Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. mars 2004.  Útgáfa 130a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um friðun Þingvalla

1928 nr. 59 7. maí


Tóku gildi 11. maí 1928. Breytt með l. 75/1982 (tóku gildi 10. júní 1982), l. 150/1996 (tóku gildi 30. des. 1996) og l. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998).


1. gr. Frá ársbyrjun 1930 skulu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
2. gr. Mörk hins friðhelga lands skulu vera sem hér segir:
    a. Að sunnan: Frá hæstu brún Arnarfells í beina stefnu á Kárastaði, yfir Þingvallavatn og upp á vestara bakka Almannagjár.
    b. Að vestan: Hærri barmur Almannagjár að Ármannsfelli.
    c. Að norðan: Frá Ármannsfelli þvert austur yfir hraunið að Hlíðargjá.
    d. Að austan: Eystri bakki Hlíðargjár og Hrafnagjár ræður takmörkunum suður á hæstu brún Arnarfells.
Landið innan ofannefndra marka skal, eftir því er Þingvallanefnd kveður á og fært kann að reynast, varið fyrir ágangi af sauðfé og geitum. En skógurinn og villidýralíf, sem þar kynni að geta þrifist, skal vera algerlega friðað. Þó skal nefndin gera ráðstafanir til eyðingar þeim dýrum og fuglum, sem gera usla á hinu friðlýsta svæði eða vinna búfénaði héraðsmanna tjón.
Þingvallanefnd ræður veiði í Þingvallavatni norðan línu þeirrar, er um getur í a-lið.
Ekkert jarðrask, húsabyggingar, vegi, rafleiðslur eða önnur mannvirki má gera á hinu friðlýsta svæði, eða í landi jarðanna Kárastaða, Brúsastaða, Svartagils og Gjábakka, nema með leyfi Þingvallanefndar.
3. gr. Nú takast eigi samningar milli Þingvallanefndar og ábúenda jarða þeirra, er að nokkru eða öllu falla undir hið friðlýsta land, og skal þá Þingvallanefnd taka afnotarétt jarðanna eða jarðarhlutanna eignarnámi samkvæmt lögum og ábúendum greitt fyrir afnotaréttinn samkvæmt óvilhallra dómkvaddra manna mati. Svo skulu og metnar bætur til Þingvallahrepps fyrir íþynging fjallskila og rýrnun útsvara, enda náist ekki samningar.
Heimilt skal Þingvallanefnd að kaupa jörðina Gjábakka, eða ef ekki nást viðunandi samningar um verð, að taka jörðina eignarnámi samkvæmt lögum.
4. gr. Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.
5. gr. Þingvallanefnd, skipuð þrem alþingismönnum, hefur fyrir hönd Alþingis yfirstjórn hins friðlýsta lands og annarra jarða í ríkiseign, sem til eru greindar í 2. gr. Þingvallanefnd skal kosin með hlutfallskosningum í sameinuðu þingi í lok hvers þings eftir nýafstaðnar kosningar, í fyrsta skipti á þingi 1928.
6. gr. Þingvallanefnd semur reglugerð um hið friðlýsta land og meðferð þess, en stjórnarráð staðfestir. Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld á Þingvöllum og verja því fé upp í kostnað við friðunina.
[Þingvallanefnd ræður framkvæmdastjóra. Hann ræður annað starfslið.] 1)
    1)L. 150/1996, 1. gr.
7. gr. Öll óhjákvæmileg útgjöld við verndun Þingvalla samkvæmt lögum þessum greiðast úr ríkissjóði.
8. gr. [Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim varða sektum [eða fangelsi allt að 2 árum]. 1) Mál út af brotum á lögum þessum sæta meðferð opinberra mála.] 2)
    1)L. 82/1998, 146. gr. 2)L. 75/1982, 6. gr.