Lagasafn.  Íslensk lög 15. október 2021.  Útgáfa 151c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum

2011 nr. 7 2. febrúar


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. maí 2011, nema 1. gr. sem tók gildi 11. febrúar 2011, skv. augl. A 118/2012. Breytt með: L. 17/2021 (tóku gildi 30. mars 2021).


1. gr.
Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem gerður var í Lúganó 30. október 2007 og kemur í stað samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum sem gerður var í Lúganó 16. september 1988, ásamt þeim þremur bókunum og níu viðaukum sem honum fylgja og teljast óaðskiljanlegur hluti hans.
Samningurinn ásamt bókunum og viðaukum sem honum fylgja er prentaður sem fylgiskjal með lögum þessum.
2. gr.
Lúganósamningurinn og þær þrjár bókanir sem honum fylgja skulu hafa lagagildi hér á landi.
3. gr.
Dómar, sem hvorki þarf að viðurkenna né fullnægja skv. 61. gr. samningsins, fá ekki réttarverkanir hér á landi.
4. gr.
Ákvæði 1. gr. laga þessara öðlast þegar gildi.
Önnur ákvæði laganna öðlast gildi um leið og endurskoðaður Lúganósamningur öðlast gildi að því er Ísland varðar.
5. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Lúganósamningurinn og þær þrjár bókanir sem honum fylgja og hafa lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr., gilda um mál sem berast íslenskum dómstólum til meðferðar frá Sameinaða konungsríkinu Stóra-Bretlandi og Norður-Írlandi, enda hafi þau borist fyrir 1. janúar 2021 eða grundvallast á dómi sem kveðinn var þar upp fyrir sama tímamark. Hið sama á við um dómsáttir, opinber skjöl og önnur gögn sem falla undir ákvæði samningsins.] 1)
    1)L. 17/2021, 1. gr.

Fylgiskjal.
SAMNINGUR um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum
Gerður í Lúganó hinn 30. október 2007.
INNGANGUR
AÐILAR AÐ SAMNINGI ÞESSUM,
SEM ERU STAÐRÁÐNIR í að styrkja á yfirráðasvæðum sínum réttarvernd þeirra manna sem þar eru búsettir,
SEM TELJA að í því skyni sé nauðsynlegt að ákvarða hið alþjóðlega dómsvald dómstóla sinna og að auðvelda viðurkenningu og koma á skjótvirkri málsmeðferð til að tryggja fullnustu á dómum, opinberlega staðfestum skjölum og réttarsáttum,
SEM GERA SÉR GREIN fyrir tengslum sín í milli, sem eru staðfest á sviði efnahagsmála með fríverslunarsamningum milli Evrópubandalagsins og tiltekinna aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu,
SEM HAFA HLIÐSJÓN AF:
    Brusselsamningnum frá 27. september 1968 um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum eins og honum hefur verið breytt með aðildarsamningum eftir því sem Evrópusambandið hefur stækkað,
    Lúganósamningnum frá 16. september 1988 um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sem felur í sér að reglum Brusselsamningsins verður beitt í tilteknum aðildarríkjum Fríverslunarsamtaka Evrópu,
    reglugerð ráðsins (EB) nr. 44/2001 frá 22. desember 2000 um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, sem hefur leyst af hólmi ofangreindan Brusselsamning,
    samningi milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005,

SEM ERU SANNFÆRÐIR um að með því að láta meginreglur reglugerðar (EB) nr. 44/2001 einnig ná til samningsaðilanna muni lagaleg og efnahagsleg samvinna styrkjast,
SEM ÓSKA að tryggja samræmda túlkun á samningi þessum eins og frekast er unnt,
HAFA í þessum anda ÁKVEÐIÐ að gera með sér samning þennan og
HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR UM EFTIRFARANDI:
I. hluti. Gildissvið.
1. gr.
1. Samningur þessi gildir um einkamál, þar á meðal verslunarmál, án tillits til þess hvaða dómstóll fer með mál. Hann tekur sér í lagi ekki til skattamála, tollamála og stjórnsýslumála.
2. Samningurinn gildir ekki um:
    a) persónulega réttarstöðu manna, rétthæfi eða gerhæfi, fjármál hjóna, bréfarf eða lögarf,
    b) gjaldþrot, nauðasamninga eða sambærilega málsmeðferð,
    c) almannatryggingar,
    d) gerðardóma.
3. Í samningi þessum merkir hugtakið „ríki bundið af þessum samningi“ sérhvert ríki sem er aðili að þessum samningi eða aðildarríki að Evrópubandalaginu. Hugtakið getur einnig þýtt Evrópubandalagið.

II. hluti. Varnarþing.
1. kafli. Almenn ákvæði.
2. gr.
1. Með þeim takmörkunum sem greinir í samningi þessum skal lögsækja menn, sem eiga heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, fyrir dómstólum í því ríki, hvert sem ríkisfang þeirra er.
2. Þeir menn sem ekki eru ríkisborgarar í því ríki sem er bundið af þessum samningi, þar sem þeir eiga heimili, skulu lúta sömu varnarþingsreglum og gilda um ríkisborgara þess ríkis.
3. gr.
1. Menn, sem eiga heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, má aðeins lögsækja fyrir dómstólum í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, samkvæmt þeim reglum sem settar eru í 2.–7. kafla þessa hluta.
2. Sérstaklega má ekki beita reglum um dómsvald ríkja, sem settar eru í viðauka I, gegn þeim.
4. gr.
1. Eigi varnaraðili ekki heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, ákvarða lög hvers ríkis, sem er bundið af þessum samningi, um sig dómsvald dómstóla þess, sbr. þó ákvæði 22. og 23. gr.
2. Gegn varnaraðila, sem þannig er ástatt um, getur hver sá sem á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, hvert sem ríkisfang hans er, fært sér í nyt í því ríki þær varnarþingsreglur sem þar gilda á sama hátt og ríkisborgarar þess ríkis og sérstaklega þær reglur sem tilgreindar eru í viðauka I.

2. kafli. Sérstakar varnarþingsreglur.
5. gr.
Mann, sem á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, má lögsækja í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi:
    1. a) í málum, sem varða samninga, fyrir dómstóli þess staðar þar sem skuldbindinguna skyldi efna,
    b) í tilviki þessa ákvæðis, nema um annað sé samið, er sá staður þar sem skuldbindingu skal efna:
    þegar um lausafjárkaup er að ræða, sá staður í ríki, sem er bundið af þessum samningi, þar sem, samkvæmt samningi, hlutur var afhentur eða skyldi afhenda,
    þegar þjónusta er veitt, sá staður í ríki, sem er bundið af þessum samningi, þar sem, samkvæmt samningi, þjónusta var veitt eða hana skyldi veita,
    c) ef ákvæði b-liðar eiga ekki við, þá skulu ákvæði a-liðar gilda,
    2. í málum, sem varða framfærsluskyldu:
    a) fyrir dómstóli þess staðar þar sem sá sem rétt á til framfærslu á heimili eða dvelst að jafnaði, eða
    b) fyrir þeim dómstóli sem samkvæmt lögum sem við hann gilda er bær til að fara með mál varðandi persónulega réttarstöðu manns, ef leysa má úr álitaefni sem tengist framfærsluskyldu í því máli, nema varnarþingið byggist einungis á ríkisfangi eins aðilans, eða
    c) fyrir þeim dómstóli sem, samkvæmt þeim lögum sem við hann gilda, er bær til að fara með mál varðandi foreldraskyldur, ef leysa má úr álitaefni sem tengist framfærsluskyldu í því máli, nema varnarþingið byggist einungis á ríkisfangi eins aðilans,
    3. í málum um skaðabætur utan samninga fyrir dómstóli þess staðar þar sem tjónsatburðurinn varð eða getur orðið,
    4. þegar krafist er skaðabóta eða þess að fyrra ástandi verði komið á og krafan á rót að rekja til refsiverðs verknaðar, fyrir þeim dómstóli þar sem opinbera málið er til meðferðar, að því tilskildu að dómstóllinn, samkvæmt þeim lögum sem við hann gilda, sé bær til að fara með kröfur einkamálaréttarlegs eðlis,
    5. vegna ágreinings, sem stafar af rekstri útibús, umboðsskrifstofu eða annarrar starfsemi, fyrir dómstóli þess staðar þar sem starfsemin er,
    6. sem stofnanda, vörslumann eða rétthafa fjárvörslusjóðs, sem stofnaður hefur verið á grundvelli laga eða með skjali eða með munnlegum gerningi sem staðfestur er skriflega, fyrir dómstóli í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem sjóðurinn á heimili,
    7. vegna ágreinings um greiðslu launa, sem krafist er vegna björgunar í þágu farms eða farmgjalds, fyrir þeim dómstóli þar sem kyrrsetning farmsins eða farmgjaldskröfunnar:
    a) hefur verið gerð til tryggingar á þeirri greiðslu, eða
    b) hefði mátt fara fram en ábyrgð eða önnur trygging hefur verið sett,
ákvæði þetta á þó einungis við ef því er haldið fram að varnaraðili eigi til réttar að telja í farminum eða farmgjaldskröfunni eða að hann hafi átt til slíks réttar að telja þegar björgun varð.
6. gr.
Mann, sem á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, má einnig lögsækja:
    1. ef hann er einn af mörgum varnaraðilum, fyrir dómstóli þess staðar þar sem einhver þeirra á heimili, svo fremi að kröfurnar séu svo tengdar innbyrðis að æskilegt sé að fara með þær og dæma sameiginlega til að koma í veg fyrir að ósamrýmanlegir dómar verði kveðnir upp ef dæmt væri um hverja þeirra sérstaklega,
    2. sem þriðja mann í sakaukamáli eða sem þriðja mann í öðrum málum, fyrir þeim dómstóli þar sem mál er upphaflega höfðað, nema það hafi einungis verið höfðað í því skyni að koma í veg fyrir að hann yrði lögsóttur á réttu varnarþingi sínu,
    3. í málum um gagnkröfu, ef hún á rót sína að rekja til sama samnings eða málsatvika og aðalkrafan byggist á, fyrir dómstóli þar sem aðalkrafan er til meðferðar,
    4. í málum, sem varða samninga ef málið má sameina máli gegn sama varnaraðila og það varðar réttindi yfir fasteign, fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, þar sem fasteignin er.
7. gr.
Ef dómstóll í ríki, sem er bundið af þessum samningi, hefur samkvæmt samningi þessum dómsvald í málum um ábyrgð sem stafar af notkun eða rekstri skips hefur sá dómstóll, eða hver sá dómstóll annar sem að lögum þess ríkis kemur í hans stað, einnig dómsvald í málum um takmörkun þessarar ábyrgðar.

