Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög í október 2002. Útgáfa 127b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur
1992 nr. 60 1. júní
I. kafli. Um Náttúrufræðistofnun Íslands.
1. gr. Lög þessi fjalla um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur …, 1) samræmingu á starfsemi þessara aðila og samvinnu um rannsóknir og fræðslu.
Ráðherra umhverfismála fer með þau málefni sem lögin taka til.
1)L. 92/2002, 1. gr.
2. gr. Náttúrufræðistofnun Íslands er í eigu íslenska ríkisins.
Stofnunin getur byggst upp af allt að fimm setrum sem hvert um sig hefur sjálfstæðan fjárhag. Auk seturs í Reykjavík getur ráðherra heimilað eitt setur í hverjum landsfjórðungi að fenginni umsögn [forstjóra] 1) stofnunarinnar og eftir því sem fé er veitt á fjárlögum.
1)L. 169/1998, 1. gr.
3. gr. [Ráðherra skipar forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Forstjóri ræður forstöðumenn setra og aðra starfsmenn stofnunarinnar.
Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri hennar. Þá mótar hann stefnu hennar í samráði við forstöðumenn setra. Forstjóri samþykkir fjárhagsáætlanir setra og fylgist með fjárreiðum þeirra og ráðstöfun fjár. Fjármál einstakra setra eru að öðru leyti á ábyrgð forstöðumanna þeirra.
Forstjóri boðar árlega til fundar með starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar og forstöðumönnum náttúrustofa til að samræma starfsemina og greina frá niðurstöðum rannsókna.
Ráðherra setur í reglugerð 1) nánari fyrirmæli um hlutverk og starfsskyldur forstjóra og forstöðumanna, svo og um aðsetur forstjóra á hverjum tíma.] 2)
1)Rg. 229/1993. 2)L. 169/1998, 2. gr.
4. gr. Náttúrufræðistofnun Íslands stundar undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins og annast skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands. Hún varðveitir niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum er veiti sem best yfirlit um náttúru landsins.
Aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar eru:
a. að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands,
b. að varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn á vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru,
c. að skrá kerfisbundið einstaka þætti íslenskrar náttúru og sjá um gerð og útgáfu korta, m.a. um jarðfræði og útbreiðslu tegunda,
d. að styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings,
e. að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna,
f. að vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra og fugla í samvinnu við embætti veiðistjóra,
g. að sjá um fuglamerkingar og hefur Náttúrufræðistofnun ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi,
h. að greina frá niðurstöðum rannsókna í fræðslu- og vísindaritum og lýsa meginþáttum í starfsemi stofnunarinnar í árlegri skýrslu,
[i. að skrá berg- og jarðgrunna landsins með kerfisbundnum hætti og vinna að flokkun námasvæða eftir efni, magni, aðgengi, gæðum og verndargildi. Við mat á verndargildi skal Náttúrufræðistofnun hafa samráð við Náttúruvernd ríkisins.] 1)
1)L. 169/1998, 3. gr.
5. gr. [Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að taka gjald til að standa straum af rekstrarkostnaði fyrir rannsóknir og ráðgjöf sem falla undir 4. gr., greiningu vegna inn- og útflutnings á dýrum og plöntum sem heyra undir samning um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, eftirlit vegna rannsókna og nýtingar á hveraörverum samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, leyfisveitingar vegna útflutnings á náttúruminjum og fyrir greiningar á náttúrusýnum. Ráðherra getur að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands sett gjaldskrá um þá starfsemi sem að framan er talin.
Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að veita viðtöku fjárframlögum, vísindastyrkjum, vísindalegum eintökum, náttúrugripum og sambærilegum gjöfum frá einstaklingum eða öðrum.] 1)
1)L. 92/2002, 2. gr.
6. gr. Náttúrufræðistofnun skal eiga aðgang að vísindalegum upplýsingum sem opinberar stofnanir geta í té látið og varða starfssvið hennar. Skýrslur íslenskra og erlendra vísindamanna um rannsóknir á náttúru landsins skulu varðveittar í heimildasafni Náttúrufræðistofnunar.
Skylt er Náttúrufræðistofnun að varðveita vísindalegar upplýsingar og niðurstöður rannsókna í aðgengilegu formi og veita aðgang að þeim samkvæmt nánari reglum.
Grunngögn um íslenska náttúru í vörslu stofnunarinnar, svo sem um fuglamerkingar og endurheimtur, upplýsingar um dreifingu plantna og dýra, sem og skrásett safnaeintök, skulu vera aðgengileg vísindamönnum til frekari rannsókna og flokkuð á samræmdan hátt.
Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd ákvæða samkvæmt þessari grein að fengnum tillögum [forstjóra]. 1)
1)L. 169/1998, 4. gr.
7. gr. Setur Náttúrufræðistofnunar Íslands geta verið deildaskipt. Deildarstjórar og sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands skulu hafa lokið háskólaprófum á hlutaðeigandi fræðasviði eða vera að öðru leyti viðurkenndir fræðimenn á sérsviði sínu. Kveða skal á um starfsskyldur þeirra í reglugerð. 1) … 2)
1)Rg. 229/1993. 2)L. 169/1998, 5. gr.
