Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2007.  Útgáfa 133a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um matvæli

1995 nr. 93 28. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 30. júní 1995. Breytt með l. 169/2000 (tóku gildi 29. des. 2000), l. 164/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003), l. 17/2003 (tóku gildi 1. júlí 2003), l. 76/2005 (tóku gildi 1. jan. 2006) og l. 68/2006 (tóku gildi 30. júní 2006).


I. kafli. Tilgangur og gildissvið.
1. gr. Tilgangur laganna er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Þessu skal ná með fræðslu og upplýsingamiðlun, rannsóknum og eftirliti.
2. gr. Lög þessi taka til framleiðslu og dreifingar matvæla. Lögin taka ekki til meðferðar matvæla á einkaheimilum nema þar fari fram framleiðsla matvæla til dreifingar utan heimilisins. Lögin ná þó til allra efna og hluta sem ætlað er að koma í snertingu við matvæli á einkaheimilum.
Lyf, sbr. lyfjalög, tóbak, sbr. lög um tóbaksvarnir, og vímuefni, önnur en áfengi, sbr. lög um ávana- og fíkniefni, eru undanþegin ákvæðum þessara laga. Það sama gildir um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum samkvæmt lögum þar um.
3. gr. Þannig skal staðið að framleiðslu og dreifingu matvæla að þau valdi ekki heilsutjóni og að ekki sé beitt blekkingum í viðskiptum með þau.

II. kafli. Skilgreiningar.
4. gr. Í lögum þessum hafa eftirtalin hugtök svofellda merkingu:
   Matvæli eru hvers konar vörur sem ætlaðar eru mönnum til neyslu, þar með talið neysluvatn, sbr. þó einnig 2. mgr. 2. gr.
   Framleiðsla er meðferð hráefnis, vinnsla, pökkun og matreiðsla. Hér er einnig átt við húsnæði, störf, hreinlæti og heilbrigði starfsfólks og annað sem tengist framleiðslu, svo og efni og hluti sem geta komist í snertingu við matvæli, sbr. ákvæði IV. kafla þessara laga.
   Dreifing er hvers konar flutningur, framboð og afhending, þar með talið innflutningur, útflutningur og sala. Hér er einnig átt við geymslu og annað sem tengist dreifingu, sbr. ákvæði IV. kafla þessara laga.
   Efni og hlutir eru allar umbúðir, ílát, áhöld, tækjabúnaður, borðbúnaður og öll efni sem slíkir hlutir eru samsettir úr og geta komist í snertingu við matvæli.
   Umbúðir eru allar umbúðir sem umlykja eða hafa að geyma matvæli eða efni sem notuð eru við framleiðslu matvæla.
   Örverur eru lífverur sem geta valdið skemmdum í matvælum eða verið heilsuspillandi vegna neyslu þeirra, en einnig eru tilteknar örverur notaðar við framleiðslu matvæla.
   Hráefni eru öll efni, önnur en bætiefni, aukefni, bragðefni og varnarefni, sem notuð eru við framleiðslu matvæla.
   Aukefni eru efni sem notuð eru við tilbúning matvæla til að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika þeirra.
   Bragðefni eru efni sem notuð eru til að hafa áhrif á bragðeiginleika matvæla og teljast ekki til aukefna.
   Bætiefni eru vítamín, steinefni, þar með talin snefilefni, og lífsnauðsynlegar fitu- og amínósýrur.
   Aðskotaefni eru efni sem sett eru í matvæli, berast í þau eða myndast í þeim og breyta eiginleikum, samsetningu, gæðum eða hollustu þeirra. Hér er m.a. átt við vaxtaraukandi efni og lyfjaleifar.
   Varnarefni eru efni sem notuð eru m.a. gegn illgresi, sveppum og meindýrum við framleiðslu og við geymslu matvæla.
   Opinbert eftirlit er eftirlit á vegum stjórnvalda í þeim tilgangi að tryggja að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um matvæli og stuðla að fræðslu og upplýsingamiðlun.
   Innra eftirlit er eftirlit á vegum framleiðanda eða dreifanda í þeim tilgangi að tryggja gæði, öryggi og hollustu vörunnar.
   Faggilding er formleg staðfesting á því að starfsemi rannsóknastofa (prófunarstofa), vottunarstofa og eftirlitsaðila fari fram samkvæmt settum reglum. Markmiðið er að sannreyna hæfni, kunnáttu og áreiðanleika viðkomandi.