3. kafli. Varnarþing í vátryggingarmálum.
8. gr.
Í málum um vátryggingar skal ákvarða varnarþing eftir ákvæðum þessa kafla, sbr. þó 4. gr. og 5. tölul. 5. gr.
9. gr.
1. Vátryggjanda, sem á heimili í ríki sem er bundið af þessum samningi, má lögsækja:
    a) fyrir dómstólum í því ríki þar sem hann á heimili, eða
    b) í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, í þeim tilvikum þegar mál er höfðað af vátryggingartaka, vátryggðum eða öðrum rétthafa, fyrir dómstóli þess staðar þar sem stefnandi á heimili, eða
    c) sé hann samvátryggjandi, fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, þar sem mál er höfðað gegn aðalvátryggjanda.
2. Nú á vátryggjandi ekki heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, en hefur útibú, umboðsskrifstofu eða aðra starfsemi í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og skal þá, í málum sem stafa af rekstri starfseminnar, litið svo á sem hann eigi heimili í því ríki.
10. gr.
Í málum vegna ábyrgðartrygginga eða vátrygginga á fasteignum má einnig lögsækja vátryggjanda fyrir dómstóli þess staðar þar sem tjónsatburðurinn varð. Þetta gildir einnig ef vátryggingarsamningur tekur bæði til fasteignar og lausafjár og hvort tveggja verður fyrir tjóni vegna sama atburðar.
11. gr.
1. Í málum vegna ábyrgðartrygginga má einnig lögsækja vátryggjandann fyrir dómstóli þar sem tjónþoli hefur höfðað mál gegn vátryggðum ef þau lög sem við dómstólinn gilda veita heimild til þess.
2. Ákvæði 8., 9. og 10. gr. gilda um mál sem tjónþoli höfðar beint gegn vátryggjanda þar sem slík bein málssókn er heimil.
3. Nú veita lög um slíka beina málssókn heimild til að draga vátryggingartaka eða vátryggðan inn í málið og hefur sami dómstóll þá einnig dómsvald gagnvart þeim.
12. gr.
1. Vátryggjandi má einungis höfða mál fyrir dómstólum í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem varnaraðili á heimili, hvort sem hann er vátryggingartaki, vátryggður eða annar rétthafi, sbr. þó ákvæði 3. mgr. 11. gr.
2. Ákvæði þessa kafla hafa ekki áhrif á rétt til að bera fram gagnkröfu fyrir þeim dómstóli þar sem aðalkrafan er til meðferðar í samræmi við ákvæði þessa kafla.
13. gr.
Frá ákvæðum þessa kafla má aðeins víkja með samningi:
    1. ef hann er gerður eftir að ágreiningur er risinn, eða
    2. ef hann veitir vátryggingartaka, vátryggðum eða öðrum rétthafa heimild til málshöfðunar fyrir öðrum dómstólum en þeim sem nefndir eru í þessum kafla, eða
    3. ef hann er gerður milli vátryggingartaka og vátryggjanda, sem áttu báðir heimili, eða dvöldust að jafnaði í sama ríki, sem er bundið af þessum samningi, þegar samningurinn var gerður, og hann veitir dómstólum þess ríkis dómsvald, jafnvel þótt tjónsatburðurinn kunni að verða erlendis enda sé slíkur samningur ekki andstæður lögum þess ríkis, eða
    4. ef hann er gerður við vátryggingartaka sem ekki á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, nema um sé að ræða vátryggingu sem er lögboðin eða hún varðar fasteign í ríki sem er bundið af þessum samningi, eða
    5. ef hann varðar vátryggingarsamning sem tekur til eins eða fleiri áhættuflokka sem nefndir eru í 14. gr.
14. gr.
Í 5. tölul. 13. gr. er vísað til eftirfarandi áhættuflokka:
    1. sérhvers tjóns á:
    a) hafskipum, mannvirkjum undan ströndum eða á rúmsjó eða loftförum þegar tjónið á rætur að rekja til atburða sem tengjast notkun þeirra í atvinnuskyni,
    b) vörum í flutningi, nema farangri farþega, þegar flutt er að hluta eða að öllu leyti með slíkum skipum eða loftförum,
    2. sérhverrar ábyrgðar, nema vegna líkamstjóns á farþegum eða tjóns á farangri þeirra,
    a) sem á rætur að rekja til notkunar eða reksturs skipa, mannvirkja eða loftfara, sem vísað er til í a-lið 1. tölul., að því leyti, hvað hið síðarnefnda varðar, sem lög þess ríkis sem bundið er af þessum samningi, þar sem loftfarið er skráð, banna ekki samninga um varnarþing í sambandi við vátryggingu gegn slíkri áhættu,
    b) á tjóni sem vörur valda í flutningi sem greinir í b-lið 1. tölul.,
    3. sérhvers fjártjóns í tengslum við notkun eða rekstur skipa, mannvirkja eða loftfara sem vísað er til í a-lið 1. tölul., einkum taps á farmgjalds- eða leigutekjum,
    4. sérhverrar áhættu sem tengist þeim áhættuflokkum sem nefndir eru í 1.–3. tölul.,
    5. mikillar áhættu hvers konar, þrátt fyrir 1.–4. tölul.

4. kafli. Varnarþing í neytendamálum.
15. gr.
1. Í málum vegna samninga, sem maður, neytandi, gerir í tilgangi sem telja verður að varði ekki atvinnu hans, skal ákvarða varnarþing eftir ákvæðum þessa kafla, sbr. þó 4. gr. og 5. tölul. 5. gr., enda sé um að ræða:
    a) samning um lausafjárkaup með afborgunarskilmálum, eða
    b) samning um lán, sem endurgreiða skal með afborgunum, eða annars konar lánafyrirgreiðslu til að fjármagna kaup á lausafé, eða
    c) í öllum öðrum tilvikum, hafi samningur verið gerður við mann sem stundar verslunar- eða atvinnustarfsemi í ríki, sem er bundið af þessum samningi og þar sem neytandinn á heimili, eða með einhverjum hætti beinir slíkri starfsemi til þess ríkis eða fleiri ríkja, þar á meðal þess ríkis, enda taki samningur til slíkrar starfsemi.
2. Nú á viðsemjandi neytandans ekki heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, en hefur útibú, umboðsskrifstofu eða svipaða starfsemi í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og skal þá í ágreiningi, sem stafar af rekstri starfseminnar, litið svo á að aðilinn eigi heimili í því ríki.
3. Kafli þessi gildir ekki um flutningssamninga, nema þeir feli í sér ferðir og gistingu fyrir heildarverð.
16. gr.
1. Neytandi getur höfðað mál gegn hinum samningsaðilanum annaðhvort fyrir dómstólum í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem sá aðili á heimili eða fyrir dómstólum þar sem neytandinn á heimili.
2. Hinn samningsaðilinn getur einungis höfðað mál gegn neytandanum fyrir dómstólum í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem neytandinn á heimili.
3. Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á rétt til að koma að gagnkröfu fyrir dómstóli þar sem aðalkrafan er til meðferðar í samræmi við ákvæði þessa kafla.
17. gr.
Frá ákvæðum þessa kafla má aðeins víkja með samningi:
    1. sem gerður er eftir að ágreiningur er risinn, eða
    2. sem heimilar neytandanum að höfða mál fyrir öðrum dómstólum en þeim sem getið er um í þessum kafla, eða
    3. sem gerður er af neytanda og samningsaðila hans sem áttu báðir heimili eða dvöldust að jafnaði í sama ríki, sem er bundið af þessum samningi, þegar samningurinn var gerður og samningurinn veitir dómstólum þess ríkis dómsvald enda sé slíkur samningur ekki andstæður lögum þess ríkis.

5. kafli. Varnarþing í vinnusamningum einstakra manna.
18. gr.
1. Í málum sem varða vinnusamninga einstakra manna skal ákvarða varnarþing eftir ákvæðum þessa kafla, sbr. þó 4. gr. og 5. tölul. 5. gr.
2. Nú gerir launþegi vinnusamning við vinnuveitanda sem á ekki heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, en hefur útibú, umboðsskrifstofu eða svipaða starfsemi í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og skal þá, vegna ágreinings sem stafar af rekstri útibúsins, umboðsskrifstofunnar eða starfseminnar, líta svo á að vinnuveitandinn eigi heimili í því ríki.
19. gr.
Heimilt er að höfða mál gegn vinnuveitanda sem á heimili í ríki sem er bundið af þessum samningi:
    1. fyrir dómstólum í því ríki þar sem hann á heimili, eða
    2. í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi:
    a) fyrir dómstólum þar sem launþeginn starfar að jafnaði eða fyrir dómstólum þess staðar þar sem hann starfaði síðast, eða
    b) ef launþeginn starfar eða starfaði að jafnaði ekki í einu tilteknu landi, fyrir dómstólum þess staðar þar sem starfsemin, sem launþeginn var ráðinn til, er eða var.
20. gr.
1. Vinnuveitandi má einungis höfða mál gegn launþega fyrir dómstólum í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem launþegi á heimili.
2. Ákvæði þessa kafla hafa ekki áhrif á rétt til að koma að gagnkröfu fyrir dómstóli þar sem aðalkrafan er til meðferðar í samræmi við ákvæði þessa kafla.
21. gr.
Frá ákvæðum þessa kafla má aðeins víkja með samningi um varnarþing:
    1. sem gerður er eftir að ágreiningur er risinn, eða
    2. sem heimilar launþeganum að höfða mál fyrir öðrum dómstólum en þeim sem getið er um í þessum kafla.

6. kafli. Skylduvarnarþing.
22. gr.
Eftirgreindir dómstólar hafa einir dómsvald, án tillits til heimilis:
    1. í málum um réttindi yfir fasteign eða leigu fasteignar, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem fasteignin er.
Í málum um fasteignaleigusamninga, sem gerðir eru um tímabundin persónuleg afnot til allt að sex mánaða óslitið, skulu dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem varnaraðili á heimili þó einnig hafa dómsvald, enda sé leigutaki persóna og bæði leigutaki og leigusali eigi heimili í sama ríki sem er bundið af þessum samningi,
    2. í málum um gildi stofnskrár félaga, ógildi þeirra eða slit eða annarra lögpersóna eða samtaka manna eða lögpersóna eða um gildi ákvarðana fyrirsvarsaðila þeirra, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem félagið, lögpersónan eða samtökin hafa aðsetur. Við ákvörðun á aðsetri skal dómstóllinn beita þeim lagaskilareglum sem við hann gilda,
    3. í málum um gildi skráninga í opinberar skrár, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem skráin er haldin,
    4. í málum sem varða skráningu eða gildi einkaleyfa, vörumerkja, mynstra eða annarra svipaðra réttinda sem tilkynna þarf eða skrá, hvort heldur ágreiningsefnið er haft uppi til sóknar eða varnar, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem tilkynning eða beiðni um skráningu hefur verið lögð fram, hefur farið fram eða er talin hafa farið fram samkvæmt gerningi Evrópubandalagsins eða ákvæðum alþjóðasamnings.
Að öðru leyti en því, sem greinir um lögsögu Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar samkvæmt samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa sem undirritaður var í München 5. október 1973, skulu dómstólar allra ríkja, sem eru bundin af þessum samningi, einir hafa dómsvald, án tillits til heimilis, í málum um skráningu eða gildi evrópsks einkaleyfis hvort heldur ágreiningsefnið er haft uppi til sóknar eða varnar,
    5. í málum um fullnustu dóma, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem fullnusta hefur farið fram eða skal fara fram.

7. kafli. Samningar um varnarþing.
23. gr.
1. Nú hafa aðilar samið um að dómstóll eða dómstólar í ríki, sem er bundið af þessum samningi, skuli hafa dómsvald um ágreining sem þegar er risinn eða um ágreining sem kann að rísa í tengslum við tiltekin lögskipti þeirra og að minnsta kosti annar þeirra eða einn þeirra á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og skal þá sá dómstóll eða þeir dómstólar hafa dómsvald. Slíkt dómsvald útilokar dómsvald annarra dómstóla nema málsaðilar hafi samið um annað fyrirkomulag. Slíkur samningur um varnarþing skal vera:
    a) skriflegur eða munnlegur og staðfestur skriflega, eða
    b) í formi sem er í samræmi við venjur sem aðilar hafa komið á sín í milli, eða
    c) í milliríkjaviðskiptum, í formi sem er í samræmi við viðskiptavenjur sem aðilunum voru eða áttu að hafa verið kunnar og eru almennt þekktar og farið er almennt eftir af aðilum samninga af þeirri gerð á því viðskiptasviði sem um er að ræða.
2. Sérhver rafræn samskipti sem veita varanlega skráningu á samningnum skulu vera jafngild „skriflega“.
3. Hafi slíkt samkomulag verið gert milli aðila og hvorugur eða enginn þeirra á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, geta dómstólar í öðrum ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, ekki skorið úr málinu nema sá dómstóll eða þeir dómstólar, sem samið hefur verið um, hafi vísað máli frá dómi vegna rangs varnarþings.
4. Dómstóll sá eða dómstólar í ríki, sem er bundið af þessum samningi, sem veitt hefur verið dómsvald með skjali sem stofnar fjárvörslusjóð, hafa einir dómsvald í málum gegn stofnanda, vörslumanni eða rétthafa ef mál snýst um lögskipti þessara aðila eða um réttindi þeirra eða skyldur samkvæmt reglum sjóðsins.
5. Samningar um varnarþing eða slík ákvæði í skjali, sem stofnar fjárvörslusjóð, hafa ekki gildi ef þau fara gegn ákvæðum 13., 17. eða 21. gr. eða ef þau útiloka dómsvald þeirra dómstóla sem einir skulu hafa það samkvæmt 22. gr.
24. gr.
Enda þótt önnur ákvæði samnings þessa veiti dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, ekki dómsvald hefur hann dómsvald ef varnaraðili sækir dómþing fyrir honum. Þetta gildir þó ekki ef þing er sótt til að mótmæla varnarþingi eða ef annar dómstóll hefur einn dómsvald samkvæmt 22. gr.

8. kafli. Könnun á varnarþingi og því hvort mál sé tækt til meðferðar.
25. gr.
Nú er dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, falið að skera úr ágreiningi sem í aðalatriðum varðar málefni sem dómstólar í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, hafa einir dómsvald um samkvæmt 22. gr. og skal hann þá sjálfkrafa vísa máli frá dómi.
26. gr.
1. Nú er maður, sem á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, lögsóttur fyrir dómstóli í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, og sækir þar ekki dómþing og skal dómstóllinn þá sjálfkrafa vísa máli frá dómi nema hann hafi dómsvald samkvæmt ákvæðum samnings þessa.
2. Dómstóllinn skal fresta meðferð málsins þar til sýnt er fram á að varnaraðilinn hafi átt kost á að taka á móti stefnu eða samsvarandi skjali svo tímanlega að hann hefði getað undirbúið vörn sína eða að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar í því skyni.
3. Ákvæði 15. gr. Haagsamningsins frá 15. nóvember 1965 um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum eða verslunarmálum koma í stað ákvæða 2. mgr. ef senda skal stefnu eða samsvarandi skjal um málshöfðun samkvæmt þeim samningi.
4. Aðildarríki Evrópubandalagsins, sem eru bundin af reglugerð ráðsins (EB) nr. 1348/2000 frá 29. maí 2000 eða samningi milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um birtingu á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum eða verslunarmálum, sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005, skulu, í samskiptum sín á milli, beita ákvæðum 19. gr. þeirrar reglugerðar ef senda skal stefnu eða samsvarandi skjal um málshöfðun samkvæmt þeirri reglugerð og þeim samningi.

