Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. september 2018. Útgáfa 148c. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um dómstóla
2016 nr. 50 7. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2018 nema brbákv. I, II, IV, V og VI sem tóku gildi 14. júní 2016. Breytt með l. 117/2016 (tóku gildi 1. jan. 2018, nema 52., 53., 75., 76. og 79.–81. gr. sem tóku gildi 28. okt. 2016), l. 130/2016 (tóku gildi 1. júlí 2017), l. 10/2017 (tóku gildi 1. mars 2017) og l. 90/2017 (tóku gildi 29. des. 2017).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Dómstólaskipanin.
1. gr. Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur aðsetur í Reykjavík.
2. gr. Landsréttur.
Landsréttur er áfrýjunardómstóll og hefur aðsetur í Reykjavík.
3. gr. Fjöldi héraðsdómstóla og umdæmi þeirra.
Dómstólar í héraði eru átta. Heiti þeirra, aðsetur og umdæmi eru sem hér segir:
1. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur aðsetur í Reykjavík og heyra þessi sveitarfélög til umdæmi hans: Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.
2. Héraðsdómur Vesturlands hefur aðsetur í Borgarnesi og heyra þessi sveitarfélög til umdæmi hans: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær og Stykkishólmsbær.
3. Héraðsdómur Vestfjarða hefur aðsetur á Ísafirði og heyra þessi sveitarfélög til umdæmi hans: Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og Strandabyggð.
4. Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur aðsetur á Sauðárkróki og heyra þessi sveitarfélög til umdæmi hans: Húnaþing vestra, Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Sveitarfélagið Skagaströnd, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.
5. Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur aðsetur á Akureyri og heyra þessi sveitarfélög til umdæmi hans: Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Norðurþing, Tjörneshreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð.
6. Héraðsdómur Austurlands hefur aðsetur á Egilsstöðum og heyra þessi sveitarfélög til umdæmi hans: Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður.
7. Héraðsdómur Suðurlands hefur aðsetur á Selfossi og heyra þessi sveitarfélög til umdæmi hans: Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Ásahreppur, Flóahreppur, Bláskógabyggð, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Vestmannaeyjabær og Sveitarfélagið Árborg.
8. Héraðsdómur Reykjaness hefur aðsetur í Hafnarfirði og heyra þessi sveitarfélög til umdæmi hans: Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Vogar, Reykjanesbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær og Kópavogsbær.
Umdæmi hvers héraðsdómstóls skal vera ein þinghá. Frá þessu má ráðherra þó víkja með reglugerð 1) að fenginni umsögn hlutaðeigandi héraðsdómstóls og dómstólasýslunnar.
Verði heiti sveitarfélags sem getið er í 1. mgr. breytt eða sameinist tvö eða fleiri þeirra skal litið svo á að sveitarfélagið, sem til verður í staðinn, heyri til því dómumdæmi sem það eldra eða þau eldri heyrðu til. Ef sameinuð eru tvö eða fleiri sveitarfélög sem hvort eða hvert heyra til sínu dómumdæmi eftir ákvæðum 1. mgr. skal ráðherra ákveða með reglugerð undir hvaða umdæmi nýja sveitarfélagið eigi þar til annarri skipan verður komið á með lögum.
1)Rg. 1122/2017.
4. gr. Aðrir dómstólar.
Aðrir dómstólar eru Félagsdómur og Landsdómur. Um þá gilda ákvæði í öðrum lögum.
II. kafli. Sameiginleg stjórnsýsla dómstólanna.
5. gr. Dómstólasýslan.
Dómstólasýslan er sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna.
6. gr. Stjórn dómstólasýslunnar.
Ráðherra skipar fimm menn sem mynda stjórn dómstólasýslunnar. Einn þeirra skal kjörinn af hæstaréttardómurum úr þeirra röðum og skal hann vera formaður, annar kjörinn af landsréttardómurum úr þeirra röðum og sá þriðji kjörinn af héraðsdómurum úr þeirra röðum. Sá fjórði skal kjörinn af starfsmönnum dómstóla öðrum en dómurum. Ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann ekki vera starfsmaður dómstólanna. Skipunartími í stjórnina er fimm ár en þó þannig að hvert ár renni út skipunartími eins stjórnarmanns. Hver þessara fimm manna skal hafa varamann sem skipaður er og eftir atvikum tilnefndur á sama hátt og aðalmaður. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns oftar en tvisvar samfleytt. Láti dómari, sem sæti á eða er varamaður í stjórn dómstólasýslunnar, af embætti áður en skipunartími hans er á enda eða fái hann lausn frá setu í stjórninni skal annar kjörinn og skipaður í hans stað til loka skipunartímans. Ráðherra skipar til sama tíma nýjan mann í stjórnina ef sá sem hann skipar án tilnefningar hverfur frá starfinu áður en skipunartíma lýkur.
Stjórn dómstólasýslunnar skipar framkvæmdastjóra hennar til fimm ára í senn og fer hann með daglega stjórn dómstólasýslunnar í umboði stjórnar. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn dómstólasýslunnar. Framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar er embættismaður og fer um stöðu hans að öðru leyti eftir almennum reglum um slíka starfsmenn ríkisins. Þann einn má skipa í embættið sem hefur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.
Stjórn dómstólasýslunnar ákveður hvar starfsemi hennar fer fram.
[Ráðherra] 1) ákveður þóknun fyrir setu í stjórn dómstólasýslunnar.
1)L. 130/2016, 8. gr.
7. gr. Hlutverk stjórnar dómstólasýslunnar.
Stjórn dómstólasýslunnar leggur mat á og gerir tillögu til ráðherra um nauðsynlegar fjárveitingar til dómstólasýslunnar, Hæstaréttar og Landsréttar og sameiginlega fjárveitingu til héraðsdómstólanna. Sé vikið frá tillögum dómstólasýslunnar skal ráðherra greina fjárlaganefnd frá ástæðum þess auk þess sem gera skal grein fyrir frávikum í frumvarpi til fjárlaga.
Dómstólar skulu skilgreindir sem sérstakt málefnasvið í frumvarpi til fjárlaga og í fjárlögum. Í fjárlögum skal kveðið sundurliðað á um fjárveitingar til Hæstaréttar Íslands, Landsréttar, héraðsdómstólanna sameiginlega og dómstólasýslunnar. Stjórn dómstólasýslunnar skiptir á milli héraðsdómstólanna fé sem skal veitt þeim í einu lagi með fjárlögum.
Stjórn dómstólasýslunnar ákveður fjölda héraðsdómara og annarra starfsmanna við hvern héraðsdómstól og setur almennar reglur um flutning dómara á milli þeirra.
Stjórn dómstólasýslunnar setur reglur um leyfi dómara frá störfum og veitir dómurum leyfi.
Stjórn dómstólasýslunnar setur reglur um meðferð mála hjá dómstólasýslunni og ákveður verkaskiptingu milli stjórnar og framkvæmdastjóra auk þess að ákveða hvaða stjórnsýsluverkefni skuli heyra undir dómstólasýsluna og hver undir forstöðumenn dómstólanna að því leyti sem þessi atriði eru ekki ákveðin í lögum.
8. gr. Hlutverk dómstólasýslunnar.
Auk þess sem mælt er fyrir um í öðrum ákvæðum laga þessara og annarra laga er hlutverk dómstólasýslunnar sem hér segir:
1. Að vera í fyrirsvari fyrir sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna og koma fram gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og öðrum í þágu dómstólanna sameiginlega.
2. Að skipuleggja símenntun dómara og annarra starfsmanna í þjónustu dómstóla.
3. Að fara með yfirstjórn upplýsingamála og tæknimála dómstólanna, annast þróun þeirra mála og gera eftir þörfum ábendingar af því tilefni.
4. Að safna saman og birta upplýsingar um fjölda og afgreiðslu mála við dómstóla og gefa út ársskýrslu um starfsemi sína og dómstólanna.
5. Að stuðla að samræmingu og hafa eftirlit með framkvæmd reglna um málaskrár dómstóla, þingbækur, atkvæðabækur, búnað til upptöku á hljóði og mynd í þinghöldum, dómabækur og varðveislu málsskjala og upptaka í þinghöldum hjá dómstólum, samkvæmt þessum lögum, lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála.
