Lögverndun á starfsheiti fóstra
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Hæstv. forseti. Borgfl. hefur lýst stuðningi sínum við frv. á þskj. 56, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum fóstra. Það hefur verið skoðað á flokksfundi hjá okkur í Borgfl. og það var með samþykki þingflokks Borgfl. að einn af okkar þingmönnum, Ingi Björn Albertsson, er meðflm. Þau orð sem fylgdu frv. úr hlaði frá hv. þm. Finni Ingólfssyni eru því ekki töluð fyrir hönd flm. frv. Stuðningur við frv. er þó óbreyttur þrátt fyrir orðin.
    Ég hef ekki séð þau ummæli sem hv. þm., 1. flm., vitnaði í sem höfðu birst í Veru, tímariti Kvennaframboðsins og Kvennalistans, og eru höfð eftir borgarlögmanni. Hefðu þau ummæli verið talin æskilegt framlag til umræðu hér á hv. Alþingi hefði ég heldur viljað sjá þau ummæli á prenti með frv. sem eina af ástæðum fyrir því að frv. er flutt, en svo er ekki.
    Ég sat í 16 ár í borgarstjórn, sem er 10 árum lengur en Ingibjörg Sólrún hefur setið þar, sem borgarfulltrúi Sjálfstfl. Þótt ég sé ekki lengur í Sjálfstfl. vil ég að það komi fram sem svar við þessum málflutningi hv. 1. flm. að ég þekki ekki þá lýsingu Finns Ingólfssonar á starfsháttum borgarstjóra né Sjálfstfl. sem hann vitnaði í og höfð eru eftir borgarfulltrúa Ingibjörgu Sólrúnu. Eða vinnubrögðin hafa breyst mjög mikið. Þrátt fyrir andstöðu mína við sjálfstæðismenn nú vil ég draga í efa að þessi orð Ingibjargar Sólrúnar beri í sér eitt einasta lítið sannleikskorn.
    Borgfl. styður góð frv. með góðum mönnum en telur óþarfa að fyrir þeim sé talað með því að niðurlægja andstæðinga og ég endurtek að ég frábið mér sem formaður Borgfl. þau ummæli sem vitnað er í úr tímaritinu Veru og höfð eru eftir Ingibjörgu Sólrúnu. Ég undirstrika að þau eru ekki sannleikur eins og þau voru fram borin. En frv. fer sína leið og við skulum skoða það. Ég held að það sé gott frv. og málefnalegt og við skulum halda umræðunni málefnalegri og ekki rægja niður utanaðkomandi aðila en reyna að tryggja þessu frv. framgang. Það gerir ekkert annað en eyðileggja fyrir frv. að tala svona fyrir því.