Mengunarvarnir hjá Íslenska álfélaginu hf.
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Allt frá byggingu álversins í Straumsvík hafa margir haft áhyggjur af þeirri mengun sem frá verksmiðjunni stafar. Á fyrstu árum var aðallega talað um flúoríðmengun, en fljótlega kom í ljós að veruleg mengunarhætta getur stafað af úrgangsefnum úr bræðslukerum verksmiðjunnar og mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs getur einnig orðið veruleg.
    Í sumar kom út skýrsla frá Hollustuvernd ríkisins um mengun í útblásturslofti frá álverinu. Þar segir í lokaorðum m.a.:
    ,,Flúoríð- og rykmengun í útblásturslofti frá verksmiðjunni mældist óviðunandi. Þótt tæknilegur framkvæmdastjóri álversins haldi því fram að flúoríðmengun hafi minnkað frá því að mælingar Hollustuverndar voru gerðar kom í ljós við mælingar á þessu ári að svo var ekki. Hollustuvernd ríkisins ætlar að hlutur álverins af þeirri brennisteinsdíoxíðmengun sem upprunnin er hér á landi sé um það bil 25%. Mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs er verulegt vandamál í iðnríkjum og reyndar víða. Skógar á meginlandi Evrópu eru í mikilli hættu, m.a. vegna þessarar mengunar. Mengunin berst einnig með andrúmslofti til annarra landa og kemur niður sem súrt regn og hefur haft verulega skaðleg áhrif t.d. í Svíþjóð og Noregi. Fiskur hefur drepist þar unnvörpum og sum vötn eru orðin alveg fisklaus vegna þess hve þau hafa súrnað.``
    Sú mengun sem einna minnstur gaumur hefur verið gefinn er sú sem getur stafað af úrgangsefnum frá bræðslukerum verksmiðjunnar, en það eru cyansambönd. Það eru sem sagt blásýrusölt sem eru mjög hættuleg lífverum, jafnvel í mjög litlu magni, auk annarra minna hættulegra efna. Ég hef því spurt heilbrmrh. um mengunarvarnir hjá Íslenska álverinu á þskj. 19 og einnig hef ég leyft mér að spyrja hvers vegna fyrirtækinu sé ekki gert að sækja um starfsleyfi eins og öðrum fyrirtækjum hér á landi sem geta valdið mengun, en það tengist að sjálfsögðu þessu sama máli.
    En í lokaorðum skýrslu Hollustuverndar ríkisins um loftmengun frá álverinu segir m.a.: ,,Nauðsynlegt er að setja ákveðin mörk fyrir útblástursmengun frá álverinu í Straumsvík, bæta þar reglubundið eftirlit og koma á reglubundnum mælingum og vinna markvisst að því að mengun haldist í lágmarki. Eðlilegt er að álversmenn í Straumsvík afli sér starfsleyfis skv. reglugerð nr. 390/1985 og í starfsleyfi fyrirtækja komi fram útblástursmörk og reglur um aðra mengun.``
    Ég tek undir þessi lokaorð í skýrslu Hollustuverndar og hef þar af leiðandi borið fram þær spurningar sem koma fram á þskj. 19.