6. Að setja starfsreglur um samræmda framkvæmd við héraðsdómstóla en stjórn dómstólasýslunnar getur ákveðið að slíkar reglur verði bindandi ef þær varða ekki meðferð dómsmáls að því leyti sem dómari ber einn ábyrgð á henni.
7. Að gera tillögur um hvað eina sem getur orðið til úrbóta í störfum dómstóla og löggjöf sem um þá gilda.
9. gr. Nefnd um dómarastörf.
Til að gegna störfum sem mælt er nánar fyrir um í lögum þessum skipar dómstólasýslan þrjá menn til að sitja í nefnd um dómarastörf, svo og jafnmarga til vara. Einn nefndarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Dómarafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu lagadeilda við íslenska háskóla og einn skipar dómstólasýslan án tilnefningar. Skal sá síðastnefndi vera formaður nefndarinnar og fullnægja skilyrðum til að vera skipaður í embætti hæstaréttardómara, að frátöldu aldurshámarki. Tilnefningaraðilar skulu tilnefna bæði karl og konu, jafnt í sæti aðalmanns sem varamanns, en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Dómstólasýslan skal gæta þess við skipun í nefndina að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í ráð og nefndir sé fullnægt. Skipunartími nefndarmanna er sex ár en þó þannig að annað hvert ár renni út skipunartími eins nefndarmanns. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.
Ekki skal skipa í nefndina starfandi dómara.
Nefnd um dómarastörf er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og verður úrlausnum nefndarinnar ekki skotið til annars stjórnvalds. Um meðferð mála hjá nefndinni fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.
Nefnd um dómarastörf hefur aðstöðu hjá dómstólasýslunni. [Stjórn dómstólasýslunnar] 1) ákveður þóknun fyrir setu í nefndinni.
1)L. 130/2016, 8. gr.
10. gr. Hlutverk nefndar um dómarastörf.
Hlutverk nefndar um dómarastörf er nánar tilgreint sem hér segir:
1. Að setja almennar reglur 1) um hvers konar aukastörf og eignarhald á hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki, eða þátttaka og störf í þágu annarra félaga og samtaka, geti samrýmst embættisstörfum dómara og leysa úr álitaefnum þar að lútandi, sbr. 45. gr.
2. Að halda og birta opinberlega skrá um aukastörf dómara og þau störf sem dómari gegndi áður en hann tók við embætti. Nefnd um dómarastörf setur í samráði við dómstólasýsluna reglur 1) um hvaða upplýsingar um aukastörf dómara skuli birtar og með hvaða hætti.
3. Að taka við og leysa úr kvörtunum þess sem telur dómara, eða eftir atvikum aðstoðarmann dómara, hafa gert á sinn hlut í störfum sínum og slíkum kvörtunum sem vísað er til hennar af forstöðumanni dómstóls eða ráðherra, sbr. 47. gr.
Álit nefndar um dómarastörf skulu birt. Nefnd um dómarastörf setur í samráði við dómstólasýsluna reglur um birtingu álita nefndarinnar.
1) Rgl. 1165/2017.
III. kafli. Skipun dómara.
11. gr. Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara.
Ráðherra skipar fimm aðalmenn og jafnmarga varamenn í dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara, landsréttardómara og héraðsdómara. Einn nefndarmanna skal tilnefndur af Hæstarétti og skal hann vera formaður nefndarinnar. Einn nefndarmanna skal tilnefndur af Landsrétti. Dómstólasýslan tilnefnir þriðja nefndarmanninn og skal hann ekki vera starfandi dómari en Lögmannafélags Íslands þann fjórða. Fimmti nefndarmaðurinn skal kosinn af Alþingi. Tilnefningaraðilar skulu tilnefna bæði karl og konu, jafnt í sæti aðalmanns sem varamanns, en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Ráðherra skal gæta þess við skipun í nefndina að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í ráð og nefndir sé fullnægt. Skipunartími í nefndina er fimm ár en þó þannig að hvert ár renni út skipunartími eins nefndarmanns. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.
Dómnefndin hefur aðstöðu hjá dómstólasýslunni.
12. gr. Umsögn dómnefndar og skipun dómara.
Dómnefnd lætur ráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti dómara. Í umsögn dómnefndar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið en heimilt er að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna. Að öðru leyti setur ráðherra nánari reglur um störf nefndarinnar.
Óheimilt er að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum til að hljóta skipun í embættið. Ráðherra skal þá leggja slíka tillögu fyrir Alþingi innan tveggja vikna frá því að umsögn dómnefndar er afhent honum eða innan þess tíma frá því að Alþingi kemur næst saman eftir að umsögn er fengin og verður tillaga að vera samþykkt innan mánaðar frá því að hún er lögð fram, ella er ráðherra bundinn af umsögn dómnefndar.
IV. kafli. Hæstiréttur Íslands.
13. gr. Almenn hæfisskilyrði.
Í Hæstarétti Íslands eiga sæti sjö dómarar sem forseti Íslands skipar ótímabundið samkvæmt tillögu ráðherra.
Þann einn má skipa í embætti hæstaréttardómara sem fullnægir þessum skilyrðum:
1. Hefur náð 35 ára aldri.
2. Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
3. Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
4. Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
5. Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
6. Hefur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.
7. Hefur starfað í minnst þrjú ár sem landsréttardómari, héraðsdómari, [lögmaður með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti], 1) prófessor í lögum, lögreglustjóri, sýslumaður, saksóknari, ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri í ráðuneyti því sem fer með málefni dómstóla og réttarfars eða umboðsmaður Alþingis eða hefur um jafnlangan tíma gegnt öðru líku starfi sem veitir hliðstæða lögfræðilega reynslu.
8. Telst vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar.
Í embætti hæstaréttardómara má ekki skipa þann sem er eða hefur verið í hjúskap við dómara sem þar er skipaður fyrir eða skyldur slíkum dómara eða mægður að feðgatali, niðjatali eða öðrum lið til hliðar.
1)L. 117/2016, 77. gr.
14. gr. Forseti og varaforseti Hæstaréttar.
Hæstaréttardómarar kjósa sér forseta til fimm ára í senn og varaforseta til sama tíma. Varaforseti gegnir störfum forseta þegar hann hefur forföll eða er fjarstaddur. Biðjist forseti eða varaforseti lausnar frá því starfi eða láti hann af dómaraembætti áður en kjörtímabili er lokið skulu dómarar kjósa annan í hans stað til loka þess. Hæstiréttur tilkynnir um kjör forseta og varaforseta með auglýsingu í Lögbirtingablaði.
Forseti fer með yfirstjórn Hæstaréttar og ber ábyrgð á rekstri Hæstaréttar og fjárreiðum með þeim takmörkunum sem leiða af öðrum ákvæðum laga. Forseti stýrir meðal annars þeirri starfsemi Hæstaréttar sem er ekki hluti af meðferð máls fyrir dómi og skiptir verkum milli dómara og annarra starfsmanna. Honum ber að fylgjast með störfum dómara og annarra starfsmanna. Hann annast samskipti við dómstólasýsluna um þau málefni sem undir hana heyra og hefur annars með höndum verkefni sem dómstólasýslan kann að fela honum sérstaklega. Þá kemur forseti að öðru leyti fram út á við í þágu dómstólsins og er í fyrirsvari um sérstök málefni hans.
Nú eru hvorki forseti Hæstaréttar né varaforseti við störf eða hvorugur þeirra getur tekið þátt í afgreiðslu máls eða öðru embættisverki og kemur þá í stað forseta sá dómari sem lengst hefur verið skipaður hæstaréttardómari.
15. gr. Starfsmenn Hæstaréttar.