III. kafli. Stjórn og skipan.
5. gr. Umhverfisráðherra, í lögum þessum nefndur ráðherra, fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum, að svo miklu leyti sem hún er ekki falin öðrum ráðherrum. [Umhverfisstofnun] 1) er ráðherra til ráðgjafar.
    1)L. 164/2002, 19. gr.
6. gr. Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála er varða eftirlitsstörf dýralækna. Eftirfarandi svið falla undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra:
    a. innflutningur og útflutningur búfjárafurða,
    b. smitsjúkdómar búfjár,
    c. meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum,
    d. heilbrigðisskoðun eldisfisks.
[Landbúnaðarstofnun] 1) er ráðgjafi landbúnaðarráðherra um þessi mál.
    1)L. 76/2005, 49. gr.
7. gr. Sjávarútvegsráðherra fer með yfirstjórn mála er varða meðferð, flutning, geymslu og vinnslu sjávarafurða vegna útflutnings. Fiskistofa er sjávarútvegsráðherra til ráðgjafar um þessi mál.
8. gr. Samstarfsráð skal vinna að samræmingu reglna og fyrirmæla um matvæli og matvælaeftirlit og fjalla um framkvæmd matvælaeftirlits, sbr. IX. kafla laganna. Ráðið skipa einn fulltrúi tilnefndur af [Umhverfisstofnun], 1) annar af Fiskistofu og sá þriðji tilnefndur af [Landbúnaðarstofnun] 2) og skulu varamenn tilnefndir af sömu aðilum. Ráðið skiptir með sér verkum og setur sér starfsreglur sem skulu staðfestar af ráðherra sem fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
Ráðið gerir tillögu um úrlausn ágreiningsmála sem varða framkvæmd laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Jafnframt skal ráðið fá til umsagnar tillögur að lögum og reglugerðum um matvæli og matvælaeftirlit.
Samstarfsráð gerir árlega skýrslu um störf sín á liðnu starfsári og skal hún kynnt ráðherrum, opinberum eftirlitsaðilum og samtökum hagsmunaaðila sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla.
    1)L. 164/2002, 19. gr. 2)L. 76/2005, 49. gr.