9. kafli. „Litis pendens“ og skyldar kröfur.
27. gr.
1. Ef krafa, byggð á sömu málsástæðum og milli sömu aðila, er gerð fyrir dómstólum í tveimur eða fleiri ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, skal hver dómstóll, annar en sá sem mál er fyrst höfðað fyrir, sjálfkrafa fresta meðferð þess þar til fyrir liggur að sá dómstóll hafi dómsvald í málinu.
2. Þegar fyrir liggur að sá dómstóll sem mál er fyrst höfðað fyrir hafi dómsvald skulu aðrir dómstólar vísa málinu frá dómi í þágu hans.
28. gr.
1. Ef skyldar kröfur eru gerðar fyrir dómstólum í tveimur eða fleiri ríkjum sem eru bundin af þessum samningi getur hver dómstóll, annar en sá sem mál er fyrst höfðað fyrir, frestað málsmeðferð sinni.
2. Ef skyldar kröfur eru gerðar á fyrsta dómstigi, getur hvaða dómstóll sem er, annar en sá sem málið var fyrst höfðað fyrir, vísað málinu frá samkvæmt kröfu einhvers málsaðilans, ef sá dómstóll sem mál er fyrst höfðað fyrir hefur dómsvald um kröfurnar og lög, sem gilda við þann dómstól, heimila að skyldar kröfur séu sóttar sameiginlega.
3. Með skyldum kröfum er í grein þessari átt við kröfur sem eru svo tengdar innbyrðis að æskilegt er að fara með þær og dæma sameiginlega til að koma í veg fyrir að ósamrýmanlegir dómar verði kveðnir upp ef dæmt er um hverja þeirra sérstaklega.
29. gr.
Ef fleiri dómstólar en einn eiga hver um sig einir dómsvald um kröfu skulu allir dómstólar, aðrir en sá sem mál er fyrst höfðað fyrir, vísa máli frá dómi í þágu þess dómstóls.
30. gr.
Samkvæmt þessum kafla telst mál höfðað fyrir dómstóli:
    1. þegar stefna, eða samsvarandi skjal um málshöfðun, hefur verið lögð fram fyrir dómi, svo fremi að stefnandi hafi ekki í kjölfarið látið hjá líða að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að láta birta stefnuna fyrir stefnda,
    2. ef nauðsynlegt er að birta stefnu áður en hún er lögð fram fyrir dómi, frá þeim tíma þegar sá sem hefur heimild til að birta stefnu tekur við henni, svo fremi að stefnandi hafi ekki í kjölfarið látið hjá líða að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að leggja stefnu fram fyrir dómi.

10. kafli. Bráðabirgðaúrræði, þar með talin tryggingarúrræði.
31. gr.
Leita má til dómstóla í ríki, sem er bundið af þessum samningi, um að beita réttarúrræðum til bráðabirgða, þar með talin tryggingarúrræði, sem lög þess ríkis kunna að heimila, enda þótt dómstólar í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, hafi dómsvald um efni málsins samkvæmt samningi þessum.

III. hluti. Viðurkenning og fullnusta.
32. gr.
Í samningi þessum merkir „dómur“ sérhverja ákvörðun um málsúrslit, sem tekin er af dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, hverju nafni sem hún nefnist, svo sem dóm, úrskurð eða ákvörðun um fullnustu, svo og ákvörðun réttarritara um málskostnað.

1. kafli. Viðurkenning.
33. gr.
1. Dómur, sem kveðinn hefur verið upp í ríki sem er bundið af þessum samningi, skal viðurkenndur í öðrum ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, án þess að nokkurrar sérstakrar málsmeðferðar sé þörf.
2. Ef ágreiningur rís um það hvort dómur skuli viðurkenndur getur hver sá aðili sem hagsmuna hefur að gæta óskað, samkvæmt þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í 2. og 3. kafla þessa hluta, ákvörðunar um að dómurinn skuli viðurkenndur.
3. Ef viðurkenningin hefur þýðingu fyrir úrslit máls sem rekið er fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og aðili ber hana fyrir sig hefur sá dómstóll dómsvald um viðurkenningarkröfuna.
34. gr.
Dómur skal ekki viðurkenndur:
    1. ef viðurkenning hans væri bersýnilega andstæð allsherjarreglu í því ríki þar sem hennar er krafist,
    2. ef hann er útivistardómur og varnaraðila var ekki birt stefna eða samsvarandi skjal svo tímanlega og með þeim hætti að hann gæti undirbúið vörn sína, nema stefndi hafi látið hjá líða að hefja mál til að hnekkja dóminum þegar hann átti þess kost,
    3. ef hann er ósamrýmanlegur dómi sem kveðinn hefur verið upp í máli milli sömu aðila í ríki því þar sem viðurkenningar er krafist,
    4. ef hann er ósamrýmanlegur dómi, sem áður hefur verið kveðinn upp í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, eða í þriðja ríki um sama sakarefni og milli sömu aðila, enda fullnægi fyrri dómurinn skilyrðum til viðurkenningar í því ríki þar sem viðurkenningar er krafist.
35. gr.
1. Dómur skal enn fremur ekki viðurkenndur ef hann brýtur gegn ákvæðum 3., 4. eða 6. kafla II. hluta eða ef um er að ræða tilvik sem fjallað er um í 68. gr. Auk þess má synja um viðurkenningu dóms ef um er að ræða tilvik sem fjallað er um í 3. mgr. 64. gr. eða 4. mgr. 67. gr.
2. Við könnun á varnarþingsreglum þeim sem vísað er til í 1. mgr. er dómstóll sá eða yfirvald það sem viðurkenningarkrafan er sett fram við bundið þeim niðurstöðum um málsatvik sem dómstóll upphafsríkisins byggði dómsvald sitt á.
3. Dómsvald dómstólsins í dómsríkinu verður ekki endurskoðað að öðru leyti en greinir í 1. mgr. Áskilnaður sá sem vísað er til í 1. tölul. 34. gr. um samræmi við allsherjarreglu tekur ekki til varnarþingsreglna.
36. gr.
Erlendan dóm má aldrei endurskoða að efni til.
37. gr.
1. Ef krafist hefur verið viðurkenningar fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, á dómi kveðnum upp í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, má dómstóllinn fresta málinu ef dómurinn hefur sætt málskoti með venjulegum hætti.
2. Ef krafist hefur verið viðurkenningar fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, á dómi kveðnum upp á Írlandi eða í Breska konungsríkinu má dómstóllinn fresta málinu ef fullnustu hefur verið frestað í dómsríkinu vegna málskots.

2. kafli. Fullnusta.
38. gr.
1. Dómi, sem kveðinn hefur verið upp í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og fullnægja má í því ríki, skal fullnægja í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, þegar hann, að beiðni rétts aðila, hefur verið lýstur fullnustuhæfur þar.
2. Í Breska konungsríkinu skal þó fullnægja slíkum dómi í Englandi og Wales, í Skotlandi eða á Norður-Írlandi þegar hann, að beiðni rétts aðila, hefur verið skráður fullnustuhæfur í þeim hluta Breska konungsríkisins.
39. gr.
1. Beiðnina skal leggja fram til þess dómstóls eða valdbærs stjórnvalds sem er talið upp í listanum í viðauka II.
2. Heimili þess, sem fullnustu er krafist hjá, eða sá staður þar sem fullnustu er krafist, ræður því hver dómstóll fer með mál.
40. gr.
1. Með beiðnina skal fara samkvæmt lögum þess ríkis þar sem fullnustu er krafist.
2. Beiðandi skal tilgreina réttarfarslegt aðsetur í umdæmi þess dómstóls sem beiðni er beint til. Ef lög þess ríkis þar sem fullnustu er krafist mæla ekki fyrir um slíkt aðsetur skal beiðandi tilnefna málflutningsumboðsmann.
3. Skjöl þau sem í 53. gr. getur skulu fylgja beiðni.
41. gr.
Dómur skal lýstur aðfararhæfur um leið og formskilyrði 53. gr. hafa verið uppfyllt, án þess að hann sé endurskoðaður samkvæmt 34. og 35. gr. Á þessu stigi málsins skal þeim aðila sem fullnustu er krafist hjá ekki veitt færi á að gera athugasemdir við beiðnina.
42. gr.
1. Gera skal beiðanda samstundis kunnugt um afdrif ákvörðunar um beiðni um fullnustuhæfi í samræmi við réttarfarsreglur í því ríki sem fullnustu er leitað.
2. Yfirlýsingu um að dómur sé fullnustuhæfur skal birta fyrir þeim aðila sem fullnustu er krafist hjá, ásamt dóminum sjálfum, ef hann hefur ekki þegar verið birtur aðilanum.
43. gr.
1. Málsaðilum er báðum heimilt að bera undir dóm ákvörðun í tilefni af beiðni um yfirlýsingu um fullnustuhæfi eða fá hana endurupptekna.
2. Málskoti eða ósk um endurupptöku skal beina til þess dómstóls sem nefndur er í viðauka III.
3. Um málskot eða ósk um endurupptöku fer samkvæmt reglum um réttarfar í umþrættum einkamálum.
4. Ef sá aðili, sem fullnustu er leitað hjá, mætir ekki fyrir dómi þegar krafa beiðanda um málskot er tekin fyrir, gilda ákvæði 2. og 4. mgr. 26. gr. þrátt fyrir að sá aðili sem fullnustu er leitað hjá eigi ekki heimili í neinu ríki sem er bundið af þessum samningi.
5. Bera má ákvörðun um fullnustuhæfi undir dóm innan mánaðar frá birtingu hennar. Ef sá aðili sem fullnustu er leitað hjá á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, öðru en því þar sem fullnustuheimild var veitt, er frestur til málskots eða endurupptöku tveir mánuðir talið frá þeim degi er birting fór fram, annaðhvort fyrir honum sjálfum eða á heimili hans. Frest þennan má ekki lengja vegna mikillar fjarlægðar.
44. gr.
Niðurstöðu málskots eða endurupptöku verður aðeins hnekkt með málskoti sem vísað er til í viðauka IV.
45. gr.
1. Dómstóll sem tekur fyrir málskot eða beiðni um endurupptöku samkvæmt 43. eða 44. gr. skal synja eða fella úr gildi yfirlýsingu um fullnustuhæfi einungis á þeim grundvelli sem tilgreindur er í 34. og 35. gr. Skal ákvörðun dómstólsins liggja fyrir án tafar.
2. Hinn erlenda dóm má aldrei endurskoða að efni til.
46. gr.
1. Dómstóll sá sem máli er skotið til samkvæmt 43. eða 44. gr. getur að kröfu þess sem fullnustu er krafist hjá frestað máli ef dóminum hefur verið skotið til æðra dóms á venjulegan hátt í dómsríkinu eða endurupptöku er krafist þar eða ef frestur til þessa er enn ekki liðinn. Í síðargreinda tilvikinu getur dómstóllinn ákveðið frest til að koma fram málskoti eða leggja fram kröfu um endurupptöku.
2. Hafi dómur verið kveðinn upp á Írlandi eða í Breska konungsríkinu skal litið á hvert það málskot, sem heimilað er í dómsríkinu, sem venjulegt málskot í merkingu 1. mgr.
3. Dómstóllinn getur einnig áskilið um fullnustu að sett verði trygging sem dómstóllinn ákvarðar.
47. gr.
1. Þegar viðurkenna ber dóm samkvæmt þessum samningi skal ekki koma í veg fyrir að beiðandi notfæri sér réttarúrræði til bráðabirgða, þar með talin tryggingarúrræði, í samræmi við lög þess ríkis sem um ræðir, án þess að krafist sé yfirlýsingar um fullnustuhæfi samkvæmt 41. gr.
2. Yfirlýsing um fullnustuhæfi felur í sér rétt til að beita hvaða tryggingarráðstöfunum sem er.
3. Meðan frestur til málskots samkvæmt 5. mgr. 43. gr. um ákvörðun um fullnustuhæfi er ekki liðinn og þar til niðurstaða af slíku málskoti liggur fyrir má ekki gera aðrar ráðstafanir til fullnustu en þær sem miða að því að tryggja fullnustu í eignum þess aðila sem fullnustu er krafist hjá.
48. gr.
1. Nú hefur í erlendum dómi verið tekin afstaða til margra krafna og ekki er unnt að heimila fullnustu þeirra allra og skal þá dómstóllinn eða valdbært stjórnvald heimila fullnustu einnar þeirra eða fleiri.
2. Beiðandinn getur krafist yfirlýsingar um fullnustuhæfi dóms að hluta til.
49. gr.
Hafi erlendur dómur mælt fyrir um févíti verður honum aðeins fullnægt í því ríki þar sem fullnustu er krafist ef fjárhæð févítisins hefur verið endanlega ákveðin af dómstólum í dómsríkinu.
50. gr.
1. Ef sá sem fullnustu krefst hefur í dómsríkinu, að öllu leyti eða að hluta, notið að lögum fjárhagslegrar aðstoðar við málarekstur eða verið undanþeginn kostnaði eða gjöldum skal hann við þá málsmeðferð sem í þessum kafla getur njóta allrar þeirrar aðstoðar eða undanþágna frá kostnaði eða gjöldum sem framast eru veittar með lögum í því ríki þar sem fullnustu er krafist.
2. Þó getur sá sem krefst fullnustu á úrskurði um framfærsluskyldu, sem stjórnvald í Danmörku, Íslandi eða Noregi hefur kveðið upp, nýtt sér í því ríki þar sem fullnustu er krafist það hagræði sem í 1. mgr. segir, ef hann leggur fram yfirlýsingu frá danska, íslenska eða norska dómsmálaráðuneytinu, eftir því sem við á, um að hann fullnægi efnahagslegum skilyrðum til fjárhagslegrar aðstoðar, að öllu leyti eða að hluta, eða til undanþágu frá kostnaði eða gjöldum.
51. gr.
Aðili, sem krefst fullnustu í ríki, sem er bundið af þessum samningi, á dómi sem upp hefur verið kveðinn í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, verður ekki krafinn um neins konar tryggingu eða framlag á þeim forsendum að hann sé erlendur ríkisborgari eða að hann eigi ekki heimili eða dvöl í því ríki þar sem fullnustu er krafist.
52. gr.
Engan skatt, gjald eða þóknun, sem reiknast með hliðsjón af verðmæti þeirra hagsmuna sem í húfi eru, má leggja á í tengslum við meðferð yfirlýsingar um fullnustuhæfi í því ríki þar sem fullnustu er krafist.

