sem skip er afgreitt eða byrjar ferð frá hérlendri höfn enda þótt engin breyting verði á skipshöfn.
    3. Hvert sinn sem nýr maður er ráðinn erlendis á íslenskt skip. Skal þá íslenskt sendiráð eða ræðismaður lögskrá á skipið ef til næst. Sendiráð eða ræðismaður skal síðan þegar tilkynna hina nýju lögskráningu með símskeyti til viðkomandi lögskráningarstjóra.
   Sé ekki unnt að ná til sendiráðs eða ræðismanns þegar ráða verður mann á íslenskt skip erlendis skal skipstjóri þegar tilkynna það til viðkomandi lögskráningarstjóra.
    4. Hvert sinn, sem sjómenn eru ráðnir hér á landi í skiprúm á íslensku skipi sem statt er erlendis, skulu þeir lögskráðir áður en þeir fara af landi burt.
5. gr. Lögskrá skal úr skiprúmi í hvert sinn er veru skipverja um borð lýkur, hvort heldur er vegna ráðningarslita eða um stundarsakir, vegna orlofs, slyss, veikinda eða ef skip er ekki í förum um stundarsakir vegna t.d. bilana, viðgerða, endurbóta eða skipi er af öðrum ástæðum ekki haldið úti.
6. gr. Skipstjóra er skylt að sjá um að skipverjar séu lögskráðir í skiprúm og úr skiprúmi. Hann má eigi leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar, sem skylt er að lögskrá skv. 2. gr., hafi verið lögskráðir í skiprúm.
Þegar svo er ástatt sem segir í 4. tölul. 4. gr. og skipstjóri er eigi staddur þar sem lögskráning á að fara fram skal útgerðarmaður sjá um að lögskráð sé.

II. kafli. Framkvæmd lögskráningar.
7. gr. Við fyrstu árlegu lögskráningu í skiprúm skv. 2. tölul. 4. gr. skal sýna lögskráningarstjóra eftirtalin gögn:
    1. Atvinnuskírteini skipstjóra.
    2. Mælibréf skipsins og haffærisskírteini.
    3. Atvinnuskírteini eða starfsleyfi þeirra manna er lögskráðir skulu og skírteini þurfa að lögum til þess að mega gegna stöðu þeirri á skipinu sem þeir eru ráðnir til.
    4. Útfyllta skipshafnarskrá í tveimur samhljóða eintökum.
    5. Sjóferðabækur þeirra manna er lögskráðir skulu.
    6. Yfirlýsingu frá viðkomandi tryggingafélagi um líf- og slysatryggingu skipverja og skal skráningarstjóri ganga úr skugga um að þær séu í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga. Nú vanrækir útgerðarmaður að hafa líf- og slysatryggingu í gildi og er hann þá ábyrgur fyrir viðkomandi bótagreiðslum. Reynist útgerðarmaður eigi fær um greiðslu slíkra bóta ber ríkissjóður fulla ábyrgð á greiðslu þeirra.
    7. [Yfirlýsingu um að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt. Veita má skipverja sem skráður er í fyrsta sinn sex mánaða frest til að fullnægja ákvæðinu.] 1)
Ef skilyrðum 1. mgr. er fullnægt ritar lögskráningarstjóri vottorð sitt á gögnin. Ef eitthvert gagna skv. 1.–4. og 6. tölul. 1. mgr. vantar skal eigi lögskráð fyrr en úr því er bætt.
Við lögskráningu úr skiprúmi skal skipstjóri leggja fram skipshafnarskrá og sjóferðabækur.
[Samgönguráðherra er heimilt með reglugerð að setja það skilyrði fyrir lögskráningu nýliða um borð í skipum að þeir hafi lokið námi fyrir nýliða með fullnægjandi hætti. Samgönguráðherra skal hafa samráð við samtök sjómanna og útgerðarmanna um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.] 2)
[Samgönguráðherra er heimilt með reglugerð að setja það skilyrði fyrir lögskráningu að skipverjar sæki öryggisfræðslunámskeið skv. 7. tölul. 1. mgr. þessarar greinar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.] 1)
    1)L. 119/1997, 1. gr. 2)L. 16/1994, 2. gr.
8. gr. Þegar nýir menn eru lögskráðir í skiprúm eftir að skipshafnarskrá er gerð skal þeim bætt við á skrána meðan hún endist en á aukaskrá sé hún fullrituð. Skal þess þá getið í aðalskránni að aukaskrá hafi verið gerð.
9. gr. Um sjóferðabækur skipverja fer eftir ákvæðum sjómannalaga og laga um atvinnuréttindi við siglingar á íslenskum skipum svo og reglugerða er settar eru samkvæmt þeim.
10. gr. Við lögskráningu í skiprúm skulu allir þeir sem lögskrá á til starfa, sem sérstök réttindi þarf til að gegna lögum samkvæmt, mæta hjá lögskráningarstjóra og undirrita skipshafnarskrá.
Þegar lögskráð er í skiprúm við fyrstu skráningu á árinu skulu allir skipverjar mæta hjá lögskráningarstjóra.
Að öðru leyti en um getur í 1. og 2. mgr. er skipverjum eigi skylt að mæta við lögskráningu og undirrita skipshafnarskrá þar. Þó getur sérhver skipverja krafist þess að vera viðstaddur er hann skal lögskráður og er skipstjóra þá skylt að heimila það.