IV. kafli. Framleiðsla og dreifing.
9. gr. Þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim skulu tilkynna um starfsemi sína til fyrirtækjaskrár … 1) og hafa starfsleyfi frá viðkomandi eftirlitsaðila, sbr. 20. gr.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja ákvæði um tilkynningarskyldu þeirra sem framleiða eða flytja inn umbúðir fyrir matvæli og efni eða efnablöndur sem nota á við framleiðslu og dreifingu matvæla.
    1)L. 17/2003, 12. gr.
10. gr. Þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim skulu haga starfsemi sinni í samræmi við almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli valdi ekki heilsutjóni. Jafnframt skal þess gætt að matvælin óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt.
Starfsfólk, sem starfar við framleiðslu matvæla eða dreifir þeim, skal gæta ýtrasta hreinlætis og þrifnaðar við störf sín. Það skal hafa þekkingu á meðferð matvæla. Matvælaframleiðendur og dreifendur bera ábyrgð á að fræðsla fari fram. [Hlutaðeigandi ráðherra er heimilt að setja reglur um að þeir sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla skuli sækja námskeið um meðferð matvæla þar sem sérstök áhersla er lögð á innra eftirlit og öryggi matvæla.] 1)
Þeim sem haldnir eru sjúkdómum, sem hætta er á að geti dreifst með matvælum, er óheimilt að starfa við meðferð matvæla. Eftirlitsaðilar, sbr. IX. kafla laganna, geta að höfðu samráði við landlækni gert kröfu um reglubundna heilsufarsskoðun starfsfólks. [Eftirlitsaðilar skulu einnig með öðrum hætti vinna að því að fyrirbyggja að matvæli geti valdið heilsutjóni og skulu grípa til viðeigandi ráðstafana ef vart verður við matarsjúkdóma eða smithættu.] 1)
    1)L. 169/2000, 1. gr.
11. gr. Óheimilt er að hafa matvæli á boðstólum eða dreifa þeim þannig að þau blekki kaupanda að því er varðar uppruna, tegund, gæðaflokkun, samsetningu, magn, eðli eða áhrif.
Ráðherra skal með reglugerð setja ákvæði um með hvaða hætti hafa má matvæli á boðstólum eða dreifa á annan hátt þannig að gefið sé í skyn að varan sé sérstaklega ætluð tilteknum hópum, með vísan til aldurs, sjúkdóma eða annarra ástæðna.
12. gr. Matvæli, sem finnast á framleiðslustað eða í húsakynnum framleiðslustaðar, skulu talin framleidd þar nema annað verði sannað. Matvæli teljast jafnframt höfð á boðstólum á dreifingarstað ef þau er þar að finna.
Á sama hátt skulu efni, hlutir og annað, sem tengist framleiðslu matvæla, talin notuð við framleiðslu ef þau er að finna á framleiðslustað. Jafnframt telst slíkur varningur hafður á boðstólum á dreifingarstað ef hann er þar að finna.
Ákvæði greinarinnar eiga ekki við ef sannanlega er um sýni af tilbúinni vöru að ræða eða þegar eftirlitsaðila hefur verið tilkynnt um að unnið sé að vöruþróun.
13. gr. Matvæli skal geyma þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Geymsluskilyrði skulu vera í samræmi við ákvæði sem sett eru með reglugerðum um geymslu matvæla og er framleiðandi eða eftir atvikum dreifandi ábyrgur fyrir geymslu vörunnar.
Eigandi eða umráðandi flutningatækis er ábyrgur fyrir því að tækið uppfylli þær kröfur sem settar eru um flutning matvæla.

V. kafli. Umbúðir og merking þeirra.
14. gr. Þeim sem framleiða eða flytja inn umbúðir fyrir matvæli, eða fyrir vörur sem notaðar eru við framleiðslu matvæla, er skylt að gæta þess að umbúðir geti ekki spillt þeirri vöru sem þær eru ætlaðar fyrir, þannig að hún verði hættuleg eða varasöm heilsu manna, gæði hennar rýrni eða varan teljist óneysluhæf. Matvælaframleiðendur og dreifendur bera sömu skyldur.
15. gr. Matvælaumbúðir skulu merktar með nafni og heimilisfangi framleiðanda matvælanna eða dreifanda þeirra. Þá skal heiti vörunnar koma fram ásamt upplýsingum um innihald, geymsluskilyrði, geymsluþol og nettóþyngd eða lagarmál.
Ráðherra er heimilt með reglugerð 1) að setja nánari ákvæði um umbúðamerkingar þar sem m.a. koma fram kröfur um að á umbúðum séu upplýsingar um styrk einstakra efna, næringarefnagildi, ástand vöru og þá meðhöndlun sem vara hefur fengið í framleiðslu. Enn fremur er ráðherra heimilt að undanþiggja tilteknar vörutegundir eða vöruflokka einstökum ákvæðum um umbúðamerkingar.
    1)Rg. 588/1993 (um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla), sbr. 142/1995, 726/1997, 54/2000, 439/2000, 863/2000, 352/2003, 503/2005 og 787/2006. Rg. 503/2005 (um merkingu matvæla), sbr. 553/2006.

