Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 13. september 2022. Útgáfa 152c. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um heilbrigðisstarfsmenn
2012 nr. 34 15. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2013. Breytt með: L. 43/2014 (tóku gildi 1. júlí 2014). L. 50/2019 (tóku gildi 26. júní 2019).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við heilbrigðisráðherra eða heilbrigðisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið og gildissvið.
Markmið laga þessara er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra.
Um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna og annarra starfsmanna í heilbrigðisþjónustu gilda lög þessi, lög um réttindi sjúklinga, lög um landlækni og lýðheilsu, lög um sjúkraskrár og önnur lög eftir því sem við á.
2. gr. Skilgreiningar.
Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
1. Heilbrigðisstarfsmaður: Einstaklingur sem starfar við heilbrigðisþjónustu og hefur hlotið leyfi landlæknis til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar.
2. Löggilt heilbrigðisstétt: Heilbrigðisstétt sem öðlast hefur löggildingu samkvæmt sérlögum sem í gildi voru við gildistöku laga þessara og reglugerðum sem settar voru með stoð í lögum um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, nr. 24/1985, og samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga þessara.
3. Heilbrigðisstofnun: Stofnun þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt.
4. Heilbrigðisþjónusta: Hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.
5. Sjúklingur: Notandi heilbrigðisþjónustu.
6. Meðferð: Rannsókn, aðgerð eða önnur heilbrigðisþjónusta sem læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður veitir til að greina, lækna, endurhæfa, hjúkra eða annast sjúkling.
7. Starfsstofur heilbrigðisstarfsmanna: Starfsstöðvar sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt með eða án greiðsluþátttöku ríkisins.
II. kafli. Löggiltar heilbrigðisstéttir.
3. gr. Tilgreining löggiltra heilbrigðisstétta.
Löggiltar heilbrigðisstéttir samkvæmt lögum þessum eru:
1. [Áfengis- og vímuefnaráðgjafar.] 1)
2. Félagsráðgjafar.
3. Fótaaðgerðafræðingar.
4. Geislafræðingar.
5. Hjúkrunarfræðingar.
6. Hnykkjar (kírópraktorar).
7. Iðjuþjálfar.
8. Lífeindafræðingar.
9. Ljósmæður.
10. Lyfjafræðingar.
11. Lyfjatæknar.
12. Læknar.
13. Læknaritarar.
14. Matartæknar.
15. Matvælafræðingar.
16. Náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu.
17. Næringarfræðingar.
18. Næringarráðgjafar.
19. Næringarrekstrarfræðingar.
20. Osteópatar.
21. Sálfræðingar.
22. Sjóntækjafræðingar.
23. Sjúkraflutningamenn.
24. Sjúkraliðar.
25. Sjúkranuddarar.
26. Sjúkraþjálfarar.
27. Stoðtækjafræðingar.
28. Talmeinafræðingar.
29. Tannfræðingar.
30. Tannlæknar.
31. Tannsmiðir.
32. Tanntæknar.
33. Þroskaþjálfar.
Ráðherra getur ákveðið með reglugerð 2) að fella undir lögin heilbrigðisstéttir sem ekki eru taldar upp í 1. mgr. Fagfélag viðkomandi starfsstéttar skal sækja um löggildingu til ráðherra og er honum skylt að leita umsagnar landlæknis um umsóknina.
Við ákvörðun um það hvort fella eigi starfsstétt undir lögin skal einkum líta til þess hvort löggilding sé nauðsynleg með tilliti til öryggis og hagsmuna sjúklings, þarfar sjúklings fyrir þjónustu starfsstéttar, innihalds og markmiðs menntunar og hvort hún byggist á traustum fræðilegum grunni.
1)L. 43/2014, 1. gr. 2)Rg. 630/2018.
4. gr. Réttur til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar.
Rétt til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar skv. 3. gr. og starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.
5. gr. Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.