Forseti Hæstaréttar skipar dómstólnum skrifstofustjóra til fimm ára í senn samkvæmt ákvörðun dómenda þar. Skrifstofustjóri stýrir daglegum rekstri dómstólsins eftir nánari ákvörðun forseta og í umboði hans, auk þess að gegna öðrum störfum sem forseti kann að mæla fyrir um. Skrifstofustjóri Hæstaréttar er embættismaður og fer um stöðu hans að öðru leyti eftir almennum reglum um slíka starfsmenn ríkisins. Þann einn má skipa í embættið sem hefur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum. [Stjórn dómstólasýslunnar ákveður laun og starfskjör skrifstofustjóra.] 1)
Forseti ræður til Hæstaréttar lögfræðimenntaða aðstoðarmenn og aðra starfsmenn og ákveður verksvið þeirra og stöðu. Um ráðningu og starfslok starfsmanna Hæstaréttar fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
1)L. 130/2016, 8. gr.
16. gr. Skipan dóms.
Eftir ákvörðun forseta taka fimm dómarar við Hæstarétt hverju sinni þátt í meðferð máls fyrir dómi. Í sérlega mikilvægum málum getur forseti þó ákveðið að sjö dómarar skipi dóm. Þá getur forseti ákveðið að einn dómari [eða þrír] 1) haldi þing til að taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm.
Ef mál er umfangsmikið getur forseti ákveðið að dómari, sem tekur annars ekki þátt í meðferð þess, hlýði á málflutning og taki sæti í dóminum ef annar dómari forfallast síðar.
Forseti Hæstaréttar stýrir dómi ef hann á þar sæti en ella varaforseti. Taki hvorugur þeirra þátt í meðferð máls situr þar í forsæti sá dómari í málinu sem lengst hefur verið skipaður hæstaréttardómari.
Þrír dómarar skulu að jafnaði taka ákvörðun um áfrýjunarleyfi og um hvort kæra verði tekin til meðferðar og ræður þá meiri hluti atkvæða.
Þegar Hæstiréttur fæst lögum samkvæmt við annað en meðferð máls fyrir dómi taka allir reglulegir dómarar þátt í ákvörðun nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Hafi dómari forföll eða sé hann vanhæfur skal að jafnaði ekki kvaddur til varadómari skv. 17. gr. nema færri en fimm hæstaréttardómarar geti tekið þátt í ákvörðun. [Hæstiréttur getur falið forseta einum að ráða til lykta ýmsum minni háttar málum.] 1)
1)L. 90/2017, 1. gr.
17. gr. Varadómarar.
Nú geta færri en fimm, eða eftir atvikum sjö, hæstaréttardómarar tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis, leyfis eða annarra forfalla til skamms tíma og setur þá ráðherra samkvæmt tillögu forseta Hæstaréttar dómara til að taka sæti í því. Varadómari skal koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Heimilt er að setja dómara samkvæmt ákvæði þessu þótt hann hafi náð 70 ára aldri.
Nú eru allir hæstaréttardómarar vanhæfir til að skipa dóm í máli og skal þá ráðherra setja dómara í dóminn að tillögu nefndar sem starfar skv. III. kafla. Þegar dómurinn hefur verið settur velja varadómarar einn úr sínum hópi til þess að sitja þar í forsæti.
Varadómari verður ekki leystur frá starfi í máli nema eftir sömu reglum og gilda um skipaða dómara.
Hæstiréttur ákveður þóknun varadómara fyrir hvert mál sem hann situr í og greiðist hún úr ríkissjóði.
18. gr. Leyfi dómara við Hæstarétt.
Dómara við Hæstarétt verður ekki veitt leyfi frá störfum af öðrum sökum en vegna veikinda í lengri tíma en tólf mánuði samfleytt.
Ekki verður sett í embætti dómara á leyfistíma nema brýn nauðsyn krefji, svo sem vegna forfalla fleiri en eins dómara. Að fenginni tillögu nefndar sem starfar skv. III. kafla setur ráðherra dómara í embætti meðan á leyfi reglulegs dómara stendur. Settur dómari skal þá koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Við setningu dómara til lengri tíma en sex mánaða skal embættið auglýst og við veitingu þess gætt ákvæða III. kafla.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að veita hæstaréttardómara leyfi frá störfum að eigin ósk í allt að sex ár til þess að hann geti tekið sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfi við alþjóðastofnun. Skal embættið þá auglýst laust til setningar á leyfistímanum en við veitingu þess skal gætt ákvæða III. kafla.
Sá einn verður settur til að gegna embætti hæstaréttardómara sem fullnægir skilyrðum til að verða skipaður í það. Heimilt er að setja dómara skv. 2. mgr. þótt hann hafi náð 70 ára aldri. Meðan á setningu stendur nýtur sá sem hana hefur fengið sömu stöðu og skipaður dómari nema að því leyti sem leiðir af því að starfi hans er markaður ákveðinn tími.
19. gr. Dómþing.
Hæstiréttur heldur dómþing í Reykjavík nema sérstök ástæða sé til annars.
Hæstiréttur getur ákveðið að draga úr eða fella niður tímabundið reglulega starfsemi til að koma megi við orlofi dómara og annarra starfsmanna.
20. gr. Útgáfa dóma o.fl.
Um þingbækur, dómabækur, atkvæðabækur og málaskrár fer samkvæmt reglum sem Hæstiréttur setur að höfðu samráði við dómstólasýsluna.
Dómar Hæstaréttar skulu gefnir út ásamt þeim úrlausnum Landsréttar og héraðsdómstóla sem við eiga hverju sinni. Við útgáfu dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari eftir reglum sem rétturinn setur. Um tilhögun útgáfunnar fer að öðru leyti eftir ákvörðun Hæstaréttar að höfðu samráði við dómstólasýsluna.
V. kafli. Landsréttur.
21. gr. Almenn hæfisskilyrði.
Í Landsrétti eiga sæti 15 dómarar sem forseti Íslands skipar ótímabundið samkvæmt tillögu ráðherra.
Þann einn má skipa í embætti landsréttardómara sem fullnægir þessum skilyrðum:
1. Hefur náð 35 ára aldri.
2. Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
3. Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
4. Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
5. Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
6. Hefur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.
7. Hefur starfað í minnst þrjú ár sem … 1) héraðsdómari, [lögmaður með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti], 2) prófessor eða dósent í lögum, lögreglustjóri, sýslumaður, saksóknari, ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri í ráðuneyti því sem fer með málefni dómstóla og réttarfars eða umboðsmaður Alþingis eða hefur um jafnlangan tíma gegnt öðru líku starfi sem veitir hliðstæða lögfræðilega reynslu.
8. Telst vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar.
Í embætti landsréttardómara má ekki skipa þann sem er eða hefur verið í hjúskap við dómara sem þar er skipaður fyrir eða skyldur slíkum dómara eða mægður að feðgatali, niðjatali eða öðrum lið til hliðar.
1)L. 90/2017, 2. gr. 2)L. 117/2016, 77. gr.
22. gr. Forseti og varaforseti Landsréttar.
Landsréttardómarar kjósa sér forseta til fimm ára í senn og varaforseta til sama tíma. Varaforseti gegnir störfum forseta þegar hann hefur forföll eða er fjarstaddur. Biðjist forseti eða varaforseti lausnar frá því starfi eða láti hann af dómaraembætti áður en kjörtímabili er lokið skulu dómarar kjósa annan í hans stað til loka þess. Landsréttur tilkynnir um kjör forseta og varaforseta með auglýsingu í Lögbirtingablaði.
Forseti fer með yfirstjórn Landsréttar og ber ábyrgð á rekstri Landsréttar og fjárreiðum með þeim takmörkunum sem leiðir af öðrum ákvæðum laga. Forseti stýrir meðal annars þeirri starfsemi Landsréttar sem er ekki hluti af meðferð máls fyrir dómi og skiptir verkum milli dómara og annarra starfsmanna. Honum ber að fylgjast með störfum dómara og annarra starfsmanna. Hann annast samskipti við dómstólasýsluna um þau málefni sem undir hana heyra og hefur annars með höndum verkefni sem dómstólasýslan kann að fela honum sérstaklega. Þá kemur forseti að öðru leyti fram út á við í þágu dómstólsins og er í fyrirsvari um sérstök málefni hans.
Nú eru hvorki forseti Landsréttar né varaforseti við störf eða hvorugur þeirra getur tekið þátt í afgreiðslu máls eða öðru embættisverki og kemur þá í stað forseta sá dómari sem lengst hefur verið skipaður landsréttardómari.
23. gr. Starfsmenn Landsréttar.