3. kafli. Sameiginleg ákvæði.
53. gr.
1. Aðili, sem krefst viðurkenningar eða yfirlýsingar um fullnustuhæfi á dómi, skal leggja fram endurrit dóms sem fullnægir nauðsynlegum skilyrðum til að sanna gildi hans.
2. Aðili, sem krefst yfirlýsingar um fullnustuhæfi á dómi, skal einnig leggja fram vottorð það sem vísað er til í 54. gr., sbr. þó 55. gr.
54. gr.
Dómstóll eða valdbært stjórnvald í ríki, sem er bundið af þessum samningi og þar sem úrlausn var fengin, skal, eftir kröfu þess sem á hagsmuna að gæta, gefa út vottorð og til þess nota staðlaða eyðublaðið í viðauka V.
55. gr.
1. Hafi skjalið, sem tilgreint er í 54. gr., ekki verið lagt fram getur dómstóllinn eða valdbært stjórnvald sett frest til framlagningar þess, tekið samsvarandi skjal gilt eða, ef dómstóllinn telur mál nægilega upplýst, fallið frá kröfu um framlagningu þess.
2. Ef dómstóllinn eða valdbært stjórnvald krefst þess skal leggja fram þýðingu á skjölunum. Skal þýðingin staðfest af manni sem til þess er bær í einhverju ríkjanna sem er bundið af þessum samningi.
56. gr.
Ekki verður krafist löggildingar eða svipaðra formsatriða að því er varðar skjöl þau sem fjallað er um í 53. gr. eða 2. mgr. 55. gr., né að því er varðar málflutningsumboð.

IV. hluti. Opinberlega staðfest skjöl og réttarsáttir.
57. gr.
1. Opinberlega staðfest skjal, sem gefið hefur verið út og fullnustuhæft er í ríki sem er bundið af þessum samningi, skal samkvæmt beiðni lýsa fullnustuhæft í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, samkvæmt þeim reglum sem greinir í 38. gr. og eftirfarandi greinum. Dómstóll, sem tekur fyrir málskot eða beiðni um endurupptöku samkvæmt 43. eða 44. gr., skal einungis synja eða fella úr gildi yfirlýsingu um að dómur sé fullnustuhæfur ef fullnusta skjalsins væri bersýnilega andstæð allsherjarreglu í ríki því sem beiðni er beint til.
2. Einnig skal líta á ráðstafanir stjórnvalda vegna framfærsluskyldu eða staðfestingar stjórnvalda á þeim sem opinberlega staðfest skjöl í skilningi 1. mgr.
3. Skjalið skal fullnægja þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að sanna að það sé opinberlega staðfest skjal í ríki því sem það var gefið út í.
4. Ákvæðin í 3. kafla III. hluta gilda eftir því sem við á. Valdbært stjórnvald í ríki, sem er bundið af þessum samningi og þar sem skjal var opinberlega staðfest og gefið út, skal gefa út vottorð, eftir kröfu þess sem hefur hagsmuna að gæta, og til þess nota staðlaða eyðublaðið í viðauka VI.
58. gr.
Sátt, sem gerð hefur verið fyrir dómstóli við meðferð máls og er fullnustuhæf í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem hún var gerð, má fullnægja í því ríki þar sem fullnustu er krafist með sömu skilyrðum og gilda um opinberlega staðfest skjöl. Dómstóll eða valdbært stjórnvald í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem réttarsátt var staðfest skal gefa út vottorð, eftir kröfu þess sem hefur hagsmuna að gæta, og til þess nota staðlaða eyðublaðið í viðauka V.

V. hluti. Almenn ákvæði.
59. gr.
1. Þegar ákvarða skal hvort aðili eigi heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi og þar sem mál hefur verið höfðað, skal dómstóllinn beita þeim lögum sem við hann gilda.
2. Ef aðili á ekki heimili í því ríki þar sem mál hefur verið höfðað skal dómstóllinn, þegar hann tekur afstöðu til þess hvort aðilinn eigi heimili í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi, beita lögum þess ríkis.
60. gr.
1. Þegar beitt er ákvæðum samnings þessa skal telja heimili félags, annarrar lögpersónu eða samtaka manna eða lögpersóna þar sem:
    a) aðsetur þeirra er, eða
    b) höfuðstöðvar þeirra eru, eða
    c) meginstarfsemi þeirra fer fram.
2. Í tilviki Breska konungsríkisins og Írlands merkir „aðsetur“ skráða skrifstofu eða, ef um enga slíka skrifstofu er að ræða neins staðar, þann stað þar sem aðili er stofnaður sem lögpersóna, eða, ef um engan slíkan stað er að ræða neins staðar, þann stað þar sem viðkomandi aðili varð til eftir þeim lögum sem þar gilda.
3. Þegar ákvarða skal hvort fjárvörslusjóður eigi heimili í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem mál hefur verið höfðað skal dómstóllinn beita þeim lagaskilareglum sem við hann gilda.
61. gr.
Án þess að raskað sé gildi ákvæða í landslögum, sem betri rétt veita, geta þeir sem eiga heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og sæta málshöfðun vegna brots, sem framið var af gáleysi, valið sér, fyrir sakadómi í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem þeir eru ekki ríkisborgarar, löghæfan mann til að annast vörn sína, einnig þótt þeir mæti ekki sjálfir fyrir dómi. Dómstóll sá, sem með málið fer, getur þó ákveðið að viðkomandi skuli sjálfur koma fyrir dóm; komi hann ekki fyrir dóm þarf hvorki að viðurkenna né fullnægja dómi í öðrum ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, að því er tekur til kröfu einkamálaréttarlegs eðlis ef hann átti þess ekki kost að taka til varna í málinu.
62. gr.
Í samningi þessum merkir hugtakið „dómstóll“ yfirvald sem hefur verið falið dómsvald af ríki, sem er bundið af þessum samningi, í málum sem falla undir gildissvið þessa samnings.

VI. hluti. Bráðabirgðaákvæði.
63. gr.
1. Þessum samningi skal einungis beita um dómsmál sem höfðuð eru og um opinberlega staðfest skjöl sem gefin eru út eftir að samningurinn öðlast gildi í dómsríkinu og þegar krafist er viðurkenningar eða fullnustu á dómi eða opinberlega staðfestu skjali, í því ríki sem beiðni er beint til.
2. Þó skulu dómar, sem kveðnir eru upp eftir að samningur þessi öðlast gildi, en þar sem mál í dómsríkinu var höfðað fyrir gildistöku þessa samnings, vera viðurkenndir og þeim fullnægt samkvæmt ákvæðum III. hluta:
    a) ef málið í dómsríkinu var höfðað eftir að Lúganósamningurinn frá 16. september 1988 tók gildi bæði í dómsríkinu og í því ríki sem beiðni er beint til,
    b) í öllum öðrum tilvikum, ef dómsvald dómstólsins byggðist á hliðstæðum reglum og eru í II. hluta samnings þessa eða samningi sem var í gildi milli dómsríkisins og þess ríkis sem beiðni er beint til þegar málið var höfðað.

VII. hluti. Afstaða til reglugerðar ráðsins (EB) nr. 44/2001 og annarra samninga.
64. gr.
1. Samningur þessi hindrar ekki að aðildarríki Evrópubandalagsins beiti reglugerð ráðsins (EB) nr. 44/2001 um dómsvald, viðurkenningu og um fullnustu dóma í einkamálum, með síðari breytingum, samningi um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sem undirritaður var í Brussel 27. september 1968, eða bókun um túlkun dómstóls Evrópubandalaganna á þeim samningi, sem undirrituð var í Lúxemborg 3. júní 1971, eins og þeim hefur verið breytt með aðildarsamningum ríkja Evrópubandalaganna að þeim samningi og bókun, auk samnings milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005.
2. Samningi þessum skal þó ávallt beita:
    a) við úrlausn um dómsvald ef varnaraðili á heimili í ríki þar sem þessi samningur gildir, en ekki samningur samkvæmt 1. mgr., eða ef dómstólum í slíku ríki er veitt dómsvald með 22. eða 23. gr. samnings þessa,
    b) um „litis pendens“ eða skyldar kröfur, sbr. 27. og 28. gr., þegar mál er höfðað í ríki þar sem samningur þessi gildir, en ekki samningur samkvæmt 1. mgr., og í ríki þar sem samningur þessi gildir auk samnings samkvæmt 1. mgr.,
    c) við úrlausn um viðurkenningu og fullnustu þegar annaðhvort dómsríkið eða ríki það sem beiðni er beint til beitir ekki samningi samkvæmt 1. mgr.
3. Auk þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í III. hluta má synja um viðurkenningu eða fullnustu ef þær reglur sem dómstóllinn hefur byggt dómsvald sitt á eru aðrar en þær sem af samningi þessum leiðir og krafist er viðurkenningar eða fullnustu hjá aðila sem á heimili í ríki þar sem þessi samningur gildir en ekki samningur samkvæmt 1. mgr., nema dóminn megi ella viðurkenna eða honum megi fullnægja samkvæmt lögum í því ríki sem beiðni er beint til.
65. gr.
Að öðru leyti en því sem leiðir af 2. mgr. 63. gr., 66. gr. og 67. gr. kemur samningur þessi, hvað varðar ríki sem eru bundin af þessum samningi, í stað samninga milli tveggja þeirra eða fleiri sem fjalla um sama efni og þessi samningur. Sér í lagi skal þessi samningur ganga fyrir þeim samningum sem vísað er til í viðauka VII.
66. gr.
1. Samningar þeir sem taldir eru í 65. gr. skulu halda gildi sínu á þeim sviðum sem samningur þessi tekur ekki til.
2. Þeir skulu enn fremur halda gildi sínu um dóma sem kveðnir eru upp og um opinberlega staðfest skjöl sem gefin eru út áður en samningur þessi öðlast gildi.
67. gr.
1. Samningur þessi hefur ekki áhrif á samninga sem binda samningsaðilana og/eða ríkin, sem bundin eru af þessum samningi, og ákvarða dómsvald eða viðurkenningu eða fullnustu dóma á tilteknum sviðum. Þrátt fyrir skyldur, sem leiðir af öðrum samningum milli tiltekinna samningsaðila, kemur þessi samningur ekki í veg fyrir að samningsaðilar geri slíka samninga.
2. Samningur þessi kemur ekki í veg fyrir að dómstóll í ríki, sem er bundið af þessum samningi og samningi um tiltekið efni, taki sér dómsvald samkvæmt þeim samningi enda þótt varnaraðili eigi heimili í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi og ekki er aðili að þeim samningi. Dómstóll sá sem mál hefur til meðferðar skal þó ávallt beita ákvæðum 26. gr. samnings þessa.
3. Dómar, sem kveðnir eru upp í ríki, sem er bundið af þessum samningi, af dómstóli, sem dómsvald hefur samkvæmt samningi um tiltekið efni, skulu viðurkenndir og þeim fullnægt í öðrum ríkjum sem eru bundin af þessum samningi í samræmi við ákvæðin í III. hluta samnings þessa.
4. Auk þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í III. hluta má synja um viðurkenningu eða fullnustu ef ríki það sem beiðni er beint til er ekki aðili að samningi um tiltekið efni og sá maður sem viðurkenningar eða fullnustu er krafist hjá á heimili í því ríki eða, ef ríkið er aðili að Evrópubandalaginu og vegna samninga sem Evrópubandalagið þyrfti að gera, í einhverju aðildarríkja sinna, nema dóminn megi ella viðurkenna eða honum megi fullnægja samkvæmt lögum í því ríki sem beiðni er beint til.
5. Nú eru bæði dómsríkið og ríki það sem beiðni er beint til aðilar að samningi um tiltekið efni og samningurinn tilgreinir skilyrði fyrir viðurkenningu eða fullnustu dóma og skulu þá þau skilyrði gilda. Ávallt má beita ákvæðum samnings þessa um málsmeðferð til viðurkenningar og fullnustu dóma.
68. gr.
1. Samningur þessi hefur ekki áhrif á samninga sem ríki, sem eru bundin af þessum samningi, gerðu, áður en þessi samningur öðlast gildi, um að viðurkenna ekki dóma, sem kveðnir eru upp í öðrum ríkjum sem eru bundin af þessum samningi, gegn varnaraðilum sem eiga heimili eða dveljast að jafnaði í þriðja ríki ef svo stendur á sem í 4. gr. segir og dóminn mátti einungis byggja á varnarþingsreglu sem tilgreind er í 2. mgr. 3. gr. Þrátt fyrir skyldur, sem leiðir af öðrum samningum milli tiltekinna samningsaðila, kemur þessi samningur ekki í veg fyrir að samningsaðilar geri slíka samninga.
2. Þó má samningsaðili ekki skuldbinda sig gagnvart þriðja ríki til að viðurkenna ekki dóm sem kveðinn er upp í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, af dómstóli sem byggir dómsvald sitt á því að varnaraðili á eignir í því ríki eða á því að sóknaraðili hefur komið fram aðför í eign sem er í því ríki:
    a) ef málið varðar eignarrétt eða umráðarétt yfir eigninni, miðar að því að öðlast ráðstöfunarrétt yfir henni eða varðar annan ágreining um eignina, eða
    b) ef eignin hefur verið sett til tryggingar kröfu sem málið varðar.

