Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1124, 143. löggjafarþing 378. mál: heilbrigðisstarfsmenn (starfsheiti, aldursmörk og gjaldtaka).
Lög nr. 43 24. maí 2014.

Lög um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012 (starfsheiti, aldursmörk, gjaldtaka).


1. gr.

     1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

2. gr.

     26. gr. laganna orðast svo:
     Heilbrigðisstarfsmanni samkvæmt lögum þessum er óheimilt að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að hann nær 75 ára aldri. Landlækni er þó heimilt, að fenginni umsókn viðkomandi, að veita undanþágu frá þessu ákvæði, enda séu skilyrði reglugerðar skv. 2. mgr. uppfyllt. Í fyrsta sinn er heimilt að veita undanþágu til allt að þriggja ára, en eftir það til eins árs í senn.
     Ráðherra skal setja reglugerð um skilyrði sem uppfylla þarf til að fá undanþágu skv. 1. mgr. Skal þar m.a. kveðið á um þau gögn og upplýsingar sem fylgja skulu umsókn, svo sem læknisvottorð um starfshæfni, upplýsingar um tegund og umfang starfsemi síðastliðin fimm ár og endurmenntun heilbrigðisstarfsmanns.
     Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.

3. gr.

     1. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
     Landlækni er heimilt að innheimta sérstakt gjald til viðbótar gjaldi skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi, sbr. 5. og 8. gr. Þar á meðal er heimilt að innheimta gjald fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu, vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi. Heimilt er að ákveða með reglugerð að gjaldið skuli innheimt við móttöku umsóknar.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2014.

5. gr.

     Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum: Í stað orðanna „áfengis- og vímuvarnaráðgjafa“ í 19. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: áfengis- og vímuefnaráðgjafa.

Samþykkt á Alþingi 14. maí 2014.