Málstofur framtíðarnefndar um gervigreind og lýðræði

Framtíðarnefnd stendur fyrir málstofum um gervigreind og lýðræði. Markmið nefndarinnar er að eiga samtöl við helstu sérfræðinga og ræða framtíðaráskoranir og hugsanlegar sviðsmyndir en það að skoða mismunandi sviðsmyndir auðveldar ákvarðanatöku til framtíðar litið.

Þátttakendur málstofunnar sem fylgjast með í streymi geta ávallt sent inn fyrirspurnir á netfangið framtid@althingi.is. Með þessu móti vill framtíðarnefndin opna starf þingsins og eiga samtal við þjóðina.

Þróun og framtíð gervigreindar

Þróun og framtíð gervigreindar var viðfangsefni fyrstu málstofu framtíðarnefndar sem haldinn var 1. desember 2023.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, formaður framtíðarnefndar, hóf málstofuna með kynningu á hlutverki og starfi framtíðarnefndar. Þá fluttu tveir gestir erindi. Brynjólfur Borgar Jónsson, framkvæmdastjóri Datalab, fjallaði um „Framfarir gervigreindar. Áhrif til lengri og skemmri tíma.“ Páll Rafnar Þorsteinsson, heimspekingur og verkefnastjóri við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, fjallaði svo um „Gervi-greind – alvöru álitamál. Um siðferðilegar áskoranir á öld gervigreindar“. 

Í lok málstofunnar bar Lilja Rannveig upp spurningar nefndarmanna í framtíðarnefnd og þátttakenda í streymi.