Forseti Landsréttar skipar dómstólnum skrifstofustjóra til fimm ára í senn samkvæmt ákvörðun dómara réttarins. Skrifstofustjóri stýrir daglegum rekstri dómstólsins eftir nánari ákvörðun forseta og í umboði hans, auk þess að gegna öðrum störfum sem forseti kann að mæla fyrir um. Skrifstofustjóri Landsréttar er embættismaður og fer um stöðu hans að öðru leyti eftir almennum reglum um slíka starfsmenn ríkisins. Þann einn má skipa í embættið sem hefur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum. [Stjórn dómstólasýslunnar ákveður laun og starfskjör skrifstofustjóra.] 1)
Forseti ræður til Landsréttar lögfræðimenntaða aðstoðarmenn og aðra starfsmenn og ákveður verksvið þeirra og stöðu. Um ráðningu og starfslok starfsmanna Landsréttar fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
1)L. 130/2016, 8. gr.
24. gr. Skipan dóms.
Þrír dómarar við Landsrétt taka þátt í meðferð máls fyrir dómi með þeim undantekningum sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Þá getur forseti ákveðið að einn dómari haldi þing til að taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm. Forseti skal úthluta málum og ákveða hver skuli taka sæti dómsformanns hverju sinni. Við úthlutun mála skal forseti gæta þess að starfsálag dómara verði svo jafnt sem auðið er en eftir föngum skal leitast við að tilviljun ráði hvaða dómari fær mál til meðferðar.
Dómara er heimilt að biðjast undan úthlutun máls vegna tengsla við efni þess, aðila, fyrirsvarsmann eða lögmann þótt hann verði ekki talinn vanhæfur til að fara með það, enda sé beiðni hans studd haldbærum rökum og völ á öðrum dómara við Landsrétt til að fara með málið. Forseti tekur afstöðu til beiðna sem þessara.
Ef mál er umfangsmikið getur forseti ákveðið að dómari, sem tekur annars ekki þátt í meðferð þess, hlýði á málflutning og taki sæti í dóminum ef annar dómari forfallast síðar.
Þrír dómarar skulu taka ákvörðun um áfrýjunarleyfi og um hvort kæra verði tekin til meðferðar og ræður þá meiri hluti atkvæða.
Þegar Landsréttur fæst lögum samkvæmt við annað en meðferð máls fyrir dómi taka allir reglulegir dómarar þátt í ákvörðun nema mælt sé á annan veg í lögum. Hafi dómari forföll eða sé hann vanhæfur skal þó að jafnaði ekki kvaddur til varadómari skv. 25. gr. Landsréttur getur falið forseta einum að ráða til lykta ýmsum minni háttar málefnum.
25. gr. Varadómarar.
Nú geta færri en þrír landsréttardómarar tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis, leyfis eða annarra forfalla til skamms tíma og setur þá ráðherra samkvæmt tillögu forseta Landsréttar dómara til að taka sæti í því. Varadómari skal koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti landsréttardómara, sbr. 21. gr. Heimilt er að setja dómara samkvæmt ákvæði þessu þótt hann hafi náð 70 ára aldri.
Nú eru allir landsréttardómarar vanhæfir til að skipa dóm í máli og skal þá ráðherra skipa varadómara í dóminn að tillögu nefndar sem starfar skv. III. kafla. Þegar dómurinn hefur verið skipaður velja dómarar einn úr sínum hópi til þess að sitja þar í forsæti.
Varadómara verður ekki vikið úr starfi nema eftir sömu reglum og gilda um skipaða dómara.
Landsréttur ákveður þóknun varadómara fyrir hvert mál sem hann situr í og greiðist hún úr ríkissjóði.
26. gr. Leyfi dómara við Landsrétt.
Dómara við Landsrétt verður ekki veitt leyfi frá störfum af öðrum sökum en vegna veikinda í lengri tíma en tólf mánuði samfleytt.
Ekki verður sett í embætti dómara á leyfistíma nema brýn nauðsyn krefji, svo sem vegna forfalla fleiri en eins dómara. Að fenginni tillögu nefndar sem starfar skv. III. kafla setur ráðherra dómara í embætti meðan á leyfi reglulegs dómara stendur. Settur dómari skal þá koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti landsréttardómara, sbr. 21. gr. Við setningu dómara til lengri tíma en sex mánaða skal embættið auglýst og við veitingu þess gætt ákvæða III. kafla.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að veita landsréttardómara leyfi frá störfum að eigin ósk til allt að sex ára til þess að hann geti tekið sæti í alþjóðlegum dómstóli eða tekið við starfi við aðra alþjóðastofnun eða þegið setningu sem hæstaréttardómari. Skal embættið þá auglýst laust til setningar annars dómara á leyfistímanum en við veitingu þess skal gætt ákvæða III. kafla.
Sá einn verður settur til að gegna embætti landsréttardómara sem fullnægir skilyrðum til að verða skipaður í það. Heimilt er að setja dómara skv. 2. mgr. þótt hann hafi náð 70 ára aldri. Meðan á setningu stendur nýtur sá sem hana hefur fengið sömu stöðu og skipaður dómari nema að því leyti sem leiðir af því að starfi hans er markaður ákveðinn tími.
27. gr. Dómþing.
Landsréttur heldur dómþing í Reykjavík nema sérstök ástæða sé til annars.
Landsréttur getur ákveðið að draga úr eða fella niður tímabundið reglulega starfsemi til að koma megi við orlofi dómara og annarra starfsmanna.
28. gr. Útgáfa dóma o.fl.
Um þingbækur, dómabækur, atkvæðabækur og málaskrár fer samkvæmt reglum sem Landsréttur setur að höfðu samráði við dómstólasýsluna.
Dómar Landsréttar skulu gefnir út ásamt þeim úrlausnum héraðsdómstóla sem við eiga hverju sinni. Við útgáfu dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari eftir reglum sem rétturinn setur. Um tilhögun útgáfunnar fer að öðru leyti eftir ákvörðun Landsréttar að höfðu samráði við dómstólasýsluna.
VI. kafli. Héraðsdómstólar.
29. gr. Almenn hæfisskilyrði.
Dómarar í héraði eru 42 að tölu og skipaðir ótímabundið í embætti héraðsdómara af ráðherra.
Þann einn má skipa í embætti héraðsdómara sem fullnægir þessum skilyrðum:
1. Hefur náð 30 ára aldri.
2. Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
3. Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
4. Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
5. Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
6. Hefur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.
7. Hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu eða sveitarfélagi en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum.
8. Telst vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar.
30. gr. Starfsvettvangur héraðsdómara.
Dómstólasýslan ákveður við hvaða héraðsdómstól dómari skuli eiga fast sæti. Heimilt er þó að ákveða að allt að þrír héraðsdómarar eigi ekki fast sæti við tiltekinn dómstól, heldur sinni þeir störfum við alla héraðsdómstóla eftir því sem þeim kann að vera úthlutað af málum við hvern þeirra í skjóli almennrar heimildar dómstólasýslunnar. Dómstólasýslan ákveður hvar slíkir dómarar hafi starfsstöð.
Ákvörðun um starfsvettvang skv. 1. mgr. skal hvort heldur gilda um óákveðinn tíma eða tiltekið tímabil. Þegar embætti héraðsdómara er laust skal að jafnaði taka ákvörðun um fyrsta starfsvettvang væntanlegs dómara áður en það er auglýst laust til umsóknar.
Eftir því sem frekast er unnt skal dómstólasýslan taka tillit til óska héraðsdómara þegar starfsvettvangur hans er ákveðinn.
Héraðsdómari á rétt á að skipta um starfsvettvang svo fljótt sem verða má eftir að hafa starfað í þrjú ár við sama dómstól eða án fasts sætis við tiltekinn dómstól, enda standi ákvæði 5. mgr. því ekki í vegi að fengið verði fyrir hann dómarasæti á öðrum vettvangi.
Héraðsdómari verður ekki færður á nýjan starfsvettvang gegn vilja sínum í lengri tíma en sex mánuði á hverju tíu ára tímabili ef hann getur ekki með góðu móti sótt vinnu þar án búferlaflutninga. Þetta gildir þó ekki ef flytja þarf dómara af starfsvettvangi sínum vegna varanlegrar fækkunar dómara þar.