Ráðherra skal, að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og menntastofnun hér á landi, setja reglugerðir 1) um skilyrði sem uppfylla þarf til að hljóta leyfi til að nota heiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi. Þar skal m.a. kveðið á um það nám sem krafist er til að hljóta starfsleyfi og starfsþjálfun sé gerð krafa um hana. Enn fremur skal kveðið á um í hvaða tilvikum skuli leitað umsagnar menntastofnunar eða annarra aðila um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um nám. Heimilt er að kveða á um starfssvið viðkomandi heilbrigðisstéttar í reglugerð.
Við setningu reglugerða skv. 1. mgr. skal gætt skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur tekið á sig um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða á grundvelli annarra gagnkvæmra samninga, sbr. 29. gr.
Kveðið skal á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til umsækjenda frá ríkjum sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi með reglugerð. Þar skal m.a. kveðið á um gögn sem leggja ber fram, svo sem um nám og fyrirhuguð störf hér á landi, áður en umsókn er tekin til meðferðar. Hafi ekki verið sýnt fram á að nám uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerð um viðkomandi heilbrigðisstétt er heimilt að setja í reglugerð skilyrði um að umsækjandi frá þeim ríkjum gangist undir hæfnispróf sem sýni fram á að hann búi yfir kunnáttu sem krafist er af heilbrigðisstarfsmönnum í viðkomandi heilbrigðisstétt. Auk þess er heimilt að gera kröfu um að umsækjandi búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf eftir því sem við á hverju sinni, enda sé slík kunnátta talin nauðsynleg í starfi og þá einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga. Enn fremur er heimilt með reglugerð að gera kröfu um að áður en umsókn um starfsleyfi er tekin til efnislegrar meðferðar þurfi að liggja fyrir staðfest afrit umsóknar um atvinnu- og dvalarleyfi ásamt undirrituðum ráðningarsamningi.
Ekki skal veita umsækjanda starfsleyfi ef fyrir hendi eru skilyrði til sviptingar starfsleyfis samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu.
Heimilt er að taka gjald fyrir hæfnispróf sem lagt er fyrir umsækjanda um starfsleyfi. Gjaldið skal standa undir kostnaði við undirbúning og framkvæmd hæfnisprófs. 2)
1)Rg. 1085/2012 (matvælafræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1086/2012 (næringarfræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1087/2012 (hnykkjar (kírópraktorar)), sbr. 401/2020. Rg. 1088/2012 (félagsráðgjafar), sbr. 401/2020. Rg. 1089/2012 (ljósmæður), sbr. 401/2020. Rg. 1090/2012 (lyfjafræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1091/2012 (lyfjatæknar), sbr. 401/2020. Rg. 1105/2012 (geislafræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1106/2012 (áfengis- og vímuvarnaráðgjafar), sbr. 621/2014 og 401/2020. Rg. 1107/2012 (fótaaðgerðafræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1108/2012 (næringarrekstrarfræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1109/2012 (næringarráðgjafar), sbr. 401/2020. Rg. 1110/2012 (sjúkraflutningamenn og bráðatæknar), sbr. 401/2020. Rg. 1111/2012 (matartæknar), sbr. 401/2020. Rg. 1120/2012 (þroskaþjálfar), sbr. 451/2018 og 401/2020. Rg. 1121/2012 (tannlæknar), sbr. 401/2020. Rg. 1122/2012 (tanntæknar), sbr. 401/2020. Rg. 1123/2012 (tannsmiðir og klínískir tannsmiðir). Rg. 1124/2012 (tannfræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1125/2012 (talmeinafræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1126/2012 (stoðtækjafræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1127/2012 (sjúkraþjálfarar), sbr. 994/2016 og 401/2020. Rg. 1128/2012 (sjúkranuddarar), sbr. 401/2020. Rg. 1129/2012 (sjóntækjafræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1130/2012 (sálfræðingar), sbr. 492/2015, 516/2017, 666/2018, 401/2020, 704/2020, 1519/2020 og 1249/2021. Rg. 1131/2012 (osteópatar), sbr. 401/2020. Rg. 1132/2012 (lífeindafræðingar), sbr. 401/2020. Rg. 1220/2012 (náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu), sbr. 401/2020. Rg. 1221/2012 (iðjuþjálfar), sbr. 329/2020 og 401/2020. Rg. 511/2013 (sjúkraliðar), sbr. 401/2020. Rg. 512/2013 (hjúkrunarfræðingar), sbr. 684/2013, 995/2016 og 401/2020. Rg. 467/2015 (læknar), sbr. 29/2017 og 411/2021. Rg. 630/2018 (heyrnarfræðingar). Rg. 640/2019 (heilbrigðisgagnafræðingar), sbr. 401/2020. 2)Rg. 951/2012.