VIII. hluti. Lokaákvæði.
69. gr.
1. Samning þennan skal leggja fram til undirritunar af hálfu Evrópubandalagsins, Danmerkur og ríkja sem eru aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu á þeim tíma sem samningurinn var lagður fram til undirritunar.
2. Samningurinn er háður fullgildingu af hálfu þeirra ríkja sem undirrita hann. Fullgildingarskjölin skal afhenda svissneska sambandsráðinu sem sinnir hlutverki vörsluaðila samningsins.
3. Þegar samningurinn hefur verið fullgiltur mega samningsaðilar senda yfirlýsingar í samræmi við I., II. og III. gr. í bókun nr. 1.
4. Samningurinn öðlast gildi fyrsta dag sjötta mánaðar eftir þann dag þegar Evrópubandalagið og aðildarríki að Fríverslunarsamtökum Evrópu hafa afhent fullgildingarskjöl sín.
5. Samningurinn öðlast gildi gagnvart sérhverjum öðrum samningsaðila fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að hann hefur afhent fullgildingarskjal sitt.
6. Með fyrirvara um 3. mgr. 3. gr. í bókun nr. 2 kemur samningur þessi í stað samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sem var gerður í Lúganó 16. september 1988, frá þeim degi sem hann tekur gildi í samræmi við 4. og 5. mgr. hér að framan. Litið verður á allar tilvísanir í Lúganósamninginn frá 1988 í öðrum samningum sem tilvísun til þessa samnings.
7. Að því er varðar sambandið á milli aðildarríkja Evrópubandalagsins og þeirra yfirráðasvæða sem fjallað er um í b-lið 1. mgr. 70. gr. og eru ekki í Evrópu, þá kemur þessi samningur í stað samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum sem var undirritaður í Brussel 27. september 1968, bókunar um túlkun dómstóls Evrópubandalaganna á þeim samningi, sem undirrituð var í Lúxemborg 3. júní 1971, eins og þeim hefur verið breytt með aðildarsamningum ríkja að Evrópubandalögunum að þeim samningi og bókun, hvað þessi yfirráðasvæði varðar í samræmi við 2. mgr. 73. gr., frá þeim degi sem þessi samningur tekur gildi.
70. gr.
1. Þegar samningur þessi hefur öðlast gildi er aðild að honum heimil:
    a) ríkjum sem verða aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, eftir að samningur þessi er lagður fram til undirritunar, með þeim skilyrðum sem er að finna í 71. gr.,
    b) aðildarríkjum Evrópubandalagsins sem koma fram fyrir hönd tiltekinna yfirráðasvæða utan Evrópu, en eru hluti af yfirráðasvæði þess aðildarríkis eða aðildarríkið er ábyrgt fyrir utanríkismálum þess yfirráðasvæðis samkvæmt skilyrðum 71. gr.,
    c) hvaða öðru ríki sem er með þeim skilyrðum sem er að finna í 72. gr.
2. Þau ríki sem vísað er til í 1. mgr. og vilja gerast aðilar að þessum samningi skulu beina umsókn sinni til vörsluaðilans. Umsókninni, ásamt þeim upplýsingum er um getur í 71. og 72. gr., skal fylgja ensk og frönsk þýðing.
71. gr.
1. Hvert það ríki sem vísað er til í a- og b-lið 1. mgr. 70. gr. og vill gerast aðili að þessum samningi:
    a) skal koma til skila þeim upplýsingum sem krafist er til að þessi samningur gildi,
    b) má leggja fram yfirlýsingar í samræmi við I. og III. gr. í bókun nr. 1.
2. Vörsluaðilinn skal senda allar upplýsingar sem hann hefur fengið samkvæmt 1. mgr. til hinna samningsaðilanna áður en aðildarskjal viðkomandi ríkis er afhent til vörslu.
72. gr.
1. Hvert það ríki sem vísað er til í c-lið 1. mgr. 70. gr. og vill gerast aðili að þessum samningi:
    a) skal koma til skila þeim upplýsingum sem krafist er til að þessi samningur gildi,
    b) má leggja fram yfirlýsingar í samræmi við I. og III. gr. í bókun nr. 1, og
    c) skal veita vörsluaðilanum upplýsingar, er varða sérstaklega:
    1) réttarkerfi þess, þar á meðal upplýsingar um skipun dómara og sjálfstæði þeirra,
    2) landsrétt þess varðandi réttarfar í einkamálum og um fullnustu dóma, og
    3) lagaskilareglur þeirra í tengslum við einkamálaréttarfar.
2. Vörsluaðilinn skal senda allar upplýsingar, sem berast samkvæmt 1. mgr., til hinna samningsaðilanna áður en viðkomandi ríki er boðið að gerast aðili að samningnum í samræmi við 3. mgr.
3. Vörsluaðilinn skal því aðeins bjóða viðkomandi ríki aðild ef það hefur fengið einróma samþykki samningsaðilanna, sbr. þó 4. mgr. Samningsaðilarnir skulu kappkosta að ljá samþykki sitt í síðasta lagi innan árs frá því að vörsluaðilinn bauð viðkomandi ríki að gerast aðili.
4. Að því er varðar samskipti þess ríkis sem gerist aðili og þeirra samningsaðila sem ekki hafa andmælt aðild þess öðlast samningurinn gildi fyrir fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að aðildarskjalið er afhent til vörslu.
73. gr.
1. Fullgildingarskjölin skal afhenda vörsluaðilanum til vörslu.
2. Í tilviki ríkis, sem gerist aðili að samningnum samkvæmt 70. gr., tekur samningurinn gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að aðildarskjalið er afhent til vörslu. Frá þeim tíma skal viðkomandi ríki talið vera aðili að þessum samningi.
3. Sérhver samningsaðili má senda vörsluaðilanum texta þessa samnings á tungumáli eða tungumálum viðkomandi samningsaðila og skal textinn talinn jafngildur öðrum textum, ef aðilar að þessum samningi komast að samkomulagi um slíkt í samræmi við 4. gr. í bókun nr. 2.
74. gr.
1. Samningur þessi er ótímabundinn.
2. Sérhver samningsaðili getur, hvenær sem er, sagt samningnum upp með tilkynningu til vörsluaðilans.
3. Uppsögnin öðlast gildi við lok þess almanaksárs þegar sex mánuðir eru liðnir frá þeim degi er vörsluaðilinn veitti tilkynningu um uppsögn viðtöku.
75. gr.
Eftirfarandi bókanir og viðaukar fylgja samningnum:
    bókun nr. 1 um tiltekin atriði varðandi varnarþing, málsmeðferð og fullnustu,
    bókun nr. 2 um samræmda túlkun samningsins og um fastanefndina,
    bókun nr. 3 um beitingu 67. gr. samningsins,
    viðaukar I–IV og viðauki VII með upplýsingum í tengslum við beitingu þessa samnings,
    viðaukar V og VI þar sem er að finna vottorðin sem vísað er til í 54., 58. og 57. gr. þessa samnings,
    viðauki VIII þar sem er að finna yfirlit yfir jafngild tungumál sem vísað er til í 79. gr., og
    viðauki IX sem varðar beitingu II. gr. í bókun nr. 1.
Bókanir þessar og viðaukar skulu teljast óaðskiljanlegur hluti þessa samnings.
76. gr.
Sérhver samningsaðili getur farið fram á endurskoðun þessa samnings, sbr. þó 77. gr. Vörsluaðilinn skal í því skyni kalla til fastanefndina með þeim hætti sem segir í 4. gr. í bókun nr. 2.
77. gr.
1. Samningsaðilarnir skulu senda vörsluaðilanum texta allra ákvæða í lögum sem breyta listunum sem er að finna í viðauka I–IV, sem og öllum brottfellingum og viðbótum við listann sem er að finna í viðauka VII og hvenær þær tóku gildi. Koma skal með slíkar tilkynningar innan hæfilegs tíma áður en breytingarnar taka gildi og skal þeim fylgja þýðing á ensku og frönsku. Vörsluaðilinn skal aðlaga umrædda viðauka í samræmi við breytingarnar, eftir að hafa ráðfært sig við fastanefndina í samræmi við 4. gr. í bókun nr. 2. Samningsaðilarnir skulu í því skyni útvega þýðingu á þeirri aðlögun á tungumálum þeirra.
2. Fastanefndin skal gera allar breytingar á viðaukum V–VI og VIII–IX við þennan samning í samræmi við 4. gr. í bókun nr. 2.
78. gr.
1. Vörsluaðilinn skal tilkynna samningsaðilunum um:
    a) afhendingu sérhvers fullgildingar- eða aðildarskjals,
    b) gildistökudaga samnings þessa gagnvart samningsaðilunum,
    c) sérhverja yfirlýsingu sem móttekin er samkvæmt I.–IV. gr. í bókun nr. 1,
    d) sérhverja tilkynningu sem gerð er samkvæmt 2. mgr. 74. gr., 1. mgr. 77. gr. og 4. mgr. í bókun nr. 3.
2. Tilkynningunum mun fylgja þýðing á ensku og frönsku.
79. gr.
Samningur þessi, sem gerður er í einu frumriti á þeim tungumálum sem talin eru upp í viðauka VIII, þar sem allir textarnir eru jafngildir, skal varðveittur í skjalasafni svissneska sambandsráðsins. Svissneska sambandsráðið skal senda staðfest afrit samningsins til allra samningsaðila.
ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar ritað undir samning þennan.
Gjört í Lúganó 30. október 2007
Fyrir hönd Evrópubandalagsins
Fyrir hönd lýðveldisins Íslands
Fyrir hönd konungsríkisins Noregs
Fyrir hönd Svissneska sambandslýðveldisins
Fyrir hönd konungsríkisins Danmerkur

BÓKUN NR. 1 um tiltekin atriði varðandi varnarþing, málsmeðferð og fullnustu.
SAMNINGSAÐILAR HAFA KOMIÐ SÉR SAMAN UM EFTIRFARANDI:
I. gr.
1. Réttarskjöl og utanréttarskjöl, sem gerð hafa verið í ríki sem er bundið af þessum samningi og birta þarf manni í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, skal framsenda með þeim hætti sem samningar eða samkomulag sem er í gildi milli þessara ríkja kveða á um.
2. Ef samningsaðili á yfirráðasvæði, þar sem birting skal fram fara, mótmælir því ekki með yfirlýsingu við vörsluaðilann má einnig senda slík skjöl frá viðkomandi opinberum starfsmönnum í því ríki þar sem skjal er samið beint til viðkomandi opinberra starfsmanna í því ríki þar sem viðtakanda er að finna. Skal starfsmaðurinn í dómsríkinu þá senda samrit skjalsins til þess starfsmanns, í því ríki sem beiðni er send til, sem bær er til að afhenda það viðtakanda. Skjalið skal afhent með þeim hætti sem lög þess ríkis sem beiðni er send til mæla fyrir um. Afhendingin skal staðfest með vottorði sem senda skal beint til starfsmannsins í dómsríkinu.
3. Aðildarríki Evrópubandalagsins, sem eru bundin af reglugerð ráðsins (EB) nr. 1348/2000 frá 29. maí 2000 eða samningi milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um birtingu á réttarskjölum eða utanréttarskjölum í einkamálum eða verslunarmálum, sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005, skulu, í samskiptum sín á milli, beita ákvæðum þeirrar reglugerðar og þeim samningi.
II. gr.
1. Reglu 2. tölul. 6. gr. og 11. gr. um varnarþing í sakaukamálum eða í öðrum málum gegn þriðja manni má ekki beita að fullu í þeim ríkjum sem eru bundin af þessum samningi og vísað er til í viðauka IX. Mann, sem á heimili í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi, má lögsækja fyrir dómstólum í þeim ríkjum samkvæmt þeim reglum sem vísað er til í viðauka IX.
2. Frá þeim tíma er samningur þessi er fullgiltur getur Evrópubandalagið lýst því yfir að 2. tölul. 6. gr. og 11. gr. megi ekki beita í tilteknum öðrum aðildarríkjum og látið í té upplýsingar um þær reglur sem skulu gilda.
3. Dómar, sem kveðnir eru upp í öðrum ríkjum sem eru bundin af þessum samningi í samræmi við 2. tölul. 6. gr. eða 11. gr., skulu viðurkenndir og þeim fullnægt í ríkjum samkvæmt 1. og 2. mgr. í samræmi við III. hluta. Þau réttaráhrif sem dómar, sem kveðnir eru upp í ríkjum þessum, geta haft gagnvart þriðja manni, með því að beita ákvæðum 1. og 2. mgr., skal einnig viðurkenna í öðrum ríkjum sem eru bundin af þessum samningi.
III. gr.
1. Sviss áskilur sér rétt til að lýsa því yfir, við fullgildingu samningsins, að það muni ekki beita eftirfarandi hluta ákvæðis 2. tölul. 34. gr.:
„nema stefndi hafi látið hjá líða að hefja mál til að hnekkja dóminum þegar hann átti þess kost“.
Ef Sviss lýsir slíku yfir skulu aðrir samningsaðilar beita sama fyrirvara varðandi þá dóma sem eru kveðnir upp af svissneskum dómstólum.
2. Samningsaðilar geta á grundvelli yfirlýsingar, að því er varðar dóma sem eru kveðnir upp í því ríki sem gerist aðili samkvæmt c-lið 1. mgr. 70. gr., áskilið sér:
    a) þann rétt sem nefndur er í 1. mgr., og
    b) rétt þess yfirvalds sem um getur í 39. gr., þrátt fyrir ákvæði 41. gr., til þess að kanna sjálft hvort einhver þeirra ástæðna sem notaðar eru til að neita um viðurkenningu og fullnustu dóms sé til staðar eða ekki.
3. Hafi samningsaðili gert slíkan fyrirvara, sem mælt er fyrir um í 2. mgr., gagnvart ríki, sem gerist aðili, getur það ríki gert sama fyrirvara með yfirlýsingu gagnvart dómum sem kveðnir eru upp af dómstólum viðkomandi samningsaðila.
4. Að undanskildum þeim fyrirvara sem nefndur er í 1. mgr. gilda yfirlýsingarnar í fimm ár og eru endurnýjanlegar að loknum þeim tíma. Samningsaðilinn skal tilkynna um endurnýjun yfirlýsingar þeirrar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. ekki síðar en sex mánuðum áður en slíku tímabili lýkur. Ríki, sem gerist aðili, getur einungis endurnýjað yfirlýsingu sína, sem gefin er samkvæmt 3. mgr., eftir að hlutaðeigandi yfirlýsing samkvæmt 2. mgr. hefur verið endurnýjuð.
IV. gr.
Yfirlýsingar þær sem vísað er til í þessari bókun má draga til baka hvenær sem er með tilkynningu til vörsluaðilans. Tilkynningunni skal fylgja þýðing á ensku og frönsku. Samningsaðilarnir skulu útvega þýðingar á sínum tungumálum. Slík afturköllun tekur gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar að lokinni tilkynningunni.

BÓKUN NR. 2 um samræmda túlkun samningsins og um fastanefndina.
INNGANGUR
SAMNINGSAÐILAR,
SEM VÍSA TIL 75. gr. samnings þessa,
SEM HAFA Í HUGA hin nánu tengsl milli samnings þessa, Lúganósamningsins frá 1988 og samninganna sem vísað er til í 1. mgr. 64. þessa samnings,
SEM HAFA Í HUGA að dómstóll Evrópubandalaganna hefur vald til þess að skera úr um túlkun þeirra samninga sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings,
SEM HAFA Í HUGA að þessi samningur verður hluti af reglum Evrópubandalagsins og þar af leiðandi hefur dómstóll Evrópubandalaganna vald til að skera úr um túlkun á ákvæðum þessa samnings sem dómstólar aðildarríkja Evrópubandalagsins hafa beitt,
SEM ER KUNNUGT um úrlausnir dómstóls Evrópubandalaganna um túlkun á þeim samningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings fram að undirritun samnings þessa og úrlausnir dómstóla samningsaðila Lúganósamningsins frá 1988 um hinn síðarnefnda samning fram að undirritun þessa samnings,
SEM HAFA Í HUGA að samhliða endurskoðun bæði Lúganósamningsins frá 1988 og Brusselsamninganna, sem leiddi til þess að texti þessara samninga var endurskoðaður, var efnislega byggð á ofangreindum úrlausnum um Brusselsamninginn frá 1968 og Lúganósamninginn frá 1988,
SEM HAFA Í HUGA að endurskoðaður texti Brusselsamningsins hefur verið felldur inn í reglugerð (EB) nr. 44/2001 eftir að Amsterdamsáttmálinn tók gildi,
SEM HAFA Í HUGA að þessi endurskoðaði texti var einnig grundvöllur texta þessa samnings,
SEM VILJA, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, koma í veg fyrir mismunandi túlkun og ná eins samræmdri túlkun og unnt er á ákvæðum samningsins og ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 44/2001, sem í öllum meginatriðum eru tekin upp í þennan samning, og á öðrum samningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings,
HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR UM EFTIRFARANDI:
1. gr.
1. Sérhver dómstóll, sem beitir þessum samningi og túlkar hann, skal taka réttmætt tillit til þeirra meginsjónarmiða sem fram koma í úrlausnum dómstóla ríkja, sem eru bundin af þessum samningi, eða dómstóls Evrópubandalaganna, sem skipta máli og varða ákvæði, eitt eða fleiri, sem um er að ræða eða hvað eða hver önnur svipuð ákvæði Lúganósamningsins frá 1988 og þeirra gerninga sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings.
2. Skylda samkvæmt 1. mgr. gildir gagnvart aðildarríkjum Evrópubandalagsins, sbr. þó skyldur þeirra í tengslum við dómstól Evrópubandalaganna sem leiðir af sáttmálanum um stofnun Evrópubandalagsins eða af samningi milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005.
2. gr.
Sérhverju ríki, sem er bundið af þessum samningi og er ekki aðili að Evrópubandalaginu, er heimilt að senda greinargerð eða skriflegar athugasemdir, í samræmi við 23. gr. í bókun við samþykkt dómstóls Evrópubandalaganna, þar sem dómstóll aðildarríkis Evrópubandalagsins biður dómstól Evrópubandalaganna um forúrskurð varðandi spurningu um túlkun á þessum samningi eða þeim gerningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings.
3. gr.
1. Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna skal setja upp kerfi til að skiptast á upplýsingum um þá dóma sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp samkvæmt þessum samningi, svo og um dóma sem máli skipta samkvæmt Lúganósamningnum frá 1988 og þeim gerningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings. Aðgangur að þessu kerfi skal vera opinn almenningi og skal geyma dóma æðsta dómstigs og dómstóls Evrópubandalaganna, sem og dóma sem hafa sérstaka þýðingu, eru endanlegir og hafa verið kveðnir upp samkvæmt þessum samningi, Lúganósamningnum frá 1988 og þeim gerningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings. Dómarnir skulu vera flokkaðir og skal þeim fylgja útdráttur.
   Kerfið er með þeim hætti að valdbær yfirvöld í ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, skulu senda dóma sem vísað er til hér að ofan og kveðnir hafa verið upp af dómstólum í þessum ríkjum til framkvæmdastjórnarinnar.
2. Ritari dómstóls Evrópubandalaganna sér um að velja mál, sem hafa sérstaka þýðingu fyrir tilhlýðilegt hlutverk samningsins, og skal hann kynna þau mál sem hafa verið valin á fundi sérfræðinga samkvæmt 5. gr. þessarar bókunar.
3. Þar til Evrópubandalögin hafa komið upp kerfi samkvæmt 1. mgr. skal dómstóll Evrópubandalaganna viðhalda þeirri upplýsingamiðlun sem var komið á fót með bókun nr. 2 við Lúganósamninginn frá 1988, vegna dóma sem kveðnir hafa verið upp samkvæmt þessum samningi og Lúganósamningnum frá 1988.
4. gr.
1. Setja skal á fót fastanefnd sem í skulu eiga sæti fulltrúar samningsaðilanna.
2. Að ósk samningsaðila skal vörsluaðili samningsins boða til funda í nefndinni í því skyni að:
    ræða um sambandið milli þessa samnings og annarra alþjóðasamninga,
    ræða um beitingu 67. gr., þar á meðal um fyrirhugaða aðild að gerningum um tiltekin mál samkvæmt 1. mgr. 67. gr., og um áformaða löggjöf samkvæmt bókun nr. 3,
    taka til skoðunar aðild nýrra ríkja. Má sérstaklega nefna að nefndin getur spurt ríki sem vilja gerast aðilar og vísað er til í c-lið 1. mgr. 70. gr. spurninga varðandi réttarkerfi þeirra og framkvæmd samningsins. Nefndin getur einnig tekið til skoðunar hugsanlega aðlögun samningsins sem er nauðsynleg fyrir beitingu hans í þeim ríkjum sem gerast aðilar,
    samþykkja nýjar jafngildar tungumálaútgáfur samkvæmt 3. mgr. 73. gr. þessa samnings og nauðsynlegar breytingar á viðauka VIII,
    ræða um endurskoðun samningsins samkvæmt 76. gr.,
    ræða um breytingar á viðaukum I–IV og viðauka VII samkvæmt 1. mgr. 77. gr.,
    samþykkja breytingar á viðaukum V og VI samkvæmt 2. mgr. 77. gr.,
    afturkalla fyrirvara og yfirlýsingar samningsaðilanna samkvæmt bókun nr. 1 og gera nauðsynlegar breytingar á viðauka IX.
3. Nefndin skal setja málsmeðferðarreglur um hlutverk sitt og ákvarðanatöku. Reglurnar skulu mæla fyrir um að unnt sé að hafa samráð og taka ákvarðanir með skriflegum hætti.
5. gr.
1. Vörsluaðili samningsins má, þegar nauðsynlegt er, boða til fundar í nefndinni með sérfræðingum til að skiptast á skoðunum um hvernig samningurinn reynist og einkum varðandi þróun fordæmisreglna og nýja löggjöf sem getur haft áhrif á beitingu samningsins.
2. Á þessum fundi eiga sæti sérfræðingar samningsaðilanna, ríkja sem eru bundin af þessum samningi, dómstóls Evrópubandalaganna og Fríverslunarsamtaka Evrópu. Fundurinn skal vera opinn hverjum öðrum sérfræðingum sem talið er nauðsynlegt að séu viðstaddir.
3. Sérhverjum vanda sem upp kemur varðandi framkvæmd samningsins má vísa til fastanefndarinnar, sem vísað er til í 4. gr. í þessari bókun, vegna frekari ráðstafana.