Ef þörf er á héraðsdómara, sem á fast sæti við héraðsdómstól, til að starfa að tilteknu dómsmáli við annan héraðsdómstól, þar á meðal í fjölskipuðum dómi, ákveður dómstólasýslan hverjum verði falið starfið. Dómara er skylt að hlíta slíkri ákvörðun dómstólasýslunnar.
31. gr. Dómstjóri.
Dómstólasýslan skipar dómstjóra við hvern héraðsdómstól til fimm ára í senn. Þar sem þrír eða fleiri dómarar eiga fast sæti við héraðsdómstól kjósa þeir einn úr sínum röðum til að gegna starfinu en séu dómararnir tveir tilnefnir dómstólasýslan annan þeirra til starfans ef þeir koma sér ekki saman um valið. Kosning eða tilnefning bindur ekki dómstólasýsluna um skipun dómstjóra. Ef dómari er einn við héraðsdómstól skal hann skipaður þar dómstjóri. Skipun dómstjóra raskast ekki þótt dómurum við dómstól fjölgi eða fækki á skipunartímanum.
Við héraðsdómstól þar sem þrír eða fleiri héraðsdómarar eiga fast sæti er þeim heimilt að kjósa varadómstjóra en að öðrum kosti telst staðgengill dómstjóra vera sá dómari við dómstólinn sem lengst hefur verið skipaður í embætti héraðsdómara.
Flytjist dómari, sem gegnir starfi dómstjóra, til annars dómstóls eða sé honum veitt lausn frá starfinu eða embætti héraðsdómara skal skipaður nýr dómstjóri samkvæmt því sem segir í 1. mgr.
Auk þess að gegna dómstörfum hefur dómstjóri með höndum stjórn héraðsdómstóls og ber ábyrgð á starfsemi hans. Dómstjóri skiptir verkum milli dómara og annarra starfsmanna, hann getur skipt dómurum í deildir og úthlutar dómurum eða deildum þeirra málum. Dómstjóri ræður aðra starfsmenn dómstóls en héraðsdómara og slítur ráðningu þeirra. Honum ber að fylgjast með störfum dómara og annarra starfsmanna og gæta aga gagnvart þeim að því leyti sem ekki kemur í hlut annarra samkvæmt ákvæðum VIII. kafla. Hann fer á eigin ábyrgð með fé sem dómstólasýslan leggur dómstólnum í hendur, hann annast samskipti við dómstólasýsluna um þau málefni sem undir hana heyra og hefur annars með höndum verkefni sem dómstólasýslan kann að fela honum sérstaklega. Þá kemur dómstjóri að öðru leyti fram út á við í þágu dómstólsins og er í fyrirsvari um sérstök málefni hans.
32. gr. Starfsmenn héraðsdóms.
Til aðstoðar dómurum má ráða lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. Aðstoðarmaður skal ráðinn til fimm ára í senn. Um ráðningu og starfslok starfsmanna héraðsdómstóla fer að öðru leyti eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Dómstjóri getur falið aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Dómstjóri ber ábyrgð á störfum aðstoðarmanns og getur gefið honum fyrirmæli um hvað eina sem lýtur að rækslu þeirra.
33. gr. Úthlutun mála til dómara.
Einn héraðsdómari tekur þátt í meðferð máls fyrir dómi með þeim undantekningum sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Nú taka fleiri en einn dómari þátt í meðferð máls og úthlutar dómstjóri þeim þá máli í sameiningu og velur einn úr hópi þeirra til að sitja þar í forsæti. Sé þörf á héraðsdómara frá öðrum dómstóli til að skipa dóm í máli leitar dómstjóri til dómstólasýslunnar sem felur dómara verkið.
Við úthlutun mála til dómara eða deilda þeirra skal dómstjóri gæta þess að starfsálag þeirra verði svo jafnt sem auðið er en eftir föngum skal leitast við að tilviljun ráði hvaða dómari fær mál til meðferðar.
Sé máli úthlutað deild dómara ákveða þeir sem hana skipa hver þeirra fari með það.
Dómara er heimilt að biðjast undan úthlutun máls vegna tengsla við efni þess, aðila, fyrirsvarsmann eða lögmann þótt hann verði ekki talinn vanhæfur til að fara með það, enda sé beiðni hans studd haldbærum rökum og völ á öðrum dómara við dómstólinn til að fara með málið. Þá er dómara og heimilt að biðjast undan úthlutun vegna sérstakra anna eða þess að jafnaðar sé ekki gætt með henni. Dómstjóri tekur afstöðu til beiðna sem þessara en dómara þeim sem í hlut á er heimilt að skjóta ákvörðun hans til úrlausnar dómstólasýslunnar. Þeirri úrlausn verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
Dómstjóra er heimilt að draga aftur úthlutun án beiðni þess dómara sem hefur fengið mál til meðferðar ef hann verður ekki við tilmælum dómstjóra um að ljúka því innan hæfilegs frests eða veikindi hans eða hliðstæð atvik torvelda að hann geti sinnt því. Hlutaðeigandi dómara er heimilt að skjóta slíkri ákvörðun dómstjóra til úrlausnar dómstólasýslunnar. Þeirri úrlausn verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
Nú víkur héraðsdómari sæti í máli og skal þá dómstjóri úthluta því að nýju, enda fullnægi annar dómari sérstökum hæfisskilyrðum til að fara með það. Ef með þarf getur dómstjóri leitað til dómstólasýslunnar um að hún feli dómara við annan dómstól að taka við úthlutun málsins.
34. gr. Varadómarar.
Fullnægi enginn dómari við héraðsdómstól sérstökum hæfisskilyrðum til að fara með mál kveður dómstjóri í einu lagi upp úrskurð um að þeir víki allir sæti í því. Reynist enginn dómari við annan dómstól heldur hæfur til að fara með málið gefur dómstjóri dómstólasýslunni skriflegt og rökstutt álit um það. Skal þá ráðherra að fenginni tillögu nefndar sem starfar skv. III. kafla setja dómara til að fara með málið.
Varadómari skal fullnægja skilyrðum til að fá skipun í embætti héraðsdómara. Nú hefur dómari verið settur og hann telur þörf á að dómur verði fjölskipaður í málinu með öðrum en sérfróðum meðdómsmönnum, eða það er skylt að lögum, og skal þá ráðherra að ósk hans setja aðra tvo dómara til að fara með málið með honum en sá sem fyrst var settur situr í forsæti í dóminum.
Varadómara verður ekki vikið úr starfi nema eftir sömu reglum og gilda um skipaða dómara.
Dómstólasýslan ákveður þóknun varadómara og greiðist hún úr ríkissjóði.
35. gr. Leyfi héraðsdómara.
Héraðsdómara verður ekki veitt leyfi frá störfum í lengri tíma samfleytt en tólf mánuði nema vegna veikinda. Dómstólasýslan getur þó veitt undanþágu til leyfis í lengri tíma, til mest tólf mánaða í senn, ef dómari leitar eftir því til náms.
Heimilt er að setja héraðsdómara vegna leyfa skipaðra dómara en þó aldrei til skemmri tíma en tólf mánaða nema um sé að ræða leyfi dómara við héraðsdómstól þar sem þrír eða færri dómarar starfa. Að fenginni tillögu nefndar sem starfar skv. III. kafla setur ráðherra héraðsdómara í embætti. Við setningu dómara til lengri tíma en sex mánaða skal embættið auglýst og við veitingu þess gætt ákvæða III. kafla.
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er heimilt að veita héraðsdómara leyfi að eigin ósk frá störfum til allt að sex ára til þess að hann geti tekið sæti í alþjóðlegum dómstóli eða tekið við starfi við aðra alþjóðastofnun eða þegið setningu sem landsréttardómari eða hæstaréttardómari. Skal embættið þá auglýst laust til setningar annars dómara á leyfistímanum en við veitingu þess skal gætt ákvæða III. kafla.
Sá einn verður settur til að gegna embætti héraðsdómara sem fullnægir skilyrðum til að fá skipun í það. Meðan á setningu stendur nýtur sá sem hana hefur fengið sömu stöðu og skipaður dómari.