6. gr. Veiting starfsleyfis.
Landlæknir veitir umsækjendum leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og til að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn hér á landi að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sbr. 29. gr.
Landlækni er heimilt að veita umsækjendum frá ríkjum sem ekki hafa samið við íslenska ríkið um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi starfsleyfi að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
7. gr. Réttur til að kalla sig sérfræðing.
Rétt til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.
8. gr. Skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis.
Ráðherra getur kveðið á um löggildingu sérfræðigreina innan löggiltrar heilbrigðisstéttar með reglugerð, 1) að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og menntastofnun hér á landi. Við löggildingu nýrra sérfræðigreina skal einkum litið til öryggis og hagsmuna sjúklinga. Einnig skal viðkomandi sérfræðigrein standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi.
Í reglugerð um veitingu sérfræðileyfis skal kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að hljóta leyfi til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi. Miðað skal við að lokið hafi verið formlegu viðbótarnámi á viðkomandi sérfræðisviði. Í reglugerð skal m.a. kveðið á um það sérfræðinám sem krafist er til að hljóta sérfræðileyfi og um starfsþjálfun sé gerð krafa um hana. Enn fremur skal kveðið á um í hvaða tilvikum skuli leitað umsagnar menntastofnunar eða annarra aðila um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um sérfræðinám. Heimilt er að kveða á um skipun sérstakra mats- og umsagnarnefnda til að meta umsagnir um sérfræðileyfi.
Við setningu reglugerða skv. 1. mgr. skal gætt skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur tekið á sig vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða á grundvelli annarra gagnkvæmra samninga, sbr. 29. gr.
1)Rg. 1088/2012. Rg. 1089/2012. Rg. 1090/2012. Rg. 1121/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1123/2012. Rg. 1127/2012, sbr. 994/2016. Rg. 1130/2012, sbr. 492/2015 og 1519/2020. Rg. 1132/2012. Rg. 512/2013, sbr. 684/2013 og 995/2016. Rg. 467/2015, sbr. 29/2017 og 411/2021.
9. gr. Veiting sérfræðileyfis.
Landlæknir veitir umsækjendum leyfi til að kalla sig sérfræðinga innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og til að starfa sem slíkir hér á landi að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sbr. 29. gr.
10. gr. Óheimil notkun starfsheitis.
Þeim sem ekki hefur gilt leyfi landlæknis er óheimilt að nota löggilt starfsheiti eða starfa sem heilbrigðisstarfsmaður. Honum er jafnframt óheimilt að veita sjúklingi meðferð sem fellur undir lögverndað starfssvið löggiltrar heilbrigðisstéttar eða gefa læknisfræðilegar eða aðrar faglegar ráðleggingar.
Um eftirlit með notkun starfsheitis fer samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu.
11. gr. Tímabundið starfsleyfi.
Landlæknir má, ef nauðsyn krefur, veita þeim sem lokið hafa fjórða árs námi í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands eða sambærilegu námi erlendis tímabundið starfsleyfi til að sinna tilgreindum læknisstörfum. Í slíkum tilvikum skal læknanemi starfa með lækni með ótakmarkað lækningaleyfi.
Landlækni er heimilt að gefa út tímabundið starfsleyfi til heilbrigðisstarfsmanna með erlent nám eða próf, sem er viðurkennt samkvæmt samningum, sbr. 29. gr., en uppfyllir ekki kröfur hér á landi.
Landlækni er enn fremur heimilt að gefa út tímabundið starfsleyfi til heilbrigðisstarfsmanna með erlent próf eða nám frá ríki þar sem ekki er í gildi samningur um gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina.