BÓKUN NR. 3 um beitingu 67. gr. samningsins.
SAMNINGSAÐILAR HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR UM EFTIRFARANDI:
    1. Ákvæði sem mæla fyrir um dómsvald eða viðurkenningu eða fullnustu dóma, að því er varðar tiltekin málefni, og felast eða munu felast í ákvörðunum stofnana Evrópubandalaganna, skal, hvað samninginn varðar, fara með á sama hátt og samninga þá sem vísað er til í 1. mgr. 67. gr.
    2. Nú telur samningsaðili að ákvæði, sem felst í fyrirhugaðri ákvörðun stofnana Evrópubandalaganna, samrýmist ekki samningnum og skulu samningsaðilarnir þá þegar íhuga að breyta samningnum samkvæmt 76. gr., án þess þó að raskað sé gildi þeirrar málsmeðferðar sem kveðið er á um í bókun nr. 2.
    3. Í þeim tilvikum þegar einn samningsaðili eða margir saman fella sum eða öll ákvæðin, sem eru í gerðum stofnana Evrópubandalagsins, sem vísað er til í 1. mgr., inn í landsrétt, skal tekið á þessum ákvæðum landsréttar með sama hætti og samningunum sem vísað er til í 1. mgr. 67. gr.
    4. Samningsaðilarnir skulu tilkynna vörsluaðilanum um texta þeirra ákvæða sem vísað er til í 3. mgr. Slíkri tilkynningu skal fylgja þýðingu á ensku og frönsku.

VIÐAUKI I
Eftirfarandi eru þær varnarþingsreglur sem vísað er til í 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. samningsins:
    í Austurríki: 99. gr. laga um dómsvald dómstóla ( Jurisdiktionsnorm),
    í Breska konungsríkinu: reglur þær sem heimila að varnarþing byggist á því:
    a) að stefna hafi verið birt varnaraðila meðan á tímabundinni dvöl hans í Breska konungsríkinu stóð, eða
    b) að varnaraðili eigi eignir í Breska konungsríkinu, eða
    c) að sóknaraðili hafi komið fram aðför í eignum sem eru í Breska konungsríkinu,
    [í Búlgaríu: 1. grein 4(1) (2) í lögum um alþjóðlegt einkamálaréttarfar], 1)
    í Danmörku: 2. og 3. mgr. 246. gr. réttarfarslaga ( Lov om rettens pleje),
    [í Eistlandi: 86. gr. (lögsaga þar sem eign er staðsett) laga um réttarfar í einkamálum ( tsiviilkohtumenetluse seadustik), að því leyti sem krafan er óskyld eign viðkomandi aðila; 100. gr. (rafa um að beitingu staðlaðra skilmála sé hætt) laga um réttarfar í einkamálum, að því leyti sem til stendur að hefja lögsóknina fyrir þeim rétti þar sem hinum staðlaða skilmála var beitt á því landsvæði sem lögsaga hans nær til], 2)
    [í Finnlandi: 1. og 2. málsl. 1. mgr. 18. hluta 10. kafla réttarfarslaga ( oikeudenkäymiskaari/rättegångsbalken)], 1)
    í Frakklandi: 14. og 15. gr. borgaralögbókar ( Code civil),
    í Grikklandi: 40. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Κώδικας Πολιτικής Δικονομίας),
    á Írlandi: reglur þær sem heimila að varnarþing byggist á því að stefna hafi verið birt varnaraðila meðan á tímabundinni dvöl hans á Írlandi stóð,
    á Íslandi: 4. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991,
    á Ítalíu: 3. og 4. gr. laga 218 frá 31. maí 1995,
    [í Króatíu: 54. gr. laga um lausn í tilviki lagaskila að því er varðar réttarreglur annarra landa þegar um ræðir sérstök samskipti], 3)
    [á Kýpur: 21. gr. dómstólalaganna, lög nr. 16/60], 2)
    [í Lettlandi: 2. mgr. 27. gr. og 3., 5., 6. og 9. mgr. 28. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Civilprocesa likums)], 2)
    [í Litháen: 3. mgr. 783. gr., 787. gr. og 3. mgr. 789. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Civilinio proceso kodeksas)], 2)
    í Lúxemborg: 14. og 15. gr. borgaralögbókar ( Code civil),
    á Möltu: 742., 743. og 744. gr. laga um réttarfar í einkamálum – 12. kafli 12 ( Kodiċi ta' Organizzazzjoni u Proċedura Ċivili – Kap. 12) og 549. gr. viðskiptalaganna – 13. kafli ( Kodiċi tal-kummerċ – Kap. 13),
    í Noregi: 2. málsl. í kafla 4-3(2) í lögum um deilumál ( tvisteloven),
    [í Portúgal: 1. mgr. 63. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Código de Processo Civil), að því leyti sem hún kann að innihalda óhóflegar forsendur fyrir lögsögu, eins og dómstóla á þeim stað þar sem viðkomandi útibú, umboðsaðili eða annað fyrirtæki er staðsett (ef það eða hann er staðsettur í Portúgal), þegar yfirstjórnin (sé hún staðsett í erlendu ríki) er sá aðili sem er lögsóttur, ennfremur 10. gr. laga um réttarfar í atvinnumálum ( Código de Processo do Trabalho), að því leyti sem hún kann að innihalda óhóflegar forsendur fyrir lögsögu, eins og dómstóla á þeim stað þar sem stefnandinn á lögheimili í máli sem varðar einstaka ráðningarsamninga og starfsmaðurinn höfðar gegn vinnuveitandanum], 2)
    [í Póllandi: 4. liður í 1103. gr. og 1110. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Kodeks postępowania cywilnego) að því leyti sem sú síðarnefnda kveður á um dómsvald eingöngu á grundvelli eins atriðis í eftirfarandi kringumstæðum: beiðandi er pólskur ríkisborgari eða á heimili eða hefur skráða skrifstofu í Póllandi], 3)
    [í Rúmeníu: 1065. til 1081. gr. laga, undir I. bálki „Alþjóðleg lögsaga innan rúmenskra dómstóla“ í VII. lögbók „Alþjóðlegt einkamálaréttarfar“, nr. 134/2010 um réttarfar í einkamálum], 2)
    í Slóvakíu: 37.–37. gr. e í lögum nr. 97/1963 um alþjóðlegt einkamálaréttarfar og skyldar reglur,
    í Slóveníu: 2. tölul. 48. gr. laga um alþjóðlegt einkamálaréttarfar (Zakon o mednarodnem zasebnem pravu in postopku) í tengslum við 2. tölul. 47. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zakon o pravdnem postopku) og 58. gr. laga um alþjóðlegt einkamálaréttarfar ( Zakon o mednarodnem zasebnem pravu in postopku) í tengslum við 59. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zakon o pravdnem postopku),
    [í Sviss: 4. gr. sambandsríkislaganna um alþjóðlegan einkamálarétt ( Gerichtsstand des Arrestortes/for du lieu du séquestre/foro del luogo del sequestro)], 1)
    í Svíþjóð: 1. málsl. 1. mgr. 3. hluta 10. kafla réttarfarslaga ( rättegångsbalken),
    [í Tékkneska lýðveldinu: lög nr. 91/2012 um alþjóðlegt einkamálaréttarfar ( Zákon o mezinárodním právu soukromém), einkum 6. gr. þeirra], 2)
    í Ungverjalandi: 57. gr. lagatilskipunar nr. 13/1979 um alþjóðlegt einkamálaréttarfar (a nemzetközi magánjogról szóló 1979. évi 13. törvényereű rendelet),
    í Þýskalandi: 23. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zivilprozessordnung).
    1)Tilkynning vörsluaðila 18. júlí 2011. 2)Tilkynning vörsluaðila 27. maí 2016. 3)Tilkynning vörsluaðila 7. mars 2014.

VIÐAUKI II
Dómstólar eða valdbær stjórnvöld sem vísað er til í 39. gr. og leggja má fram beiðni til eru eftirfarandi:
    í Austurríki: „Bezirksgericht“,
    í Belgíu: „tribunal de première instance“ eða „rechtbank van eerste aanleg“ eða „erstinstanzliches Gericht“,
    í Breska konungsríkinu:
    [a) í Englandi og Wales, „the High Court of Justice“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „the Family Court on transmission by the Secretary of State“], 1)
    [b) í Skotlandi, „Court of Session“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Sheriff Court“ fyrir milligöngu „Scottish Ministers“,
    c) á Norður-Írlandi, „High Court of Justice“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“ fyrir milligöngu „Department of Justice“,
    d) á Gíbraltar, „Supreme Court of Gibraltar“, eða þegar um er að ræða dóm vegna framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“ fyrir milligöngu „Attorney General of Gibraltar“], 2)
    [í Búlgaríu: „окръжнця съд“], 3)
    í Danmörku: „byret“,
    í Eistlandi: „maakohus“ eða sýsludómstól,
    í Finnlandi: „käräjäoikeus/tingsrätt“,
    í Frakklandi:
    a) „greffier en chef du tribunal de grande instance“,
    b) „président de la chambre départementale des notaires“ þegar um er að ræða fullnustu á grundvelli skjals sem er opinberlega staðfest af lögbókanda,
    í Grikklandi: „Μονομελές Πρωτοδικείο“,
    í Hollandi: „voorzieningenrechter van de rechtbank“,
    á Írlandi: „High Court“,
    á Íslandi: héraðsdómur,
    á Ítalíu: „corte d'appello“,
    [í Króatíu: „općinski sudovi“ í einkamálum, „Općinski gradanski sud u Zagrebu“ og „trgovački sudovi“ í viðskiptamálum], 2)
    á Kýpur: „Επαρχιακό Δικαστήριο“ eða, þegar um dóm vegna framfærsluskyldu er að ræða, „Οικογενειακό Δικαστήριο“,
    í Lettlandi: „rajona (pilsētas) tiesa“,
    í Litháen: „Lietuvos apeliacinis teismas“,
    í Lúxemborg: dómstjóri „tribunal d'arrondissement“,
    á Möltu: „Prim' Awla tal-Qorti Ċivili“ eða „Qorti tal-Maġistrati ta' Għawdex fil-ġurisdizzjoni superjuri tagħha“ eða, þegar um er að ræða dóm vegna framfærsluskyldu, „Reġistratur tal-Qorti“ fyrir milligöngu „Ministru responsabbli għall-Ġustizzja“,
    í Noregi: „tingrett“,
    [í Portúgal: „instâncias centrais de competência especializada cível, instâncias locais, secção competência genérica“ eða „secção cível“, ef sú síðarnefnda fyrirfinnst, undir „tribunais de comarca“. Ef um ræðir framfærsluskyldu við börn (undir eða yfir 18 ára aldri) frekari en ef um ræðir framfærsluskyldu milli maka þá „secções de família e menores das instâncias centrais“ eða, þegar engin slík fyrirfinnst, „secções de competência genérica“ eða „secção cível“, ef sú síðarnefnda fyrirfinnst, undir „instâncias locais“. Vegna framfærsluskyldu sem eftir stendur og myndast vegna annarra fjölskyldutengsla, sakir skyldleika eða mægða, „secções de competência genérica“ eða „secção cível“, ef sú síðarnefnda fyrirfinnst, undir „instâncias locais“], 1)
    í Póllandi: „sąd okręgowy“,
    í Rúmeníu: „Tribunal“,
    í Slóvakíu: „okresný súd“,
    í Slóveníu: „okrožno sodišče“,
    á Spáni: „Juzgado de Primera Instancia“,
    [í Sviss: „kantonales Vollstreckungsgericht/tribunal cantonal de l'exécution/giudice cantonale dell'esecuzione“], 3)
    [í Svíþjóð, „tingsrätt“], 1)
    [í Tékkneska lýðveldinu: „okresní soud“], 1)
    [í Ungverjalandi: “törvényszék székhelyén működő járásbíróság“ og í Búdapest „Budai Központi Kerületi Bíróság“], 1)
    í Þýskalandi:
    a) dómstjóri við deild í „Landgericht“,
    b) lögbókandi þegar leitað er eftir fullnustu á grundvelli opinberlega staðfests skjals.
    1)Tilkynning vörsluaðila 27. maí 2016. 2)Tilkynning vörsluaðila 7. mars 2014. 3)Tilkynning vörsluaðila 18. júlí 2011.