VI. kafli. Sérreglur um efnainnihald.
16. gr. Ráðherra er heimilt með reglugerð 1) að setja ákvæði um heiti, framleiðslu og samsetningu matvæla, þegar slíkt er talið nauðsynlegt, til að stuðla að heilbrigði eða til að tryggja hagsmuni framleiðenda og neytenda.
Þegar vöruheiti er bundið við tiltekna vörutegund samkvæmt þessari grein er ekki heimilt að nota sama heiti á aðrar vörur eða veita einhverjar þær upplýsingar sem gætu orðið til þess að neytendur villtust á vörunni og öðrum vörum sem hafa annan uppruna eða aðra samsetningu.
    1)Rg. 735/1997 (um ungbarnablöndur og stoðblöndur), sbr. 465/2000, 198/2002 og 388/2004. Rg. 674/1998 (um megrunarfæði). Rg. 542/2000 (um kaffi o.fl.), sbr. 667/2002. Rg. 605/2000 (um matvæli til nota í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi).
17. gr. Ráðherra skal með reglugerðum 1) setja ákvæði um notkun aukefna, bragðefna, varnarefna og bætiefna við framleiðslu matvæla og um leyfilegt magn aðskotaefna í matvælum.
Óheimilt er að nota vaxtaraukandi efni til framleiðslu á matvælum, nema til þess hafi verið veitt sérstök undanþága í reglugerð.
    1)Rg. 587/1993 (um bragðefni í matvælum), sbr. 305/2001 og 848/2003. Rg. 289/1994 (um leysiefni til notkunar í matvælaiðnaði), sbr. 562/1995 og 493/1998. Rg. 526/2006 (um íblöndun bætiefna í matvæli).

VII. kafli. Framkvæmd og fræðslustarfsemi.
18. gr. Til þess að tryggja framkvæmd laga þessara setur hlutaðeigandi ráðherra reglugerð 1) um atriði sem lög þessi ná til. Þar skal m.a. kveðið nánar á um framleiðslu og dreifingu matvæla, efnainnihald, viðmiðunarmörk fyrir örverur, umbúðir, matvælaeftirlit og matvælarannsóknir.
    1)Rg. 121/2004 (um varnarefnaleifar í matvælum), sbr. 385/2004, 922/2004, 505/2005, 998/2005, 434/2006, 436/2006, 437/2006, 438/2006, 552/2006, 908/2006 og 918/2006. Rg. 405/2004 (um náttúrulegt ölkelduvatn og átappað lindarvatn), sbr. 1097/2004. Rg. 411/2004 (um ýmis aðskotaefni í matvælum), sbr. 56/2005. Rg. 425/2004 (um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um fyrirkomulag vöktunar á hámarksgildum varnarefnaleifa í tilteknum matvælum). Rg. 624/2004 (um fæðubótarefni), sbr. 684/2005. Rg. 921/2004 (um efni og hluti úr sellulósafilmu sem er ætlað að snerta matvæli). Rg. 331/2005 (um kjöt og kjötvörur). Rg. 439/2005 (um gildistöku tiltekinna gerða Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum). Rg. 508/2005 (um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum). Rg. 681/2005 (um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um merkingu matvæla og innihaldsefna matvæla með viðbættum jurtasterólum, jurtasterólestrum, jurtastanólum og/eða jurtastanólestrum). Rg. 439/2006 (um leirhluti sem er ætlað að snerta matvæli). Rg. 526/2006 (um íblöndun bætiefna í matvæli). Rg. 555/2006 (um gildistöku tiltekinna gerða Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum).
19. gr. [Umhverfisstofnun], 1) [Landbúnaðarstofnun] 2) og Fiskistofa skulu, hver á sínu sviði, sjá um að haldið sé uppi fræðslu fyrir almenning um þau málefni sem lög þessi ná til. Jafnframt skulu þessir aðilar vinna að eflingu fræðslustarfs fyrir þá sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla og veita ráðgjöf við gerð námsefnis fyrir kennslu um matvæli og meðferð þeirra, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.
Menntamálaráðuneytið setur ákvæði í námskrá eftir því sem við á um kennslu í matreiðslu, örverufræði, matvælafræði, næringarfræði og um neytendamálefni, hefur eftirlit með fræðslunni og fylgist með því að fullnægjandi aðstaða sé fyrir hendi.
    1)L. 164/2002, 19. gr. 2)L. 76/2005, 49. gr.

