Reglur um störf undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kosninga
1. gr.
Hlutverk
Undirbúningsnefnd starfar á grundvelli 3. mgr. 1. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og undirbýr rannsókn alþingiskosninga sem fram fer á þingsetningarfundi.
Undirbúningsnefnd tekur við gerðabókum landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna og öðrum gögnum um framkvæmd alþingiskosninga, þ.m.t. ágreiningsseðlum og kosningakærum. Á grundvelli umsagnar landskjörstjórnar, sbr. 2. mgr. 132. gr. kosningalaga, nr. 112/2021, fer nefndin yfir framkomin gögn, aflar annarra gagna eftir því sem þörf er á og semur greinargerð um störf sín og tillögur.
2. gr.
Skipan
Við val í undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kosninga skal fylgja hlutfallsreglu 82. gr. þingskapa Alþingis.
Þingflokkar sem þannig fá ekki fulltrúa í nefndina mega tilnefna áheyrnarfulltrúa. Áheyrnarfulltrúar hafa rétt til að taka þátt í fundum undirbúningsnefndar og til að taka þátt í umræðum. Áheyrnarfulltrúar hafa hvorki tillögurétt né atkvæðisrétt í starfi undirbúningsnefndar.
Varði rannsókn kosningu eða kjörgengi þingmanns sérstaklega skal hann ekki taka þátt í störfum undirbúningsnefndar. Við það mat skal litið til viðfangsefnis rannsóknar undirbúningsnefndar og þess hvort það geti haft áhrif á úthlutun kjördæmissæta eða jöfnunarsæta.
Skrifstofustjóri Alþingis felur starfsfólki skrifstofunnar að aðstoða undirbúningsnefndina.
3. gr.
Fundir
Starfandi forseti Alþingis boðar til fyrsta fundar undirbúningsnefndar.
Fundir undirbúningsnefndar eru lokaðir vinnufundir.
Undirbúningsnefnd getur haldið opna fundi samkvæmt sérstakri ákvörðun þar um. Nefndin fjallar að jafnaði ekki um málefni einstaklinga á opnum fundum en komi þau til umfjöllunar er gætt að réttaröryggi einstaklinga.
Nefndin getur boðað á sinn fund stjórnvöld, þ.m.t. kjörstjórnir, og aðra aðila.
4. gr.
Rannsóknarúrræði
Til að rækja hlutverk sitt er undirbúningsnefnd heimilt:
- Að afla þeirra gagna og upplýsinga sem nauðsynleg eru fyrir verkefni nefndarinnar.
- Að óska eftir því að kjörstjórnir og aðrir opinberir aðilar taki saman upplýsingar um mál.
- Að óska eftir því að stjórnvöld, t.d. kjörstjórnir, og aðrir komi á fund nefndarinnar.
- Að leita sér sérfræðiaðstoðar, t.d. með öflun álitsgerða eða skýrslna, en einnig með boðun sérfræðinga á fund sinn.
- Að fara í vettvangsrannsóknir.
- Að rannsaka kjörgögn til að sannreyna úrslit kosninga, þ.m.t. telja atkvæði, eða óska eftir að kjörstjórnir geri það. Fari talning atkvæða fram á vegum undirbúningsnefndar skal hún ákveða hvar hún fari fram og veita umboðsmönnum framboðslista kost á að vera viðstaddir talninguna. Undirbúningsnefnd getur ákveðið að talning atkvæða fari fram fyrir opnum dyrum og skal hún þá auglýst með hæfilegum fyrirvara.
- Að grípa til annarra ráðstafana sem nauðsynlegar eru svo að kjörbréfanefnd geti gert tillögu til Alþingis um hvort kosning og kjörgengi nýkjörinna þingmanna skuli talin gild.
5. gr.
Aðgengi að gögnum
Gögn undirbúningsnefndar, sem lögð eru fyrir kjörbréfanefnd, skulu gerð aðgengileg öllum þingmönnum svo að þeir geti, hver fyrir sig, tekið ákvörðun sem byggist á öllum gögnum, málefnalegum sjónarmiðum og lögfræðilegum rökum. Gögn skulu gerð aðgengileg jafnóðum svo að þingmenn eigi þess kost að kynna sér þau samhliða vinnu undirbúningsnefndar.
Gögn undirbúningsnefndar eru að jafnaði birt opinberlega á vef Alþingis standi lög eða sérstök þagnarskylda því ekki í vegi. Við matið skal höfð hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga, nr. 140/2012.
6. gr.
Málsmeðferð kærumála
Málsmeðferð kosningakæra skal hagað í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar, eftir því sem við getur átt.
Undirbúningsnefnd sér til þess að kærumál séu nægilega upplýst, m.a. með gagnaöflun á grundvelli 4. gr.
Kærandi skal eiga þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við undirbúningsnefnd, þ.m.t. skýra nánar atriði kæru séu þau óljós og andmæla þeim gögnum sem undirbúningsnefnd hefur aflað og áhrif geta haft á meðferð kærumálsins. Kæranda skal gefinn raunhæfur frestur til að koma skýringum á framfæri, m.t.t. umfangs. Að jafnaði skal veita kæranda a.m.k. tveggja sólarhringa frest til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Undirbúningsnefnd getur eftir því sem tilefni er til boðið kærendum að koma á fund sinn til að skýra nánar út efni kæru.
7. gr.
Heildarnálgun
Undirbúningsnefnd skal gera forseta Alþingis grein fyrir störfum sínum og tillögum með skriflegum hætti sem hann leggur síðan fyrir kjörbréfanefnd.
Vinna undirbúningsnefndar er hvorki bindandi fyrir kjörbréfanefnd né þingmenn sem hafa það stjórnarskrárbundna hlutverk á grundvelli 46. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, að skera úr um hvort þingmenn séu löglega kosnir.
8. gr.
Lagastoð og gildistaka
Reglur þessar eru settar með stoð í 3. mgr. 1. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og öðlast þegar gildi.Samþykkt af forseta Alþingis 29. nóvember 2024.