Handhafi tímabundins starfsleyfis skv. 2. og 3. mgr. skal starfa undir stjórn og eftirliti heilbrigðisstarfsmanns sem hefur ótímabundið starfsleyfi í viðkomandi grein heilbrigðisfræða. Víkja má frá þessu skilyrði telji landlæknir sérstakar ástæður mæla með því.
12. gr. Svipting og endurveiting starfsleyfis. Kæruheimild.
Um sviptingu og afsal starfsleyfis, takmörkun starfsleyfis og endurveitingu starfsleyfis fer samkvæmt ákvæðum laga um landlækni og lýðheilsu.
Synjun landlæknis um veitingu starfsleyfis skv. 6. gr., sérfræðileyfis skv. 9. gr. og tímabundins starfsleyfis skv. 11. gr. er kæranleg til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
III. kafli. Réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna.
13. gr. Faglegar kröfur og ábyrgð.
Heilbrigðisstarfsmaður skal sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.
[Heilbrigðisstarfsmaður skal huga sérstaklega að rétti og stöðu barna sem aðstandenda, sbr. 27. gr. a laga um réttindi sjúklinga.] 1)
Heilbrigðisstarfsmanni ber að þekkja skyldur sínar og siðareglur, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni, tileinka sér nýjungar er varða starfið og kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma.
Heilbrigðisstarfsmaður ber, eftir því sem við á, ábyrgð á greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita. Um upplýsingaskyldu heilbrigðisstarfsmanns gagnvart sjúklingi fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.
Heilbrigðisstarfsmaður skal virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem nauðsynlegt og mögulegt er, svo sem ef hann telur sig ekki geta veitt honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.
Ráðherra er heimilt að kveða á um endurmenntun heilbrigðisstarfsmanna í reglugerð.
1)L. 50/2019, 3. gr.
14. gr. Undanþága frá starfsskyldu.
Heilbrigðisstarfsmanni er heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans, enda sé tryggt að sjúklingur fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
15. gr. Áfengi og vímuefni.
Heilbrigðisstarfsmanni er óheimilt að starfa undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
Heilbrigðisstofnunum er heimilt að höfðu samráði við landlækni að setja reglur um bann við notkun heilbrigðisstarfsmanna á áfengi eða öðrum vímuefnum tiltekinn tíma áður en vinna þeirra hefst. Jafnframt er landlækni heimilt að gefa bindandi fyrirmæli þar að lútandi, sbr. 5. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.
16. gr. Aðstoðarmenn og nemar.
Heilbrigðisstarfsmaður ber ábyrgð á því að aðstoðarmenn og nemar, sem starfa undir hans stjórn, hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar til að inna af hendi störf sem hann felur þeim.
Ráðherra getur, að fenginni umsögn landlæknis, sett nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis með reglugerð.
17. gr. Trúnaður og þagnarskylda.
Starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. nemar og þeir sem ekki eru heilbrigðisstarfsmenn, skulu gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þetta gildir ekki bjóði lög annað eða rökstudd ástæða er til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar.
Samþykki sjúklings eða forráðamanns, ef við á, leysir heilbrigðisstarfsmann undan þagnarskyldu.
Þagnarskylda samkvæmt þessari grein nær ekki til atvika sem heilbrigðisstarfsmanni ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Í þeim tilvikum ber heilbrigðisstarfsmanni skylda til að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær yfirvöld.
Um trúnaðar- og þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna gilda jafnframt ákvæði laga um réttindi sjúklinga, ákvæði laga um sjúkraskrár og önnur lög eftir því sem við á.
18. gr. Upplýsinga- og vitnaskylda.
Um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að veita landlækni upplýsingar, m.a. vegna eftirlits með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisþjónustu og til gerðar heilbrigðisskýrslna, fer samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu.
Heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar er skylt að veita ráðuneyti nauðsynlegar upplýsingar vegna meðferðar og úrlausnar stjórnsýslumála. Ákvæði 17. gr. um trúnaðar- og þagnarskyldu takmarka ekki upplýsingaskyldu heilbrigðisstarfsmanna og annarra starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt ákvæði þessu.