11. gr. Að lokinni lögskráningu skal skráningarstjóri afhenda skipstjóra annað eintak skipshafnarskrárinnar með áritun sinni.
12. gr. Ef skipstjóri getur ekki gengið frá lögskráningu áður en skip yfirgefur höfn skal hann eða útgerðarmaður skipsins tilkynna lögskráningarstjóra, innan 24 klst., nöfn mannanna og annað sem honum ber að skýra frá við almenna lögskráningu. Skipstjóra er einnig heimilt innan þess tíma að kalla upp næstu strandarstöð og lesa upp nöfn þeirra og störf sem um borð eru. Strandarstöðin skal síðan bera þau boð til viðkomandi lögskráningarstjóra.
Jafnframt skal skipstjóri færa nöfn skipverja og annað, sem skrásetja ber við lögskráningu, á eintak það af skipshafnarskránni sem er í skipinu. Skulu þeir sem þannig eru lögskráðir samþykkja lögskráninguna með áritun sinni á skipshafnarskrána.
Við næstu lögskráningu skal skráningarstjóri bera eintak skipstjóra saman við frumeintak sitt og tilkynningar sem honum hafa borist.
13. gr. Þegar lögskráð er úr skiprúmi skulu þeir menn, sem skrá á úr skiprúmi, mæta með sama hætti og lýst er í 10. gr., sbr. þó 4. mgr. þessarar greinar. Ef skipverji er eigi viðstaddur skal skipstjóri tafarlaust láta hann vita um lögskráninguna. Ber skipstjóra að sanna að skipverja hafi verið tilkynnt um lögskráningu úr skiprúmi ef um er deilt.
Nú hefur skipverja eigi borist vitneskja um lögskráningu úr skiprúmi á réttum tíma og er honum þá heimilt að vefengja gildi lögskráningarinnar með því að bera upp andmæli við lögskráningarstjóra.
Óheimilt er að lögskrá úr skiprúmi nema frá þeim degi að telja er slíkrar skráningar er óskað nema fyrir liggi yfirlýsing frá þeim skipverjum, sem þannig á að lögskrá úr skiprúmi, um að þeir séu því samþykkir.
Sé ráðningu skipverja sannanlega lokið eða hann verður frá störfum vegna slyss eða veikinda eða fer í orlof ber útgerðarmanni eða skipstjóra eigi skylda til að tilkynna viðkomandi skipverja um lögskráningu úr skiprúmi.

III. kafli. Almenn ákvæði.
14. gr. Fyrir störf þau, er lögskráningarstjóri innir af höndum samkvæmt lögum þessum, svo og fyrir sjóferðabækur og skipshafnarskrár, skal greiða gjald samkvæmt gjaldskrá.
Lögskráningarstjóri innheimtir gjöld þessi og renna þau í ríkissjóð. Gjald fyrir sjóferðabók greiðir útgerðarmaður eða hlutaðeigandi sjómaður sjálfur en önnur gjöld greiðir skipstjóri fyrir hönd útgerðarmanna.
15. gr. Lögskráningarstjóra er skylt, sé þess óskað, að veita stéttarsamtökum sjómanna eða eftirlitsmanni þeirra aðgang að gögnum er varða lögskráningar og upplýsingar um þær.
16. gr. Heimilt er starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands að fara um borð í íslensk skip á siglingu og kanna lögmæti lögskráningar og skilríki um réttindi yfirmanna. Sé þessu ábótavant ber að kæra það en við ítrekað brot sama skipstjóra má færa skip til hafnar en bera má þá ákvörðun undir dómstóla [eftir sömu reglum og gilda um heimild til að bera rannsóknaraðgerðir í opinberu máli undir dóm]. 1)
    1)L. 92/1991, 92. gr.
17. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum enda liggi ekki þyngri refsing við þeim samkvæmt öðrum lögum. Verði skipstjóri með dómi fundinn sekur um ítrekað brot á lögskráningarskyldu sinni samkvæmt lögum þessum má dæma hann jafnframt til að hafa fyrirgert skírteini sínu um stundarsakir.
18. gr. Með mál út af brotum á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
19. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. …
[Ákvæði til bráðabirgða. Skipstjórnarmenn og aðrir skipverjar sem hafa skráð sig á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna fyrir 1. janúar 1998 fá frest til 1. apríl 1999 til að fullnægja skilyrðum 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna.] 1) [Þó er heimilt fram til 1. apríl 2001 að lögskrá þann sem ekki hefur hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna, enda liggi fyrir hjá lögskráningarstjóra staðfesting Slysavarnaskóla sjómanna á að viðkomandi hafi látið skrá sig á námskeið og hvenær það fari fram. Mæti skipstjórnarmaður eða aðrir skipverjar ekki á námskeið sem þeir eru skráðir á er lögskráningarstjóra óheimilt að lögskrá þá, nema viðkomandi hafi haft fullgildar ástæður fyrir forföllum sínum að mati Slysavarnaskóla sjómanna, hafi skráð sig að nýju á öryggisfræðslunámskeið skólans og muni ljúka því eins fljótt og kostur er og eigi síðar en 1. apríl 2001.] 2)
    1)L. 119/1997, 2. gr. 2)L. 28/1999, 1. gr.