Gjafsóknarreglur
Mánudaginn 31. október 1988

     Flm. (Friðjón Þórðarson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 25 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um gjafsóknarreglur. Till. er þess efnis að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða ákvæði laga um gjafsókn í ljósi fenginnar reynslu með það fyrir augum að auðvelda efnalitlu fólki að ná rétti sínum að lögum.
    Samhljóða till. var flutt á síðasta Alþingi, 452. mál, en kom ekki til umræðu.
    Ég mun nú fylgja þessari till. úr hlaði með nokkrum orðum.
    Íslenskt þjóðskipulag er reist á þeirri meginforsendu að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum. Þessi regla er að vísu hvergi skráð berum orðum í stjórnarskránni, en segja má að andi hennar svífi yfir vötnunum. Það mun og mála sannast að óvíða hafi löggjöf verið færð svo mjög til samræmis við þessa jafnréttisreglu og hér á landi.
    Á hinn bóginn getur aðstaða manna til að ná rétti sínum verið mjög misjöfn. Það fer eftir efnum og ástæðum og ýmsum atvikum. En öll réttarríki, sem vilja kenna sig við menningu og mannúð, hljóta að leggja kapp á að styðja þegna sína til sjálfsbjargar og gera þeim kleift að ná rétti sínum og njóta hans.
    Um gjafsókn er fjallað í XI. kafla laga nr. 85 frá 23. júní 1936, um meðferð einkamála í héraði. Þar er orðið gjafsókn notað bæði um gjafsókn og gjafvörn. Þar segir m.a. að dómsmálaráðuneytið veiti gjafsókn. Athuga skuli málstað umsækjanda eftir föngum áður en gjafsókn er veitt. Gjafsókn megi m.a. veita kirkjum, skólum og sjúkrahúsum og stofnunum sem hafa að markmiði umönnun sjúkra og aðra mannúðar- og líknarstarfsemi; enn fremur einstökum mönnum sem eru svo illa stæðir fjárhagslega að þeir mega ekki án þess fjár vera frá framfærslu sinni eða sinna, eða frá atvinnurekstri sínum, er fara mundi til málsins.
    Nokkrum ákvæðum einkamálalaganna hefur verið breytt og önnur hafa verið í endurskoðun. En að meginstofni til eru þau rúmlega hálfrar aldar gömul. Þau hafa dugað vel, en eðli laga er að breytast með breyttum tímum því að löggjöf öll ber ,,keim og eim síns aldarfars``. Hún er barn síns tíma. Engum lögum á þó að breyta breytinganna vegna heldur aðeins ef ný viðhorf og nýjar þarfir krefjast þess.
    Nú á tímum er fjöldi nýrra laga settur á hverju Alþingi. Mörg þeirra hafa að geyma boð og bönn í ýmsar áttir. Þau eru misjafnlega úr garði gerð svo sem verða vill. Löggjöf landsins er orðin mikil að vöxtum. Það er ekki heiglum hent að kunna þar skil á hverjum hlut. Ekki stoðar heldur að bera fyrir sig vankunnáttu í lögum sem á annað borð eru sett og birt á löglegan máta, þau verða yfir alla að ganga. En það er hægt að veita ýmsar upplýsingar og fræðslu um löggjöf þá sem í gildi er á hverjum tíma og það er unnt að gera á margvíslegan hátt. Hver er réttur þinn? Þeirri spurningu er m.a. reynt að svara í handbókum, formálabókum og á fleiri vegu. Að sjálfsögðu er til fjöldi lögmanna sem leita má til um hvers konar upplýsingar á sviði laga og réttar, en slík öflun fræðslu er yfirleitt nokkuð dýrkeypt, ef svo má segja,

