Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það var athyglisvert þegar hv. varaþingmaður Ólafur Ragnar Grímsson hefur sest í sæti fjmrh. að hann skuli ekki enn hafa vanið sig af því götustrákstali sem hann hefur almennt tamið sér í stjórnmálaumræðum. Ummæli hans um hv. 1. þm. Suðurl. og fyrirspurnir hans eru auðvitað fyrir neðan allar hellur og sýna bara það að hann ætlar ekki í embætti sínu sem fjmrh. að temja sér munnsöfnuð sem hæfir betur því starfi. En er það ekki, herra forseti, líka dæmigert að hæstv. fjmrh. skuli víkja sér undan því að svara fullkomlega málefnalegum spurningum um ríkisfjármál en kjósa frekar að gera grein fyrir slíkum málum á einhverjum fundi hjá kommunum í Garðabæ en hér á Alþingi? Er það ekki dálítið til marks um það hugarfar sem þarna ríkir?
    Það er talað hér um stórar fjárhæðir. Það er talað um milljarða króna í aukinn halla. Það er talað um 5--9 milljarða króna í aukna skattheimtu. Og nú er sagt: Þetta er ekki til þess að bæta hallann á ríkissjóði, þetta á bara að fara í sjóðinn hjá honum Stefáni Valgeirssyni. Það eru svör hæstv. fjmrh. Þetta á að fara í millifærslusjóðinn svo að hægt sé að gauka að fyrirtækjum sem eru stjórnarherrunum þóknanleg. Þannig er nú þetta og ekki er það til mikillar fyrirmyndar eða eftirbreytni.
    Það var á hinn bóginn forvitnilegt að heyra yfirlýsingu formanns Alþb. um ástandið milli hans og formanns Alþfl. Út af fyrir sig er ekkert um það að segja. Í ljósi blaðaskrifa og viðtala við formann Alþfl. mætti kannski halda það að honum hafi orðið að ósk sinni og tekist að fá formenn stjórnarflokkanna með sér á fyllirí. Ég veit nú ekki hvort Ólafur Ragnar Grímsson tekur þátt í því en ef hann er kominn inn á þær brautir mætti kannski bæta við ýmsum öðrum úr stjórnarliðinu sem ekki bragða vín.
    Ég vil segja það, herra forseti, að komið hefur fram í þessum umræðum að markmiðið með þessari ríkisstjórn er að setja Sjálfstfl. til hliðar í stjórnmálum. Það kom fram hjá hæstv. fjmrh. Um það hafa þeir loksins náð saman fornvinirnir að vestan, formaður Alþfl. og formaður Alþb. en það mun ekki takast.