36. gr. Þingstaður.
Héraðsdómstólar skulu hver um sig hafa fastan þingstað á aðsetri sínu, svo og annars í hverri þinghá samkvæmt ákvörðun ráðherra séu þær fleiri en ein innan umdæmis dómstóls. Um slíka ákvörðun skal mælt í reglum 1) sem dómstólasýslan setur að fenginni tillögu hlutaðeigandi dómstóls og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda.
Héraðsdómari getur háð þing utan fasts þingstaðar til að taka mál fyrir innan umdæmis síns ef það þykir heppilegt vegna rekstrar þess. Með sama skilyrði getur héraðsdómari einnig háð þing utan umdæmis síns til að taka fyrir mál eftir þingfestingu þess.
1) Rgl. 1150/2017.
37. gr. Dómþing.
Við héraðsdómstóla skulu háð regluleg dómþing á föstum þingstöðum samkvæmt því sem dómstólasýslan ákveður að fengnum tillögum dómstjóra. Dómstólasýslan tilkynnir slíka ákvörðun með auglýsingu í Lögbirtingablaði.
38. gr. Útgáfa héraðsdóma o.fl.
Dómstólasýslan setur reglur og hefur umsjón með útgáfu dóma og úrskurða héraðsdómstóla.
Héraðsdómar í einkamálum sem varða viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna og umgengni við þau, skulu ekki gefnir út. Við útgáfu annarra dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari. Í því skyni skal í dómum í sakamálum gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur, nema um sé að ræða börn. Einnig skal gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða er til. Þegar nöfnum er haldið leyndum skal jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið.
VII. kafli. Sérfróðir meðdómsmenn.
39. gr. Tilnefning og hæfi.
Dómstólasýslan tilnefnir hæfilegan fjölda manna með sérkunnáttu á öðrum sviðum en lögfræði til fimm ára í senn til að gegna störfum sérfróðra meðdómsmanna á helstu sérsviðum þar sem reynir á slíka sérkunnáttu við meðferð mála fyrir héraðsdómi og Landsrétti.
Dómstólasýslan ákveður á hvaða fagsviðum sérfróðir meðdómsmenn skuli tilnefndir og hversu margir á hverju fagsviði. Sérfróðir meðdómsmenn skulu að jafnaði tilnefndir úr röðum umsækjenda að undangenginni opinberri auglýsingu eða eftir atvikum samkvæmt ábendingu dómara og skal dómstólasýslan ganga úr skugga um að þeir sem tilnefndir eru hafi fullnægjandi þekkingu og reynslu til að geta gegnt starfi sérfróðs meðdómanda í dómsmálum á viðkomandi sérsviði. Dómstólasýslunni er heimilt að tilnefna sérfróða meðdómsmenn til meðferðar einstaks máls.
Þá eina má tilnefna í hóp sérfróðra meðdómsmanna sem hafa nægilegan þroska og andlegt og líkamlegt heilbrigði, njóta íslensks ríkisborgararéttar, eru lögráða og orðnir 25 ára, hafa forræði á búi sínu og hafa hvorki gerst sekir um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
Tilnefningin fellur sjálfkrafa niður ef sá sem tilnefndur er missir almennt hæfi sitt skv. 3. mgr. Jafnframt getur dómstólasýslan fellt tilnefninguna niður ef veigamiklar ástæður mæla með því eða sá sem tilnefndur er óskar þess.
Sá sem tilnefndur hefur verið í hóp sérfróðra meðdómsmanna skal undirrita drengskaparheit um að hann muni jafnan gegna slíkum störfum af samviskusemi og óhlutdrægni og fara í öllu að lögum.
40. gr. Kvaðning sérfróðra meðdómsmanna.
Þegar þörf er á sérfróðum meðdómsmanni til setu í dómi við meðferð máls skulu héraðsdómari, forseti Landsréttar eða eftir atvikum dómsformaður sem falin hefur verið meðferð máls kveðja til setu einhvern eða einhverja þeirra kunnáttumanna sem dómstólasýslan hefur tilnefnt skv. 39. gr. að því tilskildu að hann eða þeir hafi þá sérkunnáttu sem þörf er á til úrlausnar málsins. Telji sá sem vill kveðja til sérfróðan meðdómanda engan þeirra sem tilnefndur hefur verið skv. 39. gr. búa yfir sérkunnáttu sem þörf er á við úrlausn málsins skal hann leita til dómstólasýslunnar sem skal finna kunnáttumann sem viðkomandi dómari telur hafa slíka sérkunnáttu. Um slíka tilnefningu kunnáttumanns til að fara með meðdómendastörf í tilteknu máli fer að öðru leyti eftir ákvæðum 39. gr.
Sérfróður meðdómsmaður sem kvaddur hefur verið til setu í dómsmáli áður en tilnefningartími hans rann út getur lokið meðferð þess.
41. gr. Reglur um sérfróða meðdómsmenn.
Dómstólasýslan setur almennar reglur um greiðslu þóknunar og útlagðs kostnaðar sérfróðra meðdómsmanna vegna starfa þeirra við meðferð dómsmála.
Dómstólasýslan skal stuðla að því að sérfróðir meðdómsmenn búi yfir lágmarksþekkingu á réttarfari og meðferð dómsmála.
Dómstólasýslan setur nánari reglur um mat á þekkingu og reynslu sérfróðra meðdómsmanna, um tilnefningu þeirra og önnur atriði sem ekki er mælt fyrir um í lögum.
Að öðru leyti fer um kvaðningu sérfróðra meðdómsmanna, um sérstakt hæfi þeirra og störf eftir öðrum lögum sem um þá gilda.
VIII. kafli. Réttindi og skyldur dómara.
42. gr. Gildissvið.
Ákvæði þessa kafla taka jafnt til dómara við Hæstarétt, Landsrétt sem héraðsdómstóla nema annars sé sérstaklega getið. Þau taka einnig til sérfróðra meðdómsmanna og aðstoðarmanna dómara þegar þeir fara með dómsvald, þar sem það á við.
43. gr. Sjálfstæði dómara.
Dómarar eru sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn máls fara þeir eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra. Dómsathöfn verður ekki endurskoðuð af öðrum nema með málskoti til æðri dóms.
Dómara er skylt að ljúka á hæfilegum tíma þeim málum sem hann fær úthlutað til meðferðar og rækja störf sín af alúð og samviskusemi. Dómara ber að hlíta boði forstöðumanns dómstóls um önnur atriði varðandi störf sín en meðferð og úrlausn máls. Dómurum ber og að hlíta lögmætum ákvörðunum dómstólasýslunnar.
Dómurum ber að leitast við að halda við þekkingu sinni í lögum. Þeim skal gefinn kostur á leyfi og stuðningi til símenntunar. Dómstólasýslan skal setja nánari reglur þar um.
44. gr. Laun dómara.
Kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör dómara fyrir embættisstörf þeirra.
45. gr. Aukastörf dómara.
Dómara er óheimilt að taka að sér önnur störf eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Frá því getur nefnd um dómarastörf veitt undanþágu eftir reglum 1) sem hún setur skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. ef ljóst er að slíkt er ekki ósamrýmanlegt stöðu dómara eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi. Þá er dómara óheimilt að taka þátt í starfi annarra félaga eða samtaka sé starfsemi þeirra bersýnilega ósamrýmanleg embættisstörfum hans. Dómari skal tilkynna nefnd um dómarastörf um aukastarf áður en hann tekur við því, sem og um hlut sem hann eignast í félagi eða atvinnufyrirtæki. Sama gildir þegar dómari tekur fyrst við embætti. Sé ekki getið um heimild til að gegna starfinu eða eiga slíkan hlut í almennum reglum nefndarinnar skal dómari fyrir fram leita leyfis hennar til þess.
Heimili reglur sem nefnd um dómarastörf setur að ekki þurfi leyfi nefndarinnar til að gegna aukastarfi skal dómari eigi að síður tilkynna nefndinni um slíkt aukastarf áður en hann tekur við því eða um að hann gegni því þegar hann tekur við embætti.
