Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Þriðjudaginn 25. október 1988

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Borist hefur svofellt bréf, dags. 24. okt. 1988:
    ,,Guðmundur G. Þórarinsson, 10. þm. Reykv., hefur ritað mér á þessa leið:
    ,,Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og get því ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að 1. varamaður Framsfl. í Reykjavík, Finnur Ingólfsson, aðstoðarmaður ráðherra, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.``
    Þetta er yður hér með tilkynnt, hæstv. forseti.
Kjartan Jóhannsson,

forseti Nd.``

    Finnur Ingólfsson hefur áður setið á þingi á þessu kjörtímabili og kjörbréf hans verið rannsakað. Ég býð hann velkominn til starfa á ný.
    Enn fremur hefur borist svofellt bréf, dags. 24. okt. 1988:
    ,,Albert Guðmundsson, 5. þm. Reykv., hefur ritað mér á þessa leið:
    ,,Þar sem ég vegna veikinda get ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að vegna utanfarar 1. varamanns í opinberum erindum taki 2. varamaður Borgaraflokksins í Reykjavík, Ásgeir Hannes Eiríksson verslunarmaður, sæti á Alþingi í forföllum mínum.``
    Þetta er yður hér með tilkynnt, hæstv. forseti, með ósk um að fram fari í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.
Kjartan Jóhannsson,

forseti Nd.``

    Bréfi þessu fylgir kjörbréf Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar. Samkvæmt þessu bréfi og með vísan í 4. gr. þingskapa ber hv. kjörbréfanefnd nú að prófa kjörbréf Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar. Gert verður hlé á fundinum í 5 mínútur á meðan kjörbréfanefnd starfar.