Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 10. október 2011.  Útgáfa 139b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri

2010 nr. 24 30. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. apríl 2010. Falla úr gildi 31. desember 2011. Breytt með l. 135/2010 (tóku gildi 2. des. 2010) og l. 165/2010 (tóku gildi og komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 69. gr.).


1. gr. Umsókn um greiðsluuppgjör.
[Lögaðilar og einstaklingar sem eru og hafa verið í atvinnurekstri og eru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 geta sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011.] 1)
[Einstaklingar sem sótt hafa um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, geta sótt um greiðsluuppgjör samkvæmt lögum þessum vegna vangoldins virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda. Hafni umboðsmaður skuldara umsókn einstaklings um greiðsluaðlögun skal umsókn samkvæmt þessari málsgrein afgreidd í samræmi við 1. mgr.] 1)
Umsókn skal beint til tollstjóra óháð lögheimili umsækjanda. Tollstjóra er heimilt að samþykkja umsókn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. 2. gr.
    1)L. 165/2010, 37. gr.
2. gr. Skilyrði greiðsluuppgjörs.
Skilyrði fyrir fresti til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. eru eftirfarandi:
    1. Umsækjandi skal vera í skilum með aðra skatta og gjöld en þau sem tilgreind eru í 1. mgr. 1. gr. þegar umsókn er lögð fram.
    2. Umsækjandi skal vera í skilum með alla skatta og gjöld sem gjaldfalla frá 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011.
    3. Umsækjandi skal lýsa því yfir að hann muni skila inn skilagreinum og framtölum til að tryggja rétta álagningu gjalda.
    4. Umsækjandi skal við umsókn um greiðsluuppgjör skv. 1. gr. viðurkenna greiðsluskyldu vegna þeirra krafna sem frests njóta.
3. gr. Réttaráhrif greiðsluuppgjörs.
Dráttarvextir eru ekki lagðir á kröfur sem njóta frests til greiðsluuppgjörs á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011. Innheimtumaður ríkissjóðs skal skuldajafna inneignum sem myndast vegna krafna, sem hefur verið frestað skv. 1. gr., upp í þær kröfur.
Séu fullnustugerðir hafnar vegna krafna sem njóta frests til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. skal innheimtumaður ríkissjóðs fresta þeim eða afturkalla þær eftir atvikum.
4. gr. Ógilding greiðsluuppgjörs.
Standi aðili sem nýtur frests til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. ekki í skilum með greiðslu skatta og opinberra gjalda sem falla í gjalddaga eftir 1. janúar 2010 fellur frestur til greiðsluuppgjörs niður og dráttarvextir reiknast á vanskil eins og frestur til greiðsluuppgjörs hefði ekki verið veittur.
Verði bú aðila sem nýtur frests til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. tekið til gjaldþrotaskipta á tímabili frestsins fellur heimild til greiðsluuppgjörs niður og dráttarvextir leggjast á vanskil eins og heimild hefði ekki verið veitt.
5. gr. Umsókn um skuldbreytingu.
Hafi umsækjandi um greiðsluuppgjör haldið skilyrði 2. gr. fram til 1. júlí 2011 er tollstjóra heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs til greiðslu þeirra skatta og gjalda sem voru í fresti til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr.
Skuldabréfið skal vera til fimm ára með jöfnum mánaðarlegum afborgunum og með fyrstu greiðslu [1. júlí 2012]. 1) Skuldabréfið skal vera verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs 1. júlí 2011, en án vaxta.
Hafi umsækjandi greiðsluuppgjörs ekki fengið álagningar byggðar á áætlunum leiðréttar fyrir 1. júlí 2011 er ekki heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs skv. 1. mgr. og dráttarvextir leggjast á vanskil eins og heimild til greiðsluuppgjörs hefði ekki verið veitt.
    1)L. 165/2010, 38. gr.
[6. gr. Sérstök niðurfelling á tekjuskatti lögaðila sem gjaldfallið hefur fyrir 1. janúar 2010.
Hafi umsækjandi skv. 1. gr. fengið sértæka skuldaaðlögun samkvæmt lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, er tollstjóra heimilt að fallast á beiðni um niðurfellingu tekjuskatts að hluta, enda telji tollstjóri hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með slíkri niðurfellingu. Umsækjanda ber að leggja fram þau gögn sem hin sértæka skuldaaðlögun byggist á ásamt öðrum þeim gögnum sem tollstjóri fer fram á.
Hafi umsækjandi skv. 1. gr. ekki fengið sértæka skuldaaðlögun samkvæmt lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, er tollstjóra heimilt að fallast á beiðni um niðurfellingu tekjuskatts að hluta, enda telji tollstjóri hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með slíkri niðurfellingu. Umsækjanda ber að leggja fram þau gögn sem tollstjóri fer fram á.
Fallist tollstjóri á niðurfellingu tekjuskatts skv. 1. og 2. mgr. kemur slík niðurfelling til framkvæmdar þegar umsækjandi hefur uppfyllt öll önnur skilyrði laga þessara. Tollstjóri gefur út skuldabréf vegna þess hluta tekjuskatts sem ekki er felldur niður í samræmi við ákvæði 5. gr. Niðurfelling tekjuskatts kemur þó aldrei til greina ef skattkrafa er tilkomin vegna endurákvörðunar skattyfirvalda á tekjuskatti vegna skattsvika.] 1)
    1)L. 165/2010, 39. gr.
[7. gr.]1) Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 31. desember 2011.
    1)L. 165/2010, 39. gr.