Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2016.  Útgáfa 145a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um viðauka við lög nr. 3/1955, um skógrækt

1966 nr. 22 16. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 6. maí 1966. Breytt með l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis- og auðlindaráðherra eða umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Ríkissjóður styrkir ræktun skjólbelta eftir því, sem fé er veitt á fjárlögum, og samkvæmt því, sem nánar greinir í lögum þessum.
2. gr. Skógræktarstjóri hefur yfirumsjón með ræktun skjólbelta. Hann aflar upplýsinga um áætlaðar framkvæmdir í ræktun skjólbelta næsta ár og gerir, að þeim fengnum, tillögur til [þess ráðuneytis er fer með málefni landbúnaðar] 1) um fjárveitingu á næsta ári, áður en frumvarp til fjárlaga er lagt fyrir Alþingi.
    1)L. 126/2011, 45. gr.
3. gr. Eftirgreindir aðilar geta notið styrks samkvæmt 1. gr.:
    a. Ábúendur lögbýla og garðyrkjubýla.
    b. Félagsbundin samtök um ræktun korns eða garðávaxta, enda sé land það, er tekið er til ræktunar, eigi minna en 10 hektarar að flatarmáli.
4. gr. Styrk má því aðeins veita, að fullnægt sé eftirtöldum skilyrðum:
    a. Að skógarvörður og héraðsráðunautur hafi mælt með framkvæmdum.
    b. Að fylgt hafi verið fyrirmælum skógarvarðar um legu skjólbelta og gerð þeirra.
    c. Að eigandi eða vörslumaður lands eða jarðar hafi annast jarðvinnslu og lagt til nægan áburð samkvæmt fyrirmælum skógarvarðar.
    d. Að landssvæði það sem vernda skal, hafi verið girt löggirðingu, sbr. 16. gr. laga nr. 3/1955, um skógrækt.
    e. Að lokið sé ákveðnum áfanga gróðursetningar, sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
5. gr. Girðingarstyrk skal aðeins miða við girðingu utan um samfellt ræktunarland. Vilji eigandi eða vörslumaður nota landið til beitar, er honum skylt að girða reinarnar, svo að öruggt sé, að skjólbeltin bíði ekki tjón af beitinni.
Verði tjón á skjólbeltum vegna búfjárbeitar, er veittur styrkur afturkræfur að nokkru eða öllu leyti.
6. gr. Styrkur skv. 1. gr. má nema allt að 1/ 3 af girðingarkostnaði og 1/ 2 af andvirði trjáplantna og kostnaði við gróðursetningu.
Skógarverðir eða héraðsráðunautar gera úttekt á skjólbeltaframkvæmdum.
7. gr. Skylt er eiganda skjólbeltis eða vörslumanni að fara eftir fyrirmælum skógarvarðar um friðun og hirðingu þess. Lendi skjólbelti í vanhirðu, er heimilt að endurheimta styrk þann, sem veittur var.
Að fimm árum liðnum frá gróðursetningu skjólbeltis er heimilt að veita eiganda eða vörslumanni þess verðlaun, er samsvari allt að fjárhæð 2ja ára hirðingarkostnaði, ef ræktun skjólbeltis hefur tekist vel.
8. gr. Verði eigenda- eða ábúendaskipti á landssvæði eða jörð, þar sem skjólbeltarækt hefur verið styrkt samkvæmt lögum þessum, ber sá, er við tekur, ábyrgð á því, að skjólbelti sé friðað og hirt. Vanræki hann það, er heimilt að heimta úr hendi hans þann styrk, sem veittur hefur verið.
9. gr. [Ráðherra er fer með málefni landbúnaðar] 1) setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
    1)L. 126/2011, 45. gr.