VIÐAUKI III
Dómstólar sem skjóta má málum til samkvæmt 2. mgr. 43. gr. eru eftirfarandi:
    í Austurríki: „Landesgericht“ gegnum „Bezirksgericht“,
    í Belgíu:
    a) þegar um málskot varnaraðila er að ræða, „tribunal de première instance“ eða „rechtbank van eerste aanleg“ eða „erstinstanzliche Gericht“,
    b) þegar um málskot beiðanda er að ræða, „ cour d'appel“ eða „ hof van beroep“,
    í Breska konungsríkinu:
    a) [í Englandi og í Wales, „the High Court of Justice“ eða, ef um ræðir dóm um framfærsluskyldu, „the Family Court“], 1)
    b) í Skotlandi, „Court of Session“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Sheriff Court“,
    c) á Norður-Írlandi, „High Court of Justice“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“,
    d) á Gíbraltar, „the Supreme Court“ eða, þegar um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“,
    í Búlgaríu: „Апелативен сьд – София“,
    í Danmörku: „landsret“,
    í Eistlandi: „ringkonnakohus“,
    í Finnlandi: „hovioikeus/hovrätt“,
    í Frakklandi:
    a) „cour d'appel“ varðandi ákvarðanir sem heimila beitinguna,
    b) dómstjóri „tribunal de grande instance“ varðandi ákvarðanir sem heimila ekki beitinguna,
    í Grikklandi: „Εφετείο“,
    í Hollandi: „rechtbank“,
    á Írlandi: „High Court“,
    á Íslandi: héraðsdómur,
    á Ítalíu: „corte d'appello“,
    [í Króatíu: „županijski sud“ gegnum „općinski sud“ í einkamálum og „Visoki trgovački sud Republike Hrvatske“ gegnum „trgovački sud“ í viðskiptamálum], 2)
    á Kýpur: „Επαρχιακό Δικαστήριο“ eða, þegar um er að ræða dóm vegna framfærsluskyldu, „Οικογενειακό Δικαστήριο“,
    í Lettlandi: „Apgabaltiesa“ gegnum „rajona (pilsētas) tiesa“,
    í Litháen: „Lietuvos apeliacinis teismas“,
    í Lúxemborg: „Cour supérieure de justice“ sem áfrýjunardómstóls í einkamálum,
    [á Möltu: „Qorti ta' l-Appell“ í samræmi við áfrýjunarferlið í „Kodiċi ta' Organizzazzjoni u Proċedura Ċivili – Kap.12“ eða, þegar um er að ræða dóm „rikors ġuramentat“ vegna framfærsluskyldu hjá „Prim'Awla tal-Qorti Ċivili jew il-Qorti tal-Maġistrati ta' Għawdex fil-ġurisdizzjoni superjuri tagħha“], 1)
    í Noregi: „lagmannsrett“,
    í Portúgal: „Tribunal da Relação“ er hinn valdbæri dómstóll. Málum er skotið til dómstólsins, í samræmi við gildandi landslög, með beiðni sem stíluð er á dómstólinn sem kvað upp hinn umdeilda úrskurð,
    í Póllandi: „sąd apelacyjny“ gegnum „sąd okręgowy“,
    í Rúmeníu: „Curte de Apel“,
    í Sambandslýðveldinu Þýskalandi: „Oberlandesgericht“,
    í Slóvakíu: áfrýjunardómstóllinn í gegnum þann héraðsdómstól hvers ákvörðun er verið að áfrýja,
    í Slóveníu: „okrožno sodišče“,
    [á Spáni: „ Juzgado de Primera Instancia“ sem gaf út hina umdeildu ákvörðun þess efnis að áfrýjunarmálið skyldi leyst af „ Audiencia Provincial“], 3)
    [í Sviss: „kantónudómstóllinn á æðra stigi“], 3)
    [í Svíþjóð: „tingsrätt“], 1)
    [í Tékkneska lýðveldinu: „okresní soud“], 1)
    [í Ungverjalandi: „törvényszék székhelyén mőködő járásbíróság“ (í Búdapest, „Budai Központi Kerületi Bíróság“); „törvényszék“ (í Búdapest, „Fővárosi Törvényszék“) dæmir í áfrýjunarmálum]. 1)
    1)Tilkynning vörsluaðila 27. maí 2016. 2)Tilkynning vörsluaðila 7. mars 2014. 3)Tilkynning vörsluaðila 18. júlí 2011.

VIÐAUKI IV
Málskot sem um er að ræða í 44. gr. samningsins eru eftirfarandi:
    í Austurríki: „Revisionsrekurs“,
    í Belgíu, í Grikklandi, á Spáni, í Frakklandi, á Ítalíu, í Lúxemborg og í Hollandi: með áfrýjun til ógildingar,
    í Breska konungsríkinu: með einum möguleika á áfrýjun um lagaatriði,
    í Búlgaríu: „обжалване пред Върховния касационен съд“,
    í Danmörku: með áfrýjun til „höjesteret“ að fengnu leyfi „Procesbevillingsnævnet“,
    í Eistlandi: „kassatsioonikaebus“,
    í Finnlandi: með áfrýjun til „korkein oikeus/högsta domstolen“,
    [á Írlandi: málskot vegna lagaatriðis til „the Court of Appeal“], 1)
    á Íslandi: með áfrýjun til Hæstaréttar,
    [í Króatíu: málskot til „Vrhovni sud Republike Hrvatske“], 2)
    á Kýpur: með áfrýjun til hæstaréttar,
    [í Lettlandi: málskot til „Augstākā tiesa“ gegnum „Apgabaltiesa“], 1)
    [í Litháen: málskot til ógildingar til: „Lietuvos Aukščiausiasis Teismas“], 2)
    á Möltu: engum frekari málskotum er beint til einhvers annars dómstóls; þegar um er að ræða dóm vegna framfærsluskyldu „Qorti ta' l-Appell“ í samræmi við áfrýjunarferlið í „kodiċi ta' Organizzazzjoni u Procedura Ċivili – Kap. 12“,
    í Noregi: með áfrýjun til „Höyesteretts kjæremålsutvalg“ eða „Höyesterett“,
    í Portúgal: með áfrýjun um lagaatriði,
    í Póllandi: „skarga kasacyjna“,
    [í Rúmeníu: „recursul“], 1)
    í Sambandslýðveldinu Þýskalandi: með „Rechtsbeschwerde“,
    í Slóvakíu: „dovolanie“,
    í Slóveníu: með áfrýjun til „Vrhovno sodišče Republike Slovenije“,
    í Sviss: með „recours devant le tribunal fédéral/Beschwerde beim Bundesgericht/ricorso di davanti al Tribunale federale“,
    [í Svíþjóð: málskot til „hovrätt“ og „Högsta domstolen“], 1)
    [í Tékkneska lýðveldinu: „dovolání“, „žaloba na obnovu řízení“ og „žaloba pro zmatečnost“], 1)
    í Ungverjalandi: „felülvizsgálati kérelem“.
    1)Tilkynning vörsluaðila 27. maí 2016. 2)Tilkynning vörsluaðila 7. mars 2014.

VIÐAUKI V
Vottorð um dóma og réttarsáttir sem vísað er til í 54. og 58. gr. í samningnum um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum.
    1. Dómsríki
    2. Dómstóll eða valdbært stjórnvald sem gefur út vottorðið
    2.1. Nafn
    2.2. Heimilisfang
    2.3. Sími/Fax/Netfang
    3. Dómstóll sem kvað upp dóminn/samþykkti réttarsáttina*
    3.1. Tegund dómstóls
    3.2. Aðsetur dómstóls
    4. Dómur/réttarsátt*
    4.1. Dagsetning
    4.2. Tilvísunarnúmer
    4.3. Aðilar að dómnum/réttarsáttinni*
    4.3.1. Nafn/nöfn stefnanda/stefnenda
    4.3.2. Nafn/nöfn stefnda/stefndu
    4.3.3. Nafn/nöfn annars/annarra aðila, ef einhver/-jir er/-u
    4.4. Dagsetning birtingar stefnu í útivistarmálum
    4.5. Texti dómsins/réttarsáttarinnar* sem fylgir þessu vottorði
    5. Nöfn þeirra aðila sem notið hafa að lögum fjárhagslegrar aðstoðar

Dómurinn/réttarsáttin* er fullnustuhæf/-ur í dómsríkinu (38. og 58 gr. í samningnum) gagnvart:
Nafn:
   Gjört í ........................., dagsetning ...........................
   Undirskrift og/eða stimpill ...................................
* Strokist út eftir atvikum.

VIÐAUKI VI
Vottorð um opinberlega staðfest skjöl sem vísað er til í 4. mgr. 57. gr. í samningnum um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum.
    1. Dómsríki
    2. Dómstóll eða valdbært stjórnvald sem gefur út vottorðið
    2.1. Nafn
    2.2. Heimilisfang
    2.3. Sími/Fax/Netfang
    3. Stjórnvald sem hefur staðfest hið opinbera skjal
    3.1. Stjórnvald sem átti þátt í að útbúa hið opinbera skjal (ef við á)
    3.1.1. Nafn og hlutverk stjórnvalds
    3.1.2. Aðsetur stjórnvalds
    3.2. Stjórnvald sem hefur skráð hið opinbera staðfesta skjal (ef við á)
    3.2.1. Tegund stjórnvalds
    3.2.2. Aðsetur stjórnvalds
    4. Opinberlega staðfest skjal
    4.1. Lýsing á skjalinu
    4.2. Dagsetning
    4.2.1. þegar skjalið var útbúið
    4.2.2. ef annað: þegar skjalið var skráð
    4.3. Tilvísunarnúmer
    4.4. Aðilar að skjalinu
    4.4.1. Nafn lánardrottins
    4.4.2. Nafn skuldunauts
    5. Texti hinnar fullnustuhæfu skuldbindingar sem fylgir þessu vottorði

Hið opinbera staðfesta skjal er fullnustuhæft gegn skuldunauti í dómsríki (1. mgr. 57. gr. samningsins)
   Gjört í ..... dagsetning
   Undirskrift og/eða stimpill

VIÐAUKI VII
Þessi samningur kemur í stað eftirfarandi samninga í samræmi við 65. gr. samningsins:
    samnings milli Sviss og Spánar um gagnkvæma fullnustu dóma í einkamálum sem undirritaður var í Madríd 19. nóvember 1896,
    samnings milli Tékkóslóvaska lýðveldisins og Sviss um viðurkenningu og fullnustu dóma, ásamt viðbótarbókun, sem undirritaður var í Bern 21. desember 1926,
    samnings milli Sviss og Þýska ríkisins um viðurkenningu og fullnustu dóma og gerðardóma sem undirritaður var í Bern 2. nóvember 1929,
    samnings milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um viðurkenningu dóma og fullnægju þeirra sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 16. mars 1932,
    samnings milli Sviss og Ítalíu um viðurkenningu og fullnustu dóma sem undirritaður var í Róm 3. janúar 1933,
    samnings milli Svíþjóðar og Sviss um viðurkenningu og fullnustu dóma og gerðardóma sem undirritaður var í Stokkhólmi 15. janúar 1936,
    samnings milli Sviss og Belgíu um viðurkenningu og fullnustu dóma og gerðardóma sem undirritaður var í Bern 29. apríl 1959,
    samnings milli Austurríkis og Sviss um viðurkenningu og fullnustu dóma sem undirritaður var í Bern 16. desember 1960,
    samnings milli Noregs annars vegar og Stóra-Bretlands og Norður-Írlands hins vegar um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem undirritaður var í Lundúnum 12. júní 1961,
    samnings milli Noregs og Sambandslýðveldisins Þýskalands um viðurkenningu og fullnustu dóma og fullnustuskjala á sviði einkamála sem undirritaður var í Ósló 17. júní 1977,
    samnings milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um viðurkenningu og fullnægju á kröfum borgararéttarlegs eðlis sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 11. október 1977,
    samnings milli Noregs og Austurríkis um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem undirritaður var í Vín 21. maí 1984.

VIÐAUKI VIII
Tungumálin sem vísað er til í 79. gr. samningsins eru: búlgarska, tékkneska, danska, hollenska, enska, eistneska, finnska, þýska, gríska, ungverska, íslenska, írska, ítalska, lettneska, litháíska, maltneska, norska, pólska, portúgalska, rúmenska, slóvaska, slóvenska, spænska og sænska.

VIÐAUKI IX
[Ríkin og reglurnar sem vísað er til í II. gr. í bókun nr. 1 eru eftirfarandi:
    Þýskaland: 68. gr., 72. gr., 73. gr. og 74. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zivilprozessordnung) varðandi tilkynningar um málshöfðun til þriðja aðila,
    Eistland: 3. og 4. mgr. 214. gr. og 216. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( tsiviilkohtumenetluse seadustik) varðandi tilkynningar um málshöfðun til þriðja aðila,
    [Króatía: 211. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zakon o parničnom postupku)], 1)
    [Lettland: 75., 78., 79., 80. og 81. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Civilprocesa likums) varðandi tilkynningar til þriðju aðila um málshöfðun], 1)
    Litháen: 47. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Civilinio proceso kodeksas),
    Ungverjaland: Greinar 58 til 60 í lögum um réttarfar í einkamálum ( Polgári perrendtartás) varðandi tilkynningar um málshöfðun til þriðja aðila,
    Austurríki: 21. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zivilprozessordnung) varðandi tilkynningar um málshöfðun til þriðja aðila,
    Pólland: 84. gr. og 85. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Kodeks postepowania cywilnego) varðandi tilkynningar um málshöfðun til þriðja aðila ( przypozwanie),
    Slóvenía: 204. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zakon o pravdnem postopku) varðandi tilkynningar um málshöfðun til þriðja aðila.] 2)
    1)Tilkynning vörsluaðila 27. maí 2016. 2)Tilkynning vörsluaðila 18. júlí 2011.