8. gr. Náttúrufræðistofnun Íslands getur með leyfi ráðherra gerst aðili að sýningarsöfnum sem rekin eru af öðrum en ríkinu. Hún aðstoðar við gerð sýninga og henni er heimilt að lána til þeirra gripi úr söfnum setranna um lengri eða skemmri tíma.
II. kafli. Náttúrustofur.
9. gr. [Ráðherra er heimilt að leyfa starfrækslu allt að átta náttúrustofa er starfa á vegum sveitarfélaga óháð kjördæmaskipan og skal um hverja stofu gera samning milli ráðherra og þeirra sveitarfélaga sem standa að náttúrustofu. Náttúrustofur og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu hafa með sér samvinnu samkvæmt nánari ákvörðun þeirra hverju sinni.] 1)
1)L. 92/2002, 3. gr.
10. gr. [Eitt eða fleiri sveitarfélög geta átt og rekið náttúrustofu með stuðningi ríkisins. Ábyrgð á rekstri og starfsemi náttúrustofu er hjá þeim sveitarfélögum sem gert hafa samning um rekstur hennar. Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu er ákveðið í fjárlögum hverju sinni og miðast við fjárhæð sem nemur launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri fjárhæð sem er allt að jafnhá þeirri fjárhæð og rennur hún til reksturs náttúrustofu. Framlag ríkissjóðs er háð því að fyrir liggi samningur um rekstur náttúrustofu, sbr. 9. gr. Í samningi skal meðal annars kveðið á um aðsetur og starfssvæði náttúrustofu, framlag ríkissjóðs og fjárskuldbindingar sveitarfélaga vegna reksturs hennar sem skulu miðast við 30% af framlagi ríkisins.] 1)
1)L. 92/2002, 4. gr.
11. gr. [Helstu hlutverk náttúrustofu eru:
a. að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar,
b. að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga,
c. að veita náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar náttúrustofu hverju sinni,
d. að veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun gegn greiðslu á verksviði stofunnar að beiðni sveitarfélaga, ríkis eða stofnana þeirra, einstaklinga, fyrirtækja eða annarra aðila,
e. að annast almennt eftirlit með náttúru landsins, sbr. 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar; Náttúruvernd ríkisins skal gera samning um slíkt eftirlit við náttúrustofur sem staðfestur er af ráðherra.] 1)
[Náttúrustofur skulu fyrir lok apríl ár hvert skila skýrslu til ráðherra um starfsemi sína næstliðið ár ásamt ársreikningi.] 1)
Heimilt er náttúrustofu að gerast aðili að sýningarsafni, en fjárhagur slíks safns og stofunnar skal vera aðskilinn.
1)L. 92/2002, 5. gr.
12. gr. [Stjórn náttúrustofu skal skipuð að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélag eða sveitarfélög sem starfrækja náttúrustofu skipa þrjá menn í stjórn og skal einn þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.] 1)
1)L. 92/2002, 6. gr.
13. gr. Stjórn náttúrustofu ræður forstöðumann, fjallar um árlega fjárhagsáætlun fyrir stofuna og fylgist með fjárhag hennar og starfsemi.
[Stjórn náttúrustofu getur sett gjaldskrá fyrir rannsóknir, vöktun og ráðgjöf á verksviði stofunnar, sbr. d-lið 1. mgr. 11. gr.] 1)
1)L. 92/2002, 7. gr.
14. gr. Forstöðumaður náttúrustofu skal hafa háskólapróf í náttúrufræði eða þekkingu sem meta má til jafns við það. Hann er í fyrirsvari fyrir stofuna í heild, stjórnar daglegum rekstri hennar og ræður að henni annað starfslið með samþykki stjórnar, eftir því sem fé er veitt til hverju sinni.
III. kafli. Almenn ákvæði.
15. gr. Náttúrufræðingum og aðstoðarmönnum þeirra, sem stunda almennar náttúrurannsóknir eða söfnun náttúrugripa og annarra heimilda um náttúruna á vegum hins opinbera, skal frjáls för um lönd manna, en forðast skulu þeir óþarfa átroðning og skylt er þeim að greiða fullar bætur fyrir tjón sem þeir kunna að valda.
Sömu aðilum er og heimilt að safna náttúrugripum hvar sem er án þess að endurgjald komi fyrir. Þetta gildir þó ekki ef um er að ræða náttúrugripi sem fémætir eru fyrir landeiganda eða aðra rétthafa lands.
Nú leiðir rannsókn í ljós verðmæti sem áður voru ókunn og ber þá rannsakanda að tilkynna það rétthafa þess lands þar sem verðmætin eru.
Náttúrugripi má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni. [Sama á við um örverur sem eiga uppruna sinn á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra.] 1)
1)L. 169/1998, 6. gr.
16. gr. Ráðherra getur með reglugerð 1) sett nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa … 2)
1)Rg. 229/1993, rg. 385/1994, rg. 643/1995, rg. 512/1997, rg. 96/1998, rg. 589/2001. 2)L. 92/2002, 8. gr.
17. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.
…
Ákvæði til bráðabirgða. …