Heilbrigðisstarfsmaður verður ekki leiddur fram sem vitni í einkamálum gegn vilja sjúklings nema ætla megi að úrslit málsins velti á vitnisburði hans eða málið sé mikilvægt fyrir málsaðila eða þjóðfélagið, hvort tveggja að mati dómara. Í slíkum tilvikum ber heilbrigðisstarfsmanni að skýra frá öllu sem hann veit og telur að hugsanlega geti haft áhrif á málið. Slíkur vitnisburður skal fara fram fyrir luktum dyrum.
Um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til samstarfs og upplýsingagjafar til barnaverndaryfirvalda fer samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.
19. gr. Vottorð, álitsgerðir, faglegar yfirlýsingar og skýrslur.
Heilbrigðisstarfsmönnum ber að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og votta það eitt er þeir vita sönnur á og er nauðsynlegt í hverju tilviki.
Heilbrigðisstarfsmönnum er skylt að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga er þeir annast þegar slíkra vottorða er krafist vegna samskipta sjúklings við hið opinbera.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari reglur um útgáfu vottorða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna.
20. gr. Lyfjaávísanir og lyfjakaup.
Um lyfjaávísanir heilbrigðisstarfsmanna og heimild til kaupa í heildsölu á tilteknum nauðsynlegum lyfjum til reksturs starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns fer samkvæmt lyfjalögum og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum.
21. gr. Sjúkraskrár.
Heilbrigðisstarfsmaður sem veitir sjúklingi meðferð skal færa sjúkraskrá samkvæmt ákvæðum laga um sjúkraskrár og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.
22. gr. Skylda til að veita hjálp.
Heilbrigðisstarfsmanni ber, sé hann nærstaddur eða sé til hans leitað, að veita fyrstu nauðsynlegu aðstoð í skyndilegum og alvarlegum sjúkdóms- eða slysatilfellum í samræmi við menntun sína og þjálfun, nema þeim mun alvarlegri forföll hamli eða ef hann mundi með því stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska.
23. gr. Hófsemi.
Heilbrigðisstarfsmenn skulu gæta þess við veitingu heilbrigðisþjónustu og framkvæmd starfa sinna að sjúklingar, sjúkratryggingar eða aðrir sem standa straum af kostnaði vegna hennar verði ekki fyrir óþarfa útgjöldum eða óþægindum.
24. gr. Kynning og auglýsingar.
Við kynningu heilbrigðisþjónustu og auglýsingar skal ávallt gætt málefnalegra sjónarmiða og fyllstu ábyrgðar, nákvæmni og sanngirni.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um kynningu og auglýsingar heilbrigðisþjónustu, svo sem bann við ákveðinni aðferð við kynningu eða auglýsingar.
25. gr. Sjúklingatrygging.
Heilbrigðisstarfsmönnum sem starfa sjálfstætt og fyrirtækjum sem veita heilbrigðisþjónustu er skylt að hafa vátryggingu sem uppfyllir skilyrði laga um sjúklingatryggingu og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra laga.
IV. kafli. Ýmis ákvæði.
26. gr. Aldursmörk.
[Heilbrigðisstarfsmanni samkvæmt lögum þessum er óheimilt að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að hann nær 75 ára aldri. Landlækni er þó heimilt, að fenginni umsókn viðkomandi, að veita undanþágu frá þessu ákvæði, enda séu skilyrði reglugerðar skv. 2. mgr. uppfyllt. Í fyrsta sinn er heimilt að veita undanþágu til allt að þriggja ára, en eftir það til eins árs í senn.
Ráðherra skal setja reglugerð 1) um skilyrði sem uppfylla þarf til að fá undanþágu skv. 1. mgr. Skal þar m.a. kveðið á um þau gögn og upplýsingar sem fylgja skulu umsókn, svo sem læknisvottorð um starfshæfni, upplýsingar um tegund og umfang starfsemi síðastliðin fimm ár og endurmenntun heilbrigðisstarfsmanns.
Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.] 2)
1)Rg. 620/2014. 2)L. 43/2014, 2. gr.
27. gr. Meðferðar- eða rannsóknaraðferðir o.fl.
Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð:
a. að tilgreindum rannsóknar- eða meðferðaraðferðum skuli aðeins beitt af heilbrigðisstarfsmönnum eða nánar tilgreindum heilbrigðisstéttum,
b. að tiltekinni meðferðar- eða rannsóknaraðferð skuli aðeins beitt af þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem til þess hafa fengið sérstakt leyfi landlæknis,
c. bann við notkun tiltekinna meðferðar- og rannsóknaraðferða.
Reglugerðir um takmarkanir skv. 1. mgr. skulu byggðar á hagsmunum sjúklinga og skulu þær settar að fengnum tillögum landlæknis og umsögn fagfélags viðkomandi löggiltrar heilbrigðisstéttar.
28. gr. Refsingar.
Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Með brot gegn lögum þessum skal farið samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
29. gr. Alþjóðlegir samningar.
Landlækni er heimilt að gefa út leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar á grundvelli gagnkvæms samnings við önnur ríki um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og gagnkvæma viðurkenningu starfsleyfa.
Ráðherra getur sett nánari ákvæði um skilyrði sem uppfylla þarf til að öðlast starfsleyfi á grundvelli alþjóðlegra samninga með reglugerð.
30. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra getur með reglugerð 1) sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
1)Rg. 1085/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1086/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1087/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1088/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1089/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1090/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1091/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1105/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1106/2012, sbr. 621/2014 og 401/2020. Rg. 1107/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1108/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1109/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1110/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1111/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1120/2012, sbr. 451/2018 og 401/2020. Rg. 1121/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1122/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1123/2012. Rg. 1124/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1125/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1126/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1127/2012, sbr. 994/2016 og 401/2020. Rg. 1128/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1129/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1130/2012, sbr. 492/2015, 516/2017, 666/2018, 401/2020, 704/2020 og 1249/2021. Rg. 1131/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1132/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1220/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1221/2012, sbr. 329/2020 og 401/2020. Rg. 511/2013, sbr. 401/2020. Rg. 512/2013, sbr. 684/2013, 995/2016 og 401/2020. Rg. 620/2014. Rg. 467/2015, sbr. 29/2017 og 411/2021. Rg. 630/2018. Rg. 640/2019, sbr. 401/2020.
31. gr. Gjaldtaka.
[Landlækni er heimilt að innheimta sérstakt gjald til viðbótar gjaldi skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi, sbr. 5. og 8. gr. Þar á meðal er heimilt að innheimta gjald fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu, vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi. Heimilt er að ákveða með reglugerð að gjaldið skuli innheimt við móttöku umsóknar.] 1)
Ráðherra setur gjaldskrá 2) skv. 1. mgr. að fengnum tillögum landlæknis. Gjaldskráin skal taka mið af umfangi þeirrar vinnu sem matsaðilar og umsagnaraðilar inna af hendi við afgreiðslu starfsleyfa og sérfræðileyfa.
1)L. 43/2014, 3. gr. 2)Rg. 951/2012. Rg. 1085/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1086/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1087/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1088/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1089/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1090/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1091/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1105/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1106/2012, sbr. 621/2014 og 401/2020. Rg. 1107/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1108/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1109/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1110/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1111/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1120/2012, sbr. 451/2018 og 401/2020. Rg. 1121/2012. Rg. 1122/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1123/2012. Rg. 1124/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1125/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1126/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1127/2012, sbr. 994/2016, sbr. 401/2020. Rg. 1128/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1129/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1130/2012, sbr. 492/2015 og 401/2020. Rg. 1131/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1132/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1220/2012, sbr. 401/2020. Rg. 1221/2012, sbr. 329/2020 og 401/2020. Rg. 511/2013, sbr. 401/2020. Rg. 512/2013, sbr. 684/2013, 995/2016 og 401/2020. Rg. 467/2015, sbr. 29/2017 og 411/2021. Rg. 630/2018. Rg. 640/2019, sbr. 401/2020.
32. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.
33. gr. Brottfall laga. …
34. gr. Breytingar á öðrum lögum. …
Ákvæði til bráðabirgða.
Starfsleyfi aðstoðarlyfjafræðinga sem gefin hafa verið út fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu.