Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram hér tvær brtt. við frv. sem hér er til umræðu. Fyrri brtt. er fyrst og fremst flutt í því augnamiði að auðveldara sé að fylgjast með þessari starfsemi. Hæstv. viðskrh. kom inn á þetta atriði í sinni ræðu hér áðan en taldi að þetta ætti frekar heima í sérstakri löggjöf. Ég get ekki betur séð, a.m.k. á meðan slík löggjöf er ekki fyrir hendi, en að það sé nauðsynlegt að setja þetta inn í þetta frv. vegna þess að það hefur sýnt sig að ekki er vanþörf á að fylgjast með þessari starfsemi. Því er þessi brtt. flutt sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi forseta.
    ,,Við 2. gr. Framan við greinina bætist ný málsgrein er orðist svo:
    Þeir sem lög þessi taka til og hafa atvinnu af viðskiptum með verðbréf skulu afla glöggra upplýsinga um hverjir viðskiptamenn þeirra eru og skrá nöfn þeirra, kennitölur og heimili á reikninga eða uppgjör vegna viðskiptanna. Einnig ber öllum, sem atvinnu hafa af viðskiptum með verðbréf, að geyma afrit eða ljósrit af öllum skjölum, sérgerðum vegna viðskiptanna, svo sem tékkum. Geyma skal afrit og ljósrit skjala, sem tengd eru einstökum viðskiptum, sérgreind og tengja þau glögglega númeri og dagsetningu reiknings.``
    Þannig hljóðar þessi brtt. Ég tel að þarna sé verið að setja inn mjög sterkan öryggisventil fyrir bankaeftirlitið sem á að fylgjast með allri starfsemi sem bæði bankar, sparisjóðir og verðbréfafyrirtæki annast.
    Enn fremur hef ég leyft mér að leggja fram aðra breytingu, þ.e. við 30. gr., sem orðast svo: ,,Sömu reglur gilda um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru innlánsstofnunum`` o.s.frv.
    Ég verð að segja að ég sé enga ástæðu til annars en að þessir verðbréfasjóðir verði að þessu leyti að lúta sömu reglum.
    Ég gæti komið með mörg dæmi þess hvernig þessi starfsemi er í raun og veru, þó að það eigi kannski ekki að reka hana eins og raun ber vitni. Heimildarákvæði er auðvitað miklu betra en ekkert ákvæði, það viðurkenni ég, en það þarf að tryggja með einhverjum hætti að farið sé eftir þessu. Ég hef rætt þetta við bankastjóra og bankamenn og ég hef ekki hitt neinn í þeirra hópi, þeir kunna að vera til, sem telur ekki að þetta sé alveg sjálfsagt ákvæði. Ég er ekki að halda því fram að bankar og sparisjóðir eigi að binda fé. Á sínum tíma er þetta var gert var það hugsað vegna afurðalána atvinnuveganna. Nú er það liðin tíð, það er ekki lengur fyrir hendi. Þessi binding og einnig lausafjárbinding bankanna gerir það að verkum að atvinnuvegirnir fá ekki það fjármagn sem þeim er nauðsynlegt nema þá með því, í mörgum tilvikum, að verða að borga dráttarvexti af því fjármagni.
    Ég ætla ekki að fara með tölur um hvað hér er á ferðinni. Ég gæti það, en af ýmsum ástæðum mun ég ekki gera það, a.m.k. ekki að þessu sinni. En það

kann að vera að ég neyðist til þess við 2. umr. ef t.d. hæstv. bankamálaráðherra leggst hart á móti því að 30. gr. verði í því formi sem ég hef lagt til.
    Ég held að eins og ástandið er í þjóðlífinu þá verði að losa um lausafjárbindingu, ég held að það sé engin önnur leið. Það eru hrikalegir dráttarvextir sem bankarnir verða að greiða Seðlabankanum vegna þess að þeir eiga ekki tilskilið laust fé í Seðlabankanum, ekki að þeir skuldi, heldur eigi ekki tilskilið fé. Eins og ég sagði áðan þá virkar það þannig að atvinnureksturinn verður að borga hærri vexti vegna þess arna. Og það er það sem er að keyra atvinnuvegina í kaf þannig að það er varla hægt að segja frá því. Það er orðið feimnismál að segja frá hvernig er búið að keyra niður fyrirtækin, að vísu marga einstaklinga líka, það er svo hrikalegt.
    Ég stend í þeirri trú að veigamikil ástæða fyrir því hvernig komið er fyrir fyrirtækjum og einstaklingum séu þessi verðbréfaviðskipti. Mér er t.d. tjáð að ung hjón sem fengu lánsloforð hjá húsnæðismálastjórn, 1300 þús. kr., og áttu að fá það afgreitt eftir níu mánuði, fóru í sinn banka, sem þau höfðu haft viðskipti við, en vegna þess að bankinn var á miklum dráttarvöxtum í Seðlabankanum vegna lausafjárskuldbindingarinnar gat hann ekki sinnt þeim. Þau fóru á verðbréfamarkaðinn og hvað haldið þið, hv. þm., að þeim hafi verið boðið upp á? Hvað áttu þau að fá útborgað? Átta hundruð þúsund. Þau stóðu frammi fyrir því annaðhvort að selja hálfbyggt hús eða taka þetta að láni. Ég gæti talið upp mörg mál, mjög mörg mál hliðstæð þessu. Í mörgum tilvikum er það þannig að þessir markaðir eru með fjármagn sem þeir nota á þennan veg. Því skyldi þá ekki vera a.m.k. bindiskylda á því fjármagni á sama hátt og bankarnir verða að greiða?
    Ég vil taka undir það með öðrum að frv. er að mörgu leyti gott. Ég get líka tekið undir það að 34. gr. og raunar fleiri greinar þarf að skoða betur, Mikilvægt er að þetta frv., ef að lögum verður, verði á þann veg að það séu ekki nein vafaatriði um hvernig eigi að túlka þau. En þá verður auðvitað farið yfir þetta í nefnd og ég kann að sjá mig knúinn til þess að koma með fleiri brtt. síðar þegar í ljós kemur hvernig nefndin skilar því til 2. umr.
    Ég vil endurtaka það við hæstv. bankamálaráðherra að mig langar til þess
að hann ræði t.d. við bankastjóra og aðra sem eru í eldlínunni nú í sambandi við bindiskyldu þessara verðbréfasjóða. Ég yrði nokkuð hissa á því ef hans niðurstaða yrði ekki, a.m.k. miðað við þau viðtöl sem ég hef átt við þessa menn, á svipaðan veg, þ.e. að það væri talið eitt af veigamestu atriðum frv. hvernig 30. gr. lítur út.