eða utan seilingar hins venjulega manns nema mikið liggi við. Þess vegna hygg ég að flest réttarríki leggi kapp á að veita þegnum sínum fræðslu og aðstoð í þessum efnum. Það er hægt að gera eftir ýmsum leiðum. Ekki endilega með því að auka ríkisbáknið svokallaða og útgjöld að sama skapi, heldur með því að rifja upp þau úrræði sem við höfum þegar yfir að ráða og bæta um betur þar sem skórinn kreppir.
    Ég vil leyfa mér að nefna nokkur atriði sem öll vita í sömu átt að þessu leyti þó að þeirra sé ekki sérstaklega getið í heiti eða yfirskrift þeirrar till. til þál. sem hér um ræðir. Vel fer á því að mínum dómi að í dómsmrn. starfi sérstakur upplýsingafulltrúi sem leiðbeint getur fólki og gefið því góð ráð um hvernig það fái náð rétti sínum með skjótum og öruggum hætti svo sem var um skeið a.m.k. og þar áður sérstakur umboðsfulltrúi. Að sjálfsögðu leggur ráðherra sjálfur ásamt öllu starfsfólki ráðuneytisins kapp á að greiða götu manna eftir föngum. Svipað má sjálfsagt segja um önnur ráðuneyti, hvert á sínu sviði, aðra embættismenn og starfsmenn hins opinbera þó að ekki verði gert að sérstöku umtalsefni í þessu sambandi.
    En ég ætla að leyfa mér að taka nokkur dæmi um opinbera starfsmenn sem vinna beint eða óbeint á vegum dómsmrn. um allt land og hafa ýmsum störfum að gegna af þessu tagi: Ég nefni fyrst lögreglumenn. Hlutverk þeirra er að halda uppi lögum og reglu en jafnframt að ,,greiða götu manna þar sem það á við`` eins og segir í lögunum. Þetta á að vera eitt af meginboðorðum löggæslumanna og er snar þáttur í störfum þeirra þar sem ég þekki til a.m.k.
    Sýslumenn, bæjarfógetar og sérstakir lögreglustjórar starfa hver á sínum vettvangi um allt land (í Reykjavík: borgardómari, borgarfógeti, sakadómari, lögreglustjóri, tollstjóri, svo og Rannsóknarlögregla ríkisins o.s.frv.) Þessi embætti eru ákaflega mikilvægar stofnanir að því leyti að þau veita landsmönnum afar þýðingarmikla þjónustu og miðla hagnýtum upplýsingum til
þeirra sem þangað leita til þess að reka réttar síns á einn eða annan veg. Þessi þjónusta er ýmist lögbundin (leiðbeiningarskylda) eða veitt af fúsum og frjálsum vilja. Um embættin úti á landsbyggðinni hefur verið sagt að þau væru eins konar lögfræðilegar tryggingastofnanir fyrir fólkið sem þangað leitar með vandamál sín, smá og stór, og að sjálfsögðu eru þau jafnframt raunverulegur hluti af Tryggingastofnun ríkisins þar sem sýslumenn og bæjarfógetar hafa frá öndverðu verið umboðsmenn þeirrar merku stofnunar hver á sínum stað og eiga því auðvelt með að fræða fólk um allt sem lýtur að almannatryggingum.
    Samkvæmt lögum nr. 13/1987 hefur Alþingi nýlega kosið sérstakan umboðsmann. Hlutverk hans á að vera að kappkosta að tryggja góða opinbera stjórnsýslu. Hann á að sjá um að stjórnvöld beiti ekki nokkurn mann rangindum. Það er m.ö.o. réttaröryggi þegnsins, einstaklingsins, sem umboðsmaður skal gera sér far um að tryggja sem best. Það er vandasamt verk að móta þetta nýja starf, en tvennt verður þar að hafa í huga að mínum dómi. Í fyrsta lagi að hér verði ekki

um of viðamikið og kostnaðarsamt bákn að ræða. Í annan stað að hinn nýi embættismaður fái næga fjárveitingu til þess að lögin megi ná tilgangi sínum og geti orðið skjöldur og skjól þegnanna.
    Loks vil ég nefna lögfræðiþjónustu Orators við almenning. Árum saman hefur Orator, félag lögfræðinema við Háskóla Íslands, boðið almenningi upp á ókeypis lögfræðilega aðstoð um tíma á hverjum vetri. Í þessu skyni hefur félagið fengið nokkurn styrk af opinberu fé. Leiðbeiningarþjónusta laganema við almenning er mjög svo virðingarverð. Hún er í senn skóli fyrir þá sjálfa þar sem þeir geta séð svipmyndir af raunhæfum verkefnum sem þeirra bíða í lífinu sjálfu, svo og aðstoð og hjálp við hinn almenna borgara sem öllum er hollt að veita liðsinni eftir bestu getu.
    Þessi dæmi sem nefnd hafa verið hér eiga það þó öll sameiginlegt að það kostar allmikið fé að framkvæma þau á þann veg að heitið geti góð þjónusta við almenning í landinu. Það er ekki nóg að setja saman góða löggjöf ef efni skortir til að framkvæma hana svo sem vera ber. En við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að það er dýrt að reka fámennt þjóðfélag af fullri reisn því að ,,margs þarf búið við`` eins og mælt var forðum daga.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa tillögu á þessu stigi, en vil leyfa mér að óska þess að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. allshn.