Með rökstuddri ákvörðun getur nefnd um dómarastörf meinað dómara að gegna aukastarfi eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki, eða taka þátt í starfi annarra félaga eða samtaka sem ekki getur samrýmst starfi dómara, sbr. ákvæði 1. mgr. Dómara ber að hlíta slíku banni en heimilt er að leita úrlausnar dómstóla um lögmæti þess.
1) Rgl. 1165/2017.
46. gr. Meðferð mála vegna ávirðinga forstöðumanns dómstóls.
Nú telur dómari eða annar starfsmaður dómstóls að forstöðumaður dómstólsins hafi gert á sinn hlut í störfum sínum og getur hann þá beint kvörtun vegna þess til dómstólasýslunnar. Dómstólasýslan getur að sama skapi tekið upp mál sem varða stjórnunarstörf forstöðumanns að eigin frumkvæði telji hún tilefni til þess.
Nú telur dómstólasýslan að forstöðumaður hafi brotið af sér í því starfi og skal þá gefa honum kost á að tjá sig um ávirðingarnar. Telji dómstólasýslan skýringar forstöðumanns óviðunandi getur hún beint til hans munnlegum eða skriflegum tilmælum eða veitt honum skriflega áminningu eða lausn ef um dómstjóra er að ræða.
47. gr. Kvartanir vegna ávirðinga dómara.
Nú telur forstöðumaður dómstóls að háttsemi dómara eða vanræksla í starfi eða framferði hans utan starfs sé slíkt að aðfinnsluvert sé án þess þó að ákvæði 2. mgr. eigi við og getur þá forstöðumaðurinn beint munnlegum eða skriflegum tilmælum til dómarans um úrbætur.
Beri tilmæli skv. 1. mgr. ekki árangur eða telji forstöðumaður dómstóls ávirðingar dómara alvarlegri en svo að tilmæli hans ein séu við hæfi skal hann beina málinu til nefndar um dómarastörf með skriflegu og rökstuddu erindi. Eins skal farið að ef dómari hlítir ekki ákvörðun dómstólasýslunnar eða banni skv. 3. mgr. 45. gr.
Ráðherra er heimilt að beina máli til nefndar um dómarastörf á sama hátt og greinir í 2. mgr. Þá er nefndinni heimilt að taka mál upp að eigin frumkvæði ef atvik eru með þeim hætti sem þar segir.
Hverjum þeim öðrum sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum er heimilt að beina skriflegri og rökstuddri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf. Skal slík kvörtun hafa borist nefndinni innan þriggja mánaða frá því að sá atburður sem kvörtunin nær til gerðist eða komst til vitundar þess sem kvartar. Kvörtun verður þó ekki beint til nefndar um dómarastörf að liðnu ári frá því að sá atburður sem kvörtun nær til átti sér stað. Kvörtunum vegna dómsúrlausna dómara verður ekki beint til nefndar um dómarastörf.
48. gr. Meðferð og lyktir mála hjá nefnd um dómarastörf.
Í erindi skv. 47. gr. til nefndar um dómarastörf skal greint frá atvikum og röksemdum fyrir því að brotið hafi verið á rétti þess sem það ber fram. Berist nefnd um dómarastörf [erindi] 1) sem hún telur þegar sýnt að gefi ekki tilefni til frekari aðgerða vísar hún [því] 1) frá sér. Að öðrum kosti gefur nefndin hlutaðeigandi dómara kost á að skila skriflegum athugasemdum innan tiltekins frests. Heimilt er nefndinni að taka í einu lagi til meðferðar [tvö eða fleiri mál] 1) sem beinast að sama dómara.
Sé [erindi metið tækt] 1) til meðferðar skal nefnd um dómarastörf ljúka málinu með skriflegu og rökstuddu áliti. Nefndin metur hvort háttsemi sem [lýst er í erindi] 1) samrýmist vönduðum dómarastörfum og telji hún [erindið] 1) gefa tilefni til aðgerða getur hún í áliti sínu fundið að störfum hlutaðeigandi dómara eða veitt honum áminningu eftir ákvæðum 49. gr.
Nú telur nefnd um dómarastörf [erindi tækt] 1) til meðferðar og skal þá dómstólasýslan upplýst um það. Nefndin skal jafnframt senda dómstólasýslunni afrit af áliti sínu þegar það liggur fyrir.
1)L. 117/2016, 78. gr.
49. gr. Áminning.
Sé dómara veitt áminning skal hún birt honum á sannanlegan hátt. Jafnframt skal ákvörðun um áminningu send ráðherra, forstöðumanni dómstóls sem dómari starfar við, sem og dómstólasýslunni.
Dómara sem hefur sætt áminningu er heimilt að höfða mál á hendur ráðherra fyrir hönd ríkisins til að fá hana fellda úr gildi en það skal þá gert innan mánaðar frá því að hún var birt dómaranum.
50. gr. Lausn um stundarsakir.
Veita má dómara lausn frá embætti um stundarsakir ef hann hefur sætt áminningu en lagar sig ekki að henni innan hæfilegs tíma eða gerist innan þriggja ára að nýju sekur um ávirðingar sem gefa tilefni til áminningar. Dómara verður einnig veitt lausn frá embætti um stundarsakir ef hann missir almenn hæfisskilyrði til að gegna því. Sama gildir jafnframt ef rannsókn lögreglu beinist að dómara eða sakamál er höfðað gegn honum og áfellisdómur um sakirnar sem hann er borinn yrði til þess að hann missti almenn hæfisskilyrði.
Forseti Íslands veitir dómara við Hæstarétt og Landsrétt lausn frá embætti um stundarsakir samkvæmt tillögu ráðherra en ráðherra veitir héraðsdómara slíka lausn. Áður en lausn er veitt um stundarsakir skal ráðherra afla skriflegrar umsagnar frá nefnd um dómarastörf.
Nú hefur dómara verið veitt lausn frá embætti um stundarsakir af öðrum ástæðum en þeim sem getur í lokamálslið 1. mgr. og skal þá innan tveggja mánaða höfða á hendur honum mál samkvæmt því sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 51. gr., ella fellur lausnin sjálfkrafa niður. Verði máli vísað frá dómi eða það fellt niður fellur lausnin jafnframt sjálfkrafa niður ef nýtt mál er ekki höfðað innan tveggja vikna en þannig verður þó ekki farið að oftar en í eitt skipti. Lausn sem veitt hefur verið um stundarsakir eftir ákvæði lokamálsliðar 1. mgr. stendur þar til rannsókn lýkur með ákvörðun um að hlutaðeigandi dómari verði ekki sóttur til saka, sex mánuðir eru liðnir án þess að ákæra sé gefin út á hendur honum eða sakamáli lýkur með endanlegum dómi um sýknu hans en annars þar til tvær vikur eru liðnar frá því að endanlegur dómur hefur gengið um sakfellingu hans.
Dómari heldur fullum embættislaunum meðan á lausn um stundarsakir stendur.
51. gr. Lausn frá embætti dómara með dómi.
Þegar dómara hefur verið veitt lausn frá embætti um stundarsakir af öðrum ástæðum en þeim sem getur í lokamálslið 1. mgr. 50. gr. höfðar ráðherra fyrir hönd ríkisins mál á hendur honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með kröfu um að honum verði vikið úr embætti með dómi. Um rekstur málsins fer eftir almennum reglum um meðferð einkamála að öðru leyti en því að það sætir flýtimeðferð og skal dómur skipaður þremur héraðsdómurum.
Þótt dómur gangi í héraði í máli skv. 1. mgr. stendur lausn um stundarsakir áfram meðan kostur er á áfrýjun innan almenns frests, svo og enn eftir það meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða Hæstarétti ef áfrýjað er.
Endanlegur dómur um að dómara sé vikið frá leiðir sjálfkrafa til lausnar hans úr embætti.
Sé dómari sýknaður af kröfu um frávikningu tekur hann sjálfkrafa við embætti sínu að nýju frá þeim tíma sem dómur um það telst endanlegur.
52. gr. Lausn frá embætti dómara af öðrum ástæðum.
Forseti Íslands veitir dómurum við Hæstarétt og Landsrétt lausn frá embætti samkvæmt tillögu ráðherra en ráðherra héraðsdómurum.
