Jafnréttisráðgjafar
Mánudaginn 31. október 1988

    K ristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Við kvennalistakonur styðjum þá till. til þál. sem hér er til umræðu og er ég einn af meðflm. till.
    Þrátt fyrir umræðu liðinna ára um jafnrétti karla og kvenna hefur ótrúlega lítið þokast í átt til jafnstöðu. Árið 1915 fengu konur kosningarrétt og bundu margir vonir við að með því væri stigið stórt skref í átt til jafnréttis, en 60 árum síðar var talin nauðsyn á að setja lög um jafnrétti kynjanna. En hefur staða kvenna eitthvað batnað frá setningu jafnréttislaga? Því miður blasa staðreyndirnar við í niðurstöðum kannana og í skýrslum. Það er ekki nóg að hafa sama lagalegan rétt ef ekkert er gert til að farið sé eftir þeim lögum sem í gildi eru.
    Margir halda því fram að konur hafi jafnan rétt á við karla og það sé konum einum að kenna að þær hafi ekki náð lengra. Þeir hinir sömu telja að ekkert frekar þurfi að gera varðandi kvenréttindi, nú sé nóg komið. Við höfum kvenforseta, m.a.s. eina konu í ráðherrastóli og nú er kona orðin forseti Sþ. Hvað viljið þið meira? Ef ég lít til baka finnst mér ótrúlega lítið hafa áunnist. Staða kvenna hefur breyst mikið en ég efast um að hún hafi breyst neitt verulega umfram þær heildarbreytingar sem hafa orðið í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir öll lög eru konur enn með lægstu launin. Enn bera konur ábyrgð á börnum og fjölskyldu. Og enn hafa karlar ekki tekið á sig þann hluta ábyrgðarinnar sem ætti að leggjast á þeirra herðar vegna aukinnar atvinnuþátttöku kvenna. Það er jafnvel svo að í nafni jafnréttis hafa konur þurft að fórna hluta af sínum réttindum til karla án þess að karlar hafi þurft að láta nokkuð í staðinn.
    Undanfarin ár hafa æ fleiri gert sér grein fyrir því jákvæða í reynslu, menningu og viðhorfum kvenna og mikilvægi þess að viðhorf kvenna verði stefnumótandi afl í þjóðfélaginu. Á þetta sérstaklega við okkur konurnar sem vorum hér fyrr á árum ákaflega bundnar af því jafnrétti sem fólst í því að konur fengju að vera eins og karlar. Margir, og þá sérstaklega karlar en einnig margar konur, eru enn ekki búnir að átta sig á þessu. Ekki alls fyrir löngu sagði t.d. einn ráðherrann í dagblaði um eina stjórnmálakonu, um leið og hann hrósaði henni fyrir dugnað, að hún væri karlmannsígildi. En hvað er karlmannsígildi? Er það e.t.v. lausn fyrir konur að vera metnar sem karlmannsígildi? Nægir það til að ná svokölluðu jafnrétti? Nei, svo sannarlega ekki. Konur vilja láta meta sig á eigin forsendum en ekki á forsendum karla. Við þurfum að nota allar leiðir til að ná settu marki, jafnri stöðu karla og kvenna.
    Eins og fram kom í máli frsm. hefur reynslan af starfi jafnréttisráðgjafa á Norðurlöndum gefið góða raun. Ég tel því fyllstu ástæðu til að reyna þessa leið ásamt öðru til að auka rétt kvenna. Með samþykkt þessarar till. tökum við e.t.v. eitt lítið skref í átt að því markmiði sem við vinnum að.