Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Eggert Haukdal:
    Herra forseti. Það hefur dregist um of að koma eðlilegum böndum á hinn óhefta fjármagnsmarkað hér á landi. Þrátt fyrir þau lög og reglur og stjórntæki sem fyrir eru hafa peningamálin verið stjórnlaus. Því ber að fagna frv. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og væri vonandi að með samþykkt þess komi nokkrar endurbætur þótt betur mætti. En hvers vegna hefur ekki verið tekið á þessum málum fyrr? Seðlabankanum hefur verið gert að hafa stjórn á peningamálum og við höfum haft hann í liðlega aldarfjórðung en hins vegar ekki neina stjórn peningaframboðs utan vaxtabreytinga. Í frv. er ekkert minnst á verðbréfaþing Seðlabankans. Er búið að afskrifa það án þess að því hafi nokkurn tíma verið beitt? Á það ekki að koma inn í þessa mynd?
    Viðskiptabankarnir hafa alls staðar í heiminum heimild til að versla með verðbréf og hér líka. En hvers vegna þurfa þeir að fá heimild til að stofna sérstakt fyrirtæki í því skyni? Er verið að opna þeim leið á gráa eða svarta markaðinn? Erlendis gerir löggjöfin ráð fyrir tryggingarsjóði sem lögskráð verðbréfafyrirtæki greiða í til tryggingar viðskiptavinunum ef illa fer. Ekki er orð um það í frv.
    Úr því að ég er kominn hér í ræðustól ætla ég aðeins að víkja að eignarleigufrv. sem er til umræðu hér á eftir. Um það má segja að brýnt er að koma því að nýju í hendur málfræðinga til endurbóta svo að það skiljist. Annað grundvallaratriði hefur gleymst, en það er að setja mörkin milli eignarleigu og erlendrar lántöku. Er þarna verið að opna hömlulaus skuldaviðskipti við útlönd þegar gjaldeyrir er naumur? Á að leyfa fyrirtækjunum að flytja inn hömlulaust og endurlána bíla, vélar og báta. Þessi umræða gefur mér tilefni til að fara nokkrum orðum um vaxtamálin.
    Fyrir réttum 10 mánuðum lagði ég fram hér á hv. Alþingi frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár. Megininntak frv. var að afnema lánskjaravísitöluna af nýjum fjárskuldbindingum, gengistryggja tólf mánaða spariinnlán og færa vextina niður til samræmis við það sem þeir eru í okkar helstu viðskiptalöndum. Skyldi það markmið hafa náðst að einu ári liðnu? Ég fór ekki lengra í frv. en að afnema lánskjaravísitöluna af nýjum fjárskuldbindingum, ætlaðist til að við umræður og í nefnd kæmu fram brtt. um að skrefið væri stigið til fulls, að hún yrði afnumin bæði af nýjum og gömlum skuldbindingum. En með samþykkt frv. óbreytts hefði verið lagður grundvöllur að endanlegu afnámi lánskjaravísitölunnar og þar með vikið til hliðar einu mesta óréttlæti sem fundið hefur verið upp hér á landi.
    En hvernig voru undirtektirnar og hvað hefur síðan gerst? Umræður urðu miklar um málið en ekki miklar undirtektir frá þeim sem réðu, þar á meðal hæstv. viðskrh. Hins vegar miklar undirtektir úti í þjóðlífinu. Þegar kom fram á þetta ár fóru menn, sem komu þessu kerfi á fyrir tæpum tíu árum, að tala mikið um nauðsyn breytinga, en enn bólar ekki mikið á þeim í raunverulegri framkvæmd, aðeins talað.

    Oft hef ég fengið að heyra hjá hæstv. viðskrh. og ekki síst í þeirri umræðu sem var í fyrravetur að ekki sé unnt að berja vextina niður. Það sé hið sama og að flengja sjóinn. Markaðslögmálin ein geti lækkað vexti. Þó lækkaði hann sjálfur vexti með handafli rétt eftir þingslit í vor. Hið sama var gert með samkomulagi því sem náðist milli ríkis og viðskiptabanka um lækkun raunvaxta þó það héldi lítið. Verðbólgan byrjaði ekki að fara niður fyrr en farið var að lækka vextina með handafli. Markaðslögmálin komu þar hvergi nærri. Þau komu heldur ekki nærri þegar bankar hækkuðu vexti útlána um 8% á 7 vikum og skiptikjarareikninga um 12% í kjölfar bráðabirgðalaganna um að hætta verðtryggingu skammtíma inn- og útlána sl. vor. Alls enginn samdráttur sparnaðar hafði átt sér stað, ekki heldur nein aukning eftirspurnar eftir lánum. Bankarnir voru þarna einfaldlega að seilast í aukabita. Ekki má heldur gleyma því að Seðlabankinn ónýtti svo að segja samstundis með reglugerð nefnd bráðabirgðalög fyrrv. ríkisstjórnar. Þau gátu því engin áhrif haft á markaðinn. Enn í dag er verið að semja við viðskiptabankana um vaxtalækkun og Seðlabankinn á að geta beitt þvingun, þ.e. handafli eins og nú er sagt. Hvar eru þá markaðslögmálin hans Jóns eða eru allir þessir aðilar að lemja sjóinn?
