Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið þessa till. fara til nefndar án þess að fleiri taki til máls en hv. 1. flm. Ég vil þakka honum fyrir og þeim báðum að flytja þessa till. og lýsi stuðningi við meginefni hennar. Við þingmenn Reykjaneskjördæmis fáum reyndar oft að heyra að við höfum svo sem ekki mikið með vegafé að gera, það sé allt orðið teppalagt í kjördæminu. En staðreyndin er auðvitað sú að það er mjög mikið ógert í þessu kjördæmi og þá ekki síst verkefni af því tagi sem hér er drepið á. Umferðarþunginn hefur margfaldast á undanförnum árum á þessu svæði og slíkar breyttar aðstæður kalla á ný verkefni einmitt af þessu tagi og mörg mjög dýr verkefni sem við þurfum að taka á. Það er rétt, sem kemur fram í till. og grg., að það er nauðsynlegt að leita leiða til að fjármagna slík verkefni á annan hátt en verið hefur, taka slík verk út úr, vegna þess mikla kostnaðar sem við þau er. Það er ekki fjarri lagi að gera það á einhvern máta á svipaðan hátt og gert hefur verið með afar kostnaðarsöm sérverkefni í öðrum kjördæmum, svo sem jarðgöng, mjög dýrar brýr o.s.frv. sem tekin hafa verið út úr.
    Það hefur vissulega mikið verið gert í samgöngumálum þessarar þjóðar á undanförnum árum. Ég minnist þess þegar hafin var varanleg gerð þessa umrædda vegar, Reykjanesbrautarinnar. Þá gegndi ég störfum sem blaðamaður á Tímanum og var send til þess að fylgjast með þeim merkilega viðburði þegar byrjað var að leggja varanlegt slitlag á þessa braut og það þótti meiri háttar samgöngubót. Nú eru aðstæður mjög breyttar. Við þurfum að taka á þessu verkefni saman og reyna að leita leiða til að leysa þau fjarskalega þungu og erfiðu vandamál sem hafa fylgt í kjölfarið á stóraukinni bílaeign landsmanna og stóraukinni umferð, reyndar um allt land, en ekki síst á þessu svæði.