VIII. kafli. Leyfisveitingar.
20. gr. Framleiðsla og dreifing matvæla er háð leyfi heilbrigðisnefndar. Heimilt er að binda slíkar leyfisveitingar ákveðnum kröfum til þess að tryggja að matvæli verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Þegar ákvæði þessi eiga við um starfsemi sem er undir yfirstjórn sjávarútvegs- eða landbúnaðarráðherra er leyfisveiting annars vegar í höndum Fiskistofu og hins vegar í höndum [Landbúnaðarstofnunar]. 1)
Leyfisveiting og endurnýjun leyfa er háð því að eftirlits- og leyfisgjald hafi verið greitt, sbr. og 25. og 26. gr., og leyfi til framleiðslu og dreifingar matvæla má fella úr gildi ef sá sem slíkt leyfi hefur gerist sekur um ítrekuð eða alvarleg brot á lögum þessum, reglugerðum eða fyrirmælum settum samkvæmt þeim.
Þeir sem annast leyfisveitingu geta endurskoðað veitt leyfi ef framleiðandi eða dreifandi ráðgerir að taka í notkun framleiðslutækni sem ekki hefur áður verið almennt í notkun og skal viðkomandi eftirliti tilkynnt um slíkar fyrirætlanir.
    1)L. 76/2005, 49. gr.
21. gr. Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. og III. og IX. kafla laganna geta ráðherrar, að höfðu samráði við samstarfsráð, gert með sér samkomulag um að einn og sami aðili annist leyfisveitingar og eftirlit vegna tiltekinnar starfsemi.

IX. kafli. Matvælaeftirlit.
22. gr. Heilbrigðisnefnd hefur undir yfirumsjón [Umhverfisstofnunar] 1) opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla, að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum aðilum. [Umhverfisstofnun] 1) skráir nauðsynlegar upplýsingar um framleiðslu og dreifingu matvæla vegna matvælaeftirlits. [Umhverfisstofnun skal hafa aðgang að niðurstöðum úr sýnatökum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Þá er ráðherra heimilt að fela stofnuninni eftirlit með afmörkuðum þáttum.] 2)
[Landbúnaðarstofnun] 3) hefur yfirumsjón opinbers eftirlits með matvælum sem falla undir ákvæði 6. gr. laga þessara.
Fiskistofa hefur með höndum opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla sem falla undir ákvæði 7. gr. laganna.
    1)L. 164/2002, 19. gr. 2)L. 68/2006, 10. gr. 3)L. 76/2005, 49. gr.
23. gr. Hlutaðeigandi ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að opinberir eftirlitsaðilar skuli hljóta faggildingu. Það sama á við um aðra aðila sem kunna að taka að sér eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla. Hlutaðeigandi ráðherra er einnig heimilt að ákveða að rannsóknir og útgáfa vottorða vegna eftirlits samkvæmt lögum þessum skuli framkvæmd af aðilum sem hlotið hafa faggildingu.
Hlutaðeigandi ráðherra er heimilt með reglugerð 1) að ákveða með hvaða hætti komið skal á innra eftirliti framleiðenda og dreifenda matvæla og hvort og þá með hvaða skilyrðum það getur verið þáttur í opinberu eftirliti.
Samstarfsráð skal vera ráðherrum til ráðgjafar um undirbúning lagafrumvarpa og reglugerða varðandi faggildingu rannsóknar- og eftirlitsaðila og einnig varðandi innra eftirlit.
    1)Rg. 40/1999, rg. 730/2003.
24. gr. Matvælaframleiðendum og dreifendum er skylt að láta aðilum, sem fara með eftirlit samkvæmt lögum þessum, endurgjaldslaust í té nauðsynleg sýni til rannsókna og veita þeim allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar teljast við framkvæmd eftirlitsins. Jafnframt er skylt að veita óhindraðan aðgang til eftirlits á þeim stöðum þar sem framleiðsla eða dreifing matvæla á sér stað.
Eftirlitsaðilar eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd er þeir kunna að komast að við leyfisveitingar, sbr. VIII. kafla, og framkvæmd eftirlits.
[Eftirlitsaðilar og þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim skulu tilkynna til hlutaðeigandi stofnana, sem eru ráðuneytum til ráðgjafar samkvæmt ákvæðum III. kafla laganna, ef gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum eða aðrar ástæður benda til hættu á heilsutjóni vegna neyslu matvæla. Sama tilkynningarskylda á við um þá sem starfa við rannsóknir og greiningu á matvælum ef þeir greina í matvælum örverur sem geta valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum.] 1)
    1)L. 169/2000, 2. gr.