    Alþjóð veit að okurvextir hafa sligað atvinnureksturinn og gert útflutningsframleiðsluna ósamkeppnisfæra. Það er rót meinsins, en varla er hróflað við því. Og nú er það nýjast að talað er um að lækka raunvexti um fjórðung úr einu prósentustigi sem er helber skopleikur og annað ekki. Hvað veldur þessu? Í sæti viðskipta- og bankamálaráðherra situr enn sami maður og í fyrri ríkisstjórn. Þess vegna snúast hjólin ekki. Allt er rígbundið eins og það var. Ráðherrann er enn að bíða eftir markaðslögmálum sínum en ríkisstjórnin í heild kjarklaus.
    Sannleikurinn er sá að lánskjaravísitalan er sprungin. Vaxtaokrið er búið að keyra atvinnuvegina og heimilin í strand. Hin sjálfvirka vaxta- og verðlagsskrúfa er búin að dæma sig úr leik. Skemmtilegra væri ef ráðamenn hefðu hugrekki og drenglund til að viðurkenna þetta í stað þess að berja höfðinu við steininn.
    Ekki skal gleymt að geta þess að sett var á laggirnar nefnd sl. vetur til að endurskoða lánskjaravísitöluna, en svo virtist sem hún væri aðeins skipuð til að lýsa því yfir að engin ástæða væri til þess að lagfæra grundvöll lánskjaravísitölunnar. Í leiðinni glopraðist það þó út úr nefndinni að lögheimilt væri að breyta grundvellinum. Hinu gagnstæða var haldið fram þegar ég bar fram frv. á Alþingi sl. vetur um afnám vísitölunnar og gengistengingu spariinnlána. Var það í rauninni eina mótbáran gegn frv.
    Skylt er að geta þess að einn nefndarmanna í þessari nefnd, veðurfræðingurinn, hafði sérstöðu. Hann vissi af sínu starfi að það þarf að gá til veðurs í náttúrunni og það þarf einnig að gá til veðurs í peningamálum.

    Og nú bíður ríkisstjórnin eftir tillögum um breytingar á grundvelli lánskjaravísitölunnar frá Seðlabankanum. Ekki er enn vitað hvenær Seðlabankanum eða ,,yfirríkisstjórninni`` þóknast allra náðarsamlegast að senda ríkisstjórninni línu um málið. Í stað þess að ríkisstjórnin sé að bíða eftir Seðlabankanum hefði hún átt að manna sig upp og tilkynna bankanum að hún hafi ákveðið að afnema lánskjaravísitöluna. Við höfum í tæp 10 ár haft ríkisstjórnir sem að þessu leyti hafa flotið sofandi að feigðarósi. Þolir þjóðin næstu 10 ár undir þessu kerfi? Þolir hún það deginum lengur?
    Hafa menn tekið eftir því að nýverið voru stofnuð samtök sparifjáreigenda. Vissulega þarf að vernda hagsmuni þeirra. En þarna voru þó á ferðinni að meginuppistöðu verðbréfabraskarar, einmitt þeir sem mest hafa makað krókinn undanfarin ár. Slík samtök gætu haft þau ein áhrif að mynda samtök þeirra sem hafa verið fórnardýr okurvaxtanna, íbúðareigenda. Slíkt gerðist í Ísrael 1962. Í skyndihækkun verð- og gengistryggðra húsnæðislána þar í landi nefnt ár neituðu íbúðareigendur allir í kór að greiða og urðu bankar að hlaupa undir bagga fyrst, en ríkissjóður síðan að taka á sig skellinn. Hvað þola íbúðareigendur hér á landi þetta kerfi lengi?
    Herra forseti. Þegar stjórnarmyndunarviðræðurnar stóðu yfir mátti ekki dragast deginum lengur að koma á starfhæfri ríkisstjórn vegna aðsteðjandi erfiðleika atvinnuveganna. Nú þegar stjórn er tekin við virðist ekkert liggja á. Enn vantar grundvöllinn undir atvinnuvegina, en til standa miklar millifærslur sem að dómi ráðamanna eiga að bjarga öllu. Þetta er hin gamla uppbótarleið eftirstríðsáranna sem kratar töldu sig hafa ýtt varanlega til hliðar með viðreisn. Það heitir á læknamáli að fást við sjúkdómseinkennin, ekki sjúkdóminn sjálfan og er góð lýsing á störfum hæstv. núv. ríkisstjórnar.