Dómara skal veitt lausn frá embætti ef hann leitar eftir henni sjálfur, enda sé það gert með þeim fyrirvara sem gildir almennt um starfsmenn ríkisins.
Dómari telst sjálfkrafa fá lausn frá embætti ef hann tekur við skipun í annað embætti.
Heimilt er að veita dómara lausn frá embætti án óskar hans ef hann er orðinn 65 ára en hann skal þá upp frá því taka eftirlaun svo sem hann hefði gegnt embættinu til 70 ára aldurs nema hann njóti ríkari réttar samkvæmt stjórnarskipunarlögum.
Dómara skal veitt lausn frá embætti ekki síðar en frá þeim degi er hann nær 70 ára aldri.
53. gr. Refsi- og skaðabótaábyrgð dómara.
Um refsiábyrgð dómara vegna háttsemi hans í embætti fer eftir almennum hegningarlögum og sérákvæðum annarra laga.
Verði athafnir dómara í starfi eða athafnaleysi öðrum til tjóns ber ríkið á því bótaábyrgð eftir almennum reglum. Dómari verður ekki sjálfur krafinn um bætur en ríkinu er þó heimilt að gengnum áfellisdómi að beina að honum framkröfu, enda hafi ásetningsverk hans leitt til bótaskyldu.
Við rekstur mála samkvæmt framangreindu skal fara eftir almennum reglum.
IX. kafli. Endurupptökunefnd.
54. gr. Skipun og hlutverk endurupptökunefndar.
Endurupptökunefnd er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem tekur ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti.
Um endurupptöku máls fer eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála og laga um meðferð einkamála.
Endurupptökunefnd skipa þrír fulltrúar og þrír til vara sem allir skulu hafa lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum. Einn aðalmaður skal tilnefndur af Hæstarétti, annar af dómstólasýslunni og Alþingi kýs þann þriðja. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Óheimilt er að tilnefna alþingismenn, starfsmenn Stjórnarráðs Íslands, dómara eða aðra starfsmenn dómstóla í nefndina.
Nefndarmenn eru skipaðir af ráðherra. Skipunartími í nefndina er sex ár en þó þannig að annað hvert ár renni út skipunartími eins nefndarmanns. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en einu sinni. Formaður nefndarinnar er skipaður af ráðherra til tveggja ára í senn og skal hann fullnægja skilyrðum til að vera skipaður í embætti hæstaréttardómara.
Um hæfi nefndarmanna til meðferðar einstaks máls fer eftir ákvæðum réttarfarslaga um hæfi dómara.
Ákvarðanir nefndarinnar eru teknar með meiri hluta atkvæða fulltrúa í nefndinni. Þær skulu vera rökstuddar og birtar opinberlega eftir að þær hafa verið kunngerðar aðilum máls.
Ákvörðun nefndarinnar um að synja beiðni um endurupptöku máls er endanleg og verður ekki skotið til dómstóla.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um störf nefndarinnar og starfsskilyrði.
X. kafli. Gildistaka.
55. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018 að undanskildum ákvæðum til bráðabirgða I, II, IV, V, [VI og VIII] 1) sem taka þegar gildi.
…
1)L. 90/2017, 3. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Með gildistöku laga þessara er ekki raskað stöðu þeirra sem þegar hafa verið skipaðir eða settir í dómaraembætti. Frá gildistöku [laga þessara] 1) skal hvorki skipa í embætti dómara við Hæstarétt Íslands né setja skv. 18. gr. fyrr en fjöldi dómara verður sá sem kveðið er á um í 13. gr.
[Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. setur ráðherra frá 1. janúar 2018 til 1. júlí 2019, eftir beiðni Hæstaréttar, dómara við réttinn ef dómari er forfallaður vegna veikinda eða hefur verið veitt leyfi frá störfum og skal setja dómara samkvæmt tillögu nefndar skv. III. kafla. Settur dómari skal þá koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Á sama tímabili setur ráðherra eftir tillögu forseta réttarins varadómara til að taka sæti í tilteknu máli þrátt fyrir að ekki sé fullnægt því skilyrði 1. mgr. 17. gr. að færri en fimm, eða eftir atvikum sjö, hæstaréttardómarar geti tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis, leyfis eða annarra forfalla. Dómari sem hlýtur setningu skal fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Heimilt er að setja dómara samkvæmt ákvæði þessu þótt hann hafi náð 70 ára aldri.] 2)
1)L. 117/2016, 79. gr. 2)L. 90/2017, 4. gr.
II.
[Í þeim tilgangi að undirbúa starfsemi dómstólasýslunnar, þ.m.t. að skipa framkvæmdastjóra hennar, skal skipa í stjórn dómstólasýslunnar í fyrsta skipti frá og með [1. ágúst] 1) 2017. Heimilt er að skipa framkvæmdastjóra dómstólasýslunnar frá 1. október 2017.
Þegar skipað er í fyrsta skipti í stjórn dómstólasýslunnar skv. 6. gr. skal forseti Landsréttar skipaður aðalmaður til eins árs og varaforseti Landsréttar varamaður hans til jafnlangs tíma. Annar aðalmaður ásamt varamanni skal skipaður til tveggja ára, þriðji aðalmaður ásamt varamanni til þriggja ára og þannig koll af kolli svo að fimmti aðalmaðurinn ásamt varamanni sé skipaður til fimm ára. Skal skipunartími annarra en fulltrúa Landsréttar ákveðinn af tilviljun þegar ráðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa.
Við gildistöku laga þessara fellur niður skipun í dómstólaráð.] 2)
1)L. 10/2017, 1. gr. 2)L. 117/2016, 80. gr.
III.
Við gildistöku laga þessara er ekki raskað skipun í nefnd um dómarastörf, endurupptökunefnd eða valnefnd skv. 4. gr. a laga um dómstóla, nr. 15/1998, en um skipun nýrra manna í nefndirnar eftir gildistökudag gilda ákvæði laga þessara.
IV.
Skipun dómara við Landsrétt skal lokið eigi síðar en [1. júlí] 1) 2017 og skulu dómarar skipaðir í embættið frá og með 1. janúar 2018. [Nefnd skv. 4. gr. a laga um dómstóla, nr. 15/1998, skal meta hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur í samræmi við 2. mgr. þeirrar greinar og reglur sem um nefndina gilda. Óheimilt er ráðherra að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laga þessara.] 1)
Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar.
[Þeir sem hlotið hafa skipun sem dómarar við Landsrétt skulu eigi síðar en [20. júlí] 1) 2017 kjósa sér forseta til fimm ára og varaforseta til sama tíma. Ráðherra tilkynnir í fyrsta sinn um kjör forseta og varaforseta Landsréttar með auglýsingu í Lögbirtingablaði.
Forseti skal skipaður dómari við Landsrétt frá [1. ágúst] 1) 2017. Forseta er frá þeim tíma heimilt að taka nauðsynlegar ákvarðanir til undirbúnings starfsemi Landsréttar, þ.m.t. ráða starfsfólk til réttarins.] 2)
1)L. 10/2017, 2. gr. 2)L. 117/2016, 81. gr.
V.
Þeir sem skipaðir eru hæstaréttardómarar skulu hafa forgang til skipunar í embætti dómara við Landsrétt kjósi þeir það og skulu þá einskis missa í kjörum sínum.
VI.
Frá gildistöku ákvæðis þessa skal við skipun í valnefnd skv. 4. gr. a laga um dómstóla, nr. 15/1998, fara að svo sem mælt er fyrir um í 6. málsl. 1. mgr. 11. gr.
[VII.
Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. getur Landsréttur haft aðsetur utan Reykjavíkur fram til 1. janúar 2022.] 1)
1)L. 10/2017, 3. gr.
[VIII.
Nú óskar skipaður dómari við Landsrétt leyfis frá störfum fyrir 1. janúar 2018 og getur ráðherra þá veitt slíkt leyfi til allt að þriggja mánaða ef sérstakar ástæður þykja til. Nú fær dómari við Landsrétt leyfi samkvæmt þessu ákvæði og verður annar dómari þá ekki settur í hans stað.] 1)
1)L. 90/2017, 5. gr.