Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 15. apríl 2018.  Útgáfa 148b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands

2010 nr. 77 25. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2010. Breytt með l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eða samgöngu- og sveitarstjórnarsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Þjóðskrá og Fasteignaskrá Íslands skulu sameinast í eina ríkisstofnun er nefnist Þjóðskrá Íslands.
[Ráðherra] 1) fer með framkvæmd laga þessara.
    1)L. 126/2011, 530. gr.
2. gr.
Þjóðskrá Íslands er ábyrgðaraðili að almannaskráningu og skal fylgja lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þar á meðal um öryggi gagna, fræðslu og tilkynningarskyldu. Halda skal gagnagrunnum er lúta að almannaskráningu aðskildum frá öðrum skrám ábyrgðaraðila. Þó eru heimilar samkeyrslur til uppfærslna á heimilisföngum. Aðra vinnslu skal tilkynna til Persónuverndar.
3. gr.
Hlutverk stjórnar skv. 9. gr. laga nr. 6/2001 helst óbreytt. Starfssvið stjórnar nær þó ekki til starfsemi Þjóðskrár Íslands sem fellur undir lög nr. 54/1962 eða annarra laga um starfsemi Þjóðskrár.
4. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2010.
Við gildistöku laga þessara tekur Þjóðskrá Íslands, sbr. 1. gr., við eignum og skuldbindingum Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir eða skuldir beggja aðila í fjárlögum fyrir árið 2010.
5. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
Starfsmenn Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands, sem eru í starfi við gildistöku laga þessara, verða starfsmenn Þjóðskrár Íslands með sömu starfskjörum og áður giltu. Um rétt starfsmanna til starfa hjá Þjóðskrá Íslands fer eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.