X. kafli. Rekstrarkostnaður og gjaldtaka.
25. gr. Hlutaðeigandi ráðherra getur sett gjaldskrá vegna kostnaðar að því er varðar starfsemi [Umhverfisstofnunar], 1) Fiskistofu og [Landbúnaðarstofnunar] 2) vegna matvælaeftirlits, sbr. 22. gr. Þá skal hlutaðeigandi ráðherra setja gjaldskrá vegna opinberra matvælarannsókna. Gjald samkvæmt þessum ákvæðum má taka lögtaki og setur hlutaðeigandi ráðherra reglugerð með nánari ákvæðum um upphæð þess, gjaldskyldu, innheimtu, gjalddaga, lögvernd og annað er lýtur að innheimtu gjaldsins. [Gjaldtaka [Umhverfisstofnunar], 1) Fiskistofu og [Landbúnaðarstofnunar] 2) skal taka mið af kostnaði við undirbúning, ferð, skoðun, frágang, sýnatöku og rannsókn sýna vegna matvælaeftirlits.] 3)
Eftirlitsgjöld heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga vegna matvælaeftirlits skulu vera samkvæmt lögum um hollustuhætti og [mengunarvarnir]. 3)
    1)L. 164/2002, 19. gr. 2)L. 76/2005, 49. gr. 3)L. 169/2000, 3. gr.
26. gr. [Hlutaðeigandi ráðherra skal setja gjaldskrá vegna útgáfu starfsleyfa og vottorða skv. VIII. og IX. kafla laganna, svo og vegna skráningar og móttöku umsókna um heimild til notkunar aukefna og annarra slíkra leyfisveitinga. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði sem hlýst af útgáfu starfsleyfa og vottorða, skráningu og móttöku umsókna og leyfisveitingum og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.] 1)
    1)L. 169/2000, 4. gr.
27. gr. Heimilt er að gera kröfu um að hlutaðeigandi framleiðandi eða dreifandi greiði nauðsynlegan rannsóknarkostnað. Til að slík krafa verði höfð uppi þarf rökstuddur grunur að leika á að vara eða starfsemi uppfylli ekki ákvæði laga eða reglugerða settra samkvæmt þeim og ekki mega liggja fyrir vottorð faggiltra aðila sem sýna annað. [Gjaldtaka skal taka mið af kostnaði við rannsókn og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.] 1)
    1)L. 169/2000, 5. gr.

XI. kafli. Valdsvið.
28. gr. Þegar hætta er talin á að matvæli geti valdið alvarlegu heilsutjóni er ráðherra heimilt að fyrirskipa nauðsynlegar varúðar- og varnaðaraðgerðir sem geta náð til alls landsins eða hluta þess. Skal ráðherra, eftir því sem við á, hafa samráð við landlækni, [Umhverfisstofnun], 1) [Landbúnaðarstofnun] 2) eða Fiskistofu áður en til slíkra aðgerða er gripið.
    1)L. 164/2002, 19. gr. 2)L. 76/2005, 49. gr.
29. gr. Eftirlitsaðila er heimilt að stöðva eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur er um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.
Þegar eftirlitsaðilar leggja hald á matvæli er þeim heimil förgun þeirra sé það talið nauðsynlegt, sbr. og 9. mgr. 27. gr. laga nr. 81/1988, 1) um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
Þegar eftirlitsaðili stöðvar dreifingu vöru, svo sem inn- eða útflutning, og hætta er talin á að vörunni verði þrátt fyrir það dreift á markað þar sem eftirlit er í höndum annars aðila er eftirlitsaðilum skylt að hafa samráð sín á milli og gera viðeigandi ráðstafanir.
    1)l. 7/1998.
30. gr. Um valdsvið og þvingunarúrræði eftirlitsaðila gilda að öðru leyti ákvæði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

XII. kafli. Málsmeðferð, úrskurðir og viðurlög.
31. gr. Sá er sekur gerist um brot gegn ákvæðum þessara laga skal greiða allan kostnað sem leitt hefur af útvegun sýna, rannsóknum á þeim og öðru sem af broti hefur hlotist. Um málsmeðferð, úrskurði og viðurlög gilda að öðru leyti ákvæði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

XIII. kafli. Gildistaka.
32. gr. Með lögum þessum, sem öðlast þegar gildi, falla úr gildi …